Blandaðar heimildir frá árunum 1905-1910

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi - 25. september 1905

Skip rekin á land.

Fimm skip hafa rekið á land á Siglufirði í norðan-veðrinu í öndverðum sept., en manntjón þó eigi orðið, að getið sé.

------------------------------------------------------------------

Ísafold - 26. október 1905

Ferð með hafrannsóknaskipinu Thor.

Eftir Bjarna Sæmundsson.

II. (Síðari kafli). Dvölin á Akureyri varð stutt. þar var farið næsta dag út í fjörð með 2 nótabáta aftan í til að leita að Dan mörku; svo hét skútan. En brátt hvesti svo á norðan, að vér urðum að leita skjóls undir Hrísey. En meðan vér lágum þar, skauzt Danmörk inn hjá. Henni var veitt eftirför, en vér drógum hana ekki uppi fyr en inn undir Oddeyri. þá var legið næstu nótt á Akureyri, en morguninn eftir lagt út af nýju með Danmörku í eftirdragi; en Sökum norðan þembings urðum vér að leggjast aftur undir Hrísey.

Loks komumst vér næsta dag miðjan alla leið til Siglufjarðar. þegar þangað kom, gaf heldur en ekki á að líta. því þar lágu nær 100 skip af ýmsu tægi, stór flutningagufuskip, fiskigufuskip (2 af þeim frá Glasgow, 2 frá Bremerhaven, hin norsk), nokkur stór seglskip, háir kestir af tómum síldartunnum uppi á þilfari, og svo urmull af seglskútum, smáum og stórum; þær voru flestar norskar, en þó nokkrar innlendar, flestar úr Eyjafirði.

Öll þessi fiskiskip voru síldveiðaskip, en auk þeirra voru nokkrar færeyskar þorskveiðaskútur.

Næsti dagur var laugardagur; þá komu enn fleiri síldarskútur og varð skipafjöldinn nær 150 um kveldið. Þá var orðið allþröngt á innfirðinum (stundum kváðu hafa verið þar um 200 skip), og gæti þvílík skipaþvaga orðið illa stödd, ef snögglega skylli á ofviðri.

Margar norsku fiskiskúturnar voru alveg spánnýjar, auðsjáanlega smíðaðar til þessara veiða, og sumar með gangvél (mótor). Stærðin mjög mismunandi.

Ætla mætti, þar sem jafnmargt fólk er saman komið af ýmsum þjóðum, eins og oft er í Siglufirði, að þar væri mikið svall og óregla. En mér var sagt, að furðulítið væri um það, og er það eflaust mikið því að þakka, að áfengissala er engin þar á staðnum og ekki nær en á Akureyri. Thor lá margar nætur á firðinum, en aldrei varð eg var við neina drykkjuháreysti frá skipunum, er lágu í kringum oss.

Eitt sunnudagskveld gerði eg mér ferð á land til að sjá, hvernig þar liti út, því margir voru þá á landi; en ekki varð eg var við nema alls einn mann drukkinn. Kveldið áður hafði þó lent í ryskingum milli nokkurra Norðmanna; en það var talið óvanalegt. Fyrstu dagana, sem vér vorum á Siglufirði, var veður slæmt, norðan stormur og kuldi, 4—6° C. um miðjan dag, og snjóaði stundum langt niður í fjöll.

Það var svalt hásumarveður!

Vér gátum því ekki farið út til síldarveiða fyr en 9. ágúst. þá voru flestar reknetaskúturnar komnar út og taldi eg 87 úti fyrir firðinum. þegar logn er, draga fiskigufuskipin seglskipin út og taka 10 krónur af hverju, Oft gat að líta smá gufuskip með 3—6 seglskip aftan í sér. Mótorskúturnar vilja líka sýna afl sitt og bisast með 1 eða 2 smáskútur í togi.

Þetta er líf og fjör, sem ekki sést annarsstaðar hér við land. Þegar út fyrir kom, var farið að skygnast um eftir síldartorfum. Loks sást ein, tæpa mílu úti fyrir Almenningnum. Þar söfnuðust brátt saman 11 snyrpinótarskip, því þau hafa vakandi auga hvert á öðru; ef eitt verður vart við síld, eru hin óðara komin. En í þetta skifti hvarf síldin áður en auðið væri að kasta.

Nú var haldið inn á Skagafjörð, inn undir Málmey. Þar var vart við stóra torfu, ½ mílu norður af eynni, og var því látið til skara skríða með nótina. Snyrpinótin er komin frá Bandaríkjunum í N.-Ameríku og hefir Iengi verið notuð við vesturströnd Svíþjóðar. Hún er mikið bákn. Sú sem Danmörk hafði var 138 faðma löng og 18 faðma djúp um miðju, en nokkuð grynnri (mjórri) til endanna. Þegar verið er að leita eftir síld, er nótin höfð í tveim stórum bátum, sem dregnir eru samhliða á eftir skipinu.

Þegar torfan sást, gaf Norðmaður sá merki, er fyrir veiðinni réð. Thor nam staðar í hæfilegri fjarlægð frá torfunni. Öll skipshöfnin á Danmörku nema einn maður kom á kænu yfir í nótarbátana, og báðir stýrimennirnir á Thor og hásetarnir þustu niður í þá; og var nú róið alt hvað af tók yfir að torfunni. Norðmaðurinn gaf merki. Þá var nótinni kastað út úr báðum bátunum í senn og þeim róið út í hring utan um torfuna, þar til er nótin var öll komin í sjóinn — en henni héldu á lofti ótal korkflár.

Loks eru endarnir lagðir á misvíxl og byrjað að snyrpa, þ. e. að draga inn streng, er gengur í gegnum koparhringi á neðra teini nótarinnar og undir 2 hjól á 200 pd. blýlóði, er hleypt er niður við nótarendana, og frá því yfir hjól á borðstokk bátanna og inn í bátana. Við þetta dregst nótin saman að neðan, svo að hún verður loks eins og poki með síldinni innan í, ef síldin hefir ekki stungið sér niður úr nótinni áður en búið er að draga hana saman; en svo fór í þetta sinn.

En gangi alt vel, kemur skipið að bátunum og er síldinni þá ausið upp með háfum upp á þilfar skipsins, og síðan haldið sem hraðast á höfn til að kverka og salta síldina. Til þess að þessi veiði lánist, þarf veður og sjór að vera mjög kyrr. Annars kemur síldin ekki upp, og menn þeir (12—16 að tölu), er við veiðina fást, verða að vera samhentir og röskir, því mikið er undir því komið, að sem allra styzt líði frá því er bátarnir leggja af stað til þess er búið er að snyrpa.

Norðmenn segja, að síldin komi ekki upp nema frá kl. 11 til kl. 5 á daginn, en vér sáum þó stórar torfur ofanjarðar kl. 9 síðdegis, og er því rétt að byggja ekki of mikið á sögusögn þeirra í þessu efni. Oss var þá í þetta skifti sýnd veiðin en ekki gefin, og héldum vér inn á Skagafjörð um kveldið og lögðumst þar hjá Bæjarklettum innan við Þórðarhöfða. Vér sigldum mjög nærri höfðanum og mátti því sjá mjög greinilega blágrýtisupprásirnar í þessu forna eldfjalli. Blágrýtishraunið hefir ollið þar upp í gegnum móberg, og klofnað, er það storknaði, í undurfagrar súlur, en móbergsstykkin liggja sumstaðar umflotin af blágrýtinu. Sams konar-upprásir sjást í Drangey austanverðri, en þó minni.

Daginn eftir var aftur farið út fyrir Málmey og var þar mjög mikið af síld; hún óð stöðugt uppi. Þar var kastað tvisvar og varð aflinn 76 tunnur af fyrirtaks fallegri síld. Ásamt oss voru þar 5 eða 6 utanríkis-gufuskip, flest norsk, með snyrpinót, og köstuðu öll í landhelgi. Sýnir það, hve ónógt eftirIitið er. Væri full þörf á, að sérstakur fallbyssubátur væri á Siglufirði og þar í grend, til að gæta reglu og verja landhelgina, meðan síldveiðitíminn stendur yfir (júlí—september).

Útlendingum er naumast fullljóst, að þeir megi ekki veiða síld í landhelgi. Þeir eiga þó mikið á hættu, ef þeir eru staðnir að síldveiði i landhelgi, þar sem hin dýru veiðarfæri og aflinn eru upptæk. Snyrpinótin kostar 4—5 þús. kr. og reknetatrossan getur verið mikils virði, þegar hún er löng. Vér fórum með aflann út í Siglufjörð og var hann seldur þar Norðmanni einum til verkunar. Þeir verka flestir síldina á skipum, er liggja á firðinum; 3 eða 4 félög hafa leigt sér landblett og verka þar......................... (Greinin er lengri)

------------------------------------------------------------------------------------

Lögberg - 2. nóvember 1905

Frétt hefir komið um það af Siglufirði að í garði þeim sem verið hefir hér úti fyrir landi þessa viku hafi 7 skip rekið á land á Siglufirði, en eitthvað af þeim náðist fljótlega út aftur. Þrjú af skipunum eru sögð mikið skemd, verða ef til vill að strandi.

Eitt af þessum skemdu skipum er „Helena" hér af Eyjafirði.

------------------------------------------------------------------------

Advari 1. Janúar 1906

Skýrsla til Stjórnarráðsins

Fiskirannsóknir 1905. Eftir Bjarna sæmundsson:

Makríll og síld – Hluti merkilegrar greinar.

II. Makríllinn hér við land Það hefir eigi sjaldan borið við á síðustu árum, að fiskar, sem hafa aldrei sést áður hér við land, hafi fundist hér, en þeir eru annaðhvort djúpfiskar, sem hafast við á miklu meira djúpi, en að auðið sé að fiska þar, eða svo fágætir að þeir geta ekki orðið að neinum notum. En einn þeirra fiska þó er eflaust stundum svo tíður hér, að vel getur hann orðið að töluverðum notum, ef menn hafa tæki til að veiða hann og það er: Makríllinn (scomber scombrus L.).

Eg hefi getið þess á öðrum stað (Skýrsla Náttúrufræðifélagsins. 1899 -1901. bls. 19) að hans hafi orðið vart í Hafnarfirði, Keflavík, á Vestfjörðum og í Eyjafirði á milli 1890 og 1900, en það voru að eins einstakir fiskar. Aftur á móti varð vart við stórar torfur af honum við Norðurland sumarið 1904. Eg skýrði stuttlega frá þessu í »ísafold« 24. sept. sama ár. En síðan hefi eg fengið ýmsar ýtarlegri upplýsingar um þetta hlaup, einkum á Austfjörðum í sumar er leið, og skal eg nú skýra stuttlega frá því.

Fyrst varð makrílsins vart norðanlands í Skagafirði. Kom dálítið hlaup inn undir Sauðárkrók um miðjan ágúst; var þar þá síld fyrir og síldarnet úti. Fengust í þau og á færi nokkrir fiskar. Um 20. ág. varð vart við samskonar hlaup í Hrútafirði, en miklu meira. Það voru stórtorfur, er gengu alveg inn að fjarðarbotni. Hugðu menn það vera síld og lögðu síldarnet, en af því þau voru of smáriðin, fengust ekki nema 20 fiskar.

Um líkt leyti varð vart við nokkuð af makríl í utanverðum Eyjafirði og eitthvert slangur í síldarreknet úti fyrir Norðurlandi. — Við Austurland varð hans og vart. Komu hlaup bæði inn í Vopnafjörð og Borgarfjörð, en lítið veitt. Hvaða daga það var, hefi eg ekki getað fengið að vita nákvæmlega, en sjálfsagt hefir það verið um líkt leyti og nyrðra, svo óhætt má segja að síðari hluta ágústmánuði hafi verið meira eða minna af makríl á hinu langa svæði frá Glettinganesi og vestur í Hrútafjörð, bæði inni í fjörðum og úti fyrir þeim.

Eg gat þess til í áðurnefndri grein í Ísafold, að líklega mundi þetta ekki vera í fyrsta skifti, að markílshlaup hefðu komið hér við land. Þessa getgátu mína hefi eg hálfvegis fengið staðfesta síðan, því Guðm. G. Bárðarson, bóndi í Bæ í Hrútafirði átti tal við mann einn í Hrútafirði, er makríllinn var þar, eins og áður er getið. Sá maður hafði lengi róið á Gjögri við Reykjarfjörð og hafði verið fullviss um að hafa séð þar áður torfur af sama fiski. Þar eð síldarnet voru svo fátíð, er eðlilegt að menn hafi alment ekki orðið hans mikið varir fyrrum

, en þar sem síldarnet eru nú svo víða, bæði lagnet inni við land og reknet úti um allan sjó, þá er síður hætt við að makríllinn fari fram hjá, án þess að hans verði vart. Í sumar er leið var vart við makríl í Seyðisfirði eystra. 27. júlí færði Sigurður bóndi á Brimnesi mjer einn, er hann hafði fengið sama dag í síldarnet þar við landið. Makríllinn á heima í norðanverðu Atlanzhafinu, frá Miðjarðarhafinu, norður að Þrándheimi og Hjaltlandi (og sést norðar), og frá Eystrasalti yfir til Norðurameríku.

Á vetrum heldur hann sér langt úti í höfum, en gengur á vorum og sumrum upp að ströndum til að hrygna. Eftir hrygninguna slangrar hann oft i torfum langt inn í sund og firði, og á þesskonar ferðalagi er hann að líkindum hér. Hann hrygnir við yfirborð sjávar og klekst þar út. Fæðan er svipuð fæðu síldarinnar, ýmiskonar smá krabbadýr og fiskaseiði. Hann verður 15—18 þuml. langur og um 2 pd. á þyngd. Hann er veiddur mjög við austurströnd Bandaríkjanna, í Norðursjó og höfunum þar inn úr, ýmist í reknet, lagnet eða kvíanet. Einnig oft á dorg, sem höfð er á eftir skipum á siglingu.

Makrílsnetum (lagnetum, reknetum) þeim er brúkuð eru í Danmörku, er þannig háttað: Lengd 16—10 faðm. dýpt 2—2½ faðm. Riðill 1¾—1½" (16—18 hnútar á alin).

Verð fullútbúin 15 kr., efni baðmull. Fiskurinn er ýmist etinn nýr, saltaður eða reyktur og þykir mjög góður til matar. Að líkindum gýtur makríllinn ekki hér við land og mun því ávalt reynast stopull, en gott væri, ef einhverjir menn á þeim stöðum, sem mest líkindi eru til að makríll gangi í þéttum torfum, ættu nokkur net fyrirliggjandi, ef hann bæri að landi, svo menn færu ekki alveg varhluta af þessum ágæta fiski. Þeir staðir, sem líklegast er að hann komi á í þéttum torfum, eru firðirnir, bæði þeir, sem áður eru nefndur og aðrir.

Þar sem síldarnet liggja í sjó að jafnaði þann tíma sem hans er helzt von (ágúst mánuð og fyrri hluta september), mun hans geta orðið vart í þau, en bezt væri, ef kvíanet eru ekki á staðnum, að láta regluleg makrílsnet liggja um þann tíma, sem próflagnir, en þar eð makríllinn heldur sér víst oftast nærri yfirborði, er ráðlegra að láta netin vera hátt uppi í sjó. Einnig má veiða hann á dorg, sem höfð er aftan í bát á siglingu og á önglinum er þá oft höfð rauð dula, eða einhver beita.

IV.

Síldarveiðar á rúmsjó.

Það er alkunnugt, að menn hafa fengist við síldarveiðar hér við land með lagnetum, fyrirdráttarvörpum og byrginótum, frá því laust eftir miðja síðustu öld og fer þessi veiði fram uppi við landsteina, eða mjög skamt frá landi, þar sem vel hagar til og síld gengur mjög nærri landi. En að hún geri það, vill því miður bregðast alt of oft, og sérstaklega hefir það sýnt sig þar sem nótveiðin er stunduð, og neinn leggja mikið í kostnaðinn og verða því að afla mikið, til þess að hafa sæmilegan ágóða.

Þar hafa menn alt of oft fengið að kenna á hvikulleik síldarinnar, fengið að kenna á því, hve göngur hennar langt inn í firði eru stopular. Þar sem nú fiskimenn oft og tíðum hafa orðið varir við síld úti á hafi, úti fyrir fjörðum, þegar enga síld hefir verið að fá inni í þeim, þá er eðlilegt að menn hafi farið að finna til þess, hve öfugt það væri að bíða eftir síldinni, jafnvel árum saman, inni við fjarðarbotn, með dýr og arðlaus veiðiáhöld, í stað þess að leita hana uppi, eins og annan fisk, þar sem hana væri að fá að staðaldri.

Það er eðlilegt að þetta hafi vakið löngunina hjá þeim til að veiða síldina þar sem hana er tíðast að hitta, úti á rúmsjó. Síldarveiðarnar hafa byrjað, eins og allar aðrar fiskiveiðar, sem næst ströndunum, inni i vogum, víkum og fjörðum, en eftir því sem allur útbúnaður, sérstaklega fiskiskipin, hefir fullkomnast, samfara meðvitundinni um það, að allar innfjarðaveiðar eru stopulli en veiðar úti á rúmsjó, hafa veiðarnar færst lengra og lengra út á hafið, lengra og lengra frá heimili fiskimannanna.

Þær Norðurálfuþjóðir, sem fyrst hafa farið að veiða síld úti á rúmsjó eru Hollendingar og Bretar (einkum Skotar); síðar hafa aðrar þjóðir tekið það upp, svo sem Svíar og Danir og síðast Þjóðverjar og Norðmenn og veiðarfærin, sem brúkuð eru til þessara veiða, eru reknetin. En vestanvert við Atlanzhafið hafa Bandaríkjamenn lengi veitt síldkynjaða fiska (menhaden og shad) og makríl með s. n. snyrpinót (purse seine). Þetta veiðarfæri er nú einnig farið að brúka við Evrópustrendur, jafnvel hér við land.

Af áðurnefndum ástæðum og með dæmi útlendinga fyrir augum hafa menn hér á síðari árum smámsaman tekið upp þá aðferðina að veiða síld úti á rúmsjó, aðallega með reknetum, en þess mun ekki langt að bíða, að snyrpinótin verði brúkuð hér líka. Eg ætla hér að skýra nokkuð nánara frá þessum nýju síldarveiðitilraunum, bæði af því að þær eru mjög merkilegt atriði í sögu fiskiveiða vorra, atriði sem verðskuldar að því sé allur gaumur gefinn af landsmönnum alment, en sérstalega af þingi og stjórn og af því að eg hefi getað fylgst með þeim frá byrjun og er þeim því nokkuð kunnugur.

Fyrst er að minnast á Reknetaveiðarnar. Norðmenn byrjuðu hér á nótveiðum sínum á Austurlandi um 1866 og það var því eðlilegt að Íslendingar reyndu að feta í fótspor þeirra í þessu eftir mætti og veiða síld í byrginætur og meðfram í lagnet. Reknetaveiðar voru ekki nefndar á nafn.

Árni Thorsteinson landfógeti varð fyrstur til að hvetja menn til að reyna reknetaveiðar, í ritgerð sinni »Um síld og síldveiðar« í Tmr. Bókmentafél. 1683, og sýna fram á ágæti þeirrar veiðiaðferðar; en menn voru seinir til framkvæmda, eins og gengur, enda voru á þeim árum ágætis nótveiðar í Eyjafirði og á Austfjörðum.

Hinar fyrstu tilraunir til að veiða síld með reknetum voru gerðar á Austurlandi. Í ferðaskýrslu minni frá því svæði (Andv. 1899) gat eg þess að menn í Borgarfirði, Vopnafirði og Seyðisfirði hefðu veitt nokkuð af beitusíld í reknet og fekk eg að vita í sumar í Seyðisfirði, að sá sem fyrstur varð til að reyna reknetin var Þorsteinn Jónsson, kaupmaður i Borgarfirði. Hann var ekki heima, þegar jeg fórum Borgarfjörðinn 1898, en í sumar hitti eg hann að máli og sagðist hann hafa reynt í fyrsta skifti um 1890, úti fyrir Glettinganesi með bát og 3—4 net í trossu.

Hélt hann þeim tilraunum áfram, oft með allgóðum árangri, um nokkur ár, þangað til íshúsin fóru að komast upp, um og eftir 1894. Vopnfirðingar reyndu svo líka (og Seyðfirðingar lítið eitt), en svo lagðist það niður aftur. 1897 eða 1898 gerðu Vestmanneyingar nokkrar tilraunir með bát og netum, er enskur fiskiskipstjóri, Dudman að nafni færði þeim (Sjá skýrslu mina í Andvara, 1900, bls. 45.) . Síðan hefir þar öðru hvoru verið veitt töluvert af síld í reknet á bátum, til beitu, einkum síðasta vetur og orðið að góðu liði. Um líkt leyti reyndu Húsvíkingar reknetaveiði á nótabát á Skjálfanda og urðu vel varir.

Hefir það verið endurtekið þar öðru hvoru síðan. 1902 gerði Ólafur Eyjólfsson kaupmaður á Akureyri tilraun með opinn bát á Eyjafirði. Ólafsvíkurmenn hafa einnig gert nokkrar tilraunir af þessu tagi, síðan um aldamót og stundum veitt vel. Einna veigamestar hafa tilraunir þessar orðið hjá Ólafi Árnasyni, kaupmanni á Stokkseyri og bræðrunum Jóni og Sveini Einarsson á Raufarhöfn. Ólafur hefir látið opinn vélabát stunda reknetaveiðar tvö síðastliðin sumur. Fyrra árið varð aflinn 11000 pd. af síld, en í sumar er leið fylti hann íshús og seldi þar að auki 50 tunnur, er voru saltaðar til útflutnings.

Mest af síldinni veiddist á Þorlákshafnarvíkinni í júlí og ágúst. Bræðurnir á Raufarhöfn héldu úti stórum opnum bát sumurin 1902—1904. Báturinn hafði 10 net og 4 menn á honum. Aflinn var 40, 65 og 80 tnr. Síðan 1903 hefir annar opinn bátur gengið þaðan. Hann aflaði í sumar er leið 90 tnr. í 10 net. Af því sem hér er sagt má sjá, að tilraunir þessar, sem nefna má reknetaveiðar á opnum bátum, hafa verið gerðar alt í kringum landið og lánast mjög vel, þar sem menn hafa haft verulegan útbúnað, eins og á tveimur síðasttöldum stöðum.

Það má telja góðan afla 50—80 tnr. af síld á tveimur mánuðum með 4 mönnum, þótt reyndar netakostnaðurinn sé nokkur, en hann verður minni, ef netin eru vel hirt og geta enzt 2—3 ár. Svona lagaða veiði mætti stunda hér að sumrinu til mjög víða, svo sem á Breiðafirði, Húnaflóa (t. d. Skagaströnd), Skagafirði, í Fljótum og á Skjálfanda. Kostnaðarsamar eru þær ekki. Frá því fyrsta er eg fór að skifta mér af fiskimálefnum, hefi eg bæði í viðræðum við menn og í riti (ferðaskýrslum mínum, sérstaklega 1899, Andv. 1900, bls. 70—83., og blaðagreinum) reynt að vekja áhuga manna á reknetaveiðum og sýna fram á að reknetaveiðarnar gætu orðið arðsamur atvinnuvegur og óhultari en nótveiðarnar í fjörðunum, ef þær væru reknar með atorku.

Veturinn 1899 lýsti eg reknetaveiðum á fundi Útgerðarmannafélagsins í Reykjavík og hvatti menn til að gera tilraun til reknetaveiða með þilskipum; eg var þá orðinn þess vísari fyrir löngu af upplýsingum, er þilskipamenn höfðu gefið mér, að ógrynni væru af síld á hverju sumri úti fyrir Vestur- og Norðurlandi, þegar engin síld var inni í fjörðum. Um vorið var svo, sérstaklega fyrir forgöngu Tryggva Gunnarssonar bankastjóra, stofnað Reknetafélagið við Faxaflóa af útgerðarmönnum og íshúsinu i Reykjavík og leigð skúta ein til veiðanna, og til að standa fyrir veiðunum var fenginn maður, er verið hafði við reknetaveiðar í Skotlandi, Benedikt Guðbrandsson. Tilgangurinn var fyrst um sinn að veiða síld til beitu.

Skipið fór í fyrsta sinn út til veiða 22. júlí sama ár (1899), fiskaði á svæðinu frá Reykjanesi til Breiðafjarðar og fekk 184 tnr. síldar. Frá þessum fyrstu tilraunum íslendinga til að veiða síld í reknet á þilskipi skýrði eg í skýrslu minni í Andvara 1900, bls. 70—721 og skal eg nú stuttlega skýra frá því hvert framhald hefir orðið á reknetaveiðum á þilskipum. Reknetafélagið gerði aftur út næsta sumar, en engir aðrir urðu til þess að byrja, og það leit ekki út fyrir að tilraunir þess vektu mikla eftirtekt hjá almenningi.

En sama sumar (1900) lét norskt félag eitt, Havfiskekompaniet í Stavanger, aðallega Th. S. Falck konsúll í Stavanger, gera tilraun með tveim skipum fyrir norðan og austan land. Tilraun þessi lánaðist furðu vel, aflinn varð 536 tnr., og var skýrt frá henni í íslenzkum blöðum, að tilhlutun Þórarins Tuliniusar stórkaupmanns. Í skýrslu sinni sagði Falck að tilraununum yrði haldið áfram næsta ár, eins og líka varð. Þetta vakti töluverða athygli; næsta ár (1902) komu 4 skip frá Noregi til frekari tilrauna og nú gerðu bræðurnir Jón og Sveinn Einarsson á Raufarhöfn út skútu, er þeir höfðu keypt frá

Noregi til reknetaveiða, 20 smál. að stærð. Tilraun þeirra lánaðist vel, því þeir veiddu í 20 net, 144 tnr. síldar. Þeir urðu þannig fyrstir íslendinga til að veiða síld á þennan hátt til útflutnings. 1902 stunduðu 3 íslenzk skip þessar veiðar: skip Reknetafélagsins í Reykjavík, skip bræðranna á Raufarhöfn og eitt skip (stór kúttari) Stefáns Th. Jónssonar á Seyðisfirði (veiddi 650 tnr.), en Norðmenn tóku nú að fjölmenna, því þeir komu á 20 skipum, sem veiddu 5000 tnr. Nú fóru augu manna að opnast fyrir þessum veiðum, þar sem líka Norðmenn kváðust mundu auka flotann að miklum mun 1903, og þeir sem bættust við það ár voru Eyfirðingar. Undanfarin 2 ár höfðu þeir veitt mikla síld í nætur í firðinum, en 1903 brást þar veiði.

Voru þar og í Siglufirði gerð út 7 skip til reknetaveiða þegar í júlí og seinna um sumarið bættust 4 við; 2 gufuskip frá Wathne á Seyðisfirði (»Elín« og »Viking«) gengu meðfram á reknetaveiðar það ár, svo skipin urðu alls 15, sem gengu hér frá landi og 120 (?) norsk. 1904 gengu flest öll þau skip, sem fengust við veiðar árið áður og þar við bættust 4 skip úr Eyjafirði, eitt skip úr Reykjavík, gert út af félaginu »Draupni«. eitt úr Keflavík og eitt úr Mjóafirði, en það týndist (kollsigldi) eftir stuttan veiðitíma (hafði aflað 30 tnr. auk þess sem í því var þegar það fórst).

Gengu því alls það ár 22 skip. I sumar er leið (1905) jókst útgerðin að mun, einkum í Eyjafirði, því þaðan gengu (að Siglufirði meðtöldum) 28 skip, bættust því 13 við tölu þeirra, er gengu þaðan árið áður. Frá Faxaflóa gengu hin sömu skip og áður og eitt bættist við í Hafnarfirði, lítið gufuskip, eigandi Á. Flygenring o. fl. Loksins fara Vestfirðingar að koma með, því þaðan gengu 3 skip, eitt frá ísafirði, eitt frá Bíldudal (eftir að þorskveiðar hættu, seint í ágúst) og eitt frá Patreksfirði. 1 norskt gufuskip, er Þorst. Jónsson kaupm. í Borgarfirði hafði á leigu, fiskaði öðru hvoru síld; úr Seyðisfirði gengu jafnmörg skip og árið áður, þó gerði Stefán Th. Jónsson ekki út, en þar á móti kom 1 skip frá Jóni Stefánssyni verzlunarstjóra.

Alls hafa því gengið á síldarveiðar þetta sumar 39 skip, þar af 2 með snyrpinót (sjá síðar), eða hér um bil þriðjungi fleiri en árið áður. Hver aflinn hefir orðið á ári hverju, má sjá á eftirfarandi skrá. Auk þessara eiginlegu reknetaveiða, sem nú hefir verið skýrt frá, hafa einnig um allmörg ár verið stundaðar síldarveiðar af öðru tægi, úti á rúmsjó, eg á við það, að mörg þorskveiðaskip hafa haft með sér tvö eða þrjú síldarnet og ýmist lagt þau eins og reknet eða á annan hátt, til þess að afla sér síldar til beitu og oft veitt vel í þau. Ekki veit eg hver á því hefir byrjað. Þó hér geti eðlilega ekki verið um mikinn að afla að ræða, þá hefir hann þó oft orðið að miklu liði og ekki geta þilskip fengið á annan hátt betri né ódýrari beitu, þegar hún annars býðst.

Snyrpinótar-veiðarnar. Sumarið 1904 gerðu Norðmenn tilraun með nýtt veiðarfæri hér við land og það veiðarfæri var snyrpinótin (á norsku Snurpenot). Tilraunin var gerð á skipi Falcks konsúls, »Albatros« og öðru skipi til og lánaðist svo vel að »Albatros« veiddi 1000 tnr. síldar á 7 dögum. Þetta vakti mikla athygli, einkum meðal Norðmanna og í sumar er leið voru alls 12—13 gufuskip með snyrpinótum hér við land; af þeim voru 2 sem veiddu fyrir hérlenda menn, »Elín«, frá Wathne á Seyðisfirði og »Rjukan« fyrir Otto Tulinius o. fl. á Akureyri. 1 var skozkt og 1 þýzkt og svo danskt seglskip.

Sjálfsagt verða enn fleiri skip með snyrpinætur á næsta sumri og eg hefi heyri að félag eitt í Eyjafirði ætli að kaupa sér gufuskip, sem eigi að brúka snyrpinót að sumri og það koma að líkindum fleiri á eftir. Eg skýrði stuttlega frá því í 41. tbl. Ísafoldar í haust, hvernig snyrpinótinni er háttað og hvernig hún er brúkuð, því eg var svo heppinn að vera á »Thor«, þegar hann var að hjálpa til við þessa veiði.

Eg skal lýsa henni stuttlega hér. Hún er upprunnin í Ameríku, nefnd þar purse seine og höfð til að veiða fiska, er ganga í torfum á rúmsjó, svo sem menhaden, makríl o. fl. Svíar tóku hana upp fyrir mörgum árum og hafa brúkað hana nokkuð við síldarveiðar við vesturströnd Svíþjóðar. Svo hafa nú Norðmenn innleitt hana hér við land. Falck sendi einn af skipstjórum sínum veturinn 1903—4 til Bandaríkjanna, til að kaupa hana og læra að fara með hana.

Nótin er mjög stór, 130—150 fðm. löng, 20—30 fðm. djúp um miðjuna, en nokkuð grynnri til endanna. Riðillinn er vanalegur nótariðill, kring um ½", garnið digurt nótagarn, barkað, þó er í þeim nýjustu mjótt netagarn koltjargað, svo nótin sé léttari í sjónum. Á efra teini eru mjög þéttar korkflár, er halda nótinni fljótandi, en á neðra tein eru festir digrir koparhringar með nokkurra álna millibili.

Í gegn um þessa hringa gengur snyrpilínan. Norðmenn brúka þessa nót aðeins á gufuskipum. Þegar farið er til veiða, er nótin lögð í tvo báta, langa og ganglétta, helmingur í hvern bát; svo eru þeir festir samsiða aftan í gufuskipið, er dregur þá meðan leitað er að síldartorfum, sem vaða uppi, og það gerir síldin frá því fyrir hádegi og fram á kvöld, er veður er kyrt. Ef torfa sést, staðnæmist skipið spölkorn frá henni og nú fara skipverjar, um 12 manns í bátana, róa sem greiðast að torfunni, og kasta því næst nótinni samtímis úr báðum bátunum og róa um leið sem röskvast í kring um torfuna, unz endar nótarinnar ná vel saman; þá er hleypt niður 200 pd. blýlóði, jafn djúpt og nótin nær.

Á því eru 2 málmblakkir með hjólum í; í gegn um þær ganga báðir endar snyrpilínunnar og yíir hjól í gálgum á borð- stokki annars bátsins. Jafnframt er byrjað að snyrpa 0: endar snyrpilínunnar dregnir inn með vindu eða handafli, þar til að nótin er dregin saman að neðan, og síldin þannig lokuð inni í sekk, (ef hún hefir þá ekki stungið sér niður úr nótinni áður, sem oft er hætt við). Svo er dregið inn í báða bátana eins mikið af efra borði nótarinnar og hægt er, svo eftir verður lítill sekkur á milli bátanna, með síldinni í.

Nú kemur skipið að og er síldin svo ausin upp á þilfarið með háfum, er svo haldið sem fljótast til hafnar til að gera að síldinni. Á meðan verið er að kasta, er jafnan lítill bátur með einum manni á, á sveimi hinum megin við nótina, Ekki er hægt að kasta nema sjór sé vel kyrr, og ekki heldur á minna dýpi en nótin er djúp til, nema botn sé vel sléttur. Eiginlega er snyrpinótin ekki annað en kastnót, sú sem vanalega er brúkuð í fjörðum, löguð til að brúka á rúmsjó, og hefir hún því þá miklu yfirburði yfir hina, að hún er ekki bundin við eitt lítið svæði inni í firði, sem síldin verður að koma á, til þess að afla von sé.

Hún getur gefið miklu meiri afla í einu en reknetin, en er miklu dýfari en þau (4500—5000 kr.) og háðari góðu veðri en þau, og því nokkuð mistækur aflinn; en hér við land hefir hún lánast mjög vel, það sem komið er, því síldin gengur hér í mjög þéttum torfum. Hér hefir hún að eins verið brúkuð á gufuskipum, en ef til vill mætti brúka hana á stórum þilskipum með hjálparvél (mótor). I Bandaríkjunum er hún brúkuð á hinum vanalegu fiskiskonnortum.

Það sem skipið gerir, er aðallega að leita uppi síldina, taka á móti aflanum og flytja hann í höfn. Væri nógur mannafli á skipinu má líka salta síldina á því úti á rúmsjó, ef kyrt er veður. Eg hefi fjölyrt nokkuð um þetta veiðarfæri, af því að það er nýtt hér og á sér sjálfsagt töluverða framtíð hér, þó líklegt sé að reknetin verði almennari, af því að sú útgerð er miklu ódýrari. Eg hefi reynt eftir mætti, eins og eftirfylgjandi yfirlit sýnir, að fá sem beztar upplýsingar um síldaraflann í reknet og spyrpinót, en það hefir ekki verið auðvelt og vantar að nokkru leyti.

Auk þess eru tölurnar ósamkynja, því sumir telja síldina eins og hún er mæld upp úr sjónum (í »strokkum«), aðrir (einkum Norðlendingar) í »fullpökkuðum« tunnum. Væri því full þörf á, að í aflaskýrslunum væri öll síld gefin til kynna á sama hátt, og þá í tunnum eins og hún kemur úr sjónum, því verðlaun eru líka greidd af aflanum mældum á þann hátt, en útfiutningsskýrslurnar sýndu þá »fullpakkaðar« tunnur (saltaða síld), því af þeim er útflutningsgjaldið greitt.

Það vantar enn sérstakan dálk fyrir þann afla í aflaskýrslu-eyðublöðin, en honum verður vonandi bætt við bráðlega. Þar sem eg hefi getað, hefi eg fengið skýrslur frá fyrstu hendi. Annars hefir stjórnarráðið góðfúslega leyft mér að nota enn ó- prentaðar aflaskýrslur. Til samanburðar set eg afla Norðmanna með. Skýrslunni er slept hér, en lesa má hana hérna

---------------------------------------------------------------

Norðri - 2. febrúar 1906

Aflaskýrsla ársins 1905

---------------------------------------------------------------

Norðri - 4. maí 1906

Samningur um gufubátsferðir milli Akureyrar, Siglufjarðar, Grímseyjar og Húsavikur 1906 og 1907 með gufubátnum »Guðrún.

« Milli undirritaðs eiganda að gufubátnum «Guðrúnu» frá Ísafirði á aðra hlið, og fulltrúa úr bæjarstjórn Akureyrar og sýslunefndum Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslna á hina hlið, er gerður svo feldur SAMNINGUR,

1. Eg Pétur M. Bjarnarson frá Ísafirði skuldbind mig til að halda uppi reglubundnum gufubátsferðum milli Akureyrar, Siglufjarðar, Grímseyjar og Húsavíkur með gufubát mínum «Guðrún», sem fer nálega 6 mílur á vöku og tekur um 20 menn í káetu og 8 — 10 tonn í lest og að auk 8—12 menn á þilfar. Ferðunum skal hagað eftir áætlun, er ofannefndar héraðastjórnir samþykkja og skuldbind eg mig til þess að gjöra það, sem í mínu valdi stendur, til þess að ferðirnar verði héruðunum að sem beztum notum.

2. Hámark farþegataxtans er ákveðið 15 au. fyrir hverja danska mílu, ef ferðast er í káetu, en á þilfari 10 au. fyrir hverja mílu. Minsta fargjald er 60 au. í káetu en á þilfari 40 au. Hámark farmtaxtans er ákveðið svo, að það sé 33 ⅓ % lægra en aðaltaxti «hins sameinaða gufuskipafélags» fyrir flutning hafna á milli á íslandi, og 10% afslátt skal gefa, ef sami

maður flytur fyrir 10 kr. eða meira í sömu ferð, og ennfremur 10%, ef sami maður flytur fyrir meira en 100 kr. í sömu ferð. Taka skal við flutningsgózi við skipshlið og afhenda það við skipshlið. Afgreiðsla skal vera á Akureyri og móttöku- og afhendingamaður á Siglufirði og einnig á Húsavík, fáist hann með sanngjörnum kjörum.

3. Kostnað allan við ferðir þessar borgar útgjörðarmaður og honum bera öll farmgjöld og fargjöld. Styrkur til ferðanna skal honum greiddur þannig:

1. Úr landssjóði 3000 kr., samkvæmt fjárveiting alþingis til gufubátsferða á Eyjafirði.

2. Úr bæjarsjóði Akureyrar og sýslusjóðum Eyjafjarðar og Suður-Þingeyjarsýslna 750 kr. á ári.............................................

(Samningurinn er lengri og ítarlegri, en ekki meira birt hér á síðunnir)

----------------------------------------------------------------------

Norðri - 11. maí 1906

Hafísinn.

Snemma í vikunni kom hroði inn undir Hrísey. Kristján Þórðarson formaður á skipinu

»Brúna», svaraði svo fyrirspurnum um hafísinn, er hann kom af Siglufirði nú í vikunni: »

Eftir því sem Siglfirðingar sögðu mér, sem gengu upp á fjall síðastl. laugardag, og eftir því sem eg varð var við er eg sigldi fram undir ísinn, er það ætlun mín að þétt íshella liggi upp í Hornstrandir og austur undir Grímsey, en fyrir innan þá hellu sé laus íshroði á reki inn á Húnaflóa og inn á Eyjafjörð, en austur og fram muni íslaust vera.

Þilskipin.

Hákarlaskipin af Eyjafirði og Siglufirði hafa öll náð höfnum í eða eftir síðustu hríðargarðana, flest þeirra hafa aflað 30 til 70 tunnur lifrar. Fiskiskipin, þau er út voru lögð voru öll komin vestur fyrir Strandir, þá er haldið að »Alaska« og »Mínerva« hafi legið á Norðfirði austan á Ströndunum í síðustu ofviðrunum »Brúni« snéri aftur á Húnaflóa og liggur nú hér á firðinum

----------------------------------------------------------------

Vestri - 26. maí 1906

Maður datt útbyrðis nýlega af fiskiskipinu >Orion< af Siglufirði og- drukknaði.

Hann hjet Björn Björnsson, og var stýrimaður á skipinu.

Skipið var á siglingu í stormi að leita hafnar á Aðalvík.

----------------------------------------------------------------

 

Norðri - 1. júní 1906

----------------------------------------------------------------

Ægir - 1906

1. Árgangur 1905-1906, 12. blað, Blaðsíða 132

Otto Wathne, nýtt gufuskip, var nýlega á ferð hjá Siglunesi við Siglufjörð.

Vildi það fara milli lands og hafíss, en rakst á stein og brotnaði gat á skipið.

Sökk það að vörmu spori. Mannbjörg varð.

Skipið áttu erfingjar Otto Wathne, sem búa í Stafangri.

----------------------------------------------------------------

Norðurland - 2. júní 1906

Hafísinn. Í miðri fyrri viku, segir Siglufjarðarpóstur hafísinn 3 mílur norður af Siglunesi.

Hvalabátur lá þá inni á Siglufirði með 2 hvali, er hann komst ekki með vestur vegna íssins.

Sá bátur sagði óvenjulega mikinn ís í hafinu.

Skarlafsóft gengur enn í Ólafsfirði. 3 börn lágu á Kvíabekk, þegar Siglufjarðarpóstur fór um síðast.

Mannalát. Nýdáinn er hér á sjúkrahúsinu Jónas Jónatansson bóndi í Hrauni í Öxnadal 76 ára gamall; varð bráðkvaddur.

Hafði hann verið hreppstjóri um 30 ár, fyrst í Akrahreppi í Skagafirði og síðan í Skriðuhreppi.

4 hákarlaskip komu í fyrri viku upp á Siglufjörð og Haganesvík, sögðu hákarl nógan, en skipin urðu sífelt að hörfa undan ísnum og aflinn því minni. Siglunesingur hafði 60 tn., Flink 50, Óskar 50 og Víkingur 20 tn.

--------------------------------------------------------------------

Austri - 16. júní 1906

„Otto Wathne" strandaður.

Þessi fregn kom einsog skúr úr heiðskíru lopti. Barzt hingað með botnvörpuskipi, er kom 10. p. m. norðan af Siglufirði og setti hér í land einu farþega, Larsen kaupmann, er verið hafði með „Otto Wathne", er hann strandaði.

„Otto Wathne" hafði komizt til Siglufjarðar og ætlaði að freista hvort ekki yæri hægt að komast lengra vestur, en það reyndist ómögulegt fyrir ís, sem ná rak óðflaga að landi austur eptir. Sneri því skipið við og hélt áleiðis til Eyjafjarðar. Varð það að fara mjög skammt frá landi vegna íssins, og gekk með fullum hraða til að flýja undan honum.

En er skipið var út af svonefndum Hesthústöngum, vestanvert á Siglunesi þá rak það sig á blindsker. Voru skipsbátarnir þegar settir út, og bjargaðist allt skipsfólkið i þá. án þess að að geta náð nokkru af farangri sínum, því sjór féll svo ótt inn í skipið og það lagðist strax algjörlega á hlíðina.

Með Inga konungi komu allir skipverjar af „Otto Wathne", að undanteknum skipstjóra, stýrimanni og háseta þeim er stóð við stýrið, er óhappið vildi til verða þeir eptir þar nyrðra þar til uppboð er afstaðið. Kona skipstjórans varð og eptir fyrir norðan. Skipstrand þetta er hið hörmulegasta, eigi sízt fyrir skipstjórann sjálfan, hinn góðkunna P. Houeland, er jafnan hefir verið heppinn í förum.

En eigi mun honum að neinu leyti um að kenna fremur en öðrum skipverjum; skipstjóri og stýrimaður vora báðir á stjórnpalli. og vélarstjóri stóð við vélina, tilbúinn að stöðva hana hvenær sem á þyrfti að halda. En fulla ferð varð skipið að fara þar eð hætta var á, að ísinn, sem rak óðfluga að kreppti það upp í land.

-------------------------------------------------------------------

Ægir - 1906

2. Árgangur 1906-1907, 2. Blað, Blaðsíða 18

Síldarveiði fyrir Norðurlandi hefir frá því seinnipart júlímánaðar reynst mjög góð. Snyrpinótaskipin hafa mörg fiskað (5. ágúst) yfir 3000 tn. af síld. Veiðina sóttu þau fyrst vestan að Horni (Cap Nord) og á Húnaflóa.

Um eða yfir 200 útlend skip stunda nú síldarveiði frá íslandi, með öðrum orðum liggja inni á höfnum og sækja þaðan aflann og verka hann þar. Af þessum hóp munu vera 150 á Siglufirði og um 50 á Eyjafirði og nokkur á Raufarhöfn og Reykjarfirði.

Hér um bil ⅓ skipafjöldans er gufuskip.

-------------------------------------------------------------------

 

Norðri - 3. ágúst 1906

--------------------------------------------------------------------

Norðurland - 25. ágúst 1906

Síldarveiðin.

Frá 13.—20. þ. m. hafa verið fluttar á land hér í bænum 5500 tunnur af síld. Eftir því verði sem nú er á henni er þessi afli um 55 þúsund króna virði. Tæpur þriðjungur hans er eign íslendinga (um 1700 tunnur), hitt útlendinga. Það eru ekki færri en 40 íslenzk þilskip, sem stunda síldarveiðar hér nyrðra og eru 18 af þeim héðan úr bænum. Flest eru þau smá, 10—40 lestir að stærð. Tvö þeirra hafa hjálparvél.

Tvö norsk gufuskip hafa og íslendingar leigt til síldarveiða, með hringnót og hið þriðja er íslenzk eign, en veiðimenn flestir norskir. Hafa íslendingar ekki ennþá lært þá veiði aðferð til fullnustu. En það er minstur hluti síldaraflans sem er fluttur hingað. Út með öllum firði hefir fjöldi útlendra skipa bækistöð sína, á Hjalteyri, í Hrísey og úti á Siglufirði.

Norðmenn hafa mesta útgerð allra, en auk þeirra eru Svíar, Þjóðverjar og Englendingar. Að þessum síldveiðastöðvum streymir fólkið hvaðanæfa frá heyskap og öðrum nauðsynjastörfum, svo að því halda engin bönd. Er þetta hinn mesti hnekkir fyrir sveitabúskap og aðra atvinnuvegi landsmanna og sennilegt að hagnaðurinn við síldarveiðarnar og söltunina verði dýrkeyptur, þegar öllu er á botninn hvolft.

---------------------------------------------------------------------

Ísafold - 12. september 1906

Sauðárkrók 12. sept. á hádegi:

Það var helzt efni í símtali, er ritstj. ísafoldar átti í dag við mann á Sauðárkrók (fyrir góðvild samgöngumálaskrifstofustjórans, hr. J.H.), að engin tilhæfa væri í þeirri frétt í dönskum blöðum, að 2 Norðmenn hefðu verið drepnir nýlega í áflogum á Siglufirði, en 50 fengið mikil meiðsl og sár.

Sauðarkróksmaður, Kr. Blöndal kaupmaður, segist hafa talað fyrir 2 dögum við mann utan af Siglufirði, og sagði sá, að 200 síldveiðaskip norsk hefði verið þar stödd í einu fyrir nokkrum dögum. Þess gat hann og í fréttaskyni, að í fyrra dag hefði verið afspyrnurok í Skagafirðinum, og mundu hafa orðið miklar skemdir á heyjum.

Heldur er þar óþurkasamt og hrakviðratíð.

----------------------------------------------------------------------

Norðri - 28. september 1906

Siglufjörður. Ferðalag með »Gunnu.» —

Ósjór og sjó- veiki. — Siglunes. — Landtaka á Siglufirði. –

Frá sjó að sjá, eru fjöllin frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar og þaðan til Sigluness, snarbrött með skuggalegum skvompum og gildrögum, tindótt og tuddaleg, og í fáum orðum einkennilega ljót. Það vor 3. ágúst hásumar, eftir því sem vant er að kalla það. Norðaustan stórviðri og kuldi með illviðri og ósjó.

Ofaneftir fjöllunum niður að sjó þeyttust gráir og ýfðir þokumekkir gægðust ofan í hvert gil og gljúfur um leið og þeir þutu framhjá. Þeir áttu víða erindi þann daginn. Illviðrið lamdi alt og alla svo fjallatindarnir urðu hvíti eftir. Þetta er sumarblíðan á þessum stöðvum. Það má svo sem nærri geta að »Litla Gunna« var alt annað en róleg í svona veðri, hún veltist og biltist á öllum endum, svo farþegarnir máttu neyta allrar orku, til þess að halda sér föstum, hvar sem þeir gátu hönd á fest.

Þeir sem kraftaminni voru, sleptu öllum tökum og ultu svo fram og aftur á þilfarinu eins og sívalir seljudrumbar, eftir halla og hreyfingum skipsins. Kvennfólkið og þeir af karlmönnunum sem lasnir voru var vísað í »káetuna« og þeim hjúkrað þar eftir föngum á bekkjunum, en tala þeirra sjúku fjölgaði smátt og smátt eftir því sem áleið og veðrið versnaði, svo «káetan« var í þetta sinn notuð sem spítali. Þeir sem ósjóveikir voru forðuðust eins og heitan eld að koma nálægt káetudyrunum, móleit og daunill hitagufa gaus upp um þær og lagði aftur eftir þilfarinu, sýkjandi og svæfandi.— Það var auma vistin.

Að segja »Guðrúnu« gott farþegaskip dettur víst engum í hug, sem með henni ferðast og það sízt í ósjó og slæmu veðri. »Káetan« lítil, í henni ekki nema setpallar á mjóum bekkjum, en þegar velta er mikil á skipinu, vilja sem flestir liggja, en til þess er ekki rúm fyrir fleiri en 3—4 menn. Útgerðarmönnunum hefir Iáðst að hafa nóg teppi handa farþegum — því fyrir utan þau sem tilheyra þessum þrem rúmum, munu engin vera til á skipinu eða sem því heyra til.

Er það óheppilegt mjög, en á því verður væntanlega ráðin bót sem fyrst. Þess skal getið hér skipstjóra og skipshöfn að maklegleikum að eg hef enn ekki séð á nokkru skipi, sem farið hefir fram með ströndum Íslands, jafn auðsæan og jafn samhuga vilja skipverja á því að veita farþegum þau þægindi, sem í þeirra valdi stendur, er það því fremur virðingarvert, sem kringumstæðurnar gera allar hjálparviðleitni erfiða og andstæða. Á skipinu er enginn klefi sem þeir geti matreitt eða matast í nema »káetan«, en séu þar sjóveikir menn sí-ælandi hver við annan fer borðsalurinn að verða óvistlegur og fæstir hafa góða matarlist þar sem svo stendur á.

Auðvitað geri eg ekki ráð fyrir mikilli sjóveiki nema í illu veðri, en í því geta þó mennirnir ekki borðað uppi á þilfari. En »Guðrúnu» er nú einusinni svo farið, að einhver mun sýkjast af þeim sem með henni ferðast, og það þó gott veður sé, að minstakosti vill það brenna við á stærri skipunum. — En sleppum þessu. Siglunes! kallaði skipstjórinn og við sáum gegnum þokuna og illviðrið lága strönd og landtanga koma fram undan fjöllunum. Það hýrnuðu helkaldir kjammarnir á hverju andliti sem eg sá og von bráðar sluppum við fyrir nesið og Siglufjörður blasti móti okkur með smásævi og snarbröttum fjöllum í kring.

Fjörðurinn er rúm míla á lengd og ¼ míla á breidd: fjöllin gnæfa gróðurlítil og aurrunnin, yfir 2000 feta há, yfir sármjórri grænni gróðurlengju, sem þó smá breikkar eftir því sem innar dregur og endar á þremur þröngum en djúpum dölum. Fáeinir bæir eru báðu megin fjarðarins, en í dalmynnunum inst í firðinum er þéttbýlla, þar er og undirlendi meira. Innarlega í firðinum að vestan, skagar Siglufjarðareyri út í fjörðinn svo ekki eru nema rúmir 400 faðmar til lands að austan og myndar þannig innar af eina af hinum allra beztu náttúruhöfnum landsins. Vanalega liggja skipin innanvert við eyrina, en þegar þau eru svo mörg eins og nú var, liggja þau fram, af eyrinni og nokkur enn utar. »Guðrún« lagðist við eina af bryggjunum fram af eyrinni.

Það sem maður rak fyrst augun í voru hinir afarháu síldartunnuhlaðar í öllum mögulegum myndum. — þorskhausahrúgur og síldarslóg í fjörunni, sem beið eftir að sjórinn skolaði því í brott, sí-iðandi manngrúi á bryggjunum og milli þeirra, og loks verzlunarhúsin, sem flest eru lá og lítil í samanburði við tunnuhlaðana í kringum þau, þó eru nokkur þeirra tvílyft. Í kringum þessi hús ægir öllu saman, tómum og síldtroðnum tunnum, saltfiski, slóg, og hreisturhrúgum, línum, vörpum og öðrum vergögnum; jafnvel klifberar og önnur búskapar-amboð spretta þar upp, en auðsjáanlega þrífast þau illa þar því fátt er af þeim.

Gangarnir á milli húsanna eru gróðursettir með margra feta háum grenitunnum svo niður á eyrinni má heita að maður sífelt gangi eftir grýttum og slorhálum tunn-Alleer. Búðirnar eru flestar litlar og kytrulegar, enda altaf troðfullar af norðmönnum eða öðrum útlendingum. Vanalega er það erindið að fá sér öl — ekki áfengt öl, það né annað áfengi má ekki selja á staðnum, — raða mennirnir sér við utanvert búðarborðið líkt og rollur á garða og drekka »Mörk« og »Alkoholsvag« eftir föngum, og: súrasaft þegar fram á daginn líður.

H. Ó. Magnússon.

----------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 10. nóvember 1906

Jörð til sölu.

Jörðin Saurbær í Siglufirði er til sölu á næstkomandi vori (07). Hún er 9,90 hndr. eftir nýjasta mati.

Túnið gefur af sér tveggja kúa fóður. Útheysskapur er mikill og góður eftir stærð jarðarinnar. Jörðin liggur að sjó, hefir gott upprekstrarland og óþrjótandi mótak og torfristu; jörðinni fylgja 1 íveruhús 14X8. Það er 12 ára gamalt, vel vandað að öllu leyti, 5 peningshús og 1 heyhlaða.

Lysthafendur snúi sér til undirritaðs eiganda. Saurbæ í Siglufirði 1 nóv. 1906. Jón Jóhannesson.

----------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 9. mars 1907

Sýslufundur Eyfirðinga. Hann var haldinn hér 4. — 8. þ. m.

Allir nefndarmennirnir á fundi. Þetta gerðist á fundinum meðal annars.

Símamál.

Oddviti skýrði frá þeim undirbúningi, er hann hafði gert í þessu máli. Hér var að ræða um að leggja símalínu frá Siglufirði til Sauðárkróks eða Skriðulands, frá Akureyri fram að Grund í Eyjafirði, frá Möðruvöllum fram Hörgárdal, frá Völlum að Dalvík og frá Dalvík að Ólafsfjarðarhorni. í tilefni af tillögum nefndar þeirrar (sýslum., St. St. og St. B.), er kosin var í þessu máli, samþykti sýslunefndin að leggja þessar línur:

Frá Dalvík til Ólafsfjarðar. —

Akureyri - Grundar. —

Akureyri - Glæsibæjar.

Fram Hörgárdal.

Til þess að leggja þessar línur vill sýslunefndin leggja fram helming kostnaðar á móti hlutaðeigandi hreppsfélögum, en þau leggi stöðvunum til ókeypis húsnæði og starfrækslu 2 tíma á dag, en skaði eða ábati skiftist jafnt milli sýslusjóðs og hlutaðeigandi hreppsfélaga.

Línu frá Siglufirði til landsímans i Skagafirði vill nefndin og leggja, en hugsar sér að til þess sé stofnað hlutafélag með 7 hlutum á 1000 kr. hver.

Þar af hafi Eyjafjarðarsýsla 2 hluti, Hvanneyrarhreppur 1, tveir Norðmenn á Siglufirði sinn hlut hvor, Skagafjarðarsýsla 1 og hinn norski viceconsull 1,

Fé það sem þá vantar uppá, 30—35 þús. kr. sé útvegað með sölu á handhafaveðbréfum, er trygð séu með veðrétti í línunni og tekjum hennar, án frekari ábyrgðar frá héruðunum, afborgist á 20 árum og á- vaxtist með 4 %.

Sýslunefndin samþykti fyrir sitt leyti að taka þessa tvo umræddu hluti í fyrirtækinu, ef það komist á fót. Til þess að koma ályktunum sýslunefndarinnar í símamálinu í framkvæmd sem fyrst og sem bezt kaus hún sýslumann Guðl. Guðm., kaupm. Pál Bergsson og séra Bjarna Þorsteinsson.

Verði Hjalteyrar- og Dalvíkurlínurnar ekki bygðar á landsjóðskostnað felur nefndin hinni kosnu nefnd að láta byggja þær sem allra fyrst, með hinum settu skilyrðum.

-------------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 5. júní 1907

Norskt skip ferst í ís norðaustur af Langanesi.

Í gærkvöldi komu hingað strandmenn af norsku síldveiðaskipi, er farist hafði í ís norðaustur af Langanesi.

Skipið hafði mulist sundur í ísnum, en mennirnir bjargast upp á ísinn og sátu þeir þar í sólarhring, en vildi það til lífs, að þar bar að annað íshafsveiðaskip, norskt, er flutti þá til Siglufjarðar.

--------------------------------------------------------------------------------

Norðri - 21. júní 1907 Úr bréfi Þorgils við Mývatn. – (Íþrótta spjall ! - Hluti þess)

Ekki minnist eg þess, að skíða sé getið hér á landi til forna; eg veit það fyrst um sögu þeirra, að Nikulás Bukk Norðmaður, kom með þau hingað á öndverðri næstu öld (eða litlu fyr), svo dreifðust þau um Þingeyjarþing, Norð- urland og víðar.

Ekki mundi Gunnar né Héðinn, Steinþór á Eyri né Grettir hafa rent sér á skíðum niður í Siglufjörð líkt og Páll í Dölum eður Húsavíkurfjall eftir Lúðvík Finnbogasyni; þá íþrótt kunnu þeir ekki, og skautamenn voru þeir engir.

Fljótamenn, Ólafsfirðingar og þeir í Siglufirði hafa verið taldir mestir skíðagarpar hér á landi og mætti þeim helzt líkja til Norðmanna í þeirri grein.

-------------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 20. júlí 1907

Tækifærisstaka:

Brennivíns þó tilbyrgt tár

tolla létti byrði;

flaskan kostar krónur þrjár

keypt á Siglufirði

M. EINARSSON.

---------------------------------------------------------------------------------------------------

Ægir - 1907

3. Árgangur 1907-1908, 2-3. Blað, Blaðsíða 23

Á Siglufirði hafa verið um 200 skip við síldveiði og þyrfti endilega að setja aðstoðar-lögreglustjóra um veiðitímann á sumrin þar.

Enga síld hefir verið að fá utan landhelgi þar (Sigluf., og Eyjaf.) og er því öll veiðin innan landhelgi fengin.

Yfirgangur Norðmanna er með allra versta móti nú. 31 skip voru tekin og sektuð í ágústmán. í Eyjafjarðarsýslu og af þeim náði »Íslands Falk« aðeins 4.

Sektir þessara skipa munu hafa numið um 24,500 kr. Auk þess var aflinn upptækur ger af flestum eða öllum. (Úr »Rvík«).

--------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Norðri - 19. ágúst 1907

-------------------------------------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 24. ágúst 1907

Landhelgis-sektir.

Í síðasta blaði skýrðum vér frá því, að hinn setti sýslumaður hér, Björn Líndal, hefði sektað 2 skip fyrir ólöglega veiði í landhelgi hér fyrir Eyjafirði.

Nam sektarfé beggja skipanna 1800 kr., en auk þess hafði afli sá, er seldur var af skipunum og gerður hafði verið upptækur, selzt fyrir um 1500 kr. Líndal hefir þessa viku gengið mjög röggsamlega fram í því, að sekta lögbrotsmennina og hefir hann þessa vikuna sekta alls 7 skipstjóra og nemur sektarféð af þessum 7 skipum 5000 kr.

Fjöldi skipa sem vissa er fyrir og fullar sannanir, að veitt hafa í landhelgi, eru þó ósektuð enn þá. Þegar þetta er ritað (á föstudag), er sýslumaðurinn í eftirlitsferð út á Siglufirði og má búast við að eitthvað af skipum þar náist og verði sektuð. Fálkinn kom hingað á fimtudaginn og fór aftur héðan í gærmorgun.

Er að sögn von um að hann verði hér nyrðra nokkura daga og er lítið betra en ekki neitt. Fálkinn kom inn í nótt með 4 brotleg síldveiðaskip, eitt nýsektað.

--------------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 31. ágúst 1907

Landhelgis-sektir.

Þar var sögunni af þeim komið er NL. kom út síðast, að Fálkinn flutti hingað 4 síldveiðaskip, er hann hafði tekið við veiðar í landhelgi.

Hinn setti bæjarfógeti var þá ekki heima og var Stephensen umboðsmaður settur til að dæma um brot þeirra.

Fengu þrjú þeirra 800 kr. sekt hvort, en afli var gerður upptækur. (seldist fyrir um 1000 kr.) — 4. skipið (þýzkt) hafði verið sektað hér fáum dögum áður og fekk það 1500 kr. sekt, en afli var gerður upptækur (var mjög lítill) og sömuIeiðis nótin.

Hún var seld fyrir rúmar 1000 kr. Sýslumaður kom heim frá Siglufirði um miðja vikuna. Hafði hann sektað þar 18 skip, öll norsk, fyrir samtals 13,800 kr. Alls hafa þá rúm 30 skip verið sektuð fyrir ólöglega veiði hér fyrir utan land og eru tekjurnar af því 28 þúsund kr.

--------------------------------------------------------------------------------

Norðri - 13. september 1907

Háfur veiddist á Siglufirði í byrjun þ. m. er var um 30 þml. á lengd og var með 4 talsvert þroskuðum ungum.

Hallgrímur Tómasson bókhaldari á Siglufirði slægði dýrið eftir öllum »kunstarinnar reglum» og setti síðan í vínanda.

Ætlar hann síðan að gefa það náttúrugripasafninu ef forstöðumaður þess vill.

Ennfremur voru innan í háfinum 3 egg, hvert á stærð við hákarlsegg.

---------------------------------------------------------------------------------

Ísafold - 18. september 1907

Norðmannaróstur á Siglufirði.

Maður nýlega kominn að norðan, Ögmundur Sigurðsson kennari, flytur frétt af allmiklum usla og ófriði, er norskir síldveiðamenn hafi gert á Siglufirði sunnudag 25. f. mán., ráðist á yfirvaldið og gert annan óskunda. Hinn setti sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu, cand. jur. Björn Lindal, hafði verið staddur út á Siglufirði, í málavastri út af landhelgisbrotum Norðmanna.

Þá var búið að ná 30 norskum síldveiaskipum alls og sekta. Sumum hafði Valurinn danski náð, en sýslumaður fleiri þó. Þeir voru því orðnir honum allreiðir, sýslumanni, bæði þeir, sem sektaðir höfðu verið, og aðrir, sem þurftu að svala sér fyrir tollinn nýja eða tollhækkunina á síldinni. Tilefni uppþotsins þennan dag var það, að norsk skipshöfn á legunni á Siglufirði hafði gerst ölvuð og ráðist á skipstjóra með misþyrmingum, er hann ætlaði að spekja þá. Var þá sent eftir lögreglustjóra.

Hann lét taka 2 verstu óróaseggina, leggja á þá járn og flytja á land. Með því að enginn er þar fangaklefinn, var þeim snarað inn í vörugeymsluhús. Þá kemur önnur skipshöfn norsk utan af legunni, ræðst á húsið, þar sem landar þeirra hinir seku voru geymdir, mölvuðu það og náðu þeim út. Því næst réðust þeir á önnur hús í kauptúninu meðgrjótkasti í glugga og óþverra, otuðu knífum og hótuðu sýslumanni að saxa hann sundur.

Hann var liðfærri miklu og hörfaði undan inn í kirkjuna, sem hafði verið lánuð norskum kennimanni þar stöddum til messugjörðar yfir löndum sínum. Þetta var á áliðnum degi. Prestur sá fór að reyna að tala um fyrir óróaseggjunum. En þeir létu sér hvergi segjast og réð hann sýslumanni til að hafa sig undan að sinni, Hann sá þann sinn kost vænstan; en safnar síðan liði, er hafði aflað sér barefla, og ræðst í móti óaldarflokknum, er hafði enn magnað fjandskapinn, gekk sjálfur í broddi fylkingar með skammbyssu í hendi og fekk loks stökt Norðmönnum á flótta, þótt liðfleiri væru miklu, náði 2 forsprökkum þeirra og snaraði í varðhald.

Hinir flýðu út á skip sín. Dönsk blöð hingað komin, er segja frá þessum atburði, eftir hraðskeyti frá Seyðisfirði, láta sem 50 norsk síldveiðaskip hafi verið höndluð og sektuð þar nyrðra mánuðinn sem leið og hafi látið úti um 30,000—40,000 kr.

Frá Akureyri er svo sagt af hátterni Norðmanna þar, að þar sé hið mesta sukk af þeirra hendi með drykkjuskap og ólifnaði; mannfénaði þeim ekið í hlössum á kveldum úr veitingaskálanum í fangelsi bæjarins.

------------------------------------------------------------------------------------

Lögberg - 19. september 1907

Bardag i á Siglufirði .

Útlendingar gera sýslumanni Eyfirðinga aðsúg.

Í Dönsku blaði nýkomið hingað stóð hraðskeyti frá Seyðisfirði svolátandi:

Settur sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu, Björn Lindal, hafði farið til Siglufjarðar, því að fregnir hafi borist af því að margir útlendir fiskimenn væru þar við ólöglega síldveiði. Sýslumaðurinn tók málið fyrir og sektaði skipstjóra útlendum um þrjátíu til fjörtíu þúsund krónur. Af þessu reiddust fiskimenn svo að þeir söfnuðust saman, sunnudaginn 25. Ágúst og gengu á land 100 talsins vopnaðir hnífum.

Ruddust þeir að húsi því sem sýslumaður hélt til í, en hann fékk forðað sér undan þeim og komist í kirkju. Var þá verið að messa og truflaðist guðsþjónustan því kirkjufólkið snérist þegar á móti útlendingunum til varnar sýslumanninum.

Nokkrir Íslendinganna náðu í byssur og tóku að skjóta á þá útlenzku og tókst að reka þá aftur til skipa.

Margir Íslendingar særðust í bardaga þessum.

------------------------------------------------------------------------------------

Lögrétta - 25. september 1907

Óspektir á Siglufirði.

Á Siglufirði kvað oft vera róstusamt meðan útlendu fiskiskipin liggja þar inni á sumrin, en stór vandræði hafa þó ekki orðið úr því fyr en nú rjett fyrir mánaðamótin síðustu. Björn Líndal, sem þá var settur sýslamaður á Akureyri, hafði haldið til Siglufjarðar og dvalið þar nokkra daga til þess að sekta síldarveiðaskip, sem veitt höfðu ólöglega í landhelgi, hafði náð yfir 40 skipum og sektað þau samtals um nálægt 30 þús. kr. Segir Austri frá 31.f. m. Svo þannig frá:

„Lögbrotsmenn undu þessu illa, þóttust hart leiknir og ljetu gremju sína í Ijósi með áflogum, ópi og ólátum, er þeir voru orðnir ölvaðir. En fram úr hófi gengu þó óspektirnar og ólætin s,l. sunnudag. Aðalorsökin til þess var sú, að sýslumaður hafði verið kallaður út á norskt skip, þar sem hásetarnir höfðu gert uppreisn gegn skipstjóranum og hótað honum lífláti.

Tók sýslumaður 2 af verstu uppreisnarmönnunum fasta og ljet setja í handfjötra og flytja í land til gæslu, og voru þeir geymdir í læstu pakkhúsi einu þar í kauptúninu, þar eð enginn fangaklefi var til. Safnaðist þá strax saman mörg hundruð Norðmanna i kringum húsið, og Ijetu þeir all-ófriðlega og heimtuðu að fangarnir yrðu látnir lausir.

Sýslumanni tókst þó með aðstoð annara röskra manna að halda uppi sæmilegri reglu, þar til um kvöldið, að yfir 100 norskra og finskra háseta komu í land, sumir vopnaðir með hnífum og bareflum; rjeðust þeir að húsinu með grjótkasti og barsmíði og hugðu að brjóta það upp og ná föngunum út; og þegar sýslumaður reyndi enn að stilla til friðar, þá snerist allur hópurinn að honum með ofbeldi og hótunum, svo hann varð að láta undan síga og forðaði sjer inn í kirkjuna.

þar sem guðsþjónustugerð Norðmanna stóð yfir; hjet hann á aðstoð þeirra, er þar voru og urðu þeir við þeirri áskorun; söfnuðust þá og saman fjöldi annara Norðmanna og íslendinga, vopnaðir bareflum, og sumir með byssur, rjeðu þeir svo að uppreisnarmönnum, sem voru hamslausir af bræði og brúkuðu óspart hnífa sína og köstuðu grjóti; urðu þar harðar sviftingar og hlutu eigi all-fáir nokkrar hnífstungur og önnur meiðsli, þó enginn svo, að verulegt mein yrði að; ljetu uppreisnarmenn undan síga ofan framkvæmd þeirra hótana, enda kom Islands Falk" þangað á mánudaginn"

-------------------------------------------------------------------------------------

Ingólfur - 6. október 1907

Um „bardagann í Siglufirði" hafa gengið mjög ýktar sögur.

Hafði einhver náungi á Austurlandi ritað svo gífurlegar fréttir um uppþotið í dönsk blöð, er þau töldu nauðsýn á að hleypa dönsku herliði á land í Siglufirði til þess að „vernda landið". Átti það að vera til þess að íslendingar mættu sjá það sem glöggast, að þeir væri ekki einhlítir til þess að halda lögum uppi í landinu og hitt með, að ekki stæði á hjálpinni frá Danmörk.

Slíkur fréttaburður er allóþarfur og sver sig í ættina til fleiri sendinga, sem danskir íslendingar eru sífeldlega að senda héðan til Danmerkur til þess að hvetja þessa útlendinga til íhlutunar og ágengni hér. Rósturnar á Siglufirði vóru ekki meiri en svo, að íslendingar fengu vel við ráðið.

Er þess getið að norðan, að Jóhannes Jósefsson hinn sterki hafi þar veitt Birni „bónda" örugt brautargengi og verið fremstur flokki þeirra er stökktu óróamönnum í báta sína. Þóttust þeir verst hafa er næstir vóru handtökum hans og leituðu undan.

Mundi þyngra hafa veitt að stilla til friðar, ef hans hefði ekki við notið.

-----------------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 12. október 1907

Stórhríð brast hér á laugardaginn er var, síðari hluta dags og birti ekki upp aftur fyr en á mánudagsmorgun. Gekk hríð þessi yfir alt Norður-og Austurland. Fé manna var alstaðar úti og fenti víða mikið af því og voru menn að draga það úr fönn fram á fimtudaginn var, en þá blotaði vel og leysti nokkuð af snjónum.

Flest hefir féð náðst lifandi úr fönninni hér um slóðir, en margt illa til reika.

Í hríð þessari hafði tekið þak af steinhúsi á Siglufirði, en síðan hrundu báðir stafnarnir á húsinu og bjargaðist fólkið nauðulega út í hríðina. Húsið átti Ólafur Sigurðsson skipstjóri.

----------------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 29. ágúst 1908

Maður myrtur.

Hingað berst sú fregn frá Siglufirði, að þar hafi maður verið myrtur í vikunni sem leið, norskur maður að ætt, en þó orðinn hér innlendur. Hét hann Caspar Hertervig, sonur Knuds Hertervig gosdrykkjagerðarmanns er hér bjó á Akureyri.

Ekki eru fréttir þessar greinilegar, en sagan segir að eina nóttina hafi druknir Norðmenn háð bardaga í landi sín á milli, en þegar valurinn var kannaður um morguninn fanst C. H. milli tunna og kominn að dauða.

Áverkar höfðu verið á honum allmiklir og andaðist hann skömmu síðar.

----------------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 9. september 1908

„Nordurland" Ijúgandi.

Það eru auðvitað engin ný tíðindi fyrir þá, sem kunnugir eru, enda er það ekki að jafnaði, sem Norðri fæst um það þótt hann geri undantekningu í þetta sinn. Það er eins og blaðtetrið hafi einhverja sérstaka ónáttúru til að ljúga andlátsfregnum og hefir gert það hvað eftir annað. Það er þó sérstaklega óheppileg tilhneyging.

Ef að ættingjar eða vinir þess, sem það lýgur að séu dánir, lesa blaðið og vita ekki hvað það er óáreiðanlegt, en búa í fjarlægð frá þeim sem á að vera dauður, getur það haft tilfinnanlega slæm áhrif.

Akureyringar þekkja flestir Knut gamla Hertevig gosdrykkjagerðarmann. Hann á son Caspar að nafni, sem er augasteinn hans og athvarf.

Nýlega laug «NorðurIand« því, að Caspar Hertevig hefði verið myrtur á Siglufirði með hroðalegum atburðum. Hver áhrif ætli það hafi nú haft á Knút gamla ef hann læsi það? Auðvitað er það lýgi, uppspuna rakalaus haugalygi Caspar Hertevig er á Siglufirði hraustur vel og heill heilsu.

Björn Lindal lögreglustjóri á Siglufirði sá hann þar nú um helgina.

--------------------------------------------------------------------------------------

Norðri - 9. september 1908

Ósannar fréttir.

Fréttin um að maður hafi verið myrtur á Siglufirði er ósönn, og er allkynlegt hve margar tröllasögur eru sagðar þaðan á hverju sumri. —

Þessi fregn kom hingað beint utan af Siglufirði og ennfremur var sagan sögð ritstjóra þessa blaðs af manni sem kom utan úr Ólafsfirði, en fréttin borist þangað af Siglufirði.

--------------------------------------------------------------------------------------

Norðri - 23. september 1908

Tröllasögurnar af Siglufirði.

Það er meira en lítið, sem árlega gýs upp af lygafréttum af Siglufirði, og það er alt annað en heppilegt, þegar blöðin hér á landi fara að taka upp slíkar sögur. Þeim er allflestum logið upp í ákveðnum tilgangi, og það eru útlendingarnir sjálfir, sem mest gjöra til að koma þeim á kreik. Tilgangurinn er, að sanna það, sérstaklega í Noregi, að íslendingar haldi ekki uppi lögum í sínu eigin landi, séu ekki færir um það, geri sér ekkert far um það, og hafi eigi á Siglufirði svo útbúna lögreglustjórn, að hún geti nokkurn skapaðan hlut gert til að halda uppi lögum.

Ljósasta sönnunin í þessa átt, er lygasagan, sem í ágústmánuði 1906 flaug um alla Danmörku, Noreg og víðar.— Þann 19, ágúst 1906 stóðí «Politiken« einkaskeyti frá Færeyjum — síminn þá nýkominn þar — á þessa leið: «Mikil sjóorusta á Siglufirði, 2 drepnir, 50 særðir, af þeim 25 menn hættulega sárir.»

Þetta símskeyti tóku öll helztu blöð Norðurlanda upp »og þóttu firnafréttir.« En um sviplíkt Ieyti var farið fram á það í Noregi, að stjórnin þar sendi þangað herskip og á því landgöngulið, til þess að halda uppi lögum» á Siglufirði í landi þar. Sagan var uppspuni frá rótum, en smíðuð til þess að styðja þessa norsku árás á landið, eða tilraun til að lítilsvirða það. Atvikin sem þessi tröllasaga var smíðuð úr voru fremur brosleg en alvarleg, Þau gerðust hér á Akureyrarhöfn inni á Pollinum.

Gufuskipið »Uller«, skipstjóri Johndal lá hér við akkeri, skipshöfnin öll, nál. 20 manns, að undanskildum skipstjóra og 1 manni, hafði farið í land, og höfðu skipsmenn, «eins og lög gera ráð fyrir» — alt norskir sjómenn — drukkið sig meira og minna »augafulla«. Þegar þeir svo komu út í skipið lentu þeir í áflogum, eins og fullum mönnum er títt og skipstjóri gat engu tauti við þá komið.

Hann sendi þá eftir hjálp fyrst til varðskipsins danska, er hér lá þá. Það vildi ekki skipta sér af áflogunum, nema lögreglan kveddi þá til hjálpar. Svo var sent til bæjarfógeta og hann fór út á skipið við fimta mann. Þar var þá kyrð og friður yfir öllu. Skipsmenn sátu hver í sinni kompu og datt ekki af þeim né draup, fremur en guðhræddu fólki, er húslestri hlýðir. — Skipstjóri kallaði þá svo út á þilfarið og veitti þeim harðar ávítur. —

Fríður álits var hann auðvitað ekki, sá «söfnuður»; menn voru þar rifnir, klóraðir og dálítið skeindir, glóðarauga voru þar mörg, og á einum var ofurlítill »biti» skorinn eða bitinn úr nefinu og blæddi ört úr. Það var hið einasta sár. Maðurinn var rekinn í land og Guðmundur Hannesson saumaði saman nefið á honum. Svo lauk þeirri sögu.

En «snatarnir» bjuggu til úr þessu sjóorustu á Siglufirði, 2 manndráp og 25 holundarsár. Hitt er alt annað, að lögregluna á Siglufirði um síldðveiðatímann þarf að auka, frekar en gert hefir verið, koma þar upp fangaklefa og setja þar samþykt um hegning fyrir óspektir.

-------------------------------------------------------------------------------

Norðri - 15. júlí 1909

Óreglan á Siglufirði.

C. Oppeland, sjómannatrúboði frá Haugasundi, er verið hefir nokkur sumur á Siglufirði, hefir átt tal við ísafold um óregluna á Siglufirði, og birtir blaðið efni þessa samtals 3. þ. m. Hann kvartar einkum um ofdrykkju norskra sjómanna þar, og kveður aðalorsök hennar vera ólöglega áfengissölu í landi. Einnig kvartar hann yfir því, að ekki sé húsnæði til þess að geyma ósjálfbjarga menn í að næturþeli.

Satt er það, að allmikið drekka norskir sjómenn á Siglufirði, og sennilega er þar óleyfilega selt áfengi. En hvers vegna gerir þessi mannvinur og félagi hans, hinn klerkurinn norski, sem þar hefir einnig verið í nokkur ár, ekkert til þess til þess að koma upp um þá menn, er vín selja óleyfilega.

Hafa þeir nokkurn tíma kært yfir slíku broti til lögreglustjórans, eða rétt honum nokkra hjálparhönd í þessu efni, þótt fleirum sinnum hafi verið á þá skorað að gera það? Það gagnar lítið að tala um óleyfilega vínsölu, þegar enginn þykist vita neinar sönnur á því, hver geri sig sekan um hana, er leitast er við að ransaka málið. Hversvegna kæra þeir ekki lagabrotsmennina, ef þeim er kunnugt um þá?

Ólíklegt virðist, að þeir meti meira vináttu þessara manna, en löghlýðni, siðsemi og velferð landa sinna, Þessir menn hafa haft barnaskólann og þinghúsið (sem er sama húsið) til afnota síðustu sumur, og það hefir jafnvel verið reynt að komast hjá því, að hafa réttarhöld í húsinu, þótt á hafi þurft að halda, til þess að gera þeim ekki ónæði.

Hvers vegna hafa þeir ekki búið um ósjálfbjarga landa sína þar inni að næturþeli ?

Hversvegna sofa þeir allar nætur eða loka sig inni, þegar mest er þörf aðstoðar. Annars virðist það liggja norskum mannvinum, og þá einkum norskum trúboðsfélögum, öllu nær en oss íslendingum, að koma upp skýli eða taka það á leigu, til þess að geta hýst ósjálfbjarga norska sjómenn. Virðist mér það þarflegra en að hafa þar tvo norska presta.

Annað mál er það, að mesta nauðsyn er á því að koma upp fangelsi á Siglufirði, og samþykkja lögreglugerð fyrir þorpið, enda nær lögreglustjórn þar ekki tilgangi sínum, fyr en það hefir verið gert.

B. L.

----------------------------------------------------------------------------------

Norðri - 22. júlí 1909

Innbrotsþjófnaður á Siglufirði.

Aðfaranótt sunnudagsins er var, var brotist inn í hús Hans Jónssonar á Siglufirði, á þann hátt, að gluggi var tekinn úr að utan og laumast inn í herbergi, er einn maður svaf í, og var stolið úri hans og axlaböndum og öllu, sem nýtilegt var í vösum hans.

Maðurinn vaknaði ekki fyr en þjófarnir voru að bisa við að koma glugganum í aftur. Klæddi hann sig þá í snatri, fór út og hitti nálægt húsinu kunningja sinn, er veitt hafði athygli tveimur mönnum, er þar höfðu verið á sveimi.

Fóru þeir að leita þeirra og fundu bráðlega tvo menn menn við hús Gísla Jónassonar; höfðu þeir náð þar út glugga, reist hann upp að veggnum og voru að skríða inn. Lenti þar þegar í snörpum bardaga, er endaði með því, að þjófarnir, er voru norskir, komust undan. Annan þeirra treysta mennirnir sér þó til að þekkja aftur.

En ógripnir voru þeir báðir síðast er fréttist.

----------------------------------------------------------------------------------

Norðri - 22. júlí 1909

Yfirlýsing.

Eg undirskrifaður Jóhann Jóhannsson í Hlíðarhúsi í Siglufirði lýsi því hér með fyir, að eg afturkalla öll þau umyrði, sem eg nú fyrir skömmu viðhafði um verzlunarstjóra Pál Halldórsson á Siglufirði og þar á meðal hin, upp á stefnu orð, að eg kallaði hann þjóf og svikara, og álít mig þetta oftalað hafa, orðin dauð, og marklaus og bið hann fyrirgefningar á þeim.

Á sáttafundi í Siglufirði, 3. júlí 1909 Jóhann Jóhannsson.

Vottar: B. Þorsteinsson. H. Guðmundsson.

----------------------------------------------------------------------------------

Þjóðhvellur - 1. september 1909

Á Siglufirði.

Þaðan er skrifað í þessum mánuði:

»Heill og sæll, Þjóðhvellur minn !

Þér mundi gefast á að líta ýmislegt hér á Siglufirði, værir þú hingað kominn með gamni þitt og glöggskygni, og óefað mundi þjer finnast hér fjörugt fiskiver — öllu heldur síldarver. En þar sem þú ert svo fjarlægur og átt hér kannske fáa kunningja, sem skrifa þér, datt mér í hug að senda þér þessar línur. Siglufjörður er nú þegar þjóðfrægur orðinn fyrir síldveiðar og Norðmenn á sumrum, ásamt öllum þeim gauragangi, sem af því flýtur.

Hefir þetta nú orðið svo mikinn töframátt, að hingað laðast fólk úr öllum áttum og héruðum lands þessa, svo að segja má, að hér úi og grúi af því eins og mýi, er sækir að mykjuskán. En það er eins með fólkið eins og mýflugurnar, að sumt af því gapir yfir hverri síld, sem á land kemur, en hitt, sem ekki er útaf eins aðgangsfrekt, hefir lítið, alveg eins og flugurnar, sem sveima í kring og aðeins njóta lyktarinnar, og er því síldarvinnan arðsöm fyrir sumt af fólkinu.

Duglegustu síldarkonurnar — (dónarnir kalla þær síldarmerar, það gerir aðgangurinn; en ég kalla þær síldardrotningar) — hafa eftir nóttina, því þá er vinnan mest, 10—20 krónur „í síld" segja þær. En vinnan er stopul. Þó eru margir sem fá gott sumarkaup á einum og tveimur mánuðum. — Fólkið, sem að þessu vinnur, er mest Norðmenn, krakkar og kvenfólk.—

Ég verð að segja það, að sumar síldardrottningar eru ekkert hrak; þær eru þéttar og þriflegar, þreklegar eins og karlmenn, og virðast vissulega skapaðar til þess að vinna „lífsins þyngstu verk"; hvílíkir handleggir! digrir eins og karlmannslær, drifhvítir eins og fönnin og reiðubúnir til að stjaka við hverjum nærgöngulum Norðmanni, — og brjóstin, stór eins og þúfur og virðast ekki ungbarna meðfæri — ja, þvílíkt! Um þetta mætti prédika í heilan mansaldur. — Norðmannasægurinn er hér svo mikill, einkum í ágústmánuði, að varla verður þverfótað. Og það er þyrping, sem segir sex. Ég tala nú ekki um ef skaranum lendir saman. —

Margir eru Norðmenn þessir prúðir menn og góðir, en svo er aftur mesti fjöldi slarkarar og syndasela, sem ekkert láta sér fyrir brjósti brenna, hver fjandinn sem það er. Sumir þeirra eru ástamenn svo miklir, að fötin springa af ástríðunum, og ekkert má viðnám veita, — og sjaldgæft er það ekki, að kvæntir Norðmenn kippi hringjunum fram af, þegar þeir koma í landhelgi — og reyni svo að ná sér i „kærustu" þegar á land kemur — og virðist þeim veitast það svo aðdáanlega auðvelt, að maður gapir af undrun yfir því, hve slík ráð eru auðsótt og hiklaus. -—

Komi svo orðrómur á, að þeir séu kvæntir í Neregi, þræta þeir fyrir það, enda styrkja sumir landar þeirra þann málstað, og stendur þá alt við sama — því náttúrlega trúir unnustan betur unnustanum og vinum hans, heldur en þeim, sem eru að „ófrægja" hann. En svo þegar unnustan hefir farið á eftir „kærastanum" til Noregs — því þeir hafa þær ekki með, þegar „ástin er í meinum", — þá veit hún ekki fyr en hún mætir eiginkonu unnustans með börn þeirra, í stað þess að lenda i opnum örmum elskhugans. Og það eru að líkindum vonbrigði sem einstæðingsstúlku, í ókunnu landi, koma skrattans illa. — —

Til þess að hylla sem bezt að sér kvenfólkið, halda Norðmenn hér uppi dansleikjum, svona tvisvar og þrisvar í viku, stundum oftar, — og þá eru stúlkur skelfing hrifnar hér — ekki síður en í Reykjavík og Hafnarfirði og víðar — það er að segja, þær, sem eru „spentar" fyrir slíkum samkomum — en það er aðeins örlítill hluti. — En dansleikar þessir eru í rauninni ekkert annað en „kvennaveiðar", er enda með veitingum, glaumi og lystisemdum. — „Krossfesting holdsins" er talin bölvað „humbuk" — og sjálfspintingar í þeirri merkingu þekkja ekki Norðmenn hér í Siglufirði ".

------------------------------------------------------------------------------------

Lögrétta - 29. september 1909

Yfirgangur útlendra síldveiðamanna fyrir Norðurlandi.

Aðgerðalaus lögregla.

Mönnum er það alment kunnugt, að síldveiði er rekin í stórum stíl fyrir Norðurlandi á sumrum frá byrjun júlímánaðar til miðs sept. Þá koma þangað hópum saman Norðmenn og Svíar, og jafnvel Englendingar og Þjóðverjar, sem hafi bækistöð sína á fjörðum inni (bæði Siglufirði og Eyjafirði), og veiða í snyrpinætur og reknet. Veiðin með snyrpinótum hefur reynst mjög arðvænleg, og hefur því orðið að keppikefli fyrir fleiri og fleiri með hverju ári. Verðið á síldinni, sem var mjög lágt bæði í hittifyrra og í fyrra, dró til muna úr aðsókninni, sem var þegar orðin mjög mikil, en þó mun ekki oftalið, að um 100 gufuskip og seglskip hafi stundað veiðiskap þar, bæði í fyrra og í ár.

Íslendingar — Norðlendingar og Austfirðingar — hafa aukið veiðiskapinn á seinni árum. Þeir hafa þannig fylgst með, og farið að dæmum útlendinga. Sumpart hafa þeir sín eigin skip, seglskip, sem stunda reknetaveiðar, eða hafa gufuskip í fjelagi á leigu, sem þeir svo hefur til veiða með snyrpinótum. Nokkrir hafa einnig slegið sjer saman og keypt aflann í fjelagi af innlendum og útlendum skipum, sem stundum hefur þó reynst misjafnlega eins og veiðin; en í ár mun það hafa gefið góðan ávinning. Botnvörpuskipin hjer frá Reykjavík hafa nú í sumar einnig tekið þátt í veiðunum, fjögur alls.

Í fyrra var það aðeins eitt („Jón Forseti"),

sem þá reið á vaðið, og mun hafa haft talsveiflan hagnað, og hefur það óefað ýtt undir hin skipin að fara í ár. Þessi 4 skip, sem hafa stundað síldveiði með snyrpinót í sumar, eru „Jón Forseti", „Mars", „Snorri Sturluson" og „Valur, alt botnvörpuskip. Veiðin hefur orðið fremur góð og verðið á síldinni er óvenjulega hátt. Auðvitað hefur arður af veiðinni ekki orðið eins mikill og búast mætti við eftir aflaupphæð og verði á síld í sumar á útlendum markaði, vegna þess, að aflinn var seldur af flestum skipunum fyrir fram; en þó má óefað fullyrða, að bæði skipseigendur og fiskimenn hafi fengið kostnað og fyrirhöfn fullkomlea borgað. Nú eru skipin hjeðan nýlega komin heim að norðan. Maður, sem kunnugur er sjómennsku og fiskiveiðum, sagði Lögr., að sjómennirnir hjeðan að sunnan ljetu illa af yfirgangi útlendra sjómanna nyrðra, og bað Lögr. hann þá, að útvega sjer skýrslu þeirra um þetta, og er það hún, sem fer hjer á eftir:

Jeg hef átt tal við nokkra af skipverjunum sem komu að norðan um 20. þ. m., og mátti heyra á þeim, að þeir voru alls ekki ánægðir með tilhögun á veiðiskap útlendinga eða á aðgerðum lögreglunnar þessu viðvíkjandi þar norður frá. Einum greindum og skýrum manni fórust meðal annars orð á þessa leið: „Það hefur oft, og það ekki að ástæðulausu, verið fundið að því, hve varðskipið, sem gæta á rjettar íslenskra fiskimanna hjer við strendur landsins, hafi verið aðgerðarlítið í því, að ná í sökudólga og draga þá fyrir lög og dóm. Þetta hefur sumpart verið kent því, að strandlengjan við ísland væri svo víðáttumikil og örðug viðfangs fyrir eitt skip, að slíkt væri nær ókleift eins og hjer hagar til, og í öðru lagi væri skipafjöldinn, sem þyrfti að hafa gætur á, svo mikill, að eitt skip gæti ekki annað því. Þetta hefur við mjög eðlileg rök að styðjast.

En slíkt háttalag, eins og varðskipið „Islands Falk" hefur sýnt í sumar við síldveiðarnar fyrir Norðurlandi, getur tæpast kallast forsvaranlegt. Skipið lá fyrir Norðurlandi mest afsíldveiðatímanum, ýmist á Eyjafirði eða Siglufirði, en naumast er hægt að segja, að eftirlitið með fiskiveiðum útlendinga í landhelgi hafi verið innifalið í öðru en því, að gæta þess, að skipin fiskuðu hvorki inni í Eyjafirði eða Siglufirði, og eftirlitsferðirnar voru aðallega fólgnar í því, að fara frá öðrum þessara staða á hinn.

Mjer var kunnugt um það, að útlend síldveiðaskip fiskuðu þráfaldlega fast upp við land, bæði í Haganesvík, fyrir Fjótum, inni á Skagafirði fast uppi við Málmey og Drangey, án þess að mæta nokkurri stygð af völdum varðskipsins, og þó lá eftirlitsskipið á Siglufirði, en hreyfði sig hvergi til tálmana. Kvartanir höfðu þó komið ekki allsjaldan til yfirmannsins sjálfs um framferði sumra skipanna, og hafði því enginn gaumur verið gefinn. Jeg þekki eðlilega ekki til fullnustu verkerni það, sem þetta svo kallaða varðskip á að inna af hendi hjer við land; en svo mikið þykist jeg vita, að það sje aðaltilgangurinn með veru þess hjer uppi í sumar, eins og áður, að gæta þess, að slík ólögleg veiði eigi sjer ekki stað, og að öðru leyti hindra útlend skip f ólöglegum veið um, sjeu þau að fremja slíkan verknað.

En annað var ekki sjáanlegt, en að skipið áliti verkahring sinn í sumar aðeins ná yfir Siglufjörð og Pollinn á Akureyri. Og svo er þessi makalausi lögreglustjóri, sem settur var á Siglufirði í sumar; hann var hreint og beint til athlægis. Auðvitað segi jeg það ekki manninum til lasts; það er víst að mestu honum ósjálfrátt. Norðmennirnir gláptu á hann fyrst í stað, og sögðust svo ekki vera „bange for den Gutten". Það sýndi sig líka; þeir fóru allra sinna ferða, brutu og brömluðu í ölæði og meiddu til óbóta skikkanlega menn. Getur verið, að friður og rósemd hefði ekki ríkt þar, í þessari norsku nýlendu, þótt stærri og þreknari lögreglustjóri hefði átt þar aðsetur. En það var blátt áfram að storka þrjótunum, að veifa svona hirtingarvendi að þeim.

Jeg hef aftur og aftur verið að íhuga það með sjálfum mjer, hvort alt þetta aðgerðarleysi lögreglunnar á sjónum og aumingjaskapur lögreglustjórans á landi, sje blátt áfram ákvörðun stjórnarráðsins eða þeirra, sem völdin hafa, en jég hef jafnharðan undið þeirri hugsun á bug; jeg get ekki trúað því, að stjórnin sje svo illgjörn, þótt margt megi finna að henni, að hún stuðli að því, að okkur fiskimönnunum, þeim sem berum björgina að landi, verði sem flest til böls og baga.

Því hvað er meira hrygðarefni en það, að sjá útlendinga taka björgina frá okkur, fátækum fiskimönnum, uppi í fjöruborði, og með yfirgangi meina okkur að ná í afla á sumum stöðum, og svo þegar í land er komið, að sjá þá leika þar eins og þeir eigi altsaman. Það er svo íhugunarvert ástand, að slíkt er ekki þolandi. Og sú stjórn, sem líður slfkt, á því síður rjett að henni sje við vært í landinu". Jeg átti tal um þetta við fleiri síldveiðamenn, og bar þeim saman að öllu leyti í höfuðatriðunum. Nokkrir þeirra höfðu auk þess orð á því, að skrásetning útlendra skipa undir danskt flagg væri blátt áframhneyksli.

Norðmenn voru þar á norskum skipum með dönsku flaggi, og ekki svo mikið sem matsveinninn hafði íslenskan borgararjett, en slíkt var álitið gott og blessað þar norður frá. Yfir höfuð fanst þeim flest ganga þar á trjefótum, sem snertir verndun á rjetti einstaklingsins og íslenskra borgara. Það virðist ekki að ástæðulausu, þótt hreyft sje við þessu opinberlega. Landstjórninni dugar ekki að loka eyrunum fyrir skynsamlegum kröfum almennings, og það er blátt áfram skylda hennar, að gæta þess, að rjetti einstaklingsins sje ekki misboðið, jafnframt því sem hún hefur ábyrgð á, gagnvart almenningi, að þeir, sem eiga að hafa eftirlit með að lögunum sje hlýtt, sjeu starfanum vaxnir og geri skyldu sína.

X.

--------------------------------------------------------------------------

Ísafold - 2. október 1909

Svar til Lögréttu.

Stafurinn X. hefir í síðasta tbl. Lögréttu ritað langa grein um löggæzlu á sjó og landi fyrir norðan. Stafurinn er óánægður. Hann ávítar varðskipið »Islands Falk«, skammar lögreglustjórann, er á Siglufirði var í sumar og dróttar því að sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu, að hann skrásetji skip, sem engan rétt hafi til að vera íslenzk. En niðurstaðan er hið vanalega »præterea censeo«, að alt þetta sé stjórninni að kenna og hún eigi að skammast sín og fara.

Eg fyrir mitt leiti læt mér nægja að svara örfáum orðum því, sem hann ritar um mig sem lögreglustjóra. Hann segir, að Norðmenn hafi farið allra sinna ferða fyrir mér »brotið alt og bramlað« og »segið skikkanlega menn til óbóta«. Þetta eru eintóm ósannindi. Það sem brotið hefir verið og bramlað á Siglufirði í sumar eru nokkrar rúður í tveim veitingahúsum þar. En engir skikkanlegir menn — og ekki heldur neinir óskikkanlegir — hafa verið barðir til óbóta. Einir 2—3 menn hafa fengið glóðaraugu. Þetta geta allir, sem til þekkja, borið með mér.

Þykir mér slíkt varla í frásögur færandi, þar sem á Siglufirði eru saman komnar þúsundir sjómanna og annara. Alt bramlið og óbótameiðslin eru uppfundningar stafsins og ýkjur einar, og ekki er það heldur satt að Norðmenn hafi farið allra sinna ferða fyrir mér, því ekki mun hann geta nefnt neitt dæmi þess, að þeir hafi ekki hlýtt eða orðið að hlýða skipunum mínum. Því sem stafkarlinn annars bætir við af hnýfilyrðum í minn garð, álít eg ekki svara vert.

Kr. Linnet.

-----------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 18. júní 1910

2. menn drukna á þilskipinu Hektor.

Fyrir nokkuru síðan vildi það slys til á þilskipinu Hektor frá Siglufirði að tveir menn druknuðu.

Skipið var í hákarlalegu og lá á hákarli. Veður versnaði með stórsjó og var farið að draga upp stjórafærið. Rétt þegar það var komið úr botninum kom sjór yfir skipið. Hásetar sem uppi voru féllu um koll, en náðu sér einhversstaðar í, nema 2, sem sjórinn skolaði út og báðir druknuðu. Flest lauslegt af skipinu skolaðist líka burtu.

Strax þegar hægt var lét formaður höggva á stjórafærið og hleypti til lands. Mennirnir sem druknuðu hétu Sigfús Jóhannsson stýrimaður á skipinu, aldraður maður, sem á uppkomin börn, en hinn hét Einar, ættaður að austan, kendur við Hvanndali.

-----------------------------------------------------------------------------

Óðinn - 1910

6. árgangur 1910-1911, 5. tölublað, Blaðsíða 39

Siglufjörður.

Einn meðal hinna nafnkendustu af smáfjörðunum í kringum ísland er Siglufjörður; áslæðurnar fyrir því eru hinar miklu siglingar, sem fiskiveiðaskip, bæði útlend og innlend, hafa þangað á sumrum, einkanlega síðan Norðmenn fóru að stunda þar síldarveiðar. Fjörðurinn er lítill og fjöllum girtur nema frá hafi, og liggur beint frá norðri inn í skaga þann, sem gengur fram á milli Skagafjarðar að vestan og Eyjafjarðar að austan.

Höfn er þar ágæt fyrir skip að liggja á þegar vond eru veður, enda notuð þá mjög. Inni fyrir miðjum firðinum að vestanverðu gengur fram eyri sú, sem kauptúnið stendur á og mest þeirrar bygðar, sem við fjörðinn er; þar er í kringum 400 manns búselt. En þá mánuði, sem unnið er þar að síldarveiðum á sumrin, frá miðjum júlí til septemberloka, er þar mjög fjölment, svo að t. d. í ágúst munu skrifa sig þar á annað þúsund manns. Er þá líf og fjör í öllu á firðinum, höfnin alselt skipum um helgar, svo að nærri er til hindrunar fyrir sum þeirra að sigla út og inn, því skipalegan er lítil, en þar þá stundum um 200 þilskipa, auk smábáta.

Sjómenn flokka sig þá í landi og ganga til og frá eins og herfylkingar um kaupstaðareyrina og upp um fjarðarhlíðarnar, og sjest þá fólk þinga saman. Kirkjan er troðfull alt kvöldið; þar heldur ræður »klerkur Norðmanna« og ýmsir fleiri; hjálpræðisherinn er í öðru lagi í tjaldi sínu. En þótt báðir þessir staðir hafi sitt fólk, vanta menn ekki á kaffihúsin.

Þar er drukkið kaffi og öl og dansað langt fram á nætur. Það er síst að undra, þótt eigi fari sem best orð af þessu margmenni, því þótt margt sje siðlátt og gott fólk, er hagar sjer eftir lögum guðs og manna, er fjöldi þar saman kominn af fólki, sem virðist af lægsta stigi hvað siðmenningu og kurteisi snertir, landflæmingar sannkallaðir, bæði útlendir og innlendir, lauslátt kvenfólk og draslfengnir sjómenn.

Þegar svo öllu þessu slær saman, er ekki við góðu að búast; eiga ei dansleikarnir, sem þar eru svo mjög tíðkaðir (frá 2 til alt að 10 vikulega)

minstan þátt í því, ekki síst vegna þess, að menn geta drukkið sig fulla, er löngun og efni hafa á því, til að örfa skapsmuni sína til hvers, er hugur þeirra hneigist. Því lítið virðist vínsölubannið koma þar að notum; menn fara í kringum lögin á alla vegu þar, hvað vínveitingar og vínsölu snertir, og lítur helst svo út sem margt fólk þar sje harla tilfinningasnautt fyrir þeim bletti á löghlýðni fjarðarbúa.

Á Sigluíirði eru 9 verslanir að nafninu til, auk brauðbúðar. Ætli slík tala að benda til þess, að fólk gæti fengið sjer flest það, sem nauðsynlegt er til viðurværis sjer, en svo er þó eigi, því þrátt fyrir verslanafjöldann vantar iðulega matvörur og aðrar nauðsynjavörur um hásumarið. Sýnir það forsjálni kaupmanna og verslunarstjóra þar. Vörur eru þar töluvert dýrari en á Akureyri og á sumu nær okurverð, þegar tillit er tekið til þess, hve fjarðarmenn geta með hægu móti allað sjer nauðsynja sinna ódýrari.

Á vetrum leggjast sumar þessar verslanir niður, sem aðallega fást við kaup á fiski og síld og svo verslun við útlendinga á meðan þeir eru þar. Óíslenskara líf en á Siglufirði mun varla á landi voru vera. Hugir fólks og athæli eru bundin nokkurskonar ósjálfstæðis-hlekkjum við norska síldarveiðamenn, og það svo, að einfaldir sjómenn norskir eru oft látnir ganga fyrir landanum í viðskiftum og vinnu að öðru jöfnu. Fólk kannast miklu betur við norsk staða og bæja-nöfn hvaðanæfa en við íslenska firði og sögustaði. Danskar og norskar skáldsögur eru þar mikið lesnar, og mun ekki óvíða meira til af þeim en íslenskum bókum.

Fjelagslíf meðal íslendinga er þar mjög dauft á sumrum, en það vaknar aftur við á vetrum. Good-Templarastúkur eru þar tvær, önnur fyrir fullorðna, hin fyrir börn; leggjast fundir nærri niður um tíma á sumrin, af því fólk þykist þá hafa öðru þarfara að sinna. Á vetrum er aftur meiri kraftur og fjör í starfi templara. Þá hafa og stundum verið leiknir þar sjónleikar og aðrar skemtisamkomur haldnar. Fara þær helst fram í húsi því, sem barnaskólinn og Templarar hafa bygt í sameiningu. —

Enginn efi er á því, að Siglufjörður gæti átt góða framtíð fyrir höndum , eins og fleiri hjeruð hjer á landi. Inni í firðinum er mikið Iand, sem gott er til slægna og grösugt mjög. Jarðeplarækt mætti hafa þar góða og sjávarafli segja menn að bregðist þar eigi árið um kring, þegar hægt sje að stunda hann . En það er oft erfitt, því vetrar eru þar harðir og langir, svo að mikil hyggindi og dugnað þarf til þess að geta fært sjer vel í nyt það, sem land og sjór hefur fram að bjóða.

(Frá sumrinu 1909). Magnús Gíslason.

-----------------------------------------------------------------------------

Norðurland - 6. ágúst 1910

Fréttabréf úr Siglufirði.

Það er orðið langt síðan eg hefi sent Norðurlandi fréttapistil, svo ef því þætti nokkuð í það varið, ætla eg að segja frá hinu og þessu sem skeð hefir á síðasta missiri.

Snjór var hér síðasta vetur með fádæmum, og var ein stórhríðarkviða slitalaust í 6 vikur. Þrátt fyrir algjört jarðleysi frá desemberbyrjun komust allflestir af með hey, nokkuð var samt fengið af töðu úr Fljótum og Dölum, sérstaklega voru það Eyrarbúar hér er þurftu að kaupa hey handa kúm sínum, enda þurft þess hvort sem vetur var harður eða vægur; mistu því engir skepnur sínar sökum heyskorts hér í hreppi, en allmjög bar á skitupest í Dalabæjum og mistu bændur þar talsvert af gemlingum þrátt fyrir nægar heybirgðir. — Frost voru nokkur í janúar, en vanalega var frost vægt mjög í stórhríðarhviðunni, en oft afarhvass og oftast á norðaustan; Hákarlaskip lögðu út 1. apríl og var enginn ís fyrir þeim; samt öfluðu þau lítið framanaf, en vel rættist úr með aflann á endanum, svo aflinn varð miklu betri en tvö undanfarin sumur.

Set eg hér afla hvers skips í tunnum.

»Christiane« 262,

»Njáll« 339,

»Víkingur« 330,

»Latibrúnn« 345,

»Æskan« 373

»Siglnesingur« 330,

»Hektor« 207.

Þetta skip, Hektor var aflahæzt er það hætti hákarlaveiðum, en það var eftir áfallið er það fekk, (og misti út tvo skipverja) »Hektor« hefir gengið til þorskveiða síðan, sömuleiðis hafa »Olivette«, »Olga« og »Orion« öll verið á þorskveiðum, flest frá aprílbyrjun og aflað allvel. Mikil breyting hefir orðið á ráðningarmáta háseta til þorskveiða, bæði á þilskipum og mótorbátum, þar sem hásetar eru nú ráðnir uppá hlut eða hálfdrætti, og leggja sér til mötu að mestu leyti, á móts við það sem áður var, er hásetar höfðu fast mánaðarkaup og premiu af hverjum fiski er þeir drógu, hve smár sem hann var, — enda var hagur margra skipseigenda orðinn svo bágborinn, að til vandræða horfði, — en ef bærilegur afli fæst nú, getur hann lagast með tímanum.

Hér kom ágætisfiskihlaup sem stóð í 10 daga og var þá landburður af stórþorski, og lagaði það fyrir flestum, en svo varð alveg þur sjór, og er ekki enn kominn nema reitingsafli, þó ný hafsíldin sé stykkjuð niður á línuna. Norðmenn allir komnir, er síldarveiði stunda, en hafa aflað lítið enn, helzt í reknet, en herpinótaveiðarar hafa fengið sáralítið. — Sagt er samt að nóg sé af síldinni, stórri og feitri, en undanfarið hefir tíðin verið köld og sjávargangur nokkur og gefur síldin sig þá ekki upp á yfirborðið. Ekki ber enn mikið á óspektum f Norðmönnum; samt varð hinn setti lögreglustjóri, Kr. Linnet, að fara með tvo óróaseggi til Akureyrar (á fangahúsið þar?) _fyrir einhverjar óspektir við skipstjóra sinn. —

Í orði var að hér kæmist upp fangahús, og hefi eg heyrt að landstjórnin hafi veitt eitthvert fé til þess, en svo á hreppurinn og aðrir (með samskotum) að bæta við svo nægilegt verði, en af einhverjum ástæðum hefir ekkert orðið af byggingunni enn. Pólitískir eru Siglfirðingar orðnir dálítið á seinni árum, en það var alþingismaður okkar, St. Stefánsson, er kom rótinu á í vetur og lét oddvita hreppsins boða til fundar, sérstaklega út af bankamálinu svokallaða, og var spurningin sérstaklega um hvort við vildum dubba upp á aukaþing fyrir gæzlustjórana? — Svona skildu sumir fundarboðið.

Var fundurinn haldinn í flýti og mjög mikill hluti hreppsbúa vissi ekkert um hann fyr en alt var afstaðið, — og í sem fæstum orðum varð það ofaná hjá meirihluta fundarins, að aukaþing skyldi halda, og tveir fulltrúar sendir á aðalfundinn á Akureyri. Þá voru litlar upplýsingar komnar í bankamálinu. Fanst mörgum eftirá þetta vera fremur flas en fyrirhyggja; nú er svo komið að meirihluti hreppsbúa hefir mótmælt aukaþingi og lýst ýfir trausti sínu til stjórnarinnar út af bankamálinu og fleiri málum; náðist þó ekki til allra sem þessa skoðun höfðu, því þeir voru á þilskipum, og sem betur fer eru nú blöðin loksins farin að hægja á sér með að troða að íslendingum aukaþingi út af bankamálinu. Í samvinnu- og félagsskaparáttina má telja, að í vetur var stofnað »Verkamannafélag Siglufjarðar« og eru í því nær 100 karlmenn.

Vinna menn fyrir ákveðið kaup eftir »taxta« félagsins og eru daglaunin mishá, eftir því í hvaða mánuði ársins er unnið; félag þetta hefir líka hafið vörupöntun fyrir verkamennina og komist í gott samband við landa vorn, stórkaupmann Jakob Gunnlaugsson, og hefir það gefist vel, það sem af er. Frumkvöðull að félagsskap þessum mun, eftir því sem mér er kunnugt, vera Guðmundur Bíldahl, sem lengi hefir verið á Eyjafirði; er það einarður og frjálslyndur maður, og hefir viljað láta gott af sér leiða í hvívetna stétt sinni til stuðnings. —

Ekki hefir samt verkamannafélagið getað haft áhrif á vinnulaun við síldarverkun útlendinga og færa þeir þó kaupið árlega niður. Fyrir fjórum árum voru gefnir 75 aurar á strokkinn, svo hefir smátt og smátt þokast niður, í fyrra í 40 aura, nú í 35 aura og að ári líklega 30 aura? — Þetta er mest aðkomufólki að kenna, sem verður að vinna fyrir hvað sem er, úr því það er hingað komið á annað borð, en líklegt er að það hægi á sér að þyrpast hingað framvegis. Farið er nú að slá tún hér og eru þau í meðallagi sprottin. —

Heilbrygði yfirleitt og engir nafnkendir dánir.

Siglufirði 2. ágúst 1910. G. S. Th. G.

-------------------------------------------------------------------

Gjallarhorn - 1910

Barkskip norskt strandaði á Siglufirði í síðustu viku „Alfred Gibbs„ frá Christianssand. Það hafði innanborðs 1600 tunnur með síld. Skipverjar björguðust allir og sendir norski konsúllinn hér á Akureyri (O. C. Thorarensen) þá heim til Noregs með Prospero á morgun.

------------------

P. Houland, afgreiðslumaður Wathnesskipa, og frú hans fara utan með „Prospero" og dvelja í Noregi í vetur.

-----------------

Jón Guðmundsson bæjarfógetaritari fór til Siglufjarðar með „Vestra" með fjölskyldu sína. - Hann tekur þar við forstöðu Gránufélagsverzlunar um nýjár.

-----------------

Aðkomumenn í bænum: Sigurður Sigurðsson óðalsbóndi á Húnsstöðum, Helgi Guðmundsson læknir, Helgi Hafliðason kaupmaður' og Páll Halldórsson verzlunarstjóri, frá Siglufirði, Hallgr. Þorbergsson fjárræktarfræðingur.

--------------------------------------------------------------------

 

Gjallarhorn - 1910

--------------------------------------------------------------------

Norðri - 12. nóvember 1910

«Erling» eign etatsráðs Havsteens og H. Söbstads síldarútvegsmanns lá á Siglufirði nú í síðasta garði, sleit upp og rakst á ankeri og kom gat á skipið og sökk það nærri landi. Óvíst að skipið hafist upp þaðan. Sagt að það hafi verið óvátrygt.

Flóra komin til Siglufjarðar. Stórsjór vestur frá og vont að skipa upp. Skipið er orðið langt á eptir áætlun, og getur það orðið mörgum bagalegt, og leitt til þess að vita, þá skip sigla eftir fastri áætlun og tefjast svo lengi mörgum- til stórskaða, en ekki er öðrum skipum, sem eru löngu á eftir áætlun. bót mælandi fyrir þetta, og sízt af öllu þeim skipum sem sigla upp á landsins fé.

--------------------------------------------------------------------

Norðurland - 12. nóvember 1910

Skip sekkur.

Eimskipið Erling, eign þeirra kaupmannanna Söbstad og J. V. Havsteen, hafði sokkið á miðvikudaginn var við bryggju á Siglufirði. Akkerisfluga hafði farið gegn um botninn á skipinu.

Aðrir segja að skipið hafi sokkið inni á Leiru.