Georg Andersen vélsmiður, vélstjóri, rennismiður.

Hann var í raun sannkallaður „Alle mulige mand“ –

Ég var 16 ára þegar ég kynntist þessum margbrotna manni, hann var ávalt nokkuð hrekkjóttur (eins og flestir „SRingar“ voru í raun, fyrr og síðar.)

Þannig kynntist ég karlinum einmitt, hann hrekkti mig sem þá var nýgræðingur á hans vettvangi. 

Ég hafði verið sendur til Andersens með áhald frá Lagernum fyrir Jóel Hjálmarssyni lagerstjóra sem þá var yfirmaður minn. Jóel hafði verið búinn að biðja Andersen um að laga það. Þetta var skafa og skaft sem þurfti að renna kón á.

Andersen var nokkuð skrítinn á svipinn þegar hann spurði mig spjörunum úr um hver ég væri, um foreldra mína ofl.

Síðan rétti hann mér stóra dós með loki á og sagði mér að færa Jóel, setja dósina á skrifborð hans ef hann væri ekki við, ég mætti ekki opna dósina sagði hann og lagði áherslu á orð sín. Þetta var stór dós um 4-5 kg á þyngd.

Ég gerði eins og hann bað, Jóel var ekki viðlátinn í bili og dósin hafnaði á skrifborðinu.

það var svo um klukkustund síðar sem Jóel fór inn á skrifstofu sína og stuttu síða heyrðist hávært kall:

Hver andskotinn. Hver setti þennan óþverra á borðið mitt? Ég heyrði kallið, var þó ekki viss um við hvað Jóel átti og fór inn á skrifstofuna af forvitni eins og tveir aðrir sem þarna voru nálagt.

Georg Andersen

Georg Andersen

Það var jú dósin frá Andersen sem Jóel átti við. -- Inni á skrifstofunni sem hafði verið lokuð, Jóel var búinn að opna dósina, sem úr kom yfirþyrmandi ýlduþefur sem fyllti skrifstofuna og vit okkar sem inn komu.

Ég skildi fljótt að þarna var Andersen að hrekkja vin sinn. Ég var hikandi. Átti ég að segja frá? Það gerði ég.

Jóel bölvaði og sagði þetta skal karlinn fá borgað. Síðan sagði hann mér að fara með dósina sem hann hafði sett lokið aftur á, fara með dósina eitthvað burt, út í sjó eða bara eitthvað sagði hann.

Þegar út af lagernum kom opnaði ég dósina og sá að hún var nærri full af dragúldnum krömdum síldarhlutum sem Andersen hefur sennilega skafið af einhverju sem hann hefði verið að lagfæra tilheyrandi síldarverksmiðjunni.

Ekki veit ég, eða frétti af hvernig Jóel borgaði hrekkinn.

Mörgum árum seinna er ég hóf vinnu á Vélaverkstæðinu og naut þess meðal annars að vinna í nánd við Andersen, rabba við hann um heima og geima.

Þá kynntist ég enn einni hlið hans, ekki hrekki heldur um vinskap.

Hann hafði þann vana til langs tíma að kalla á þá Jóa Ísaks, Júlla Óla, og fleiri vinnufélaga sína, 2-3 í senn, sem fóru með honum, venjulega um 11 leitið á morgnanna yfir til heimilis hans sem var við Vetrarbraut 17, rétt við vélaverkstæðið.

Þar sátu þeir rólegir í 5-10 mínútur og drukku úr sitt hvoru koníakstaupi og héldu svo aftur til vinnu kátir og hressir.

Ég varð svo heppinn að vera kallaður 3-4 sinnum til þessara athafna og naut þar samverunnar í góðum félagsskap.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um Andersen en láta meðfylgjandi viðtal og blaðagrein lýsa þessari einstöku persónu. - SK. 

Myndir: Grein + viðtla við Georg Andersen árið 1966