Smávegis frá Siglufirði 1915

29. árg. 1914-1915, 31. tölublað, Blaðsíða 3

Smávegis frá Siglufirði. Eftir Hrólf.

Það er ef til vill líkt og að fara að bera í bakkafullan lækinn að fara að skrifa um Siglufjörð, því að margir hafa áður brugðið upp ýmiskonar myndum þaðan, sem hafa komið almenningi fyrir augu; en af því að þar er svoddan nægta uppspretta ýmsra merkilegra og sérkennilegra fyrirbrigða, sem ekki eru allstaðar að finna, finst mér vera töluvert freistandi, að bæta nokkrum orðum við það, sem aðrir hafa skrifað um Siglufjörð; — og þess vegna ræð eg af að byrja og sjá hvað til vill tínast.

I. Siglufjörður skerst inn í háan og fjöllóttan skaga, sem gengur fram austan Skagafjarðar en vestan Eyjafjarðar, hinna fegurstu og nafnkunnustu fjarða Norðanlands. Skagi þessi getur með réttu kallast vörður og verja þessara fjarða, því hann tekur á móti mörgum regn- og hríðar-strokum, sem leggja að landi norðan úr hafi, og ver því að þær komist lengra, enda er oft blíðasta veður inni á þessum fjörðum, þó sérstaklega Eyjafirði, þótt illviðri geysi í algleymingi á Siglufirði og Siglufjarðarfjöllum. Upp af Siglufjarðarbotni er hnúkur einn mikill, sem nefnist Illviðrishnúkur; hann ber að mun hærra en aðra hnúka á þessum fjallgarði; en margir eru þeir fleiri illviðrishnúkarnir, því óvíða á Norðurlandi mun að jafnaði vera illviðrasamara, en um þessar slóðir.

— Í hauststormunum æða haföldurnar þarna að landi með öllu sínu heljarafli, og berja vægðarlaust á hverju, sem fyrir verður, út með nesjum og inni í vogum. Á Siglufirði er nú jafnvel þörf á einni duglegri hreingjörningu á hausti hverju, til þess að skola burtu síldarslori og öðrum hroða, sem skilinn er þar eftir um síldartímann; en ekki er að búast við, að Ægir, þótt máttugur sé, geti þvegið alt hreint, sem óhreinkast hefir i þeirri viðlegu.

— Fyrir botni fjarðarins eru grynningar, sem ná nokkur hundruð faðma út frá landi; er þar rennisléttur sandbotn, og svo grunt, að auðveldlega má vaða þar yfir um fjörur; nú má heita, að komin sé óslitin brú yfir fjörðinn, þar sem grynningar byrja, af skipaskrokkum, sem liggja þarna á hliðinni utan i marbakkanum, og eru að hálfu leyti upp úr sjónum; eru þetta flest alt stærðar seglskip, sem Norðmenn hafa komið með til Siglufjarðar, og notað þar sem geymsludalla fyrir síld, kol og salt o. s. frv., en í norðanrokum, sem verða þar stundum allsnörp, hafa skip þessi slitnað upp og strandað síðan á þessu grynni; fá þau svo að liggja þar afskiftalaus af öllum ár eftir ár; náttúruöflin verða sennilega látin ein um það, að leysa þessi flök upp og grafa niður í sandinn. Innarlega við fjörðinn að vestanverðu gengur fram eyrartangi einn allstór, sem nefnist Siglufjarðareyri, þar stendur hinn víðkunni Siglufjarðarkaupstaður, og verður hans nánar getið síðar.

— Skamt þaðan stendur hið reisulega prestssetur, Hvanneyri, þar sem tónskáldið síra Bjarni Þorsteinsson býr búi sínu. Innan til með firðinum og fyrir fjarðarbotni er undirlendi allmikið, og víða grösugt mjög. slægjulönd bænda eru þar því viðast allgóð, einnig er fjárbeit þar í fjöllunum ágæt, meðan snjórinn ekki greftir alt undir djúpri fönn, því þar er vetrarríki mikið. Upp af fjöllunum ganga víða strítumyndaðir hnúkar, sem gefa fjallahringnum sérkennilegt útlit. Yst með firðinum austanmegin gengur fram nes eitt mikið, sem lokar svo að segja til hálfs fyrir fjarðarmynnið. Nes þetta heitir Siglunes, og hefir það pláss einna mest orð á sér fyrir hákarlaveiðar og verkun á hákarli; enda er allur hákarl, sem seldur er hér á landi til matar, hvaðan svo sein hann er, kallaður Sigluneshákarl, því það er víst það eina, sem getur mælt með þeirri vöru.

— Fram af Siglunesi eru miklar grynningar, hin svo nefnda Hella, og hafa mörg skip, sem ekki hafa haft nægilega kunnuga stjórn, lent á þessu grynni, en þó oftast komist út af því aftur eftir nokkurn tíma og mikla fyrirhöfn, meira eða minna löskuð. Á sumrin í norðanrokum leita mörg fiskiskip, bæði útlend og Innlend, hafnar fyrir innan Siglunes, því þar er gott lægi og skjól fyrir norðanveðrum. Yfir höfuð er Siglufjörður vel og haganlega gjörður frá náttúrunnar hendi, og þar er til náttúrufegurð engu minni en víða þar, sem orð er á gjört. Þar eru og vor- og sumarkveldin oft aðdáanlega fögur, þegar sólin nær að gylla loft og lög með fegurðarlitum sínum.

— Á vorin fyrir og eftir sólstöðurnar, skín hún þar bæði nótt og dag, og þykir flestum næturskinið miklu eftirtektarverðara og tilkomumeira, eða a. m. k. þykir okkur það, sem að sunnan erum. Þegar komið er upp i miðja fjallshlíðina upp af kaupstaðnum, sér langt norður í haf, og út við hafsbrúnina sér maður örlitið eyland, umkringt sævi á alla vegu. Þetta er Grímsey, og er hún rétt ímynd íslands sjálfs, sem einnig er hólmi umkringdur sævi, langt frá öðrum löndum.—

— II. Oft er fiskimiðum Íslands líkt við gullnámu, og má það til sanns vegar færa, því að mikið efamál er, hvort meira er ávalt af hreinu gulli í smálestinni af gullleirnuni úr gullnámum í Kaliforníu og Klondyke. heldur en i smálestinni af því, sem tekið er árlega úr fiskiveiðanámum Íslendinga, - 2—3 mánuði á hverju ári er ausið úr þessari námu fyrir Norðurlandi síld. sem nemur miljónum króna.

— Inni í fjörðunum sem næstir liggja, er gullið hreinsað, það gjört gjaldgengt; eða réttara sagt, varan gjörð gjaldgeng . sem gullið kemur fyrir.

— Um síðastl. aldamót tóku Norðmenn og fleiri að reka síldveiðar með hringnótum fyrir Norðurlandi, og varð arður af þeim atvinnurekstri þegar i byrjun svo góður, að útgjörðarfélög og einstakir gróðamenn, keptu um að eiga hlutdeild í þeim arði, sem þessi atvinna gaf í aðra hönd. Með hverju ári fjölgaði útgjörðarfélögum og veiðiskipum að miklum mun.

— Svo að á fáum árum náði síldveiðaútgjörðin hámarki sínu, því heldur mun hafa dregið úr þessum atvinnurekstri eftir árið 1907: það ár komst síldin í lágt verð á útlendum mörkuðum, og við það biðu ýmsir síldarútvegsmenn svo mikinn hnekki, að sumir stóðust ekki hallann, og gáfust alveg upp: að vísu bætast árlega við nýjir útvegsmenn, en þó ekki að tiltölu eins margir og fyrir árið 1907. —

Nú á síðari tímum hefir bæzt við nýr liður í þessari atvinnugrein, þar sem bræðsluverksmiðjurnar eru;— áður en þær voru reistar, fór vanalega mikið af síld til spillis, þegar mikið barst að, og ekki var nægur vinnukraftur til þess að koma því öllu í verkun; þegar svo kom fyrir, varð afgangurinn ónýtur með öllu, — en nú er séð fyrir þessu, því að verksmiðjurnar kaupa allan úrgang, hvernig sem hann kemur fyrir, og gjöra að arðberandi verzlunarvöru. Auk þess hafa þær flestar fjölda skipa, sem eingöngu veiða handa þeim; er því framleiðsla á fóðurmjöli og síldarolíu hjá fullkomnustu verksmiðjunum mjög mikil.

— Þegar veiðiárin eru góð, og er þá afvinna i sumum þessum verksmiðjum því nær hálft árið; en það er nú helzt í þeim seinvirku og ófullkomnustu, og þar er jafnframt lakast að vinna; mörgum þykir sóðaleg vinnan á þessum bræðslustöðum, en hæg er hún víðast; gangast margir fyrir því.

— Á Siglufirði starfa nú árlega 4 slíkar verksmiðjur; sú fyrsta var reist 1911, og er hún fullkomnust af öllum þeim og lang hraðvirkust; nægir henni ekki minna um vikuna til að hafa nóg að starfa, en 3,500 tunnur af síld, og úr því fást 300 föt af lýsi og 4—5 hundruð sekkir af fóðurmjöli, eða því sem næst. Menn geta því hugsað sér, hver ógrynni af síld muni þurfa til þess að aldrei þurfi að koma stans á þessar vélar, umfram það venjulega. — í 3—4 mánuði.

— Við þessa verksmiðju eru tvær afar stórar og ramgjörvar síldargeymsluþrær, sem rúma báðar til samans yfir 30 þúsund tunnur af síld. og hefir það komið fyrir, að þær hafa báðar orðið því nær fullar, en séu þær fullar, hefir verksmiðjan nægilegt til að starfa með í tvo mánuði. Það er nær því undrunarefni, að sjá þau ósköp, sem berast á land af síldinni um veiðitímann, þegar vel gengur: fleiri tugir skipa, og jafnvel svo hundruðura skiftir, ef öll síldveiðaskip eru talin, sem veiðar stunda fyrir Norðurlandi yfir síldveiðitímann, koma daglega inn sökkhlaðin, og bera þó sum þeirra allmargar bröndur, án þess að kikna mikið; en er þau hafa tekið i sig síld, sem nemur nær því 2 þúsund tunnum,- hafa þó flest fengið byrði sína vel úti látna.

— Þetta gengur stundum svo vikum skiftir, ef veðráttan er góð,- og ef stöðugt væri veiðiveður þessa 2 mánuði, þá held eg að einhverjir fengju nóg af því góða, því aldrei mundi síldin þrjóta í sjónum, hversu miklu , sem upp væri ausið, — og hversu þreytt sem fólkið yrði, sem að henni ynni.

— Og seint myndu útgjörðarmennirnir skipa að hætta vegna of mikils gróða; því lengi geta menn tekið á móti gulli, áður en þeir segjast hafa of mikið; og hið sama lögmál gildir auðvitað um verkafólkið, þótt gróði þess sé i minni stíl, — en náttúran hagar því nú oftast svo vel til, að hvíldir gefast moð köflum, því ekki þarf að vera svo ýkja mikið að veðri, til þess að ekki sé hægt að veiða síld með hringnótum, því til þess að það gefist vel, þarf helzt að vera því sem næst sléttur sjór; — en þá kemur til reknetanna hjá þeim skipum, sem veiðina stunda með þeim, því þeim þýðir ekki að hugsa til að veiða, fyr en þau geta látið reka á reiða; en veiðifengur þeirra er oftast miklu minni en hjá hinum skipunum, og kemur því aldrei þungt niður á landsfólkið að hirða eingöngu. um afla þeirra.

— Og svo kemur það einnig oft fyrir. að þau geta ekki heldur stundað veiðar sinar vegna veðurhams, og þá hvíla sig allir, og safna nýum kröftum undir næstu hrotu. —

— III Ekkert kauptún né sérstök sveit á Íslandi mun hafa tekið jafn miklum stakkaskiftum á rúmum áratug, eins og Siglufjörður hefir gjört á síðastl. 10—15 árum; breyting sú, er ekki ólík því, sem sagt er að eigi sér stað, þar sem tekið er að vinna nýfundnar gullnáimur, — þar rísa upp stórar borgir á Skömmum tíma. og þangað streymir fólk svo þúsundum skiftir, líkt og árstraumur til hafs, og þann flokk fylla bæði voldugir og vesælir,, því að allir vilja jafnt reyna að öðlast framtíðarhnossið: Því meiri auðæfi og yfirdrotnun, þess meiri nautnir og sæla, er oftast hugtak og mark þess volduga.

— Því meiri vinna og strit, þess meiri möguleikar að fleyta fram lífi sínu og sinna. er helzta keppimark þess snauða í lífsbaráttunni; en þó er hvorumtveggja ef til vill jafn hætt til að dragast út í hringiðu nautnanna, sem fólkið lifir í á þessum stöðum; en lítilmagninn má við minna til þess að jafnvægið raskist og alt fari um koll, og er honum því jafnan vísari ósigurinn, en hinum sem auð og metorð hefir að bakjarli, —

— En það er nú vist Siglufjörður, sem eg er að skrifa um, en ekki lifnaðarhætti fólks í gullnámahéruðunum langt úti i heimsálfum, — þar sem öfgar og mótsetningar mannlífsins eiga sín aðal-óðul.

— En Siglufjörður er einnig að ýmsu leiti öfganna heimkynni, þegar alls er gætt, og ef alt kæmi til frásagnar, sem þar gjörist og fer fram um síldveiðitímann. Og nú skulum við hér á eftir skygnast þar ofurlitið um, og vita. hvað við heyrum og sjáum, meðan öfgarnar eru þar mestar. —

— Sá árstími, sem var venjulega nefnum vor, er nýlega um garð geng inn, en aðal starfs- og tekjutími almennings fer i hönd: allir eru farnir á kreik, sem eitthvað geta að hafst og eitthvað hugsa fyrir framtíðinni, því nú eru flestir búnir að ákveða, hvaða atvinnu þeir ætla að velja sér yfir sumartímann. Sumt kaupstaðarfólkið hefir jafnvel allan umliðinn vetur og vor verið með hugann í sífeldri atvinnuleit, því flestir reyna á einhvern hátt að hugsa sem bezt fyrir lífinu: en það er ekki æfinlega auðráðin gáta, hvert heppilegast sé að fara til að afla bezt; því að á öllum stöðum geta vonir mannunna jafnt brugðist; fólk kemst því að mismunandi niðurstöðu í þessum efnum, og dreifist því víðsvegar um landið i atvinnuleit. —

— Að stöku stöðum beinast þó hugir fjöldans; en það er þangað, sem mest er sagt af atvinnunni og fljótfengnustum launum; en sá orðrómur hefir borist út og komið mörgum fyrir eyru, að óviða væru jafn fljótfengnir peningar fyrir vinnu sína eins og á síldverstöðunum á Norðurlandi, og er því verkafólksstraumurinn eðlilega mestur þangað; — og þegar síldveiðitíminn kemur streymir fólkið að þessum stöðum, líkt og hafalda að sjávarströnd; en munurinn er þó sá, að sjávaraldan sogast jafnharðan út í hafið aftur, en þessi alda staldrar við í 2—3 mánuði áður en hún dregst af stað aftur. Ein þessi alda, og hún ekki þeirra minst, flæðir á land i Siglufirði.

— Veiðiskipin fara venjulega að koma úr því er vika er liðin af júlímánuði, og eru svo að smátínast að mánuðinn út, því að veiðin byrjar sjaldan fyrir alvöru fyrr en undir mánaðamótin júlí og ágúst. Skipin koma öll hlaðin fólki, hvort heldur þau koma austan um haf frá Noregi, eða frá suður- og vesturströnd Íslands; einnig eru öll fólksflutningaskip fullskipuð fólki til síldarvinnunnar um þessar mundir, hvort sem þan koma frá Noregi eða ýmsum stöðum hérlendum. Fjöldi af þessu fólki hefir aldrei sézt fyr, og veit engin deili hvað á öðru, en þannig þykir fáum gott að vera til lengdar.

— Augun taka því óðar til að skygnast eftir nýjum vinum innan um fjöldann, og er þau hafa hitt á einhverja, sem þeim sýnist þess vert, að gjöra vináttutilraunir við, tekur tungan til starfa, og síðan hvað af öðru eftir ástæðum. Og svo þegar hver og einn heldur heim til sin aftur að loknum starfstíma, hefir hver einstaklingur eignast nýjan kunningja, og margir jafnvel vini, sein skilið er við með söknuði og sárum trega; en eftir lifa hjá báðum hugljúfar endurminningar um mörg sameiginleg æfintýri, og innileg þrá eftir fleiri endurfundum á lífsleiðinni. — En nokkrir fara þó ef til vill heimleiðis aftur hryggir í huga eftir mislukkaða ferð. — framhald

---------------------------------------------------------------

29. árg. 1914-1915, 33. tölublað, Blaðsíða 7

Smávegis úr Siglufirði. (Niðurlag).

IV. Nú skal sagt nánar frá Siglufjarðarkaupstað og nokkrum smáatriðum þaðan.

— Um þær mundir, sem hinar miklu síldarveiðar hófust fyrir Norðurlandi, hafði litið af eftirtektaverðum og áberandi mannvirkjum verið að finna á Siglufjarðareyri, aðeins verið þar nokkrir lélegir torfbæjakumbaldar, ásamt 2 - 3 íbúðarhúsum úr timbri. — En nú er nokkuð öðruvisi þar um að litast, en á þeim árum, því nú er risið þarna upp stærðar kauptún, sem vex óðfluga með ári hverju, og þar hafa einnig ýms kostnaðarsöm fyrirtæki verið framkvæmd á síðari árum, svo sem vatnsleiðsla, rafljósalýsing o. fl.

— Þar starfa um 10 verzlanir að sumrinu. sennilega með góðum árangri. Sumar hætta þær á haustin, en byrja aftur á nýjan leik, þegar líður að síldarveiðatímanum árið eftir. Framan við kaupstaðinn eru margar bryggjur, sumstaðar samanliggjandi bólverk, sem hylja yfir stórt svæði af strandlengjunni; flest þessara mannvirkja eru eign útlendra útgjörðarmanna.

— Í gegnum kaupstaðinn liggur aðalgata, er nefnist á Siglufjarðarmáli "Hovedgaden"; aðrar götur eru þar fáar, standa þó húsin all-dreift um eyrina, og er því vegleysa að þeim mörgum, því að stórir slakkar eru víða um eyrina innan við sjávarkampinn, oft fullir af fúlu vatni og öðrum óhreinindum, sem þar safnast saman; og leggur oft frá þessum díkjum daunilla lykt. þegar heitt er í veðri. –

— Yfir suma af þessum óþverrapollum hafa síldarútvegsmenn látið leggja tréklæðningar og hlaða þar síðan tunnum sínum í háa kesti; því ekki er landrýmið of mikið, þegar allar þær mörgu tunnur eru komnar á land þar, sem notaðar eru yfir veiðitímann. Þá verður fólk oft að gjöra sér að góðu, að klifrast yfir háa tunnuhlaða til að geta komist ferða sinna.

— Ekki þurfa Siglfirðingar að fylgja ströngum byggingarreglum, vilji þeir koma sér upp húsi. þar má hver sem fara eftir sínu höfði í þeim efnum, enda er húsagjörð þar yfirleitt fremur léleg; venjulegast byggja menn þar að vorinu til, í mesta flaustri og flýti, til að vera búnir að koma einhverju nafni á það, þegar mesti fólksstraumurinn kemur, því þá leigist alt út, hvernig sem það er úr garði gjört, bara að sé þar skýli fyrir verstu illviðrunum.

— Undir þessum kringumstæðum þykja húsin jafnvel full boðleg, þegar búið er að koma ytri klæðningunni á þau, og er þó lítt dregið af leigunni, því hún er þar viðast jafn dýr. Mjög fá hús eru klædd þar utan með járni. Tréklæðning oftast látin nægja. Steinsteypuhús eru þar tvö nýbygð, annað þeirra er barnaskólahús, stórt og vandað, var það bygt í fyrra sumar og kostaði nær 20 þúsund krónum; að því húsi er stór kaupstaðarprýði. Hitt húsið var bygt í fyrra sumar sem leið; þar verður framvegis símastöðin og póstafgreiðslan.

— Á síðari árum hafa síldarveiðaúitvegsmenn margir hverjir bygt hús yfir verkafólk sitt; hafa þeir aðallega gjört það til að tryggja sér fólkið betur, því þeir, sem kosta húsnæði sín sjálfir, hér og þar úti um kaupstaðinn, fara þangað sem bezt gegnir í það og það skiftið, og meðan svo var um fjöldann, urðu sumir jafnvel i vandræðum, þegar þeim lá mest á fólki; en nú, síðan þeir trygðu sér fólkið með þessum ráðum, er það skyldugt að vinna hjá síinum húsráðendum, hvenær sem þeir þurfa á því að halda.

— Sum þessara hýbýla eru all-góð, og fylgja víðast ýms hlunnindi, t. d. ljós, hiti og eldavélar, og sumstaðar einnig matreiðsla. En ónæðissamt þykir sumum að vera þar með köflum, því þarna eru oft ýmsir saman komnir, sem ekki eiga rétt vel samstöðu; stundum er "slegið þar upp skröllum" og er þá ekki stundarfriður fram eftir öllum nóttum fyrir þá, sem meta hvíldina meira en dansinn, og er það næg ástæða til að gjöra skikkanlegustu menn að verstu danshöturum.

— Allir verða að vera til taks á hvaða líma sem er, þegar síldveiðaskipin koma að með síld. Ryðst þá verkunarliðið út á síldverkunarpallana, líkt og herlið til orustu, allir eru hlífum búnir eftir mætti, og enginn fer heldur vopnlaus út i þá orustu; en vopnin eru venjulega kverksagir, stengur og blikkdiskar; allir eru færir til orustu móti síldinni, þegar hún er komin upp á þurt Iand, með þessum vopnum; og þegar út á þennan vígvöll er komið, draga fæstir af starfsþoli sínu; það er lagt bæði ótt og titt, og eru ekki aðrir taldir vel vígfimir en þeir, sem verst sjást á handaskil; en til að ná svo fimlegum handtökum á síldinni þarf all-mikla æfingu; venjulegast eru þeir meðal kvenþjóðarinnar, sem ná hámarki þessa handhraða, enda ber kvenfóik jafnaðarlegast öllu hærri hlut frá borði við þessa vinnu en karlmenn. Það er alltítt, að hraðvirkir kvenmenn vinni fyrir alt að 20 krónum á dægri, þegar næg síld er fyrir hendi, og stöðugt er haldið áfram.

— Oft er fólkið dasað og illa til reika, þegar því gefst tækifæri til að hvíla sig: því oft kemur það fyrir, að það verður að vaka bæði nótt og dag, svo sólarhringum skiftir, en þá hafa líka sumir unnið fyrir álitlegasta mánaðarkaupi.

— Um helgarnar liggja veiðiskipin venjulegast inni; koma að ; á laugardagskveldin og leggja ekki út aftur fyr en á mánudagsnóttum; er sunnudagurinn þá vitanlega notaður til hvíldar af all-flestum, eða réttara sagt, nokkuð af sunnudeginum, því síðari hluta hans eru flestir komnir á kreik og farnir að hlakka til kveldverkanna.

— Má þá stundum sjá margt manna á Siglufjarðareyri, þegar gott er veður, og sjómenn eru flestir gengnir í land; er þá oft engu færra fólk á "Hovedgaden", heldur en á Reykjavíkur-"rúndt" á kveldin, þegar gott er veður og búið er að loka "Bíóunum". Á kveldin er svo venjulega stofnað til dansleikja og annars gleðskapar, er einhversstaðar er hægt að fá húsnæði; er svo dansað og óskapast fram undir morgun, þegar ekki lendir alt i uppnámi i miðjum hliðum.

— Því þarna missa menn stundum með öllu stjórn á skynsemi sinni; og þegar margir verða fyrir því í senn, horfir oftast tiI stórra vandræða fyrir hinum, sem fullri skynsemi halda, því að reiðin, skynsemi firt i ofstopa-æði, er jafnan áræðin og ófyrirleitin og gjörir sjálfa skynsemina jafnvel heimska og ráðþrota, svo hún fær ekkert að hafst; verður þá alt, sem fyrir er, að taka þeim afleiðingum, er verða vilja, meðan berserksgang urinn helsl við á mönnum.

— Stundum hefir komið fyrir, þegar mest hefir á gengið á Siglufirði, að húsin, sem dansinn hefir farið fram í, hafa orðið fyrir stórskemdum; því þegar mestu óspektirnar hafa átt sér stað, hafa þær venjulegast orsakast af því, að fleiri hafa viljað komast inn á þessi "skröll", heldur en bæði húsrúm og þátttakendur hafa leyft; og þeir' svo hafið óspektirnar, sem utangátta áttu að vera.

— Á hverju sumri að kalla má gjósa þar upp ýmsar sögur all-reifarakendar; venjulegast eru þó tildrögin einhver, en þó lítilvæg í samanburði við sjálfar sögurnar, þegar þær eru komnar á hæstu stig; oftast ganga þær út á mannsmorð, sem framið hafi verið á þessum stað og tíma, sem tiltekinn er, og það á níðingslegasta hátt. Áverkarnir á hinum framliðna eru sjaldnast neitt kák, þegar fréttin er komin í almæli: svo og svo margar hnífstungur og lemstranir, fullyrtar eftir hinum beztu heimildum. Og svo þegar það kemst upp, að alt er uppspuni og lýgi, þykja það mestu vonbrigði, að svona merkileg saga var ekki sönn.

— Í fyrra sumar varð maður af sunnlenzku fiskiskipi fyrir einliverjum óþokkum að kveldi til, sem veitin honum dálitla áverka með hnífum sínum; út af því kom ein þessi voðasaga: manninum var að eins komið með lífsmarki til læknisins, og dó eftir skamman tíma o. s. frv. Og því var ekki trúað af mörgum, þegar það var borið til baka, eftir frásögn áreiðanlegustu manna, að maðurinn væri ekki dauður, og að áverkarnir hefðu ekki verið neitt hættulegir, og að maðurinn væri farinn aftur út á skipi sínu og myndi verða jafn góður innan lítils tíma. "Nei, þetta gat ómögulega verið satt! Hann hlaut að vera dauður, það höfðu svo margir sagt það".

— Og nokkru síðar, þegar "Jón forseti" fór heim, var fullyrt, að hann ætti að fara suður með líkið, og fólk beið á bryggjunni til hins ýtrasta, til að geta verið sjónarvottar, er það væri flutt um borð. Og þegar skipið var farið, þóttust engir hafa verið vissir um, að hafa séð kistuna flutta fram, en hún hefði auðvitað getað verið komin i skipið áður; flutt þangað í kyrþey. og svo féll sagan niður. Fleiri slík dæmi gæti eg sagt frá Siglufirði, sem ekki væri gott að bera á móti.

— Um síldarveiðatímann halda venju lega til á Siglufirði nokkrir andlegir prédikarar; sumir þeirra eru útsendarar af norskum trúboðsfélögum; halda þeir oftast samkomur um hverja helgi, þegar þeir koma því við. Stundum fá þeir léða kyrkjuna, og halda þar síðdegisguðsþjónustur, og einnig prédika þeir í heimahúsum, þar sem þeim er viðtaka veitt, og er það sumstaðar fúslega gjört, af hálfu Norðmanna, því þeir virðast margir hverjir vera trúhneigðari, heldur en Íslendingar.

— Manni þykir t. d. mjög eftirtektavert stundum á þessum samkomum, þegar óbreyttir verkamenn standa upp frá sætura sínum og flytja skaparanum bæn og lofgjörð í heyranda hljóði. Þessum Ijósa trúarvotti á maður ekki að venjast hjá íslenzkri alþýðu; en meðal norskra alþýðumanna er þetta ekki sjaldgæft.

— Öðrum þræði er þar starfandi deild frá Hjálpræðishernum á hverju sumri: all-oftast að undanförnu hefir herliðið reist þar upp stórt tjald, og haft samkomur sínar í því; en síðastliðið vor færðist herinn það í fang. að koma sér þar upp húsi, og var því að mestu leyti lokið, þegar starfstíminn byrjaði. En herinn tekur þar ekki til starfa fyr en fólksuslinn er kominn og syndahætturnar mestar, Fyrir áhrif hersins "frelsast" þar venjulega nokkrar sálir á hverju sumri, og eru það oftast Norðmannasálir, og halda nú sumir, að það sé mest fyrir persónuleg áhrif stúlknanna, sem fyrir starfseminni standa, því oft hremmir syndin þessar frelsuðu sálir að nýju, þegar stúlkurnar eru farnar heim aftur á haustin. Annars virðist Hjálpræðishers starfið á Siglufirði eingöngu vera helgað Norðmönnum, því að ræðuhöld og sálmasöngur fer venjulegast fram á dönsku, hvort sem Íslendingar eru í meiri eða minni hluta á samkomunum, og komi það fyrir, að eitthvað sé sagt á íslenzku, eru Norðmenn jafnvel beðnir afsökunar á því.

— En af því, að þetta eru að mörgu leyti elskuverðar stúlkur, og maður á oft kost á, að geta heyrt til þeirra her í höfuðstaðnum, og það oftast á íslenzku, fyrirgefur maður þeim þessa yfirsjón. Og enda, kann þetta fyrirkomulag að vera samkvæmt fyrirskipunum yfirboðara þeirra.

— Hvergi á landi voru mun íslenzkri tungu og þjóðerni vera jafn átakanlega misboðið, einsog á Siglufirði um síldarveiðitímann. Þá má svo segja, að orð og gjörðir flestra fari þar fram á norsku, eða einhverjum tungumálagraut, Því þótt eitthvað fljóti íslenzkt innan um, þá gætir þess sáralitið, því bæði eru útlendingar þar margir, og svo reyna flestir, að svo miklu leyti sem tungumálahæfileikar leyfa, að mæla á norska tungu.

— Áletranir á flestum útanhúss auglýsingaspjöldum, bæði handverksmanna og verzlana, eru dansk-norska, og auglýsi kaupmenn vörur sinar með sérstökum auglýsingamiðum, sem dreift er úti meðal fólksins, þá er málið hið sama. og gæti eg sett hér sýnishorn, ef þörf krefði.

— Síðastliðið sumar, eftir að stríðið hófst var upp tekin sú regla, að festa upp almenningi til fróðleiks öll þau símskeyti, sent bárust hingað til lands viðvíkjandi þeim hildarleikjum, sem fram fóru daglega meðal stríðsþjóðanna; fyrir þessu gengust helztu menn kaupstaðarins, og þeir taldir íslenzkir; en hvernig heldur fólk svo, að fréttirnar hafi litið út, þegar þær komu fyrir augu almennings á Siglufirði? Yfirskriftin, letruð með stórum stöfum, var þannig: Krigstelegrammer",— og alt, sem eftir fór, var auðvitað á sama máli.

— Ekki þurftu skeytin að líta svona út af því, að þau kæmu beina leið frá Noregi eða Danraörku, og enginn gæfi sér tima til að leggja þau út á Íslenzku. Nei. þau komu til Siglufjarðar á íslenzku —beint frá fréttastofu "Vísis“ í Reykjavík; en af velvild og auðmýkt fyrir Norðmönnum, og lítilsvirðingu fyrir innbornum íslendingum og íslenzku þjóðerni, þótti tilhíðilegast, að láta þau líta svona út. Það gjörði minst til, þótt fæstir af nærstöddum íslendingum skildu þau nokkuð til gagns, því bara ef Norðmenn skildu þau, þá var tilganginum náð.

— En hneykslanlegast af öllu var þó það, þegar helztu fréttir frá alþingí voru látnar fylgja á sama máli. — Hver einasti íslendingur, sem fann til nokkurs snefils af þjóðrækni, hlaut að blygðast sín og bera kinnroða fyrir þjóðernisníðslu landa sinna, þegar svo langt var farið. — En hefðu allar fréttirnar verið festar upp á íslenzku, myndu fáir hafa hneykslast, þótt dönsk þýðing væri látin fylgja með, því sanngjarnt var, að Norðmenn fengju að njóta fréttanna líka.

— Nú er líklega nóg komið af þessum samtíningi, og er því bezt að láta hér við lenda.

Lögrétta.