Merkileg frásögn - Hluti af ferðasögu frá árinu 1926: eftir Jóhann J. E. Kúld .

Nýja kvöldvökur 1 júlí 1940 - –

Fróðleg grein, Þar kemur fram frásögn af bruna um borð í skipinu „Aktiv", –

Ferð hans frá Akureyri vestur með landi með viðkomu á Siglufirði.

................þá varð mér gengið um borð í norska gufuskipið „Aktiv", sem lá við Torfunefnsbryggjuna, og var ég þá beðinn að fara þangað um borð sem bryti, því sá, sem gegnt hafði því starfi, hafði veikzt snögglega og lá hann um borð. Þetta var seint um kvöld, og átti skipið að fara snemma næsta morgun til Siglufjarðar og losa þar kolatöflur, sem það hafði komið með frá Þýzkalandi.

Eg tók þessa atvinnu fyrst hún bauðst og var kominn með farangur minn um borð um miðnætti, en lögskráning átti að bíða þangað til við kæmum til Siglufjarðar. Útgerðarmaður skipsins var með skipinu, og bjó hann í skipstjóraherberginu, en ég bjó hjá skipstjóranum í farþegaherbergi, sem var fyrir tvo menn og ætlað gestum.

Jóhann J.E. Kúld - Mynd; Þjóðviljinn 1986

Jóhann J.E. Kúld - Mynd; Þjóðviljinn 1986

Verksvið mitt um borð var ekki aðeins brytastörfin, heldur gegndi ég jafnframt matsveinsstarfi og hafði einn unglingsmann mér til aðstoðar við það. Skipstjórinn var nokkuð við aldur, stór og föngulegur karl, alrakaður; hann svaf með hálffulla koníaksflösku undir koddanum fyrstu nóttina, sem ég var um borð, svo að á því mátti merkja, að hann var ekki „goodtemplar!"

Það fyrsta, sem ég heyrði til karlsins um morguninn, klukkan hálf sjö, var það, að hann kallaði til mín og bað mig blessaðan að þiggja hjá sér „snaps", sem ég líka gerði ósvikið. Síðan fór ég að klæða mig. Eg var öllum háttum ókunnugur um borð, en með aðstoð hjálparmanns míns setti ég mig inn í það allt á nokkrum mínútum, svo að ég fékk hvorki aðfinnslur né ákúrur fyrir það, að ég væri ekki starfinu vaxinn, en í þess stað fékk ég lof strax fyrsta daginn. Maturinn líkaði prýðilega af æðri sem lægri.

Burtför skipsins seinkaði nokkuð af einhverjum ástæðum, sem mér voru ekki kunnar, en samt lögðum við þó af stað litlu fyrir hádegi. Með okkur fór stór hópur til Siglufjarðar af hinum svokölluðu „betri borgurum" þess bæjar. Voru sumir þeirra töluvert við skál, þegar farið var frá Akureyri, og héldu þeir sig við það efnið alla leiðina. Útgerðarmaðurinn sýndi þessum samherjum sínum mikla gestrisni og lét veita þeim af rausn mat og drykki.

En eftir því sem þeir gerðust ölvaðri, urðu þeir frekari og skipuðu þá sumir þeirra mér að koma með hitt og þetta, sem þeir vildu fá til þess að gæða sér á, en þá sagði ég „pass" og lét þá vita mjög kurteislega, að ég væri alls ekkert undir þá gefinn og einnig, að þetta væri alls ekki neitt farþegaskip, þótt þeim hefði verið lofað að fljóta með. Þegar ég tók skipunum þeirra á þann veg, þá urðu þeir kurteisir aftur og báðu fyrirgefningar.

Á leiðinni til Siglufjarðar höfðu hásetarnir orð á því, að þeim sýndist koma reykjareimur upp úr lestarrúmunum, en því var fyrst í stað enginn gaumur gefinn. En þegar við fórum inn Siglufjörð, þá leyndi það sér ekki, að það rauk úr kolatöflunum, og að sá reykur var alltaf að aukast. Var því farið að dæla sjó í lestarrúmin, og við það hætti að rjúka úr afturlestinni, og brátt hvarf líka reykurinn í stórlestinni.

Við lágum úti á höfninni um nóttina, en farþegarnir fóru í land um kvöldið, þeir voru sóttir um borð. Daginn eftir rauk ennþá úr afturlestinni, og magnaðist reykurinn sýnilega eftir því sem á daginn leið. Eftir miðdaginn var skipinu lagt upp af Hoffmanns Olsens-bryggju, þar sem uppskipun átti að fara fram.

Dælurnar frá vél skipsins gengu viðstöðulaust, en eftir því sem lengur leið, virtust þær hafa minni áhrif. Var þá slökkvilið Siglufjarðar kvatt á vettvang, og setti það fjöldann allan af vatnslöngum frá landi um borð. Þegar hér var komið, voru eldarnir undir katlinum rakaðir út af ótta við ketilsprengingu. Þrátt fyrir hið mikla vatnsmagn, sem viðstöðulaust rann niður í stórlestlina, þá var það greinilegt, að eldurinn þar helt áfram að magnast, enda leið ekki á löngu, þangað til bláleitar eldtungur teygðu sig upp úr lestinni.

Þegar klukkan var um sjö um kvöldið, var eldhafið orðið ægilegt; logarnir í stórlestinni teygðu sig nú upp undir masturstopp. Þilfarið var mjög tekið að hitna; einnig var nú farið að rjúka úr afturlestinni. Þar við bættist, að um þetta leyti varð einnig elds vart miðskipa í borðsal skipstjórans. Voru því settar þangað niður vatnsslöngur og jafnhliða voru gerðar ráðstafanir til þess að bjarga víninu, sem geymt var þar í innsigluðum skápum. Það var enginn tími nú til þess að láta verði laganna brjóta innsiglin, svo að það kom í minn hlut og fyrsta stýrimanns að gera það.

Fylltum við svo tvær stórar körfur með vínflöskum, og voru þær jafnharðan bornar upp í „brakkann", sem er þar. skammt fyrir ofan bryggjuna. Einnig var nú farið að bjarga öllu lauslegu í land, og unnu að því jöfnum höndum skipsmenn og Siglfirðingar. Yfirvöldin á Siglufirði vildu nú helzt láta sleppa skipinu lausu frá bryggjunni og láta það reka inn á leiru, af ótta við að eldurinn kynni að læsa sig í bryggjuna og þaðan yfir bæinn, því að hvassviðri var mikið. Skipstjórinn aftók með öllu, að skipið yrði fært frá bryggjunni, og kvað hræðslu yfirvaldanna ástæðulausa.

Hann stóð alltaf á stjórnpalli og neitaði að hverfa þaðan, þó að skipinu yrði sleppt lausu. Þetta varð til þess, að skipið var látið liggja þar sem það var komið. Slökkviliðið hélt áfram starfi sínu, gekk mjög hraustlega fram og lét einskis ófreistað við að slökkva eldinn, enda sýndist hann nú hættur að magnast. Kvöldverðurinn fór alveg út um þúfur vegna eldsvoðans, og öll áhöldin úr eldhúsinu voru nú komin í land og einnig töluvert af matarforða skipsins, svo að ég slapp alveg við að hugsa um matreiðslu eins og á stóð.

Brytinn, sem lá veikur, var nú kominn á fætur og sýndist hafa hresstst töluvert við lætin, sem á gengu. Við fórum svo í land, til þess að útvega mat og gistingu handa skipshöfninni. Hásetum og kyndurum var öllum holað niður í veitingahúsinu „Brúarfoss", en mat handa yfirmönnunum fengum við loforð fyrir næsta dag í „Hótel Siglufjörður", og eins var því lofað þar, að hýsa þá, sem hægt væri.

Að þessu loknu fórum við um borð, sóttum hásetana og kyndarana og fylgdum þeim í land, þangað sem þeir voru um nóttina, en yfirmenn vöktu allir um borð um nóttina, og skipstjórinn gekk um gólf á stjórnpalli allt til morguns. Útgerðarmaðurinn og sjúki brytinn sváfu í Hótel Siglufjörður. Eg var uppi alla nóttina og horfði á aðfarir slökkviliðsins í baráttunni við eldinn. Um kvöldið, þegar verið var að bjarga í land, komst ég brátt að því, að meiri vínföng voru í skipinu, en þær 20—40 flöskur, sem við tókum úr skápunum og voru undir innsigli.

Eg hafði öll lyklavöld miðskipa og var þess vegna kallaður til þess að vera til aðstoðar að bjarga vínflöskum úr hinum ólíklegustu stöðum; þar á meðal tókum við töluvert úr baðhúsi skipstjórans, þar sem það hafði verið falið svo vel, að íslenzkir tollþjónar hefðu vel getað leitað í marga daga án árangurs. Ekkert af þessu víni var sett í land undir innsigli, en það var flutt í land, aðeins í bili, og svo um borð aftur, en mér vitanlega var ekki ein einasta flaska seld í land, og þó vantaði ekki að margir bæðu um vín til kaups, en þeim hinum sömu var alltaf sagt, að ekki væri dropi til.

Slökkviliðið vann hvíldarlaust alla nóttina til morguns, en þá höfðu þeir loks slökkt eldinn, enda var þá stórlestin orðin fleytifull af vatni, og skipið jafnframt orðið svo hlaðið, að sjórinn rann alstaðar yfir framþilfarið. Sjógangur var mikill, því að veður var vont úti fyrir, og tók skipið öðru hvoru niðri, og þess á milli slóst það í bryggjuna með heljarafli, og urðu við það á henni töluverðar skemmdir. Í þessum hamförum hristist skipið eins og laufblað í vindi. Strax þegar búið var að slökkva, var byrjað að kveikja undir katlinum, og strax og gufuþrýstingurinn var orðinn nægilegur, þá_ voru dælurnar settar í gang, því að ekki veitti af að reyna að losa skipið við eitthvað af vatninu, sem dælt hafði verið niður í það um nóttina.

Þennan dag og næsta borðuðum við í Hótel Siglufjörður; um miðdaginn fengum við steikta fugla. Skipstjórinn sór og sárt við lagði, að það væri æðarfugl, og í tilefni af því spurði hann hóteleigandann, sem jafnframt var lögregluþjónn bæjarins, að því, hvort hér væri leyfilegt að drepa æðarfugl. En hóteleigandinn sór þá einnig og sárt við lagði, að sér vitanlega væri hér ekki að ræða um æðarfugl; fuglana hefði hann sem sé- keypt af manni, sem sagt hefði þá vera endur, og að hann tryði því ekki, að hér gæti verið um neina fölsun að ræða, svo að þetta er óráðin gáta enn þann dag í dag.

Hins vegar þóttu okkur fuglarnir góðir, og það skipti mestu fyrir alla aðila, sem hér áttu hlut að máli. Útgerðarmaðurinn neitaði hins vegar að éta þarna sjálfur aftur, svo að ég varð að matreiða sérstaklega fyrir hann um borð, þó að allt væri þar ennþá í ólagi; hann vildi nefnilega ekki annað en „buff" og steikt egg ásamt ríflegum „snaps" af koníaki; allt annað kallaði hann óæti.

Næstu daga hafði ég mikið að gera, því að miðskipa hafði allt gegnblotnað af vatninu, sem var dælt þar niður, en eftir tvo daga var þar allt komið í sæmilegt horf, og fékk ég að því loknu vel útilátið hrós hjá skipstjóranum ásamt ríflegum „snapsi" af koníaki. Eftir rúmlega sólarhring frá því dælurnar tóku til starfa, var loks búið að dæla vatninu úr lestarrúmunum, og þá hófst uppskipun á kolatöflunum, sem flestar voru mikið brunnar og sumar orðnar að ösku.

Var nú allt flutt um borð aftur, sem flutt hafði verið í land brunakvöldið, og kom þá í ljós, að nokkrar vínflöskur vantaði, og út af þeim urðu réttarhöld, en aldrei vitnaðist neitt um örlög flasknanna. Við rannsókn, sem vá- tryggingarfélag skipsins lét gera, kom í ljós, að skipið hafið skemmzt mikið við brunann en þó sérstaklega við það, að slást niður í botninn við bryggjuna í óveðrinu, og var botn skipsins dalaður á nokkrum stöðum eftir þær aðfarir.

Eftir rannsóknina kom mikil breyting á hina fyrirhuguðu áætlun skipsins; nú var því bannað að sigla með nokkurn farm, en fékk aðeins leyfi til þess að sigla tómt heim til Haugasunds; þar átti viðgerð að fara fram. Útgerðarmaðurinn bjóst því við, að skipinu yrði lagt upp í nokkra mánuði. Þegar ég fékk að vita þetta, þá leizt mér ekki vel á það að fara út án þess að hafa nokkra atvinnu vísa, því ég vissi það frá fornu fari, að á þeim tíma vetrar væri slæmt um atvinnu. Eg gerði því skipstjóranum tvo kosti; ef ég ætti að fara með út: í fyrsta lagi, að ég fengi frítt far heim aftur, ásamt fullu kaupi þangað til ég væri kominn heim. Í öðru lagi, að mér yrði séð fyrir áframhaldandi atvinnu þegar út kæmi.

Eftir langar bollaleggingar varð það svo að samkomulagi, að ég færi ekki með út, en í þess stað væru teknir tveir hásetar á skipinu til þess að matreiða á heimleiðinni, og skyldu þeir starfa undir umsjón brytans, sem veikur var. Eftir átta daga starf um borð fór ég því aftur í land á Siglufirði, eftir að hafa kvatt skipshöfnina, sem mér líkaði prýðilega við í alla staði þessa fáu daga, sem ég kynntist henni.

Eg bjóst bara við að fá kaup fyrir þá daga, sem ég var búinn að vinna, en þegar ég gerði upp, þá var mér greitt hálfsmánaðar kaup og auk þess 50 krónur í ferðakostnað til Akureyrar, svo að ég var hæstánægður með viðskiptin. Eg hafði svo beðið í Hótel Siglufjörður í nokkra daga, án þess að nokkur ferð félli til Akureyrar, en þá datt mér eitt kvöldið það snjallræði í hug, að leggja land undir fót, því að ég kunni ekki við það að ferð mín væri þannig heft til lengdar.

Eg sagði veitingamanninum frá þessu áformi mínu, en hann réði mér eindregið frá því og sagði, að þetta væri glannaskapur, sem ekkert vit væri í ekki sízt þar sem ég væri leiðinni ókunnugur, og svo væri illfært yfir fjöllin og allra veðra von. En ég sat fast við minn keip, þrátt fyrir allar fortölur. Morguninn eftir, þegar ég leit út í gluggann, fannst mér þó ekki árennilegt ferðaveður, því að þá var komin iðulaus stórhríð, svo að varla grillti í næstu hús; mér var því nauðugur sá kostur, að bíða til næsta dags.

Daginn eftir var sæmilegt veður, engin snjókoma, en skafrenningur á láglendi og upp undir miðjar fjallshlíðar. Klukkan var farin að ganga tíu um morguninn, þegar ég svo loksins komst af stað, því að allt vildi verða mér til tafar. Áður en ég komst af stað, var fólkið í „Hótel Siglufjörður" búið um morguninn að gera margítrekaðar tilraunir til þess að ég hætti við ferðalagið.

Þegar ég svo kvaddi, þá sagði Páll veitingamaður, að hann væri sannfærður um, að ég færi beint í opinn dauðann. Að skilnaði lánaði hann mér svo broddlaust stafprik og bað mig að muna sig um það, að senda sér símskeyti, ef ég kæmist lífs af til Akureyrar. Gekk ég nú sem leið lá inn fyrir bæinn og stefndi svo á Hólsskarð, sem er að sunnanverðu fjarðarins. Eg hafði spurt til vegar á Siglufirði, og var meining mín að fara þá leið, sem þeir kölluðu „að ganga fyrir Botna" og koma niður í Ólafsfjörð.......................

Þessi frásögn er allmikið lengri, en þar segir Jóhann frá þessari glæfraför sinni, með viðkomu í Héðinsfirði, þar sem hann nafngreinir hjálpsamt fólk. Svo á Dalvík þar sem hann nefnir nokkur nöfn og að lokum komunni til Akureyrar. Frá tenglinum HÉRNA má finna tvær fréttir frá 1926, um þennan skipsbruna.
------------------------------

Ath. sk 2018:

Jóhann J.E. Kúld (31. desember 1902-7. október 1984) var íslenskur sjómaður og rithöfundur sem hvað þekktastur er fyrir bækurnar Íshafsævintýri og Svífðu seglum þöndum.

Jóhann var fæddur að Ökrum í Mýrasýslu. Foreldrar hans voru Sigríður Jóhannesdóttir og Eiríkur Kúld Jónsson er þar bjuggu. Jóhann var næstuelstur sex sytskina. Að loknu barnaskólaprófi 1921 var hann tvo vetur við nám undir menntaskóla hjá Þorleifi Erlendssyni kennara, en í menntaskóla fór hann þó aldrei. Hann gerðist síðar sjómaður, stundaði sjómennsku í Noregi 1923 til 1925 og fluttist þá til Akureyrar og átti þar heima til 1941 að hann fluttist til Reykjavíkur. Á Akureyri var Jóhann lengst af sjómaður, en varð berklaveikinni að bráð og tók það hann átta ár að sigarast á veikindum sínum. Hann var einn af stofnendum Sjómannafélags Norðurlands 1928 og vann mikið að stofnun Sambands íslenskra berklasjúklinga síðustu árin á Kristneshæli. Á þessum árum las hann mikið og þá komu út fyrstu bækur hans.

Heimild um Jóhann: Wikipeda

 

Meira um Jóhann í Þjóðviljanum 16. Okt 1986 (minningargrein): http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2906330