Valli í bíó, minning um mann. - Valgeir Magnússon

23. maí 2013 – Áður birt á Facebook og www.si2.is -- 

Hér birt með leyfi höfundar.  Gunnar Trausti skrifar:

Valli í bíó, minning um mann. - Valgeir Magnússon 

Sagan segir að á atvinnuleysisárunum þegar að um 20-30 Siglfirðingar héldu í atvinnuleit til Svíþjóðar varð mikið mannahallæri á togaranum Hafliða SI 2. þá var gripið til þess ráðs að ráða á einu bretti á Hafliða fimm menn sem allir voru nýsloppnir út af Litla Hrauni eftir að hafa greitt sína skuld við samfélagið.

þetta voru þeir Valli í Bíó, Glæpaskalli, Diddi-Slowly, Elli flugmaður og Jói Víglunds. Á Siglufirði bjuggu þá um 2300 manns og þótti þetta að vonum slæm sending inn í þetta litla samfélag. Bæjarbúar höfðu þó ekkert af þessum mönnum að segja, nema þegar togarinn var inni en þá gat líka orðið heitt í kolunum. Valli í Bíó var sjálfskipaður foringi þeirra og stjórnaði þeim með harðri hendi.

Gunnar Trausti

Gunnar Trausti

Ég man eftir því eitt sinn að einhverjir skipverjar höfðu strokið úr bænum í inniverunni og skipið bundið við bryggju í nokkra sólarhringa. Bæjarútgerðin reyndi að semja við þá sem eftir voru að fara út færri en löglegt var með loforðum um bónus en allt kom fyrir ekki.

Svo kom að því að Valla leiddist þófið og haft var samband við Kjartan Friðbjarnarson útgerðarforstjóra um að Valli vildi semja. Fundurinn skildi vera á Ísbarnum sem þá var í eigu Huldu Steinsdóttur. Kjartan taldi sig ekki vera öruggan og hafði með sér þá Hjört Ármannsson lögregluþjón og Bjarna í Visnesi.

Samningsborðið var innsti básinn á Ísbarnum og sátu þeir Valli og annar skipverji öðrum megin við borðið en Kjartan og Hjörtur hinum megin borðs. Bjarni stóð heiðursvörð við vegginn. Það er til marks um þau völd sem að Valli hafði í þessum samningum auk þess að hafa ráðið þessum óvenjulega fundarstað að ákavítisflöskurnar stóðu á borðinu.

Valli var ekki lengi að semja. Hann fullvissaði yfirvaldið um að eftir 24 tíma færi Hafliði úr höfn. Um borð yrðu 25 kallar í stað 28 og bónusinn yrði 2000 kall aukalega pr. mann fyrir túrinn.

þegar að samningarnir voru í höfn þá greip Bíóstjórinn í bartana á Hirti og sneri upp á og sagðist hafa fallegri barta en hann! Stirðnaði nú samkundan upp en Hjörtur bað hann blessaðan að koma bara köllunum um borð!

Þessi uppákoma minnti mann á kvikmynd frá villta vestrinu þegar að allt er komið í uppnám og maðurinn með stjörnuna þarf á öllu sínu að halda til að ekki sjóði upp úr. (af www.si2.is)

===============================================================

Frá Facebook

Ummæli: Jóna Möller; Valli kom oft á Bíóbarinn i den tid. Eftirminnilegur!

Ummæli: Ingvi Hrafn Jónsson; Hreint yndisleg saga. Sé pókerandlitið á Friðbjarnarsyni fyrir mér:)

Ummæli: Jóhanna B. Jóhannsdóttir;  Valli Bíó, hver man ekki eftir honum. Hann gat brutt kókflöskur.

Ummæli: Björn Birgisson; Fyrir nokkrum árum hitti ég hann, þá var hann búinn að vera edrú í 5 ár að ég held og var að vinna í gullsmíði, já gullsmíði.

Bjössi sagði hann ég veit hvað þú ert að hugsa, svarið er að maður vinnur ekki með gull öðruvísi en að vera heiðarlegur, skilurðu það? 

Ég sé hann fyrir mér syngjandi „Elskar þú mig á grindinni forðum.  Góðar minningar um hörku mann og innst inni góður drengur. Almættið blessi þig.

Ummæli: Gunnar Trausti;  Manstu þegar hann tók „House of the rising sun“ með íslenskum texta með sínum hrjúfa karlaróm: Einn um nótt ég reika....?

Ummæli: Elíngunnur Birgisdóttir; Far þú í friði Valli minn, kveðja frá Arabadrottningunni.  

ES. Heimild Gunar Trausti: Valli í bíó var ættleiddur af hjónum í Hafnarfirði sem ráku Bæjarbíó. Og þegar frægðarsögur voru sagðar af Valla þá var hann stundum nefndur Bíóstjórinn!