Tengt Siglufirði
Einherji 16. febrúar 1933
Frá bæjarstjórn. Á sunnudaginn var, 12. þ. m. hélt bæjarstjórnarfund í samkomuhúsi Kommúnista, gömlu kirkjunni. Þetta gerðist á fundinum:
1. Svohljóðandi tillaga kom frá oddvita:
„Fundurinn skorar á Alþingi og ríkisstjórn að láta eigi farast fyrir að ríkið byggi á
næsta sumri fullkominn hljóð- og ljósvita á Sauðanesi gegn 20 þús. króna framlagi annarsstaðar frá".
Þessi tillaga var samþykkt með öllum atkvæðum.
2. Þormóður Eyjólfsson lagði fram eftirfarandi tillögu:
„Bæjarstjórn Siglufjarðar skorar á Alþingi að veita allt að 200 þús. króna framlag úr ríkissjóði til öldubrjóts austur af Siglufjarðareyri, til varnar síldarbryggjum ríkisins og einstakra manna gegn tvöföldu tillagi frá Hafnarsjóði Siglufjarðar. Sömuleiðis skorar bæjarstjórnin á Alþingi að heimila ríkisstjórninni að ábyrgjast fyrir Siglufjarðarkaupstað allt að 400 þús. króna lán, er kaupstaðurinn tekur í þessu skyni".
Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum.
3. Þá lagði oddviti fram þessa tillögu:
„Bæjarstjórnin skorar á Alþingi að taka veginn frá Haganesvík til Siglufjarðar uppí tölu þjóðvega og veita á næstu fjárlögum helming fjár til vegarins uppá Siglufjarðarskarð gegn því, að Siglufjarðarkaupstaður taki að sér að greiða helming kostnaðarins uppá Skarðið. — Bæjarstjórnin skorar á Alþingi að heimila ríkisstjórninni að á byrgjast fyrir Siglufjarðarkaupstað lán að upphæð helming kostnaðar vegalagningar uppá Skarðið".
Tillaga þessi var samþykkt með öllum atkvæðum.
4. Hermann Einarsson lagði fram svohljóðandi tillögu:
„Bæjarstjórnin skorar á þingmenn Eyjafjarðarsýslu að koma hér að afloknu þingi, og halda hér leiðarþing með kjósendum Siglufjarðar".
Þessi tillaga var samþykkt með 6 atkv. gegn 1.
5. Oddviti lagði fram svohljóðandi tillögu:
„Bæjarstjórn skorar á alþingismenn kjördæmisins að beita sér fyrir því af alefli, að ríkisstjórnin veiti Siglufjarðarkaupstað atvinnubótastyrk eins og öðrum kaupstöðum, og ganga ríkt eftir atvinnubótastyrknum 1931 og 1932".
Þessi tillaga var samþykkt með öllum atkvæðum.