Neðanrituð frábær og fræðandi grein er tekin úr Sunnudagsblaði Tímans frá 10. Maí 1964.

Höfundurinn Kristinn Halldórsson var vel þekktur og virtur athafnamaður á Siglufirði í marga ártugi og er vel í minnum flestra eldri Siglfirðinga. Kristinn bjó lengst af í húsinu við Aðalgötu 3 á Siglufirði.

Smávegis um Siglunes við Siglufjörð.

Við austanverðan Siglufjörð ganga tvö brött og klettótt fjöll í sjó fram. Heitir eystra fjallið Hestfjall, og myndar það vesturhlíðar Héðinsfjarðar, en hið vestra nefnist Nesnúpur.

Á milli þessara fjalla er grösugur lítill dalur, Nesdalur.

Skriðurnar inn með austanverðum Siglufirði, suður úr Nesnúpnum, nefnast Nesskriður, brattar og grýttar. Ná þær allt að Kambalágum og Selvík, sem er í miðjum firðinum.

Norðvestur úr Nesnúpnum gengur allstórt nes norðvestur í fjarðarmynnið, er heitir Siglunes. Fram af því eru grynningar miklar, brimsorfnar steinklappir og sker og boðar, er nefnast Hella. Sumar þessara klappa, svo sem Hellusteinn, eru ofan sjávar, þegar lágsjávað er. Hellan er sökkull Siglunessins og nesið og grynningar þessar lykja fjarðarmynnið að hálfu leyti, mynda risavaxinn brimbrjót er veldur því, að Siglufjörður er svo góð höfn, sem raun er á. Innsiglingin til fjarðarins er því um vestanvert fjarðarmynnið, þar sem liggur djúpur áll meðfram Sauðanesi og Strákafjalli.

Kristinn Halldórsson - Ljósm: ókunnur

Kristinn Halldórsson - Ljósm: ókunnur

Eins og að líkum lætur er brimasamt og vindasamt á Nesi, en sökum þess, hve stutt er þaðan til sjósóknar, þá varð hið fyrsta landnám þarna út frá, en ekki inni í firðinum. Norður úr Nestánni gengur alllangur skerjaklasi, er nefnist Svarthöfði.

Sjálft nesið er gróið land, nokkuð þýft, en frekar lágt. Á miðju Siglunesinu er malarkambur og gengur sjór þar yfir í stórbrimum, sjaldan þó. Heima við bæina hækkar landið nokkuð upp að Nesnúpnum. Sumstaðar eru mýrar og grænar grundir ofan bæjanna. Norður með nesinu og austur undir Reyðarárland eru móar og melar og allþýft, og er land órækt að á því svæði. Norðaustur af bæjunum er talsverður mýrafláki og þýft. Kríuvarp er þar dágott. Á þessum mýrum eru nokkrir hólar, kannski gömul hlaða, brot eða kindakofatóftir. Efst í túnunum eru grónar leirskriður og enn ofar melar. Þá skal getið hér nokkurra nafna á Nesi og Nesdalnum, og eru þau flest samkvæmt frásögn Odds Jónssonar, sem hér er fæddur og uppalinn, og verður hans nánar getið í búendatali hér á eftir.

Á milli Nesskriða og Sigluness eru tvö lítil nes, syðra og ytra Geitanes. Þar er bratt nokkuð en grasgefið. Á syðra nesinu er laut, álagablettur, heimkynni huldufólks. Á ytra nesinu mótar fyrir tóftum. Sagnir herma, að kona nokkur hafi búið þar og átt geitur. Fyrir ofan og sunnan túnið á sjálfu nesinu eru grundir, er nefnast Stekkir. Þar eru garðlönd og er þar skjólbetra en neðar: Nesnúpur skýlir. Selskinnahóll er norðan við íbúðarhús Jóns Oddssonar. Nú skulum við bregða okkur austur með Nesnúpnum og komum við þá á Nesdalinn. Þar er hæðarhryggur, er gengur upp í fjallið að vestan, er heitir Langihryggur. Á dalnum framarlega og austan til eru grjótmelar er nefnast Hólar. Skammt þar frá að vestan eru Háumýrar, háir bakkar er liggja niður að Reyðará.

Á miðjum dalnum er tóft, er nefnist Sel. Skál er þar fyrir ofan í fjallinu, Selskál. Utar er skál, vestanmegin, er heitir Ausa, og andspænis henni eru Reyðarárskálar. Stærsta skálin austan til á Nesdal heitir Miðskál. Fremst að austan er allgreiðfært skarð yfir Hestfjallið, er heitir Pútuskörð. Um það er greiðfærast í Héðinsfjörð. f dalsmynninu, að vestan, eru tóftir, nefndar Stekkurinn. Austast á þessu svæði er Landsendi, mörk Reyðarár, og enn austar byrjar Hestfjall.

Þormóður Haraldsson hinn rammi, sænskur maður, nam hér fyrstur land og bjó á Siglunesi, svo sem landnámssagan greinir. Líklegt er, að byggð hafi haldizt hér á Nesi frá upphafi landnáms og fram á þennan dag. Þessu veldur hentug lega þessa staðar til sjósóknar og sauðfjárbeitar. Beitiland Siglnesinga er nesið sjálft, Nesdalurinn, grasgefinn og skjólgóður, ennfremur Hestfjall og Héðinsfjörður, einkum vesturhlíðar hans, sem eru grösugar og kjarngóðar til beitar. Svo er fjörubeit ágæt þarna beggja vegna nessins og töluvert snjóléttara þarna á vetrum en inni í firðinum. En því er ekki að neita, að þarna er nokkuð afskekkt, veglaust og vindasamt, einkum að vetrarlagi.

Þormóður landnámsmaður Haraldsson sló eign sinni á landsvæðið á milli Hvanndala og Úlfsdala að vestan. Átti hann í deilum og mannvígum við Ólaf bekk út af fyrrnefndum skika. Það er eftirtektarvert, hve landnámsmaðurinn hefur verið ratvís á heppilegasta staðinn til búsetu og bjargræðis. Og Neskrókur á sunnanverðu nesinu er tilvalinn lendingarstaður og naust fyrir sjófarendur.

Þá vaknar spurning: Hvar stóð bæ Þormóðs ramma og hversu fór um búsetu hér eftir daga hans? Saga þessarar byggðar er hulin móðu eftir daga Þormóðs. Sennilegt má telja, að bær hans hafi staðið uppi á nesinu, ofan við Neskrókinn, á svipuðum stað og hinn stóri torfbær stóð á nítjándu öldinni. Um þetta verður þó ekkert fullyrt, en líkur eru sterkar fyrir því, að þannig hafi þetta verið. Uppgröftur undir leiðsögn fornminjafræðings gæti ef til vill brugðið ljósi á þetta atriði. Þormóður rammi tók sér búsetu þarna vegna hentugra staðhátta til útróðra. Ef hann hefði að mestu lagt stund á sauðfjárrækt, hefði hann eflaust numið land á Siglufjarðareyri, sem fyrrum var iðjagræn, að frátöldum nokkrum lónum og tjörnum, yzt og austast á eyrinni. Sjósókn á opnum bátum er hvergi eins hentug og hér úti á Siglunesi. Og þannig hefur þetta verið um ár og aldir. Menn hafa haft aðallífsbjörg sína af útróðrum þarna, en haft búskap öðrum þræði sér til hagsbóta, og víst er um það, að oft hefur verið til matbjörg þarna í lágreistum kotum, þegar harðæri geisaði í svokölluðum góðsveitum. Um það vitna bréf frá fyrri öldum, er varðveitzt hafa. Í kaþólskum sið var oft leitað eftir matföngum á Siglunes. Einkum var sótzt eftir hákarli og skreið og þessar afurðir nefndar „föstumatur".

í Sturlungu segir frá konu nokkurri, er Guðrún hét, og bjó hún á föðurleifð sinni, Arnarnesi við Eyjafjörð. Bóndi hennar hét Símon, og segir svo um Siglunesför hans:

„Þá var föstumatar fátt. Ok er langafasta kom, ræddi hon at hann skyldi sækja föstumat út á Siglunes, er hann átti at föður síns."

Ekki hafði Símon heppnina með sér í þessari för. Bátur hans steytti á Svarthöfðanum, er fyrr er nefndur, og hann og bátverjar allir týndu þar lífi sinu. í þjóðsögum Jóns Árnasonar er getið um skessu nokkra, er átti heima við Bláfjall, fyrir ofan Mývatnssveit. Hún átti það til að ræna mönnum neðan úr byggðinni og hafa þá hjá sér, því að hún kunni illa einlífi. En menn kunnu illa við sig í vistinni hjá skessunni og reyndu að flýja, er hún var að heiman. Eitt sinn hafði hún hjá sér sauðamann, er ekki vildi neyta matar, hvað sem hún bar fyrir hann. Loks sagði sauðamaður, að hann skyldi taka til matar síns, ef hún fengi tólf ára gamlan hákarl að borða. Skessan fer loks á stúfana, stikar yfir land og sjó og fer beinustu leið á Siglunes og þar tókst henni að fá hinn umbeðna hákarl. Í þessari frásögn er samofin þjóðtrú og staðreyndir úr daglegu lífi fyrri tíma. Og víst er um það, að ef menn vildu fá gamlan og vel verkaðan hákarl, þá varð Siglunes við Siglufjörð oftast efst í hugum fólksins. Hákarlinn þaðan var jafnan hið mesta lostæti. Slíkur er orðstír Siglunesshákarlsins fram á þessa daga.

Þar sem hin fyrsta byggð myndaðist hér, reis og hin fyrsta kirkja á Siglunesi. Hvenær það var, er ekki vitað. Að sjálfsögðu eignaðist Hóladómkirkja ítök hér, á meðan veldi hennar var mest, og fyrr á öldum hét byggðin Sigluneshreppur. En löngu síðar kom nafnið Hvanneyrarhreppur til sögunnar.

Gamlar sagnir, hvergi skráðar í annálum, hafa lifað hér í firðinum á vörum fólks, kynslóð fram af kynslóð, um mikið slys í Nesskriðum. Atburður þessi átti að hafa orðið á aðfangadag jóla 1613, er fólk sunnan úr firðinum var á leið til kirkju út á nesið. Feiknlegt snjóflóð varð á vegi þess þarna í skriðunum, og fórust margir, menn og konur. Sagnir herma, að 50 manns, aðrar nefna 30, hafi týnt lífi. Örnefni eru enn lifandi, er benda til þess, að hér hafi slys orðið, en samtíðar annálar, til dæmis Skarðsárannáll, geta ekki þessa atburðar og er hann þó skráður í nágrannahéraði hér fyrir norðan. Eftir slys þetta var kirkjan árið eftir flutt að Hvanneyri, inni í firðinum, en heimafólk á Nesi var þó greftrað þar út frá eftirleiðis, ef svo bar undir. Mun hafa verið greftrað í kirkjugarðinum á Siglunesi allt fram í byrjun nítjándu aldar. Ekki mun fólk hafa fækkað að ráði á Nesi, þótt kirkjan flyttist þaðan. Útræði var svo hentugt þaðan og aðrir landkostir sambærilegir við það, sem er innar í firðinum, enda segir Eggert Ólafsson í ferðabók sinni á átjándu öld, að Siglunes sé í fremstu röð þeirra staða, þaðan sem útræði sé stundað hér norðan lands. Hann segir ennfremur, að hákarlaveiðar séu mest reknar hér fyrir norðan, og hann telur Siglunes í röð fremstu verstöðva, þar sem slíkar veiðar séu stundaðar.

Þótt fjörðurinn hafi verið afar einangraður öldum saman, þá er óhætt að fullyrða, að héðan hafi alltaf verið róið eftir þorski og hákarli og þá einkum frá Siglunesi, svo sem hér að framan hefur verið getið.

Ferðamenn hafa fáir lagt leið sína hingað á fyrri öldum. Þó má nefna grein eftir ókunnan danskan höfund, er heimsótti fjörðinn og nesið í byrjun nítjándu aldar. Frásögn þessa manns hefur Þorvaldur Thoroddsen tekið í landfræðisögu sína. Hinn nafnlausi Dani fór út á Siglunes. Hann segir, að fiskkasir hafi legið í fjörunni, en ekki mátti slægja fiskinn, því að þá var sunnudagur.

Getið er og um laglega bóndadóttur þarna á nesinu, ljóta kerlingu á bænum og hinn íslenzka sið að heilsast og kveðjast með kossi. Höfundur segir og, að kvenfólkið í Siglufirði hafi haft bláar húfur með grænum silkiskúf, en karlmenn séu klæddir eins og hásetar á þeim dögum. Þeir eru sagðir hafa á fótum sér skó úr selskinni og hákarlsskráp. Spariföt þeirra eru treyjurnar, bryddar rauðum borðum, og þegar rignir, klæðast þeir sauðskinnsstökkum og brókum.

Þótt Siglunesbyggðin væri um aldir allar næsta einangruð frá öðrum landshlutum, þá höfðu Siglfirðingar því meiri samskipti við erlenda fiskimenn, hollenzka og enska, er hér stunduðu fiskiveiðar á duggum í margar aldir. Þessi byggð naut þess, hve hún var afskekkt. Boð og bönn yfirvalda giltu lítt hér, og fólkið verzlaði talsvert við hina útlendu fiskimenn. Örnefni frá dvöl Englendinga munu hér enn finnast, svo sem segir í Einokunarverzlun Dana á íslandi um þetta efni.

Bezta aðstöðu til þess að reka verzlun við útlendinga höfðu Siglnesingar. Seglduggurnar komu undan veðrum inn á Neskrókinn og lágu þar fyrir festum, og þá var byrjað að höndla. Siglnesingar keyptu fiskilínur og öngla, matarpotta, mynztrað léreft og brennivín, en létu í staðinn prjónles og búsafurðir. Var þetta oft hið mesta bjargræði fyrir þessa litlu byggð, er var afskekkt og gleymd.

Um miðja nítjándu öldina hefjast svo hákarlaveiðar héðan úr firðinum á þilskipum. Siglunes hefur alið marga góða og fengsæla hákarlaformenn, og má nefna Jóhann Jónsson, föður Baldvins á Nesi, er síðar verður nefndur, Þorleifana Þorleifssyni, hinn fjórða og fimmta með því nafni, enn fremur Odd Jóhannsson, Þorvaldssonar ríka frá Engidal, og Jóhann Jónsson, síðar hreppstjóra í Höfn í Siglufirði. Jóhann var einnig eflaust bezti þilskipasmiður, er Hér hefur starfað. Kunnátta og smekkvísi hans var lengi rómuð.

Hann var og ágætur aflamaður. Kvæntur var hann Rakel, dóttur Páls Kröyers eldra hreppstjóra í Höfn. Jóhann var hér hreppstjóri í aldarfjórðung og bjó í Höfn og lét sér annt um framfarir í hreppnum. Hann lézt 1896. Sonur hans, Páll Kröyer Jóhannsson, var ágætur skipasmiður og starfaði lengi hjá Gránuverzlun við viðhald hákarlaflotans. Páll var þekktur hákarlaformaður á yngri árum.

Siglnesingar hafa ætíð átt yfir sjó að sækja sér björg til handa: Út á hafið til hákarla og þorskveiða og inn í kauptúnið til þess að verzla, leggja inn afurðir og afla sér nauðsynjavöru. Og lengst af hefur farkostur þeirra verið opinn bátur. Allmörg sjóslys hafa orðið mönnum þar út frá að fjörtjóni, og flest eða öll eru þau skráð, og skulu þau eigi rædd hér.

En nú skulu nefndir helztu ábúendur á nesinu í rúma öld, og er hér stuðzt við Aldarminningu séra Bjarna á Hvanneyri og frásagnir núlifandi Siglnesinga, skráðar af mér.

Um miðja síðustu öld lifnaði talsvert yfir sjósókn og búskap þarna. Selveiði var þá töluverð um tíma, auk hákarla- og þorskveiða, og var heimafólk á milli sextíu og sjötíu manns eftir miðja öldina. Einn helzti bóndinn í upphafi þessa tímabils var Jón Jónsson, verzlunarþjónn frá Grenjaðarstað. Hann kvæntist Önnu Þorleifsdóttur, systur Þorleifs bónda þar, hins fyrsta með því nafni. Jón hafði auknefnið „bóndinn" og bjó þarna hálfa öld. Anna dó 1862, og var síðari kona hans Marsibil Jónsdóttir úr Húnavatnssýslu.

Báðar voru þær miklar sæmdarkonur. Sr. Bjarni telur Jón einn merkasta bónda, er þarna hefur búið. Var hann allkunnur fyrir myndarskap, þótti góður búmaður og orðheldinn. Heimili hans var orðlagt fyrir reisn og prýði, eins og rammíslenzk bóndabýli gerðust bezt á þeim tímum. Hann var barnlaus, en ól upp mörg fósturbörn. Jón lézt 1888, og verður hann ávallt talinn í röð fremstu bænda, er á Nesi hafa setið.

Þorleifur Þorleifsson, hinn fjórði með því nafni, byrjar búskap hér 1860, þá fyrir skömmu kvæntur Halldóru Jónsdóttur, Jónssonar í Neskofa, og búa þau hér fram að aldamótum.

Þorleifur var í röð fremstu bænda á Siglunesi á sinni tíð, afburðasjómaður og búhöldur mikill, vel greindur, hagmæltur og söngvinn, svo að orð fór af. Hann var oddviti Hvanneyrarhrepps í nokkur ár. Sonur þeirra var Þorleifur, hinn fimmti með því nafni, tekur við búi 1899, en hann var þá nýlega kvæntur Valgerði Kristjánsdóttur. En sama ár flytjast þau hjón að Staðarhóli, austan fjarðarins, og búa þau þar til 1916. Þá flytjast þau yfir í kauptúnið. Þorleifur var ágætur sjómaður eins og margir forfeður hans, lengi hákarlaformaður, hægur, en öruggur við öll störf. Hann fórst ásamt Þorvaldi, syni sínum, í sjóróðri haustið 1933, og var að þeim feðgum mikill mannskaði.

Börn þeirra hjóna hafa búið síðan hér í kaupstaðnum. Þá búa hér um og eftir miðja öldina Baldvin Magnússon, Þorleifssonar á Siglunesi, og kona hans, Guðrún Jónsdóttir. Ennfremur Sölvi Gottskálksson og Sigurlaug Þorleifsdóttir frá 1871. Sigurlaug lézt sex árum síðar, og hætti Sölvi þá búskap, en byrjar á ný eftir önnur sex ár og býr hér til dauðadags, 1903. Þá tók við Steinn, sonur hans, til 1909. Kvæntur var hann Hólmfríði Sigfúsdóttur. Þau fluttust þá að Læk í Skagafirði.

Árið 1888 fara þau hjón, Baldvin Jóhannsson og Marsibil Friðbjarnardóttir, að búa þarna og búa fram að 1925, og taka þá við búi synirnir, Magnús og Guðmundur. Þeir bræður reistu steinhús 1929 og höfðu sambýli. Magnús brá búi og fluttist með fjölskyldu sína til Akureyrar 1931, og lézt hann þar fimm árum síðar. Guðmundur fluttist hingað í Siglufjörð um skeið, en fór svo aftur út á nesið, en kom alkominn í kaupstaðinn 1957.

Þeir bræður gerðu töluverðar jarðabætur og húsa, sléttuðu tún og girtu. Erlendur, sonur Magnúsar, tók við búi þessu, og er hann einn þriggja bænda, er nú búa á Siglunesi. Hann er kvæntur þýzkri konu. Erlendur er vitavörður Siglunesvita síðan 1958 og áhugasamur um búskap, svo sem hann á kyn til. Hann hefur fengið sér dráttarvél og önnur tæki til stuðnings búi sínu.

Þá bjuggu hér á síðasta áratugi fyrri aldar hjónin Arnbjörg Sumarliðadóttir og Hans Jónsson. Þau fluttu sig svo í kauptúnið, og reisti Hans sér bæ skammt sunnan og austan við Kamb, nyrzt á eyrinni, og nefndi „Faaborg". Nafnið er þannig tilkomið, að Hans eignaðist útskorna fjöl úr samnefndu skipi, og hann festi fjölina yfir bæjardyr sínar. Nafnið festist við litla bæinn hans.

Siglunes 2005 ca.  SK

Siglunes 2005 ca. SK