1940 - Gamla lögregluvarðstofan - Tvö atvik

Mjölnir 10 júlí 1940

Stóla rifrildi 

Gamla lögregluvarðstofan. Tvö atvik, sem komu fyrir á gömlu lögregluvarðstofunni, hafa valdið miklu umtali hér í bænum. Annað er íkveikjan á varðstofunni um haustið 1938, hitt er hið svokallaða stólmál. Allar líkur benda til að þetta íkveikjumál sé glæpamál af ófyrirleitnasta tagi. „Hvíta húsið“, sem varðstofan var í, er gamalt timburhús, klætt innan með máluðum pappa og því afar eldfimt.

 Stundin, sem valin er til að vinna óþokkaverkið er, þegar brunalið bæjarins er að störfum við að slökkva eld frammi á Hóli. Yfirlögregluþjónn bæjarins kom fyrstur að eldinum á varðstofunni og segir hann svo frá, að hann hafi komið á varðstofuna skömmu eftir að brunaliðið fór fram að Hóli og var hún læst, en þegar hann kemur inn sér hann strax, að eldur er í teppi á dívan, sem stendur gengt dyrunum. En eldurinn var ekki meiri en það, að honum tókst strax að slökkva hann.

Líkur benda til að húsið hefði brunnið til kaldra kola hefði eldurinn verið óáreittur í 5 til 10 mínútur. Ekki leyndi sér, að um í kveikju var að ræða, því að dívanteppið og þiljurnar ofan við dívaninn höfðu verið vætt í olíu. Í hvíta húsinu eru bæjarskrifstofurnar, öll skrifstofuáhöld og innanstokksmunir voru óvátryggð, fundargerðabækur og þýðingarmikil skjöl hefðu brunnið þarna, bruninn hefði því orðið bænum til mikilla óþæginda og tjóns á ýmsum sviðum, auk þess peningatjóns, sem hann hefði valdið. —

Hitt er ekki minna um vert, að fólk bjó á efri hæð hússins og því hefði varla verið bjargað, hefði eldurinn náð að breiðast út um neðri hæðina, áður en það vissi um. Hvaða óþokki var nú valdur að svo svívirðilegu þorparabragði að kveikja í húsi og brenna upp gífurleg verðmæti og láta sér standa á sama, þó að athæfið kostaði mannslíf? En það er ekki hægt að segja, að lögreglan hafi lagt sig fram til að finna sökudólginn, öll rannsóknin var kák eitt, enda hefur árangur hennar enginn orðið, svo að vitað sé.

Aðeins 8 menn höfðu lykil að varðstofunni, 5 eða 6 þeirra gátu sannað fjarveru sína. Það lá því beinast við að rannsaka nákvæmlega, hvernig ástatt var með hina, en það er engu líkara en að lögreglustjóri hér telji þögnina geyma þetta mál bezt, hvernig sem á því stendur. Stólmálið er að því leyti frábrugðið þessu máli, að það er ómerkilegt og orðið til út af nauða smávægilegu atviki, sem kom fyrir á varðstofunni s. l. haust — orðasennu út af umráðarétti yfir einum stól í nokkrar mínútur.

Nefndir bæjarstjórnar halda að öllum jafnaði fundi á bæjarþingstofunni og lét bæjarstjórn smíða nokkra stóla til afnota fyrir fundi sína og nefndarfundi. En gamla varðstofan er við hlið bæjarþingstofunnar og voru dyr á milli. Lögregluþjónarnir hnupluðu því oft stólum bæjarstjórnarinnar, þegar þeir voru ekki í notkun á bæjarþingstofunni og datt engum í hug að amast við því. Í haust var það eitt sinn, að byggingarnefnd hélt fund á bæjar- þingstofunni og vantaði stól handa einum nefndarmanni.

Lögregluþjónarnir voru með eitthvað af stólum bæjarstjórnar á lögregluvarðstofunni og voru þeir beðnir að lána einn stól svo að nefndarmenn gætu allir setið. Yfirlögregluþjónninn varð fyrir svörum og harðneitaði, nokkur orðaskipti urðu um þetta og benti bæjarstjóri yfirlögregluþjóninum á, að stóllinn væri eign bæjarstjórnar og skoraði á hann að sleppa stólnum og lagði hendina á stólbakið, en yfirlögregluþjónninn spratt upp og greip í stólinn albúinn að láta handaflið skera úr.

Bæjarstjóri sagði þá, að hann myndi ekki fara í handalögmál út af stólnum, en láta gera ráðstafanir til að störf bæjarstjórnar yrðu ekki trufluð af lögregluþjónunum framvegis. Bæjarstjórnin samþykkti svo á fyrsta fundi að flytja varðstofuna úr »hvíta húsinu«, til að vera laus við átroðning lögreglunnar. Nú hefur verið höfðað mál á bæjarstjóra út af þessu, reyndar er það broslegt að sá, sem á alla sökina, skuli höfða mál á þann, sem fyrir óréttinum verður, en það athyglisverðasta er þó það, að stjórnarráðið skipar setudómara í málið og hefir hann dvalið hér langan tíma og yfirheyrt fjölda manna út af þessu.

Þessir smámunir eru gerðir að stóru máli. Menn bera þessi tvö mál saman, íkveikjuna, sem hefði getað kostað fleira en eitt mannslíf og tugþúsunda eignatjón, hefði ekki verið komið í veg fyrir ódæðisverkið og orðasennu við illa upplýstan og ókurteisan lögregluþjón út af umráðarétti í nokkrar mínútur, yfir stól, sem kostaði 11 krónur.

„Umræða“ frá viðkomandi bruna 1938 má finna á tenglinum HÉRNA