Tengt Siglufirði
Fjallkonan 27 febrúar 1886 .... hluti úr grein um Séra Þorleif Skaftason.
................. Síra Þorleifur þótti inn frægasti kennimaður sinnar tíðar, og skal hér segja eitt dæmi um það, hve mikla trú menn höfðu á krafti kenningar hans.
Siglufjarðarskarð er milli Fljóta og Siglufjarðar. Sjálft skarðið er örmjótt, og einstigi upp og niður. þar hafði sá ófögnuður legið í landi síðan á öndverðri 17. öld, að menn urðu þar iðulega bráðdauðir. þóttust menn sjá í loftinu yfir skarðinu loftsjón einhverja, er var í líking við svartan skýflóka og í lögun áþekk strokki.
Sást þessi loftsjón jafnt um hábjartan dag sem á nóttum, þegar menn fóru yfir skarðið, steyptist skýflókinn niður á ferðamenn, enn kom aldrei nema á einn mann í senn, þó fleiri væri bæði á undan og eftir, og varð það bráður bani þess, er fyrir varð. Þetta ágerðist er leið fram á 18. öldina og varð mörgum manni að bana.
Þó komust menn oft klaklaust yfir skarðið. Um 1730 hafði þessi ófagnaður haldizt hér um bil í 100 ár og tók þá mjög að versna. Bauð þá Steinn byskup Jónsson síra Þorleifi að halda guðsþjónustu og bænagerð á skarðinu.
Síra Þorleifur var þá kominn að Múla og orðinn prófastur í Þingeyjarsýslu. Árið 1735 var altari reist á skarðinu og fór síra Þorleifur þangað vestur og hélt þar guðsþjónustu, og var við staddur mikill mannfjöldi. Enn eftir það hvarf loftsjónin, og hefir enginn beðið tjón af henni síðan................... 1)
1) Það, sem hér er sagt um Siglufjarðarskarð, er að mestu tekið eftir ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, bls. 740.
------------------------------------------------------
Norðurland 8. ágúst 1903
Siglufjarðarpóstferðin.
Fullyrða má, að aukapóstferðin milli Akureyrar og Siglufjarðar sé einhver hin erfiðasta póstferð á Norðurlandi. Hún er að vísu ekki ýkjalöng, tvær dagleiðir á sumrum, en á vetrum getur hún tekið af gamanið, því að yfir þrjá fjallvegi er að fara: Reykjaheiði, Lágheiði og Siglufjarðarskarð.
Reykjaheiði er varla fær með hesta nema þrjá mánuði af árinu, og má geta þess til dæmis um, hve stirð hún getur verið, að í marzmánuði í vetur voru þeir pósturinn og fylgdarmaður hans 12 klukkustundir yfir heiðina sjálfa, en annars má vel ríða á 3—4 klukkust. á milli bæja.
Þangað til 1902 var endastöð póstleiðarinnar að vestan Hraun í Fljótum og seinna Haganesvík. Þá þurfti pósturinn ekki að fara yfir Siglufjarðarskarð, sem oft er illfært á vetrum, og hafði 32 kr. að launum fyrir hverja ferð. Síðan Skarðið bættist við, hefir hann að eins 34 kr. í laun fyrir ferðina, og sjá allir, hve þetta er ósanngjarnt, því að búast má við, að menn teppist utan Skarðs á vetrum vegna hríða og ófærðar. Viðbótin við gömlu póstlaunin mætti alls ekki vera minni en 8—10 krónur.
-----------------------------------------------------
Norðurland 3 júní 1905
Reykjaheiði og Siglufjarðarskarð. Eg hefi áður farið nokkurum orðum um Lágheiði hér í blaðinu og bent á hve mikil þörf sé á því að hún sé vörðuð, en vil þá líka leyfa mér að geta þeirra tveggja annara fjallvega, er Siglufjarðarpóstur af Akureyri þarf að fara yfir. Á Reykjaheiði voru hlaðnar vörður fyrir 4—5 árum.
Á fyrsta hausti hrundu 20—30 af þeim. Auk þess voru vörðurnar svo lágar Svarfaðardalsmegin að þær verða gagnslausar seinni hluta vetrar. Jafnvel á þessum vetri síðastliðnum, sem hefir verið einhver snjóminsti vetur, voru vörðurnar að eins uppi á austurhluta heiðarinnar. Úr þessu þyrfti að bæta hið allra bráðasta.
Þá er Siglufjarðarskarð. Þar hefir verið alfaravegur frá því landið bygðist. Þar er ein hætta, af náttúrunnar völdum, sem ekki hefir ennþá verið bætt, og er þó furðanlegt, jafn hvumleið eins og hún er. Efsti fjallshryggurinn er örmjór, beggja vegna hamrar og svellar á vetrum og er snarbratt til beggja handa, einkum þó að austanverðu. Þar leggur svellbunka niður úr skarðinu, svo fyrir kemur að menn þurfa að fara hálfflatir eða flatir ofan efstu brekkuna. Þetta er hreinn lífsháski í stórviðrum, sem eru mjög tíð þar uppi.
-------------------------------------------------------------------------------------------
Þjóðviljinn 11. Mars 1912
Menn farast í snjóflóðum.
Maður fórst ný skeð (í febrúar) í snjóflóði, á leiðinni yfir Siglufjarðarskarð. Hafði hann dregist aptur úr samfylgdarmönnum sínum, — þeir voru á ferðinni átta í hóp —, er þeir áttu skammt til byggða, misst skíði, og ætlað að ná því. Sprakk þá fram snjóhengja, og kafnaði hann í snjóflóðinu, og fannst örendur tveim dögum síðar. Annar maður fórst og ný skeð í snjóflóði í svo nefndum Þorvaldsdal — hafði farið þangað til rjúpnaveiða.
-------------------------------------------------------------------------------------------
Norðurland 23 mars 1912
Hörmulegt slys.
Fyrir nokkrum dögum voru 3 menn á ferð yfir Siglufjarðarskarð á skíðum. Þeir rendu sér norður af skarðinu, allbratta brekku, en einn þeirra fór nokkuð aðra leið niður brekkuna en hinir. Þegar hinir tveir komu niður á jafnsléttu, sáu þeir hvergi samferðamann sinn. Fóru þeir þá að leita hans, og fundu hann við grjótvörðu í brekkunni miðri.
Lágu þar skíðin brotin og maðurinn örendur með gat á höfuðkúpunni. Hefir hann ekki gáð að vörðunni og rekist á hana á flugferð. Maðurinn hét Þorlákur Þorkelsson af Siglunesi, mannvænlegur maður um tvítugt.
-------------------------------------------------------------------------------------------
Fram 6 mars 1920 – Kafli úr fundargerð Sýslufundar Skagfirðinga.
6. Siglufjarðarskarð. —-Þetta stórmál er sameiginlegt fyrir Skagfirðinga og Siglfirðinga. — Skoraði sýslunefndin á ríkisstjórnina — enn af nýju — að hún láti athuga betra vegarstæði á Skarðinu og vindi bráðan bug að gagngerðri aðgjörð á því.................