Árið 1940 - Síldin og vegamál - Vegur yfir Siglufjarðarskarð

Tíminn 13. Janúar 1940

Vegur yfir Siglufjarðarskarð Það er hægt að tefja góð mál en ekki að stöðva þau. Svo mun reynast um baráttu þá, sem hafin var fyrir skömmu hér í blaðinu, til að hrinda í framkvæmd vegagerð yfir Siglufjarðarskarð og yfir eyðimerkur Melrakkasléttu að Raufarhöfn. Fyrir fáum vikum ritaði ég grein hér í blaðið um hve óviðunandi það væri að hafa tvær mestu atvinnustöðvar landsins, síldarbræðslurnar á Siglufirði og Raufarhöfn eins og eyjar, skildar frá meginlandinu.

Það þyrfti 20 þús. kr. til að gera akfært að Raufarhöfn, og hér um bil 180 þús. til að gera veg yfir Siglufjarðarskarð, og niður fyrir erfiðustu brekkur að vestan.

Ég benti á nauðsyn fólksins, 12 þús. manna á Siglufirði og mikils fjölda á Raufarhöfn, að vera í lífrænu sambandi við aðra landshluta allt sumarið. Ég benti á nauðsyn fólksins í þessum bæjum, og sjómanna, er þangað koma, að geta dregið að sér nægilegan forða af nýrri, íslenzkri matvælaframleiðslu.

Þá var ótalinn hinn margfaldi menningarauki, sem margmenninu í þessum bæjum væri að því að hafa til sín bifreiðasamgöngur oft á dag allt sumarið.

Það varð samkomulag í fjárveitinganefnd, að styðja þetta mál. Þótti sanngjarnt, að ríkisverksmiðjurnar lánuðu þetta fé, 200 þús. kr., vaxtalaust með jöfnum afborgunum á 10 árum.

Hlunnindin og aðstöðuhagræðið fyrir verksmiðjurnar var svo augljóst, að tæplega var hægt að búast við að nokkur maður yrði á móti þessu.

En þó varð það svo. Kommúnistaflokkurinn reis á móti þessari framkvæmd, með þeirri blindni, sem er meðfædd þeim, sem þar skipa sér. Alþýðuflokkurinn á þingi fór nálega allur sömu leið, svo og ýmsir úr Sjálfstæðisflokknum.

Finnur Jónsson kom með fleyg í málið til að eyða framkvæmdum. Gerði hann breytingartillögu við vegartillöguna um að verksmiðjurnar skyldu borga mörg hundruð þús. kr. í uppbót á þá síld, sem útvegsmenn og sjómenn höfðu selt verksmiðjum í sumar.

Um hitt gat Finnur ekki, að þessum mönnum stóð opið að láta vinna úr síld sinni í sumar, en höfðu neitað því, ekkert viljað annað en selja verksmiðjunum vöruna. En nú átti að koma með bakreikninginn.

Þegar þingmenn Skagfirðinga og Eyfirðinga sáu hvert stefndi, komu þeir með varatillögu við vegartillögu fjárveitingarnefndar. Samkvæmt henni skyldi Ríkisstjórnin fá heimild til að taka að láni 200 þús. kr. í þessa tvo verksmiðjuvegi.

Og vitanlega var þá ekki gert ráð fyrir að taka það lán hjá verksmiðjunum. Eftir mikla vafninga, þar sem kommúnistar og Alþýðuflokksmenn höfðu forustuna, hafði fjárveitingarnefnd tekið aftur tillögu sína um lán frá verksmiðjunum, og Finnur Jónsson sína um að borga mörg hundruð þús. kr. í uppbót til manna, sem ekki vildu eiga sína síld í sumar sem leið.

Þá kom til greina tillaga Eyfirðinga og Skagfirðinga og var hún felld með litlum atkvæðamun. Rúmlega 20 á móti og tæpir 20 með. Fleygur Finns Jónssonar hafði skapað hörkudeilur um málið, og var Finni og kommúnistum algerlega að kenna, að tillagan féll.

En baráttan fyrir því að leysa mannfjöldann á verksmiðjustöðunum úr hlekkjum einangrunarinnar, hafði borið góðan árangur. Meira hluta þingmanna þótti málið gott og réttlátt, þótt þeir kæmu sér ekki í byrjun saman um leiðir. Mér fannst einsætt, að ef engin ytri óhöpp kæmu fyrir, þá yrðu þessir samgönguhlekkir brotnir af verksmiðjubæjunum á næstu tveim árum.

Þegar fréttin um framgöngu kommúnista og Finns Jónssonar barst til Siglufjarðar, þótti tíðindum sæta, að svo lítilfjörlegur hugsunarháttur væri til á Alþingi, eins og þar hafði komið fram.

Þá gerðist það, að duglegur útgerðarmaður á Siglufirði, sem var svo framsýnn, að selja ekki síld sína í verksmiðjuna á Siglufirði, heldur láta vinna úr henni, bauðst til að gefa í veg yfir Siglufjarðarskarð 50 aura af hverju máli, ef aðrir útgerðarmenn, sem eins stóð á fyrir og ef síldarbræðsla ríkisins gæfi 25 aura af hverju máli, sem unnið var úr á Siglufirði.

Með þessu framlagi kæmu 90 þús. kr. i veginn yfir Siglufjarðarskarð strax nú í sumar, eða helmingurinn af þeirri fjárhæð, sem þurfti til að gera erfiðasta kaflann. Hér er myndarlega af stað farið.

Sá útgerðarmaður, sem sýnir þessa rausn, sér áreiðanlega, að það er mikilsvert fyrir alla Siglfirðinga, að þessi vegur verði byggður. Nú reynir á hina útgerðarmennina og síðan á stjórn verksmiðjunnar og Alþingi í vetur. Engu skal spáð um þau málalok.

En hitt vil ég fullyrða, að hvorki kommúnistum né Finni Jónssyni mun hér eftir takast nema stutta stund að halda verksmiðjubænum í því ófremdarástandi, sem leiðir af vegleysinu. Engar líkur eru til, að veruleg byggingarvinna verði hér á landi í sumar. Það verða margar hendur til í vor og sumar, sem myndu fagna því að mega brjóta leið að verksmiðjum ríkisins yfir blágrýtið hjá Siglufirði og eyðimörkina á Melrakkasléttu.

J. J.