Skip, áhöfn og um "300" farþegar (síldarfólk) flutt nauðugt til Bretlands

43. árgangur 1916, 52. tölublað, Blaðsíða 3

Reykjavíkur-annálI.

Flóra tekin. Sú fregn barst hingað í gær frá skipstjóranum á Flóru, að Bretar hefðu tekið skipið og flutt til Lenvick.

Flóra var á leið frá Vestmanneyjum austur og norður um land, er þetta skeði. Hátt á þriðja hundrað farþega var á skipsfjöl, flest á leið til Siglufjarðar í síldarvinnu, og mun þeim eigi hafa þótt þessi »utanför« neitt gleðiefni.

Enn hefir ekkert jafn-óskiljanlegt atferli komið fyrir gagvart oss í þessum ófriði, eins og þessi skiptaka, sem hlýtur að vera sprottin af fljótfærni og misskilningi hins brezka skipstjóra og fullar bætur að koma fyrir.

-------------------------------------------------------------

3. árg., 1915-16, 251. tölublað, Blaðsíða 7

3. árg., 1915-16, 251. tölublað, Blaðsíða 7

Floru-takan.

Það er sizt af öllu að furða, þó það hafi slegið óhug á fólk, er það fréttist að Bretar hefðu lagt hald á Floru og flutt með valdi til Lerwick til rannsóknar.

Menn hafa upp á síðkastið auðvitað átt því að venjast, að póstskip okkar hafi verið flutt til Brezkrar hafnar, til þess að Bretar gætu gaumgæfilega rannsakað skjöl, farm og farþega skipanna, og við það er vitanlega ekkert að athuga, eins og nú er ástatt í heimunum.

Siglingar um heimshöfin eru ekki lengur frjálsar, þar sem Bretaveldi hefur lýst yfir hafnbanni á óvinaland sitt, Þýskalandi, og vill því og þarf að hafa hönd í bagga með því sem gerist á sjónum. Við það er ekkert að athuga, maður verður að taka því með þolinmæði, þó skipin tefjist við rannsóknina og von er um, að betri tímar renni brátt upp.

En málið horfir óneitanlega dálitið öðru vísi við, þegar skip sem annast strandferðir einhvers lands, eru tekin með valdi, er þau eru á ferð hafna á milli, og flutt svo sem 4— 5 daga siglingu suður í höf — til rannsóknar á nokkrum lýsistunnum — en ekkert tillit tekið til aðalfarmsins sem skipið flytur, það er fólksins, sem er á ferð úr einni höfn á landinu til annarar. Þá verður því ekki neitað, að skörin er farin að færast upp í bekkinn helzt til mikið, þá verða ekki lengur varðar þessar skipatökur Breta, hvorki frá réttlætis eða mannúðarinnar sjónarmiði.

Þó maður leiti með logandi ljósi, og maður sé allur af vilja gerður, þá getur maður ekki fundið neitt, sem réttlætir þessa síðustu skipatöku Breta. Maður getur ekki einu sinni fundið henni neitt til afsökunar — ekkert nema ef vera kynni það, að einhverjum einstökum sjóliðsforingja sé um að kenna og það sé ekki gert eftir skipun eða með vilja brezku stjórnarinnar.

En sú afsökun mun þó varla verða talin fullnægjandi. Svo sem alkunnugt er, hefir nýlega verið gerður samningur við Breta um siglingar héðan og hingað og kaup á afurðum vorum. Samningar þessir eiga að tryggja siglingar vorar — og eru okkur í vil að mörgu leyti. Töluverðrar óánægju hefir víða gætt með samninga þessa, þó vitanlega se margt rangt sem sagt hefir verið eða ritað gegn samningnum.

En það er ósköp hætt við því að margir muni líta svo á, að með samningnum sé fremur lítil trygging fengin um siglingar vorar þegar Bretar, undir eins eftir að samningurinn er gerður, gera sig seka i öðru eins atferli og því að taka Floru úr strandferð sinni hér við land með 300 farþega innanborðs. Hvað stoða allir samningar og loforð um að tefja ekki né hrekja skip vor að óþörfu, þegar þeir eru ekki haldnir.

Hvaða þýðingu hefir það, þó hér komi brezkt herskip með danska fánann (!) við hún og skjóti 19—21 fallbyssuskotum í kurteisisskyni, þegar ef til vill sama herskipið — eða þá eitthvert annað sömu þjóðar — sýnir oss slíkan hrottaskap og ókurteisi, sem raun ber vitni með Florutökuna. Ekkert, öldungis ekkert.

Og það er hart, verðum vér að segja, ef það ekki framar er unt að ferðast t. d. á Flóabátnum Ingólfi hér upp á Akranes án þess að hafa það á hættunni að verða fluttur af erlendu herskipi eitthvað langt suður í höf. Því að það er engin ástæða til þess að ætla það, að það herskip mundi taka nokkurt tillit til þess að Ingólfur væri innan íslenzkrar landhelgi, ef sjóliðsforinginn á annað borð ætlaði sér að taka skipið.

Farþegar á Floru munu hafa verið um 300 talsins eða því sem næst. Var það flest verkafólk á leið til Norðurlands í síldarvinnu, og má geta nærri hvern aðbúnað það hefir haft i lestinni á Floru á þeirri löngu leið suður Atlanzhaf til Lerwick. — Það er alveg óskiljanlegt, að ekkert tillit skuli hafa verið tekið til þessa.

Hefði t. d. verið innan handar fyrir brezka herskipið að skipa Floru og fara með til einhverrar hafnar á Austurlandi og skilja farþegana eftir þar, en halda síðan til Lerwick beina leið. Hefði það óneitanlega verið betra fyrir fólkið, svo vér ekki minnumst á, hve miklu mannúðlegra það hefði verið.

En réttlaust var það auðvitað jafnt eftir sem áður, þar sem skipið var í strandferð, og skipstjóri þess hafði gefið skuldbindingu um að koma við í brezkri höfn á leið til átlanda, sem hann vitanlega og mundi hafa haldið. — Auk þess hve framúrskarandi ómannúðleg skipataka þessi er, hefir hún og í för með sér mikið fjárhagslegt tjón, sem erfitt er að meta að svo stöddu.

Kemur það niður á versta stað, því langflestir farþeganna er bláfátækt verkafólk. Það kemst ekki á réttum tíma til vinnunnar og bíður og tjón við það. Vinnuveitendur bíða tjón við það að vera án fólksins um óákveðinn tíma, því ekki er gott að vita hvenær fólkið kemst til Siglufjarðar. Síldveiði getur þá verið löngu byrjuð. Og eitt enn. Í siglingalögunum mun það vera ákveðið, hversu marga farþega skip á stærð við Floru má flytja landa í milli. —

Skipin eru skyldug til þess að hafa bátsrúm fyrir hvern farþega og skipverja sem innanborðs er. En það er svo langt frá því, að Flora hafi haft nógu marga báta handa öllum þessum sæg, sem þar var.

Hvernig hefði farið, ef skipinu hefði hlekst eitthvað á, sem alténd getur komið fyrir? Tveir þriðju hlutar farþega hefðu áreiðanlega farist af því bátarnir gátu ekki borið alla. Það var því og frá þessu sjónarsmiði ekki lítill ábyrgðarhluti að senda Floru með valdi suður Atlanzhaf.

Vafalaust lætur landsstjórnin eitthvað til sín taka í máli þessu. Hún verður að mótmæla þessu kröftuglega og koma í veg fyrir að slíkt geti komið fyrir aftur. Fólkið á heimtingu á fullum skaðabótum fyrir töfina og hrakningana. Þá er og óskandi að brezki ræðismaðurinn hér geri sitt ítrasta til þess að koma í veg fyrir að strandferðaskip vor séu áreitt af brezkum sjóliðsforingjum meðan þau eru á ferð milli hafna.

Morgunbl. hefir sannfrétt, að ráðherra hafi mótmælt þessu tiltæki Breta fyrir hönd Íslendinga bæði í gegn um danska utanríkisráðuneytið í Kaupmannahöfn og í símskeyti til Björns Sigurðssonar verzlunarfulltrúa íslands í Englandi.

--------------------------------------------------------------

6. árgangur 1916, 192. tölublað, Blaðsíða 4

Hver borgar? —o—

Þannig spyr margur þessa dagana þegar rætt er um meðferðina á Flóru. — Alur þorri þess fólks, sem fór með Flóru héðan til Siglufjarðar og Akureyrar var fátækt verkafólk einkum kvenfólk er hafði með sér nesti til þriggja eða fjögra daga en litla eða enga peninga. Það bjó um sig á 3. farrými og í lestinni, og hafði sumt lítil eða engin rúmföt. Vér, sem sáum það fólk vera að búa um sig hér á höfninni er skipið var að fara, vorkendum því að þurfa að sætta sig við slíkar vistarverur fáeina daga. — Andrúmsloftið var þegar orðið alveg óviðunanlegt á 3. farrými, og var þó enginn orðinn sjóveikur þá. Vér, sem heima sitjum í notalegum húsakynnum, getum víst varla gert oss í hugarlund hvernig þessar vistarverur á Flóru hafa orðið á leiðinni til Leirvíkur, má mikið vera ef enginn farþeginn hefir aðra veiki en sjóveikina upp úr þessari „utanför." En svo bætist við atvinnutjónið og fæðispeningar, sem enginn veit enn með vissu hvað mikið verður. — Það er verið að tala um að Flóra muni fara til Bergen til að sækja farm áður en hún kemur aftur með fólkið, — en þó svo verði ekki, er víst óhæft að fullyrða að meir en helmingur allra farþeganna með Flóru var ekki svo útbúinn með peninga að hann geti borgað þegar í stað og Flóra kemur til Norðurlands 40—80 kr. í fæðispeninga. En sjálfsagt má búast við að beinn aukakostnaður verði svo mikill eða meiri hjá hverjum farþega fyrir þessa Englandsferð. Og mér er spurn: Hver á þá að borga? — Eg býst við að allir séu sammála um að stjórn Bretaveldis eigi að borga allan kostnað farþeganna bæði fæðið og atvinnutjónið, og ef hún skorast undan því, þá verði langt þangað til að Íslendingar fáist til að kalla hana „verndara smáþjóðanna." Þótt hún kunni að gera það, þá tekur það sjálfsagt Iangan tíma og miklar bréfaskriftir, en fæðispeningar þurfa að vera fyrir hendi þegar fólkið kemst loks úr þessum hrakningum, — vonandi verða menn ekki látnir svelta í skipinu þótt féð vanti þar í svipinn. Því hefir verið varpað fram að landstjórnin myndi hlaupa undir bagga í svipinn til að „leysa fólkið út," en setji svo samsvarandi hluta kaupsins fast hjá vinnuveitendum til endurgjalds, og ef það yrði ekki nóg og ekkert endurgjald kæmi frá Bretum, þá yrði viðkomandi sveitarsjóðir að borga. Eg veit ekki hvað öðrum kann að finnast, — en mér finst það óhafandi. Er ekki nægilegt ólánið, að verða fyrir þessum hrakningum, liggja hálfan mánuð, eða hver veit hvað lengi, í óhæfilegum vistarverum í skipinu og missa atvinnu allan þann tíma — þótt ekki bætist þar við að svo eða svo margt farþega missi mannréttindi sín og fari á sveitina þegar þeir loks komast heim. Væntanlega verða komnar nánari fregnir af Floru, þegar þessar lnur koma til almennings og vonandi er að Bretar sjái svo sóma sinn að þeir »afgreiði« Flóru fljótlega eða sendi skip með farþegana hingað til Iands, og skal því ekki minst verulega á það, sem margur skrafar, að Eimskipafélag íslands ætli að sýna það drenglyndi að senda Gullfoss eftir fólkinu. — En að því er beinan aukakostnað farþeganna snertir verður líklega ekki óþarft að leggja það til að landstjórn vor greiði hann að öllu leyti fyrir alla í bráðina og krefji síðan Bretastjórn um hann. Það er ekki hætt við að það drengskaparbragð yrði neinum ráðherra að falli við kosningar né á alþingi. Enda sjá allir að landstjórnin stendur miklu betur að vígi að fá endurgjaldið hjá Bretum en umkomulitlir einstaklingar. Sé það ófáanlegt, verður að hefja almenn samskot til að borga þann ferðakostnað fátæka fólksins, sem á skipinu er, og útvega þegar í stað peninga á Siglufirði og Akureyri til að borga fyrir það þegar skipið kemur þangað. Eg ætla ekki að fara að skrifa hér um þá gremju sem þessi skiptaka hefir valdið vor ámeðal, enda mega smælingjarnir fátt segja á þessum tímum, þegar hnefaréttur og hervald sitja I öndvegi alþjóða. S. G.

-----------------

Flóra. Sú frétt er komin af Flóru í símskeyti frá Birni Sigurðssyni bankastjóra, að hún muni bráðlega verða látin laus, en þess ekki getið hvort nokkuð verði úr henni tekið. Frá Lerwick á skipið að fara beint til Noregs. Hefir verið reynt að fá það til að flytja farþegana fyrst til Íslands, en við það var ekki komandi. Tilraun hefir verið gerð til þess að fá Breta til að senda skip með farþegana til íslands, en svar er ókomið. Skaðabóta fyrir farþegana ætlar landsstjórnin að krefjast af Bretum, og hefir falið Birni Sigurðssyni að hefja máls á því við stjórnina.

--------------------------------------------------------------

43. árgangur 1916, 53. tölublað, Blaðsíða 2

Brottnám Flóru.

Ekki verður mönnum um annað tíðræddara sem stendur, en brottnám Flóru um daginn hér við strendur íslands og hrakninginn, sem hinum mörgu farþegum hefir þar með verið bakaður, þeim til tjóns, sennilega bæði á heilsu og fjárhag, og stórfelds óhagræðis á alla lund. Það tiltæki hins brezka liðsforingja þykir, sem eðlilegt er, óverjandi frá hverju sjónarmiði sem skoðað er, og ekki sízt nú, svona, rétt ofan í gert samkomulag milli hinnar íslenzku stjórnar og brezku stjórnarinnar, þar sem því er heitið af brezkri hálfu að greiða sem bezt fyrir skipum, sem til eða frá íslandi sigla. Um sjálft brottnámið tjáir eigi lengur að fást, það verður ekki aftur tekið.

Nú veltur á því, að vel sé fylgt eftir af hlutaðeigandi stjórnarvalda hálfu, að veslings hraknings-fólkið á Flóru komist sem fyrst leiðar sinnar og verði bætt svo, sem auðið er, tafir og tjón, sem það ófyrirsynju hefir fyrir orðið. Það mun nú óhætt að fullyrða, að landsstjórn vor hefir gert alt,,sem í hennar valdi hefir staðið hingað til, til þess að stytta Flóru-farþegunum þeirra ströngu útivist, þótt eigi hafi mikinn árangur borið enn.

Stjórnin símaði þegar til Björgvinjarfélagsins um að láta Flóru fara beint frá Lerwick til Siglufjarðar, en félagið neitaði. Og eftir símfregnum frá sendimanni Íslands í Lundúnum, herra Birni Sigurðssyni — mun Flóra þegar losnuð úr Leirvíkurvistinni og komin til Bergen. Þaðan hefir Björgvinjarfélagið símað afgreiðslumanni sínum hér, hr. Nic. Bjarnason, að skipið muni tilbúið til íslandsfarar kringum þ. 24. júlí.

Vikuvist óvænta hafa því Flórufarþegarnir í Noregi, sem ætti að geta orðið þeim hvíld eftir sjóvolkið, ef eigi eru alveg skotsilfurslausir. Að vorum dómi mundi landsstjórn vor vítalaus, þótt hún ábyrgðist kostnaðinn allan við hina nauðugu utanför farþeganna — upp á væntanlegar sárabætur frá brezku stjórninni. En fyrir því má með engu móti ráð gera, að þær komi eigi í fullum mæli — eins og alt er í pottinn búið. Ef stórþjóðarskip heiði hér átt hlut að máli, mundi hver ófriðarþjóðin sem var, flýtt sér að bæta fyrir. En til Breta, »verndara smáþjóðanna« má eigi, að : óreyndu, beina þeim tilgátum, að þeir láti á sér standa um þetta, þótt smáþjóð eigi í hlut. Það yrði saga til næsta bæjar í blöðum veraldarinnar, því að svo er vaxin þessi Flóru-taka, að mikla athygli hlýtur að vekja víðsvegar um heim.

3. árg., 1915-16, 256. tölublað, Blaðsíða 1

Flóru-takan.

Stjórnarráðinu barst í gær svo hljóðandi símskeyti frá Birni Sigurðssyni, sent frá London, viðvíkjandi »Flóra«:

»Niðurstaðan hefir orðið sú, að skipstjórinn hefir neitað að sigla aftur með farþegana til Íslands. Flóru efir verið skipað að fara með farþegana til Leith og setja þar í land farminn. Yfirvöldin hafa gert ráð stanir til að gera farþegunum mögulegt að halda ferðinni áfram frá Leith til Íslands við fyrsta tækifæri«.

Það er þá engum vafa undirorpið að brezka stjórnin hefir Iagt hald á allar vörurnar, sem Flóra hafði meðferðis. Svo sem venja er, hefir þeom vörum ekki verið skipað á land í Letwich, því þar kváðu engin tæki vera til þess, heldur hefir skipið verið flutt til Leith til þess að afferma þar,

Samkvæmt upplýsingum, sem vér höfum aflað oss um farminn, hafði Flóra

meðferðis samtals um 360 smálestir af lýsi, fiski og gotu. Hefir brezka stjórnin ekki viljað hleypa þeim vörum til Noregs, því hætt er á að einhver hluti þeirra að minsta kosti mundi hafa lent hjá Þjóðverjum.

Eins og ástatt er, er ekkert við það að athuga , þó þeir láti afferma allar þar sem þeir fyrirfram hafa lýst algeru hafnbanni á Þýzkalandi.

Síðari hluti símskeytis Björns Sigurðssonar virðist vera nokkuð óljós.

Það verður ekki séð á skeytinu hvort Bretar ætli að senda skip með fólkið til Íslands eða hvort fólkið verður að bíða póstskipsferðar frá Leith hingað. Það virðist í fljótu bragði vera harla lítil huggun í þvi, þó »brezku yfirvöldin hafi gert ráðstafanir til að gera farþegunum mögulegt að halda ferðinni áfram frá Leith

Það er orðað eins og það hefði mátt búast við því, að farþegarnir ættu ekki afturkvæmt frá Bretlandi fyr en að ófriðnum loknum. Ísland mun vera fyrsta skipið sem hingað kemur frá Leith. Fer það skip væntanlega frá Kaupmannahöfn í dag. Má því ef til vill búast við fólkinu hingað á því skipi. En þá verður að koma því til Siglufjarðar. Það getur dregist, því fátt er um skip hér núna. Úr því sem komið er, verður eigi annað séð en að fjártjón fólksins verði enn meira, en búist var við í fyrstu.

---------------------------------------------------------

3. árg., 1915-16, 257. tölublað, Blaðsíða 1

Farþegarnir á Floru.

Er það nú vist að Flórufarþegarnir mundu allir óska að fara beint til Siglufjarðar, þótt þeir ættu kost á því?

Kom ekki frétt um það fyrir skömmu að útlit fyrir vinnu á Siglufirði fyrir allan fólksfjöldann, sem þangað leitar, væri dauft vegna þess að Norðmenn kæmu þangað færri en vant er?

Og koma ekki stöðugt fregnir um skort á fólki til kaupavinnu i sveitum? —

Hvað sem um þetta er, þá þarf að rannsaka þetta mál af hálfu opinberra stjórnarvalda og vita um það vissu sína, til þess að leiðbeina eftir því fólkinu, sem nú stendur án allra sambanda í þessu efni. Hver veit nema margir mundu nú sjá sig um hönd, sem óráðnir kunna að vera, ef þeir vissu um ástæður.

Og hver veit líka hvað margir ætluðu i land á Siglufirði en ekki á Austfjörðum? Líklegt er að margir hafi ætlað austar en á Siglufjörð, og svo mikið er víst, að ef nú er kominn meiri en nógur mannafli þangað norður, þá gæti Austurland veitt farþegunum á Flóru næga vinnu í sumar. Eflaust athugar stjórnin þessa málavöxtu og ræður fram úr öllu á heppilegan hátt.

------------------------------------------------------

2. árgangur 1916, 28. tölublað, Blaðsíða 94

Herleiðing „Flóru", Í fyrri viku lagði »Flóra« af stað sunnan um land til Siglufjarðar með eitthvað um 300 manns, og mun mest af því hafa verið kvenfólk. Fyrir sunnan land tók hana brezkt herskip og fór með hana til Lerwich. Bjuggust nú flestir við að »Flóru« yrði strax slept, og að hún mundi þegar halda með fólkið til Siglufjarðar — það var búið að verða fyrir nógum hrakningi samt. En" reyndin hefir orðið önnur. Þegar þetta er skrifað (föstudagskvöld) er enn ókomin frétt um það hvenær fólkið muni komast heim, eða yfirleitt.hvernig því líði. Aftur er komin frétt um að »Flóra« fari beint frá Englandi til Noregs, og að fólkið verði eftir í Englandi. Það er auðséð á öllu að mjög ræfilslega hefir verið gengið fram frá landsstjórnarinnar hálfu í því að fá leiðréttingu á þessari dómadags-heimsku og ótvíræðum yfirgangi Englendinga, að taka skip, sem er fullt af farþegum, og er að fara milli hafna hér á landi.

Ef ráðherrann ekki kom sér að því að heimta, að »Flóra« yrði strax látin laus, og látin fara þegar heim með farþegana, þá átti hann að sjá um að krafan kæmi til brezku stjórnarinnar gegnum utanríkisráðaneytið danska. Til hvers höfum við Dani, ef ekki til þess að geta haft gagn af þeim, þegar á stendur eins og hér ? Enda verður ekki annað sagt en að Danir hafi reynst okkur vel, undir svipuðum kringumstæðum. Þeir komu því t. d. til leiðar, að Englendingar hættu að taka póst, sem til íslands átti að fara. Fyrir Englendinga er þessi »sigur« hin mesta hneisa, því hann sýnir vel hve mikið fum er á siglinga-eftirliti þeirra, því enski ræðismaðurinn herra Cable, hafði búið út skjal fyrir skipstjórann á »Flóru«, sem átti að nægja að sýna, til þess »Flóra« yrði ekki herleidd til Englands, en hreif þá álíka vel og grallarablaðið sem sett var við kolbrandinn. Vafalaust hefir hr. Cable, sóma síns vegna, gert það sem hann gat til þess að fá óréttinn lagaðan, og sýnir því þetta dæmi að gagnað okkur getur hann ekki.

Ráðherrann verður nú strax að fleygja frá sér allri feimni, og gera gangskör að því að fólkið verði flutt heim, og að því geti liðið þolanlega þá daga, sem það á eftir ódvalda í herleiðingunni. Eins og það er heimskulegt af íslenzkum vinum Þjóðverja, að láta þetta verða til þess að hella skömmum yfir Englendinga, eins heimskulegt er það af hérlendum vinum Englendinga, að vilja þola þeim alt. Heimsstyrjöldin er okkur íslendingum óviðkomandi, við erum hlutlausir. Þegar Englendingar gera upptækar vörur okkar eða neyða okkur til þess að selja þær fyrir mikið minna verð en við getum fengið annarsstaðar, þá þegjum við við því, af því að við getum ekki annað. En þó við þegjum við því sem Englendingar gera í nafni þess góða málstaðar, sem þeir segjast vera að berjast fyrir, þá þegjum við ekki yfir þeim órétti, sem þeir gera fyrir heimsku eða »malkonduite« einstakra sinna manna. Það væri ræfilsskapur og ómenska !

------------------------------------------------------

6. árgangur 1916, 201. tölublað, Blaðsíða 1

Goðafoss er í Leith.

Ráðgert að hann fari þaðan í dag. Stjórn Eimskipafél. hefir lagt fyrir skipstjóra að flytja farþegana af Flóru heim, beint til Seyðisfjarðar, en óákveðið hvort skipið fer þaðan eftir áætlun eða beint til Siglufjarðar og Eyjafjarðar með fólkið fyrst.

------------------------------------------------------

2. árgangur 1916, 29. tölublað, Blaðsíða 96

Flóra.

Farþegarnir með Flóru fara með Goðafoss til Siglufjarðar. Ekki hefir en frézt um, hvaða skaðabætur brezka stjórnin ætlar að borga þessu fólki.

-----------------------------------------------------

3. árg., 1915-16, 266. tölublað, Blaðsíða 1

Flóufarþegarnir komnir.

Svo sem kunnugt er, tók Goðafoss farþegana sem fluttir voru á til Leith, og fluttu þá áleiðis til Íslands

Í fyrrakvöld kom skipið til Seyðisfjarðar og stigu allir farþegar þar í land, 104 talsins.

Er ætlunin að þeir bíði þar meðan Guðafoss fer á suðurhafnir Austfjarða, en haldi svo áfram með skipinu áleiðis til Siglufjarðar. Samkvæmt fregnum sem Nielsen framkvæmdastjóri Eimskipafélagsins hefur fengið frá skipstjóranum, var búið um farþegana í sérstöku húsi á þilfarinu. Brezku yfirvöldin létu og skipstjóra fá fleka til notkunar ef skipinu hlektist eitthvað á, því báta hefir Goðafoss auðvitað ekki fyrir allan þann sæg, sem innanborðs var.

Neitaði skipstjóri að flytja farþegana nema hann fengi fullnægjandi björgunartæki meðferðis. Ekki vissi Júlíus skipstjóri neitt hvernig gengi með skaðabótakröfuna. En honum var kunnugt um, að brezka stjórnin vildi borga flutningsgjald og fæði fyrir fólkið frá Leith til fyrstu hafnar á íslandi, þ. e. Seyðisfjarðar. Verður það víst að skiljast svo, að Bretar borgi ekki ferð fólksins frá Seyðisfirði til Siglufjarðar — og er leitt til þess að vita. Það er þó vonandi að landstjórnin haldi fast fram skaðabótakröfunni— því fólkið verður að fá fullar bætur.

Á leiðinni tilíslands, var Goðafoss stöðvaður af brezkum vopnuðum botnvörpung. Skaut hann fyrst tveim skotum, öðru fyrir framan, hinu fyrir aftan Goðafoss. Voru skjöl skipsins rannsökuð. Yfirmaður botnvörpungsins tjáði Júlíusi skipstjóra, að hann hefði stöðvað Gullfoss, sent þangað vopnaða menn til þess að flytja hann til Lerwick. Má það heita undarleg ráðstöfun, þar sem Gullfoss kemur ætíð við í Leith, og ætti þess vegna ekki að þurfa að tefjast við það að koma við í Lerwick. Brezki yfirmaðurinn kvað brezku stjórnina enga sönnun hafa fyrir því, að skipið mundi koma við í Leith — og þess vegna hafi hann sent skipið til Lerwick. Gullfoss hafði vitanlega öll sín skjöl í beztu reglu.

---------------------

Síldarfólkið í Leith.

Þegar Ísland (ath, sk: skipið; Ísland) kom til Leith, tóku farþegar eftir því, að dans og gleðskapur var á hafnarbryggjunni skamt þar frá, sem Flóra lá. Var það kvenfólk í peysufötum með græn og rauð slifsi og svuntur. Þótti þeim þetta harla einkennilegt, að sjá landana stiga dansinn þarna eftir harmonikutónum. Umhverfis hópinn stóðu hermenn á verði og urðu Íslandsfarþegarnir enn forvitnari fyrir þá sök. Þeir frjettu síðar um örlög síldarfólksins, sem var á leið til Siglufjarðar, en var nú þangað komið. Til þess að stytta því stundir í Leith áður Goðafoss færi, höfðu yfirvöldin leyft þeim að stíga dans á bryggjunni — og má geta nærri að þar hefir verið glatt á hjall

3. árg., 1915-16, 274. tölublað, Blaðsíða 1

Síldarfólkið í Leith.

Með þessari fyrirsögn flutti Morgunblaðið 31. f. m. dálitla sögu eftir farþegum af Íslandi, um síldarfólkið, og er þar látið eigi all-lítið yfir gleðilátum þess og dansi á hafnarbryggjunni. Þess er og getið, að vörður hafi verið settur af hermönnum »kringum hópinn. Væri þetta lítill heiður fyrir landa vora ef satt væri, en sem -betur fer er það alt ósatt!

Vér, sem einnig vorum farþegar á Íslandi og sáum landa vora á Flóru einna fyrstir, sáum þá aldrei »stíga dans á bryggjunni«, og aldrei heyrðum vér neina »harmónikutóna« úr þeirri átt. — Þá heyrðum vér að eins frá dönsku flutningaskipi, er lá við festar úti á höfninni. Ekki sáum vér heldur neina herflokka á verði kring um landa vora á Flóru.

Þess mun ekki hafa verið nein þörf. Vér sáum ekki neinn óskapa gleðibrag á þeim; virtist oss miklu fremur sem a I v a r a hvíldi yfir látbragði þeirra og hreyfingum, og gat oss ekki annað en flogið i hug vísuorð skáldsins góða (H. H.): Þið vesalings, vesalings fangar, eg veit hversu sárt ykkur langar. Það þóttumst vér mega lesa út úr þeim — þótt langt væri milli skipanna — að heitasta þráin margra þeirra væri sú, að mega fljúga heim — heim.

Ef að þeir farþegar af Íslandi, er fluttu Morgunblaðinu þetta ósannindaþvaður, hafa hugsað, að þeir gerðu hinum herteknu löndum sínum heiður eða greiða með því, þá er það mesti misskilningur, og eiga þeir aðeins óþökk skilið fyrir masið. Er það jafnan illa gert og ómannlegt að bera út óhróður um bræður sína og systur, að ósekju. Væri það vel að Morgunblaðið segði nöfn þeirra, er báru því söguna, svo að þeir þektust betur síðar.

Akranesi 4. ágúst 1916. Bjarni Ólafsson, Sumarliði Halldórsson.

(Morgunblaðið skal láta farþegana á Íslandi bítast um það hvað rétt sé í þessu. Var eigi sagan fyrst sögð Flóru-farþegunum til neinnar niðrunar, því að eigi mun það ósæmilegra að dansa á bryggju í Leith heldur en í síldarskúrum norður á Siglufirði, og er það þó oft gert).

-----------------------------------------------------

3. árg., 1915-16, 267. tölublað, Blaðsíða 1

Ferðalag Flóru til Leith, Frásögn landlæknis. Seyðisfirði 31. júlí.

Landlæknir Guðmundur Björnson hélt hér fyrirlestur í gærkvöldi um ferð Flóru til Leith.

Troðfult hús áheyrenda, sem hlustuðu með mikilli athygli á ræðumann. Það var vopnaður botnvörpungur, sem stöðvaði Flóru hér fyrir sunnan land, símaði hann með loftskeytum til stærra varðskips, sem var nokkru sunnar í Atlantshafinu, en það skip sendi þegar loftskeyti til yfirvaldanna i London um tökuna.

Var skipstjóra á Flóru fyrst skipað að halda beint til Lerwick. Kvað skipstjóri sig vanta bæði kol og matvæli til þeirrar ferðar, þar sem hann hefði meðferðis nokkuð yfir 100 farþega. Yfirmaður varðskipsins gaf þá samþykki sitt til þess að Flóra héldi fyrst til Seyðisfjarðar og skilaði farþegum á land þar. En skömmu síðar kom ný skipun — líklega frá brezku yfirvöldunum — um að rannsaka skyldi kola- og matvælabirgðir, sem í skipinu væru. Leiddi rannsóknin í ljós að birgðirnar væru nægar til ferðarinnar suður til Lerwick, þá skyldi þegar í stað vera haldið þangað.

Rannsóknin stóð yfir í 12 klukkustundir og skipstjóra var skipað að halda til Leiwick. Tveim dögum eftir að Fióra kom til Lerwick, leyfðu yfirvöldir brezku skipstjóra að halda aftur til íslands. Til þeirrar farar áleit skipstjóri sig vanta leyfi gufuskipafélagsins. Var símað eftir því, en það drógst að fá svar, og á meðan var löghaldi lýst á farmi skipsins, og það flutt til Leith til affermingar. —

Landlæknir kvaðst hafa fengið ótakmarkað landgönguleyfi hjá yfirvöldunum, frá kl. 9 að morgni til kl. 9 að kvöldi á hverjum degi. Kvaðst hann hafa átt tal við marga um tökuna og allir hafi þeir talið hana vera af misgáningi, enda hefði brezka stjórnin og viðurkent það með því að greiða fargjöld og fæði fyrir alla farþegana á Goðafossi til Seyðisfjarðar. Áleit hann mjög sennlegt, að Bretastjórn mundi og greiða verkafólkinu fullar skaðabætur á sínum tíma.

Landlæknir rómar lítt framkvæmdir dönsku ræðismannanna í Bretlandi og dönsku stjórnarvaldanna. Farþegum leið vel bæði á Flóru og Goðafossi. Til dægrastyttingar var stofnað »dagblað« um borð Var það nefnt »Ferðalangur« og komu út 16 tölublöð. Þá var söngur og dans um borð og yfir höfuð gleðskapur mikill. Goðafoss fékk lánuð björgunartæki hjá flotamálastjórninni brezku og undanþágu yfirvaldanna frá farþegatölu, sem skipinu er leyfilegt að flytja.

Það þurfti eiginlega einnig undanþáguleyfi frá danska farþegaskírteini skipsins, sem gefið er útaf lögreglustjóra Kaupmannahafnar. En það var ekki tími til þess að bíða eftir því, svo skipstjóri sigldi á eigin abyrgð. Erindi landlæknis var mjög skemtilegt og gerðu áheyrendur hinn bezta róm að því. Fólkið bíður hér alt þangað til Goðafoss kemur frá suðurhöfnunum og heldur þá áfram með skipinu til Akureyrar og Siglufjarðar.

------------------------------------------------

3. árg., 1915-16, 279. tölublað, Blaðsíða 5

Flórutakan.

Fyrirlestur Guðmundar landlæknis Björnson á Seyðisfirði.

Lagt var á stað frá Reykjavik laugardag 8. júlí, komið við í Vestmeyjum og farið þaðan daginn eftir og var ferðinni heitið austanlands til Siglufjarðar. Þaðan ætlaði flóra austur um og síðan til útlanda. Skipið hafði meðferðis talsvert af lýsi, en áður en farið var frá Rvík. hafði skipstjóri gefið konsúl Breta skriflega skuldbindingu um að koma við í Englandi á útleiðinni og að öðru leyti voru skipsskjöl i lagi.

— Kl. 10 að kvöldi hins 9. júlí var skipið stöðvað af vopnuðum enskum trollara, sem skipaði því að halda til Englands. — Skipstjórinn á Flóru neitaði harðlega, bar fyrir sig skuldbindinguna um að koma þar við á leiðinni til Noregs, að sig mundi bresta kol til ferðarinnar og vistir handa svo mörgum farþegum. Skiftist þá trollarinn á loftskeytum við brezku herstjórnina og var um tíma í ráði að farið yrði með farþegana til Seyðisfjarðar en síðan héldi Flóra beint til Leith. Áður en þetta yrði fekk trollaraforinginn skipun um að rannsaka kola- og matarbirgðir Flóru, farþegafjölda o. s. frv.

— Farþegarnir töldust þá 114 (síðar kom i ljós að þeir voru aðeins 113) og var skipið álitið nægilega vistað handa þeim og kol næg einnig. Að svo komnu var Flóru skipað að halda beint til Lerwick, og var haldið á stað um hádegi hins 10. júlí. Enskur fyrirliði og 3 hermenn aðrir voru með Flóru á leiðinni.

Höfðu þeir með sér hvítmálað kvartil með dynamit í, til þess að geta sprengt Flóru í loft upp ef lenti í óvinahöndum, er slíkt venja undir svona kringumstæðum, en áður slíkar sprengingar séu gerðar er fólki bjargað í báta, sé þess kostur. Ferðin til Lervick gekk vel Veður gott en dálítil þoka. Farþega skorti eigi mat og lét skipstjóri, svo og öll skipshöfnin sér mjög ant um farþegana og gerði þeim vistina þægilega eftir föngum. Til Lervick kom Flóra 13. júlí á hádegi. —

Símaði landlæknir þá bæði til íslenzku stjórnarinnar og sendiherra hennar í London, Björns Sigurðssonar, og lét vita hvernig komið var. Einnig var símað til sendiherra Dana í London og hann beðinn að gera gangskör að því að farþegarnir herteknu kæmust sem fyrst heim aftur til Siglufjarðar.

Sendiherrann gerði þá fyrirspurn um hvort fólkið vildi komast til Siglufjarðar á Íslandi eða Siglufjarðar í Noregi. Var honum skýrt frá að fólkið vildi heldur komast til Siglufjarðar á Íslandi. Tveim dögum eftir að sendiherrann hafði fengið þessar nauðsynlegu upplýsingar gerði hann fyrirspurn um það hvort farþegarnir á Flóru hefðu fengið eitthvað að borða!

---- Jú, honum var svarað að ekki skorti mat — og síðan hafa Flóru-farþegarnir ekki heyrt neitt frá sendiherra Dana í London. Þegar Flóra var komin til Leirwick og enska stjórnin hafði fengið nákvæma vitneskju um það, hvernig högum var háttað, duldist hún þess ekki að skipið hafði verið tekið í fljótræði og af misskilningi og gaf Flóru Ieyfi til að sigla aftur til íslands 2 dögum síðar, eða 15. júlí, og hefði þá strax verið haldið heimleiðis ef skipstjórinn ekki hefði verið að bíða eftir símskeyti frá Bergenska félaginu.

---- Hann símaði því á hverjum degi og spurði hvað gera skyldi, en svar kom ekki fyr en loks 19. júlí, og þá þess efnis að skipið mætti fara til íslands aftur með farþegana.

En því miður kom skeyti þetta of seint, því þá var enska stjóruin búin að leggja löghald á skipið og ákveða að fara með það til annarar enskrar hafnar til affermingar. Stjórninni hafði þótt Bergenska óþarflega lengi að ákvarða sig. — Því næst var Flóru skipað að halda til Leith og skipa þar upp farminum.

---- Á meðan skipið lá í Lerwick gáfu farþegar út dagblað er kallað var »Ferðalangur«. (Var landlæknir aðalritstjórinn, en meðritstjórar ungfrú Hólmfríður Arnadóttir kenslukona og frú Guðrún Björnsdóttir frá Kornsá og rituðu þau nærri alt í blaðið). Varð farþegum hin bezta skemtun að blaðinu og auk þess stofnuðu þeir söngfélag með sér og sungu, dönsuðu o. s. frv.

---- Hjaltlendingar komu oft á bátum að skipinu til þess að sjá íslendingana, fornfrændur sína. Þeir eru eins og íslendingar af norrænu bergi brotnir að miklu leyti, og þeim svipaðir og fljótir til að samþýðast. Hið sama gildir að nokkru leyti um Skota. Til Leith kom Flóra 21. júlí um hádegi. Sneri landlæknir sér þá þegar bréflega til danska konsúlsins þar,. skýrði honum frá öllum málavöxtum í þeirri von að hann tækist á hendur að greiða úr vandræðum farþeganna. Með bréfinu lét hann fylgja símskeyti til konu sinnar er hann bað konsúlinn að annast um sendingu á.

---- Að tveim dögum liðnum kom konsúllinn til skips og tjáði landlækni að hann hefði þá fyrst fengið bréf hans. Konsúllinn taldi mál Flórufarþeganna mjög erfitt viðureignar og lét á sér heyra, að hann treysti sér ekki að ráða fram úr vandræðunum. Afhenti hann landlækni símskeytið og taldi vafasamt að það fengi að fara í gegnum símann, eftirlitið væri svo strangt. Í skeytinu stóð ekkert annað en »Vellíðan — kveðjur«, tók landlæknir við því og sendi sjálfur. Kvaddi hann síðan konsúlinn og þakkaði honum umhyggjuna.

---- Eru hér með talin afrek Dana í þessu vandamáli. Meðan á þessu stóð hafði sendiherra íslendinga í London, Bj. Sig., útvegað landlækni landgönguleyfi i Leith. Hafði enska stjórnin fúslega gefið landlækni vegabréf eftir að henni var kunnugt orðið hvaða »manneskja« hann var, er heimilaði honum að vera í landi í Leith (og Edinburgh) frá 9—9 daglega. Stóð nú landlæknir í síimskeyta sambandi við íslenzku stjórnina og Björn Sigurðsson, jafnframt því sem hann ráðgaðist við ensk yfirvöld, er sýndu á allan hátt lipurð og velvilja í því að bæta úr vandræðum Flórufarþeganna.

---- Kvaðst landlæknir hafa kynst mörgum þjóðum, en engri sem jafn gott sé »að koma skapi við« og Englendinga, sú hafi reynslan orðið bæði fyr og nú. Fór nú stjórnarráðið þess á leit við Bergenska að Flóra fengi að fara með farþegana frá Leith til Íslands, en það neitaði því. Þá var farið fram á það við Sameinaða gufuskipafélagið (sem er »marg uppsleikt af Íslendingum« að það léti skip sitt »Ísland«, er var á ferð í Leith um þessar mundir, flytja farþegana af Flóru til Siglufjarðar, en Sameinaða þverneitaði. Nú fór að vandast málið.

---- En þá kom skip Íslendinga sjálfra til sögunnar — Goðafoss. Varð loks úr, að skipstjórinn á Goðafossi, Júlíus Júliniusson, tókstá hendur þann vanda að flytja alla Flórufarþegana til íslands, þó eigi hefði hann leyfi til að flytja svo margt fólk milli landa.

Í þessum svifum komst landlæknir að því, »sem eg skammaðist mín fyrir og þið eigið að skammast ykkar fyrir með mér«, varð honum að orði, að farþegaskífteini íslenzku skipanna eru útgefin af lögreglustjóranum í Kaupmannahöfn ( = dönsk !).

Samkvæmt farþegaskírteininu var því hægt að kalla skipstjórann á Goðafossi fyrir danskan sjórétt í Khöfn, og ef til vill svifta hann skipstjóra stöðunni fyrir að taka fleiri farþega en skírteinið heimilaði. En Júlíus var ekki smeikur, því ekki væri um verra að gera, en verða hengdur, ef i það færi. Kvaðst landlæknir hafa lofað Júlíusi því, að hann skyldi þá ekki verða hengdur einn, heldur landlæknirinn líka, þeir væru báðir Húnvetningar, og 2 Húnvetningar hefðu einu sinni verið hengdir í einu; það væru því engin ósköp, þó 2 yrðu hengdir i viðbót ! (Auðvitað mikil hughreysting fyrir Júlíus, að eiga von á slíkum félagsskap í gálganum, ef hann hefði orðið hengdur fyrir að firra landa sína vandræðum).

— En hvað um það. Niðurstaðan varð sú, að Goðafoss flytti alla farþegana heim, en þá kom það vandamál til sögunnar, að björgunartæki skipsins ekki svöruðu til fólksfjöldans. — Var þess farið á leit við ensk yfirvöld, að útvega skipinu björgunartæki og því mæta vel tekið, og eltir nokkra snúninga varð það úr, að herstjórnin enska lánaði Goðafossi næg björgunartæki, sem hann svo á að skila á útleiðinni.

— Miðvikudaginn 26. júlí lagði Goðafoss á stað frá Leith með 104 Flórufarþega (9 höfðu farið í land í Leith, sem ætluðu til útl. hvort sem var), auk 8 farþega, er áður voru með skipinu. Nú létti yfir hópnum. Allir voru kátir. »Ferðalangur« hélt áfram að koma út og skemta fólkinu, siðasta blaðið kom út um hádegi 29. júlí, er land sást fyrir stafni. Líðan fólksins, viðurgerningur og aðhlynning var hin bezta á Goðafossi, og menn skemtu sér við söng og dans o. m. fl.

---- Stöðvaður var Goðafoss af enskum vopnuðum togara ca. 15 sjómílur út og suður af Seyðisfirði. Skaut farþegunum skelk í bringu við þá tilhugsun að verða máske herteknir í annað sinn, en sem betur fór tafði togarinn Goðafoss að eins nokkrar mínútur og óttinn hvarf, en fögnuðurinn skipaði aftur hæsta sæti og nú hreyfðu sér hlýjar tilfinningar fyrir Eimskipafélagi íslands.

---- Hér sást eitt dæmi þess enn, hver gæfa það var fyrir íslendinga, að eignast þessi tvö skip. Hefði ekki Goðafoss orðið til að bjarga vandræðum Flóru-farþeganna, er öll önnur sund voru lokuð, er sennilegast að þeir hefðu enn verið fangar í Englandi, og hver veit hvenær þeir hefðu komist heim. Ef til vill ekki fyr en í haust.

Landlæknir skýrði frá því að enska stjórnin borgaði kostnaðinn við heimflutning Flóru-farþeganna með Goðafossi, þ. e. fargjald og fæði og mundi vafalaust bæta þeim tjónið að öðru leyti, eftir samningum við íslenzku stjórnina. Hann hefði tekið manntal á Flóru, útvegað upplýsingar um hvern og einn, sem hann léti stjórnarráðinu i té ásamt skýrslu um ferðina, er það svo bygði á kröfur sínar á hendur Englendingum. Laugardagskvöldið 29. júlí, kl. 6 e. h. voru Flóru-farþegarnir heilir af hafi komnir á land á Seyðisfirði, og svaðilförin á enda.

---- Að lokinni ferðasögunni brá stjórnmálablæ á ræðu landlæknis, sem vert er að drepa á. Hann sýndi fram á hve óeðlilegt það væri, að utanríkismál vor væru í höndum Dana. Reynslan hefði fært oss heim sanninn um það, síðan stríðið hófst, hversu óheppilegt það væri. Danir væru oss að engu liði. Bæði skorti þá þekkingu og vilja til þess að fara heillavænlega með utanríkismál vor, enda hefði allur vandinn hvílt á herðum islenzku stjórnarinnar og Íslendinga, og þrátt fyrir afar-mikla örðugleika hefði vel verið fram úr öllu ráðið.

---- Nauðsynlegir samningar og ráðstafanir til að tryggja þjóðina hefðu verið gerðar án íhlutunar Dana, þerir ekki treyst sér til að fást við neitt slíkt, smeygt sér undan öllum vandanum og látið íslendinga sjá fyrir sér sjálfa. Þetta væri gott, því á því sjáist, að Íslendingar séu færir um að bjarga sér sjálfir, einnig á utanríikismálasviðinu, enda eigi þeir að keppa að því marki, að fá fullveldi yfir öllum sinum málum og sinn eiginn siglingafána. Þetta beri ekki að skoða sem skilnaðarstefnu á annan hátt en þann, að hann vildi að íslendingar hefðu það eitt samband við Dani, er þeim væri hagur í.

---- Sé þeim hagur i einhverju sambandi, eigi þeir að halda í það, sé sambandið þeim í óhag, eigi þeir að slíta því. En þessu takmarki eigi ekki að reyna að ná með því að vitna sí og æ í gamlar, ónýtar og myglaðar skruddur og samninga, eins og t. d. Gamla sáttmála, sem að engu haldi megi koma. Heldur eigi íslendingar heimtingu á fullkomnu sjálfsforræði af því, að þeir séu orðnir menn til þess að vera sjálfstæðir. Framfarir og sjálfstæðisþrek þjóðarinnar hafi magnast svo á síðustu 40 árum, að hún með því hafi unnið sér tvímælalausan rétt til sjálfstæðis.

---- Fullyrti hann, að Jóni Sigurðssyni mundi ekki á þessum tímum hafa komið til hugar að berjast með afgömlum, kolryðguðum og bitlausum vopnum eins og Gamla sáttmála o. þ. h., í hans tíð hefði það verið óhjákvæmilegt, því þá hefði þjóðin verið andlega og efnalega ósjálfstæð, og það sem Jóni Sigurðssyni hefði orðið ágengt hefði aðeins verið af því, hversu afar vopnfimur hann var, dæmalaus meistari í því að beita ryðguðum og bitlausum kuta, sem hann nú mundi hafa þeytt út í horn og ekki snert við framar, en nú bruðgið því bitra og blikandi sverði, sem hið raunverulega, andlega og efnalega sjálfstæði þjóðarinnar eigi að vera í höndum vorum.

— Menn ættu ekki að vera að tönlast á því, að feta í fótspor feðra vorra, það væri heimska, heldur eigum vér að stíga fram úr fótsporum feðra vorra, því annars séum vér ekki sannir framfaramenn — (og landlæknirinn barði í borðið við og við, til þess að gefa orðum sínum meiri áherzlu).

»Austri«.

----------------------------------------------------------

6. árgangur 1916, 219. tölublað, Blaðsíða 4

H e r l e i ð i n g F l ó r u.

Af Englandsför Flóru eru nú komnar allnákvæmar fregnir í Austra frá 3. þ. m.

Er svo sagt þar að farþegarnir hafi borið skipshöfninni á Flóru mjög vel söguna og einkum Hansen skipstjóra. —

En það sem merkilegra er, er það að „einnig virtist farþegunum öllum vera mjög hlýtt til Englendinga þrátt fyrir að þeir höfðu valdið allmiklum hlykk á leið Flóru, en sökum hins hlýja viðmóts og samúðar er þeir mættu hjá Englendingum, er þeir höfðu mök við, og eftir að hafa fengið betri þekkingu á ástæðum þeim sem fyrir hendi eru hjá ensku þjóðinni nú á þessum heljartímum, komust þeir til betri skilnings á kringumstæðunum, sem óhjá kvæmilega færði þá nær hinni ensku þjóð", að því er Austri segir. —

Landgöngu voru Bretar búnir að leyfa öllum farþegunum í Leith og 9 farþegar, sem ætluðu til Danmerkur og Noregs, fengu að fara þar í land og með járnbraut til Newcastle til að ná þar í skip. Er þetta eftirtektarvert vegna þess að annars er mjög erfitt að fá landgönguleyfi í Leith, svo að það jafnvel hefir verið talið ófáanlegt.