Tengt Siglufirði
Blaðið Mjölnir Miðvikudagur 29. nóv. 1950
Björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar hér á Siglufirði tókst að bjarga áhöfninni.
Báturinn var á heimleið úr fiskiróðri. Gekk ferðin að óskum þar til hann kom inn í Siglufjarðarmynni á móts við Sauðanes.
Fékk hann þar skyndilega á sig brotsjó, sem hvolfdi honum, en næsta bára sneri honum aftur á réttan kjöl.
Var þá stýrishúsið mikið brotið, lestarhlerar sumir horfnir og allt lauslegt af þilfarinu, en lóðaflækjur héngu í reiðanum.
Þrír skipverja, þeir Kristján Sigurðsson, skipstjóri, Tómas Sigurðsson bróðir hans ogvélamaður og Jón Sæmundsson háseti, voru staddir í stýrishúsinu er bátnum hvolfdi, en annar hásetinn, Halldór Pétursson, 16 ára piltur, var niðri í lúkar.
Sakaði engan þeirra.
Strax þegar báturinn var kominn á réttan kjöl, reyndu skipverjar að senda frá sér neyðarkall.
Heyrðist snöggvast til þeirra bæði á loft skeytastöðinni hér og í útvarps tækjum í bænum, en síðan varð talstöðin óvirk.
Vélin var stönzuð, enda var mikill sjór í bátnum, bæði í vélarrúmi, lest og lúkar, en stýrið reyndist vera í lagi.
Tókst skipverjum að koma upp fokkunni og lenzuðu síðan undan vindi og sjó vestur fyrir nesoddann og upp undir fjöru við ós Engidalsár.
Tók báturinn þar niðri og sat þar fastur í ca. eina klst., og var þar í nokkru vari fyrir brotsjóum, því sker voru bæði fyrir framan hann og aftan og út af honum.
Var þá fjara, en þegar tók að falla að, losnaði báturinn og hrakti vestur með nesinu inn í klettabás einn vestan við svonefnt Hjallsnes.
Heimamenn á Sauðanesi höfðu haft auga með bátum, sem fóru inn fjarðarmynnið allan þennan dag, og kom maður, sem var niður við vitann, auga á bátinn rétt framan við brimgarðinn, skömmu eftir að hann fékk á sig brotsjóinn,og fór þá heim að bænum til að láta vita af þessu.
Stóð þá svo á, að Sveinn Ásmundsson formaður björgunarsveitarinnar á Siglufirði var að tala við Jón bónda og vitavörð á Sauðarnesi í síma, til að grennslast uni ferðir bátsins.
Hóf Sveinn þegar að kalla saman björgunarsveitina, en einnig voru gerðar ráðstafanir til að senda bát Þormóði til að stoðar, og var m/s. Sigurður fenginn til þeirrar farar. En rétt á eftir fréttist að Þormóður væri strandaður og þótti þá sýnt, að tilgangslaust væri að reyna að bjarga honum af sjó.
Hélt björgunarsveitin af stað kl. rúmlega 6.
Fyrirliði var Sveinn Ásmundsson, en til leiðsögu var fenginn Sigurður Jakobsson, fyrrum bóndi á Dalabæ.
Voru alls 15 menn í sveitinni, sem fór gangandi og báru björgunar tækin. Farið var upp fjallið upp af Hafnarhæð, upp í Fífladali, niður Lambadal og síðan eins og greiðfærast er út á Sauðanes.
Veður var hið versta, hríð, hvassviðri og náttmyrkur. Á fjallinu var víða glerhált svo að leiðangursmennirnir urðu að skriða sumstaðar, til þess að þá hrekti ekki út af leið, og þegar vestur á Dali kom var kolfófærð. Voru þeir ekki komnir á strandstaðinn fyrr en kl. um ellefu, en frá Siglufirði lögðu þeir kl. rúmlega 6.
Þegar þeir komu að ósi Engidalsár, þar sem þeir hugðu bátinn strandaðan, brá þeim heldur en ekki í brún, því hann var þá horfinn þaðan, og óttuðust þeir, að hann hefði farizt þar.
Héldu þeir þá heim að Sauðanesi, og fengu þar upplýsingar um hvar bátsins væri að leita, en Sauðanesmenn höfðu haft vandlega gát á honum allan tímann.
Héldu þeir síðan vestur með sjónum, og hittu fljótlega tvo menn frá Sauðanesi, sem fylgdu þeim að klettavík þeirri, þar sem báturinn var strandaður í.
Aðstaða til björgunar var hin versta. Umhverfis víkina er snarbrattur bakki ca. 80 metra hár, og urðu björgunarmennirnir að fara niður hann á vað, en stórgrýtt, klökuð og brött urð fyrir neðan og gekk brimið alveg upp í bakkann öðru hverju.
Báturinn var 25-30 faðma frá landi þar sem farið var niður, en nokkru skemmra var að honum hinum megin frá, en þar var þverhníptur klettur og ómögulegt að athafna sig. Þegar niður kom, var þegar hafizt handa um að reyna að. skjóta línu út í bátinn, en í sama bili rak belg með taug, sem bátverjar vörpuðu út, upp í fjöruna.
Voru skipbrotsmennirnir síðan dregnir í björgunarstól til lands og gekk það ágætlega. Voru þeir sæmilega hressir en allþrekaðir af kulda og vosbúð ,enda voru þeir þá búnir að standa gegnblautir í brimi í og hríð í meira en sex tíma og höfðu orðið að gæta sín vandlega til að lenda ekki út af bátnum, en eftir að hann losnaði úr fjörunni við árósinn hafði hann tekið að hallast æ meira og lá síðast nærri því á hliðinni, og sneri kjölurinn að landi.
Þegar björguninni var lokið, var haldið heim að Sauðanesi, þar sem björgunarsveitin og skipbrotsmennirnir, um 20 manns, gistu á mánudagsnóttina. Voru móttökurnar þar eins góðar og framast varð á kosið, enda róma þær allir.
Björgunarsveitin og tveir af skipbrotsmönnunum, þeir Jón Sæmundsson og Tómas Sigurðsson, komu til Siglufjarðar gangandi á mánudag, en þeir Kristján Sigurðsson og Halldór Pétursson komu í gær.
Ósennilegt er talið að bátnum, eða nokkru úr honum verði bjargað.
Fararstjóri björgunarsveitar innar var eins og áður segir, Sveinn Ásmundsson, en með henni fór héðan til leiðsögu, Sigurður Jakobsson, fyrrum bóndi á Dalabæ.
Var leiðsögn hans til ómetanlegs gagns, því án hennar hefði sveitin sennilega orðið mörgum klukkutímum lengur á leiðinni til strandstaðarins, og jafnvel spurning hvort hún hefði ekki neyðst til að snúa við eða setjast að einhversstaðar á leiðinni og bíða dags. Þessi björgun tókst mjög giftusamlega, og verður þeim mönnum, sem að henni stóðu, seint ofþakkað.
Á björgunarsveitin, leiðsögumaður hennar, Sigurður Jakobsson; Jón Helgason, vitavörður á Sauðanesi og heimilismenn hans, forráðamenn Slysavarnardeildarinnar hér og svo skipbrotsmennirnir sjálfir, sem með stillingu og æðruleysi biðu þess sem verða vildi, þar allir hlut að máli. —
Ætti þessi björgun að verða til þess að vekja menn enn betur en áður til umhugsunar um það, hve mikils starf Slysavarnarfélagins er vert, og hver nauðsyn er á að styðja það og efla sem mest. Er þetta í annað sinn á rúmu ári, sem björgunar sveit Slysavarnardeildarinnar hér bjargar mönnum úr sjávarháska, en í fyrrahaust bjargaði hún sem kunnugt er áhöfn á færeyska skipsins Havfrúgvin, sem strandaði við Almenningsnöf. Það er einróma állit kunnra manna, að nauðsynlegt sé að björgunartæki verði jafnan höfð til taks á Sauðanesi.
Flestir skipsskaðar, sem orðið hafa hér um slóðir, hafa einmitt orðið á kaflanum frá Siglufjarðarmynni inn undir Almenninga. Mjög mikil töf er að því fyrir björgunarlið héðan frá Siglufirði að þurfa að bera björgunartækin héðan vestur yfir fjall, eins og varð að gera nú. — Telja björgunarmennirnir, að þeir; hefðu orðið að minnsta kosti helmingi fljótari á slysastaðinn ef þeir hefðu verið lausir við björgunartækin.
Einnig þyrfti að hafa björgunartæki á Siglunesi.
M/b. Þormóður rammi var um 20 lestir að stærð. Eigendur hans voru skipstjórinn, Kristján Sigurðsson og bræður hans fjórir.
Í björgunarsveitinni voru eftirtaldir menn, auk þeirra Sveins Ásmundssonar og Sigurðar Jakobssonar: Erlendur Stefánsson, Sigurgeir Þórarinsson, Stefán Guðmundsson, Jón Sveinsson, Bragi Magnússon, Alfreð Jónsson, Ásgrímur Stefánsson, Haraldur Pálsson, Oddur Oddsson, yngri, Þormóður Stefánsson, Sigtryggur Flóventsson og Jóhann Sigurðsson.
Engin unirskrift var við þessa frásögn.