Ferðasaga Alberts Engstöm um Íslands 1913 (?)

Hluti sögunnar er frá Tröllaskaga / Siglufirði.

Vísir - 27. desember 1913 Hluti greinarinnar, ferðasaga.

Árgangur 1913, 855. tölublað, Blaðsíða 3

SiglugjörðurVið komum að utan, frá æðandi sjónum, frá hvínandi stormi, frá freyðandi löðri. En hjer inni var logn, hátíðleg kyrð inni á milli fjallanna, sem földu tinda sína. Yfir okkur var þokan eins og furðuleg hvítgrá hvelfing. Við liðum áfram eins og eftir geysistórum göngum með skýjaþaki og basaltveggjum, klæddum grænum mosa neðst og snjó hæst uppi. En græni mosinn var sveitin með litlu bæjunum. Á svartbláu veggjunum glitrar hárfínt net af silfurþráðum. Það eru litlu fjallalækirnir, sem liðast niður eftir hlíðum og hömrum, frá snjónum niður í sjóinn, og það er niður þeirra sem fyllir loftið; undursamlegt maëstoso, kór miljarða af silfurdropum og óma raddir þeirra þýðlega og milt — en bassann syngur stormurinn og hafið úti fyrir, með fjarlægum drunum eins og frá þúsund rámum trumbum. Það er mikilfenglegt, stórkostlegt. Sál mín er stilt við þetta einmitt nú og mér finnst það óumræðilega fagurt. —

Og — en jeg ætla ekki að reyna að lýsa því!

Inni í fjarðarbotninum ber urmull siglutrjáa við dökkblátt landið á bak við. Það er fiskiflotinn, sem hefur hleypt inn vegna stormsins. Og til hægri kemur æ skýrar fram dálítil húsaþyrping. Það er smábærinn Siglufjörður, aðal-aðsetursstaður Norðmanna við síldveiðina á norðurströndinni. Bæ getur maður raunar varla kallað það. Eitthvað í kring um 50 hús, en líf og hreyfingu var þó að sjá á höfninni.

Emmy eimaði hægt inn á milli fjærst liggjandi gufuskipanna. Akkerið var látið falla og sjóferðinni var lokið, — staðreynd, sem kostaði staup af groggi til staðfestingar — og bátum var skotið fyrir borð. Allt umhverfis okkur lágu ýmiskonar skip, gufuskip, seglskip, litlir róðrabátar og inst nokkrir skipskrokkar, þar sem máfarnir »mönnuðu rár«, ef svo mætti að orði komast. Enginn snefill af þoku var hjer inni. Fjöllin voru hvít eftir ofurlitla drifu, sem verið hafði, og skáru skýrt af við loftið. Hægur andvari stóð af landi og bar okkur blautfiskslykt. Við geymsluhúsin á sjávarbakkanum og á öllum bryggjunum, sem voru margar, voru kestir af síldartunnum. Og þvílíkir kestir! - Frh.

-------------------------------------------------------------

Vísir - 28. desember 1913

Árgangur 1913, 856. tölublað, Blaðsíða 3

 

Siglufjörður Kæri lesari úr sveitinni! í litlu matvælabúðinni, þar sem þú kaupir hið nauðsynlegasta til heimilisins, sjer þú einsamla síldartunnu opna einhversstaðar úti í horni. Þú furðar þig, ef þú sjerð tvær — skildu mig rjett, — en þegar jeg segi þjer, að fyrir utan Siglufjörð veiðist yfir þúsund tunnur af síld að meðaltali daglega — hvað segir þú við því?

Emmy liggur einmitt fyrir framan þær bryggjur, sem öll þessi síld er hreinsuð og söltuð á. Bærinn lítur út fyrir að hafa verið gerður í flýti. Jeg hugsa mjer að Dawson city eða aðrir nýbæir í Klondyke hafi hlotið að líta út líkt og þessi bær einhverntíma. Húsin eru flest þakin bárujárni. Það heitir á norsku bölgeblik. Skáldlegt, er ekki svo? Fyrst er jeg heyrði það, kom sólglit á hafinu eða eitthvað þesskonar mjer fyrir hugskotssjónir, en ber veruleikinn sveik mig hraparlega.

Svona er lífið! Skipverjar voru komnir undir árar. Við stigum í bátinn og eftir örlitla stund vorum við komnir upp á næstu bryggju. Þar var fyrir John Wedin, gestgjafi vor, og bauð oss velkomna. Hann hafði sjeð út um glugga sinn er Emmy kom. En nú byrjaði sjógangurinn fyrst verulega. Mjer virtist Ísland ætla fljótlega að staðfesta það, sem um það er sagt, að það sje allra landa óstöðugast.

Jeg varð að grípa í handlegg þeim, er næst mjer gekk, til þess að geta staðið. Jörðin með öllu síldarlöðrinu gekk í öldum, fjöllin bærðust eins og þeim væri flökurt, og jafnframt fannst mjer jeg vera svo ljettur, að jeg gæti flogið. Og ekki hætti sjóriðan þótt jeg væri farinn að hagræða mjer í þægilegum sófa. Eins og kunnugt er, hefur ísland enga skóga; allan við verður að sækja til Svíþjóðar og Noregs — en pang!

Ekki" einu sinni hjerna losnar maður við að heyra til talsímans, þessarar blessaðrar helvítisvjelar, sem hefur komið of snemma í heiminn, að minnsta kosti frá mínu menningarstígi sjeð. Þótt furðu gegni, hefur Norðurísland talsímalínu og hefur kostað feykilega mikið erfiði að leggja hana, og ekki síður fje. Ekki hafa vegir verið til hjálpar, því hjer finnast ekki vegir. Staurarnir hafa verið dregnir yfir fjöllin, í svo villtri náttúru sumstaðar, að maður getur varla hugsað sjer mannvirki á hrjóstrugri stöðum.

-------------------------------------------------------------

Vísir - 2. janúar 1914

Árgangur 1914, 860. tölublað, Blaðsíða 3

 

Siglufjörður. - Daginn eftir komu okkar notum við til að skoða borgina, sem var nú raunar ekki lengi gert, Við skoðuðum bryggjurnar og síldargeymsluhúsin, vorum að hengilmænast í búðunum og kynntumst mönnum, sem gátu frætt okkur á mörgu um hversdagslífið. Við heimsóttum lækninn á staðnum, Guðmund T Hallgrímsson; hann er ungur, framúrskarandi geðþekkur maður, víðsýnn og áhugamikill. Annan lækni sáum við, en hann drattaðist áfram peðfullur.

Og gamla sýslumanninn sáum við, líka fullan. Því enda þótt hjer sje ekki leyfð vínsala, var fullyrt við mig að hjer væru 23 leynikrár, sem Norðmenn og Færeyingar heimsækja oft og vel, er þeir koma inn. Það er aldrei verið úti á fiski á sunnudögum. Allur fiskiflotinn kemur inn á laugardagskvöldunum og eitt, tvö, þrjú þúsund fiskimanna stíga á land. Þá þarf auðvitað að nota krárnar. Og stundum slær í bardaga með nokkrum hundruðum fullra víkinga í hvoru liði. ¹)

Ef ílla viðrar og flotinn verður að liggja inni á höfn nokkra daga, getur maður hugsað sjer ástandið. Fulltrúi lögreglunnar verður að sjá þann sinn kost vænstan að drekka sig fullan með hinum, til þess að finna síður til þess, hve gersamlega vanmáttugur hann er. Og á stað eins og þessum, þar sem mörg þúsund af tómum og fullum tunnum er velt á land daglega, er algerlega óhugsandi að stemma stigu við innflutningi vínfanga.

Það er ekki allt af salt í tunnunum og fyrir hina fáu tollgæslumenn er ekki annað að gera, en víkja úr vegi fyrir þessari veltandi vöru, til þess að verða ekki beinbrotnir. — — Í kveld verður fjörugt á Siglufirði, því dagurinn hefur verið ágætur fyrir veiðina. Við munum fá að sjá skipin koma inn, sjá, hvernig farið verður að afferma, hreinsa og koma fyrir aflanum. Um kveldið kemur fiskiflotinn inn. Bryggjurnar fyllast af fólki, og nú er tekið til starfa. Með orðum einum er örðugt að gefa mönnum hugmynd um þungann í því lífi, sem hjer þróast. Hugsið ykkur heila fylkingu af mönnum, óreglulega að sjá, stjórnaða að verki með hinni stökustu snild. Það er alveg eins og á skrifborðinu mínu, í líkingum sjeð.

¹) Nú fyrir skömmu stóð ein slík orusta yfir í þrjá daga, alveg eins og orustan við Leipzig.

-------------------------------------------------------------------------------

Vísir - 4. febrúar 1914

Árgangur 1914, 895. tölublað, Blaðsíða 3

Aftur í Siglufirði.

Morguninn eftir er hópur af hestum kominn á flötina fyrir framan hið skínandi góða gistihús Johns Wedins. Það er verið að búa sig af stað í útreiðartúr inn í dalinn, meðfram og margoft yfir bugðóttu ána og upp í fjall. Þáttakendur eru ungir menn og meyar úr byggðarlaginu og við, gamlir og útfarnir »selskaps«-menn, sem því miður getum ekki gert okkur skiljanlega við meyarnar, sem með eru í förinni, með öðru en tilburðum. Við riðum fyrir innri höfnina.

Stúlkurnar riðu eins og amazónur og piltarnir eins og cowboys. Við ríðum í þyrpingu yfir eyrar, sem áin flóir yfir, vatnið skvettist, hlátur og óp gjalla. Við ríðum upp á við, yfir smálæki, fram með hengiflugi, og fjallageimurinn kringum oss eykst. Nú teygja fjarlægir risar hvíta skallana yfir grænu og dökku fjöllin, sem næst okkur eru. Fyrir neðan okkur steypist dálítil á stall af stalli. Hjer staðnæmumst við og drekkum portvín. Unga fólkið fer í leika, og eru margir þessara leika í öllu verulegu hinir sömu og jeg sjálfur ljek með jafnöldrum mínum í Smálandi endur fyrir löngu.

Jeg fæ tilsögn í glímu, sem er sjerstök íslensk íþrótt, þúsund ára gömul og hin þarfasta, bæði fyrir Iimi og höfuö. Hjer er einnig verið að allskonar hlaupaleikum, sem jeg hefi ekki hug til að taka þátt í eins og hjer hagar til, því fyr en varir, get jeg steypst í fossinn, og þá berst jeg með honum og rekst ef til vill á Wulff, þar sem hann er nú að fá sjer steypibað. Minna gerir hann sjer ekki að góðu. Á bak aftur. Á heimleiðinni ríðum við heim að gömlum bæ og drekkum mjólk. Jeg held meira að segja, að einn góðkunningi okkar hafi seytt fram öl, og kaus jeg það heldur, en blessaðar stúlkurnar löptu í sig drykkinn, sem sóktur var beint í júrin á kúnum, þar sem þær voru á beit við túnjaðarinn.

En konur standa líka nær nátturunni en við karlmenn. Jeg hef steingleymt því, hvað Kalli Daníel drakk. Hestinn, sem jeg nú ríð, vil jeg hafa með mjer til Grisslehamn. Jeg er orðinn »dús« við hann og hann virðist taka því vel og heldur áfram að bera mig varlega og vel niður í dalinn aftur. Kunningi okkar, sá sem náði í ölið, notar tækifærið að kaupa laxa af bændum, sem við hittum þarna uppi á heiði, til þess að reyna að tetja John Wedin trú um, að hann hafi veitt þá sjálfur. Skál, Björnsson! Jeg er seinastur, eins og vant er, en hesturinn minn veit hvað hann fer!

Og með tilstyrk gáfna beggja okkar, drögumst við ekki mjög mikið aftur úr, förum yfir láglendar flatir, sljettar og fyrirtaksgóðar til að taka sprett á, og það gerir hesturinn líka, undir eins og hann finnur, að það muni vera hentugt Það hefur fallið að og nú ríð jeg í vatni, þar sem jeg reið áður í leðju. f einni bugðunni mæti jeg íslending, sem riðar talsvert í söðlinum. Hann staðnæmist og segir; »góðan daginn!« og rjettir fram brennivínsflösku. Það er kveðja íslendinga á þjóðvegum úti. Jeg tek við flöskunni og geri henni skil. Hann verður allur að hýru brosi. Það er fyrsta og síðasta sinn, er við sjáumst, en jeg hefi skilið eftir hugðnæma og varanlega minningu í lífi hans.

-------------------------------------------------------------------------------

Vísir - 9. febrúar 1914

Árgangur 1914, 900. tölublað, Blaðsíða 2

Nú var hagrætt svo að við gætum allir haldið til í bústað landa okkar, Johns Wedins. Flærnar og annað íllþýði úti á Emmy hafði orðið okkur um of óþægilegt. Við vorum nýlagstir útaf og varla sofnaðir í okkar fyrirmyndarrúmum er við heyrðum þrusk og gauragang í stiganum (við hjeldum til uppi á lofti). Rökkur var en ekki myrkur" og risum við upp í rúmunum. Fyrir utan var einhver að gera tilraun til að brjótast inn, og það var skylda okkar, sem gesta, að reyna að koma í veg fyrir slíkt. Við sveipuðum að okkur klæðum og fórum á móti innbrotsmanninum. Það var íslendingur, fullur eins og egg, sem skreið eins og þreyttur snákur upp stigann, — þótt raunar þesskonar ormar sjeu ekki til á íslandi. Við beindum stefnu hans í aðra átt — sem sje niður á við.

Hann sagðist vilja fá að tala við herra Wedin (rjett er áherslan á seinna atkvæðinu, eins og öðrum nöfnum í sænsku er enda á -in. þýð.) Að stundarkorni liðnu sáum við hann fálma sig áfram yfir flötina, ýmist með höfðinu eða fótunum, líklega til þess að vita hvort dygði betur. Þetta er örðugt verk og þekkja þeir það best, sem reynt hafa. — Svefn, algleymi!

Ó, Siglufjörður! Þú ert alls ekki meðal hinna minnstu bæa íslands, þegar fiskiflotinn er inni.

Daginn eftir. Enn þá sólskin og blíða. Við skutum fyrst máfa handa fálkunum, sem Wulff keypti á Akureyri, en það var okkur engin skemmtun og fengum við því fyrsta vjelstjóranum morðvopnið í hendur. Hann var allra mesta blíðalogn að sjá, en grimmur í hjarta; það sáum við fljótt á morðsýki hans, — það er að segja veiðihug. Við riðum dálítið út. Jeg er enn þá við það heygarðshornið, að vilja eiga hestinn, sem jeg ríð.

Og jeg kemst að því, að það eru fleiri, sem vilja eiga hann, hann er einn af bestu hestunum á Norðurlandi. Jeg skíri hann Hrólf kraka og hann virðist taka því mikið vel. Jeg ber hann ekki, og á því, hve fast hann klemmir saman munnvikin sje jeg alvarlegt áform hjá honum að vita, hvernig grasið í Grisslehamn muni vera á bragðið.

-------------------------------------------------------------------------------

Vísir - 13. febrúar 1914

Árgangur 1914, 904. tölublað, Blaðsíða 4

Haganesvík og Barð. [Höf. og,Wulff, fjelagi hans, hafa farið út á fiski með norskum skipstjóra. Þeir hafa fengið vont veður og hleypt inn á Haganesvík].

Dökkur og þungur þokubakki liggur á fjöllunum blásvörtum allt niður í miðjar hlíðar þeirra, og ýrir suddaregni úr honum yfir okkur. Við sjáum sveitina, óendanlega tómlega, sem hækkar æ eftir því, sem lengra dregur. Við getum greint nokkur kot austanmegin við víkina. þau eru að sjá eins og stórar þúfur á grænni jörðinni.

En niðri við bátabryggjuna er hús eitt fyrirmannlegt að sjá, því það er timburhús. Tvö áletrunarspjöld eru utan á því og skipstjórinn fræðir mig um, að það sje og talsímastöð. Beint í suður sjest eitthvað hvítt, gegnt á móti fjallinu. það hlýtur að vera kirkjan á Barði. þar í nánd hvað vera heit laug. Jeg hefi. ljelegan landsuppdrátt meðferðis, tek hann upp og sjá!

þar er laugin sýnd. Skipstjórinn hefur aldrei sjeð neitt þesskonar og langar þess vegna til að fara á land, en hann er í veiðiför, en ekki skemmtiför: ljetti þokunni, verðum við að fara út að afla, því það er ófyrirgefanlegt að liggja inni athafnalaus með skip og háseta. Jeg reyni að átta mig á landsháttum hjer, með því að lesa í sögulegri byggðalýsingu Íslands eftir Krtstján gamla Kálund. þetta er sögusveit og hjer verðum við að fara á land. Jeg bið til þeirra er völdin hafa, að þokunni ljetti ekki.

Og þeir bænheyra mig. Hún hleðst æ þjettar yfir, kemur utan af hafinu og meira að segja fylgir henni meiri vindur. Við liggjum í góðu skjóli fyrir landnyrðingnum og jeg blessa undirsjóina, er við erum að verða varir við. þeir merkja það, að engin leið muni vera til þess að fiska í dag. Og er við höfum snætt miðdagsverð, nokkru fyr en vant er, fáum við skipstjórann og tvo menn að auki, til þess að róa með okkur á land. Fyrst í búðina til þess að panta símtal við John Wedin, sem líka tekst eftir langt þóf við heimskasta búðarþjón heimsins. Jeg mun ávallt minnast hans. „Hvebe?" sem inngangsorði að öllum svörum hans. Hann er danskur.

„Get jeg pantað hjer símtal við Siglufjörð?"

„Hvebe? Ja, de kan Dí godt."

„Tekur það langan tíma?"

„Hvebe? Naj, de gör da s'gu ikke."

„Get jeg fengið það samstundis."

„Hvebe? Naj, de kan Dí ikke."

„Hvers vegna ekki." .

„Hvebe? Fordí det er ikke obent."

„Hvenær verður opnað?"

„Hvebe? Om en Time".

„Viljið þjer þá gera svo vel og panta samtal við John Wedin, stórkaupmann á Siglufirði, að klukkutíma liðnum?

„Hvebe? Ja, det skal jeg."

„Heyrið þjer nú, hvers vegna segið þjer ,hvebe'?

„Hvebe?"

„Já einmitt" ,hvebe!'

„Hvebe!"

Inni í opnu gini hans reyndi tungubroddurinn að mynda spurningarmerki úr sjálfum sjer. Til þess að mýkja hann, keypti jeg dálítið af vondu og dýru tóbaki og eina ónýta þýska sokka.

Jeg er hreint ekki hissa á því, þótt ísland vilji skilja að fullu og öllu við Danmörku, sem sífellt hefur verið að sjúga það út.

-------------------------------------------------------------------------------

Vísir - 7. mars 1914

Árgangur 1914, 926. tölublað, Blaðsíða 2

 Frá Siglufirði til Reykjavíkur. Við höfum kvatt vini vora á Siglufirði og erum komnir um hánóttút í norska farþegaskipið » Flóru «. John Wedin hefur sjeð svo um, að við höfum fengið besta klefann á skipinu fyrir okkur; í honum eru aðeins tvær sængur og hann er næstur matsalnum, sem eru mikil hlunnindi þegar illt er í sjó. Skipið er troðfullt af fólki, mest íslendingum á skemmtiferðalagi. Skipstjórinn, Stuhr kafteinn, er viðfeldinn og alúðlegur Norðmaður, sjóhestur af gamla stofninum. —.............................

Ath; sk 2018: Þessar greinar eru mun fleiri en hér eru birtar frá ferðalagi Albert Engsttöm um Ísland og birtar voru í mörgum eintökum dagblaðsins Vísir, seinnihluta ársins 1913 og fyrrihluta ársins 1914 Aðeins þeir kaflar birtir hér, sem beint og óbeint tengjast Siglufirði, sem Albert virðist hafa kunnað vel að meta eftir veru sína á Sigló.