Fróðleg grein eftir Þ.Ragnar Jónasson

um kirkjur og fleira á Siglunesi, Tekið úr blaðinu Siglfirðingur, frá 5. Maí 1986

Á fornum kirkjustað

Það þótti tíðindum sæta, þegar sóknarprestur Siglufjarðar, séra Vigfús Þór Arnason, tilkynnti söfnuði sínum að messað yrði á Siglunesi, hinum forna kirkjustað Siglfirðinga, sunnudaginn 22. júlí 1984.

Þetta var hið mesta ævintýri, sem heppnaðist í alla staði mjög vel. Þennan dag var mjög fagurt sumarveður, logn, sólskin og 16 stiga hiti. Siglufjörður var spegilsléttur í sumarblíðunni og fallegt var að sjá fjölda smábáta á siglingu um fjörðinn með messufólkið.

Á Siglunesi fór fram virðuleg guðsþjónusta „undir bláum sólarsali", að viðstöddum nær 300 manns. Þessari athöfn gleymir enginn, sem þar var. Siglunes var miðstöð héraðsins um langan aldur. Þar var besta bújörðin í þessum byggðum, 30 hundraða jörð, að fornu mati. Hún bar af öðrum jörðum að landsstærð. landkostum og hlunnindum. Þar voru umsvifin mest, til lands og sjávar, og löngum fjölmennust byggð í hreppnum. Frá upphafi hreppaskipunar hétu þessar byggðir Sigluneshreppur, alveg fram að aldamótunum 1700.

Frá 1700 til 1807 var nafnið Siglufjarðarhreppur, en 1807 til 1918 breyttist nafnið í Hvanneyrarhrepp. Eftir það tilheyra allar þessar byggðir Siglufjarðarkaupstað, en þær eru Hvanndalir, Héðinsfjörður, Siglunes, Siglufjörður og Úlfsdalir (frál827).

Á Siglunesi var hinn upphaflegi kirkjustaður og þar var sóknarkirkja héraðsins í um 500 til 600 ár, þar var einnig prestssetrið. Ekki er vitað hvenær fyrsta kirkjan var byggð þar, vegna þess að engar heimildir finnast fyrir því. Talið er líklegt að það hafi verið sem annarsstaðar skömmu eftir kristnitökuna, eða á elleftu öldinni.

Sennilegt er að fyrstu kirkjurnar hafi verið byggðar úr timbri. Bæði var, að á þeim tímum voru siglingar örar milli íslands og Noregs og í því sambandi er í frásögum oft getið um flutning á kirkjuviðum til landsins, svo og að jafnan hefur verið mikið af trjávið fyrir hendi á Siglunesi, sem hafstraumar bera að landi. Þegar fram liðu stundir og siglingaleysi og óáran þjökuðu landslýðinn, munu flest kirkjuhúsin hafa verið byggð, svo sem aðrir mannvistarstaðir landsins, úr innlendu efni, torfi og grjóti, að mestu leyti. Engar lýsingar finnast í kirkjumáldögum af Sigluneskirkjum og er því ekkert vitað um stærðir þeirra og gerðir og verður þar af leiðandi að ætla að þær hafi verið líkar því, sem annars staðar var á landinu.

Erfitt hefur verið fyrir sóknarfólkið í þessum byggðum, að sækja kirkju á Siglunes. Þessvegna voru bænahús á nokkrum stöðum. Vitað er að þau voru í Vík í Héðinsfirði, á Hvanneyri í Siglufirði og einnig eru taldar líkur á því að bænahús hafi verið í Saurbæ í Siglufirði. Bænahús var á Dalabæ í Úlfsdölum, en fólkið þar átti einnig kirkjusókn að Siglunesi og síðar að Hvanneyri, enda þótt þessir dalir hafi tilheyrt Skagafjarðarsýslu, sem þá hét Hegranessýsla, allt fram til 1827.

Með bréfi Páls Stígssonar höfuðsmanns, dagsettu 2. júlí 1563, um kirkjuskikkanir, skyldar hann húsráðendur á landinu til þess að sækja allar helgar tíðir við aðalkirkjur, ásamt þjónustufólki sínu. Varðaði það refsingu ef út af var brugðið. Þessvegna óskuðu Siglfirðingar og aðrir sóknarmenn eftir því að aðalkirkjan yrði flutt frá Siglunesi, þar sem hún var talin svo illa í sveit sett, inn á Siglufjörð, en þar væri hún meira miðsvæðis í sókninni. Árið 1574, eða 11 árum eftir tilskipun Páls höfuðmanns, var lögð fram formleg beiðni til kirkjuyfirvalda um þetta mál. Þessu hafnaði prestastefna Hólastiftis og lagði til að Sigluneskirkja yrði aðeins útkirkja frá Kvíabekk í Ólafsfirði, og yrði þá enginn prestur lengur á Siglunesi. Þetta var staðfest af konungi árið eftir, en mun aldrei hafa komið til framkvæmda, enda hefðu þá erfiðleikar sóknarbarna og prests aukist en ekki minnkað. Svo var það loksins árið 1614 að leyfi fékkst fyrir því að aðalkirkja safnaðarins skyldi framvegis vera á Hvanneyri í Siglufirði. Þá flutti Siglunesprestur inn til Siglufjarðar, og hafði þá staðið þref um þessa flutninga í 40 ár. Eftir þetta var svokölluð hálfkirkja á Siglunesi í 150 ár, en bænhúsin voru lögð niður fljótlega eftir siðaskiptin 1550, enda urðu viðkomandi bændur að standa straum af viðhaldi og rekstri þessara húsa og borga aukalega prestsþjónustuna hverju sinni.

Siglunesprestar hafa átt erfiðu hlutverki að gegna. Þetta var fátækt prestakall og samgönguerfiðleikar voru mjög miklir. Ekkert var hægt að ferðast nema sjóleiðis, eða fótgangandi yfir mjög há fjöll, sem aðskilja þessi byggðarlög, sem þurfti að þjóna.

Kaþólsk kirkja var á Siglunesi yfir 500 ár, og þar hefur allt verið í föstum skorðum þess siðar. Það er fyrst í umróti siðaskiptanna, eða stuttu seinna, sem sóknarkirkjan fékkst flutt, og þá eftir ítrekaðar umsóknir og þras.

Sú saga hefur orðið lífseig, að þessum flutningi prestsseturs og sóknarkirkju hafi valdið slysi sem á að hafa orðið á aðfangadag jóla árið 1613. Þessi frásaga kemur upphaflega fram í bréfi séra Jóns Helgasonar til Hálfdáns Einarssonar skólameistara á Hólum í Hjaltadal, og þar er sagt að 50 manns hafi farist í snjóflóði í Nesskriðum, á leið til jólamessu á Siglunesi þetta kvöld. Þetta bréf, sem notað er sem heimild fyrir sögunni, er skrifað nærri hálfri annarri öld eftir að slysið á að hafa gerst. Þessi séra Jón Helgason var prestur á Hvanneyri 1721 til 1744, en varð að láta af embætti vegna slæmrar geðheilsu. Hann dvaldi síðar lengi á Höfðaströndinni og var þar við búhokur við mikla fátækt. Þessi frásögn um slysið er sögð byggð á munnmælum úr Siglufirði og bent á örnefni í Nesskriðum því til sönnunar. Sagt er að snjóflóðið hafi fallið norðast í Skriðunum, en umrædd örnefni eru flest miklu sunnar. Mótsagna gætir því í þessu.

Ef þetta slys, eða frásögnin af því, væri sannleikanum samkvæmt, væri þetta eitthvert mesta manntjón sem orðið hefur í eitt skipti, á landi, í allri Íslandssögunni. Þá hefði orðið nær algjör landauðn í þessum byggðum. En svo varð ekki, og ekki er þessa atviks neinstaðar getið í annálum eða í öðrum frásögnum.

Hinn kunni fræðimaður Björn Jónsson lögréttumaður á Skarðsá í Sæmundarhlíð (f.1574 d. 1655) var nokkurskonar skjalavörður hjá biskupnum á Hólum, Þorláki Skúlasyni (f.1597 d. 1656). Var mikið samstarf milli þeirra og að frumkvæði Þorláks biskups hóf Björn að rita Skarðsárannál, sem nær yfir tímabilið 1400—1645. Þessi annáll er talinn vera ein allra besta heimild um sögu landsins á þessum tíma. Björn var því öllum málum kunnugur í biskupsdæminu, og þó líklega sérstaklega í næsta nágrenni biskupsstólsins, eins og hér er um að ræða. Þessa atburðar — mannskaðans í Nesskriðum — er ekki getið í Skarðsárannál né nokkurs staðar hjá samtímamönnum hans, eða hjá öðrum annálariturum, sem þá voru í næstu héruðum. Í skjölum biskupsstólsins kemur ekkert fram um þetta, en þau geyma frásagnir og vísitasíur af kirkjum biskupsdæmisins meðal annars efnis, og má því geta nærri að svona atburðar væri einnig getið þar, þar sem þetta varðar kirkju í biskupsdæminu og heila kirkjusókn, svo til undir handarjaðri Hólabiskups. Þó annálarnir séu yfirleitt stuttorðir og gagnorðir er þar allt tínt til, sem skrásetjurum þótti fréttnæmt.

Samkvæmt ofanrituðu, bendir allt til þess, að þetta umrædda slys hafi aldrei orðið. Hér gæti verið um pennaglöp að ræða hjá þessum aldraða uppgjafapresti, sem ekki var heill heilsu, eftir því sem sagnir herma. Því miður hafa margir haldið þessari sögu á lofti, bæði í ræðu og riti, án þess að athuga mögulegt sannleiksgildi hennar.

Fáar minjar sjást á Siglunesi um horfna tíð, þó þar hafi margt sögulegt gerst. Aðeins eru þar nokkur örnefni, sem ennþá lifa í minni manna og benda aftur til horfinna tíma.

Á Kirkjuhóli er talið að kirkjan hafi staðið lengst. Umhverfis hann er Kirkjuvöllur og nokkru ofar Kirkjudagslátta. Venja var að kirkjugarðarnir væru hringmyndaðir og kirkjurnar stæðu í þeim miðjum. Svo mun einnig hafa verið á Siglunesi, eftir sögn þeirra er sáu hann, litlu eftir síðustu aldamót. í kringum grafreitina voru venjulega hlaðnir grjót eða torfgarðar til varnar ágangi búpenings. Því miður er búið fyrir löngu að jafna út öll vegsummerki kirkjugarðsins og gamlir legsteinar komnir á kaf í jörðu. Þarna voru jarðsettir forfeður og formæður Siglfirðinga í mörg hundruð ár. Þetta er helgireitur, sem er að gleymast, og væri það þarft verk áð grafa upp nokkra bautasteina og hafa þá ofanjarðar til sýnilegra minninga um löngu horfnar kynslóðir á söguríkum stað. Þarna þyrfti einnig að reisa minnismerki um þennan helgireit og það mikla starf, sem þar var unnið í þágu hins kristna siðar og fólksins sem byggði þessi héruð.

Á Siglunesi var sóknarkirkja sennilega í hartnær sex aldir, og hálfa aðra öld til viðbótar var þar hálfkirkju. Síðasta greftrun fór þar fram haustið 1809, og mun það vera síðasta kirkjulega afhöfnin, sem fram fór á þessum stað. Það var því vel til fundið að halda guðsþjónustu á hinu forna kirkjustæði þegar liðin voru 370 ár frá því að kirkjustaður Siglfirðinga fluttist frá Siglunesi, og 175 ár frá síðustu kirkjulegu athöfninni þar. Þetta gæti verið ábending um það, að sögu þessa höfuðbóls og hlutverki staðarins í kirkjumálum Siglufjarðarbyggða má ekki gleyma.

Þ. Ragnar Jónasson.   

Þetta kort og myndin af Ragnari fylgdi greininni

Þetta kort og myndin af Ragnari fylgdi greininni