Jarðgöng gegnum fjallið milli Siglufjarðar og Fljóta

Jarðgöng til Siglufjarðar (1929)

Siglfirðingur 7. september 1929

Það var víst í fyrravetur, að því var hreift í bæjarstjórninni að rannsakað yrði  vegarstæði milli Siglufjarðar og Fljóta og gerðar tillögur og áætlanir um bílfæran  veg. Mun þá hafa verið efst í hugum margra, að vegurinn yrði lagður utan í  Strákum, - fjallinu vestan megin Siglufjarðar - og svo inn Dali og Almenninga.

Siðar munu aðrir hafa hallast frekar að þeirri hugmynd, að fá grafin jarðgöng  gegnum fjallið, þar er rannsókn sýndi að heppilegast væri og var í sumar samþykkt í bæjarstjórn svohljóðandi tillaga í þessa átt:

"Bæjarstjórnin beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar, að hún láti  rannsaka kostnað við að grafa jarðgöng gegnum fjallið milli Siglufjarðar og  Fljóta, Botnaleið, eða annarstaðar ef tiltækilegra þætti. Einnig að rannsakaður  sé kostnaður við að leggja bifreiðaveg yfir fjallið um Botnaleið."

Kostnaður við þessar væntanlegu rannsóknir mun hafa verið tekinn upp á fjárlög þingsins í vetur. Og nú nýlega kom hingað Jón Ísleifsson verkfræðingur  til þess að framkvæma þessar rannsóknir. Fékk hann hér til leiðsagnar  kunnugan mann, Einar Hermannsson, og skoðuðu þeir Botnaleið, svo og hina  fjallvegina vestur yfir. Siglufjarðarskarð og Dalaleið

Siglfirðingur náði ekki tali af Jóni Ísleifssyni. Hann mun líka hafa látið fremur  lítið uppi hér um rannsóknir sínar. Hinsvegar hefir blaðið leitað frétta um þetta  hjá Einari Hermannssyni og telur hann að Jóni hafi litist best á vegarstæði fyrir  bílveg yfir Dalaleið (Skjöld) og þvert yfir Dalabæjardal, suður yfir Mánárhyrnu  (Leiðarskál) og þaðan gegnt, inn Almenninga að Hraunum. Jarðgöng gegnum  fjallið á Botnaleið telji hann vel framkvæmanlegt að gera þau - og mundu verða að tilætluðum notum til  samgöngubóta, en þau kosti offjár. Enda er það eðlilegt. því þar er fjallið svo  breitt að göngin hlytu að verða löng.

Jarðgöng gegnum Siglufjarðarskarð yrðu  mikið styttri og ódýrari en þar kæmi til hindrunar fannkynngi mikil báðum megin  skarðsins sem myndi teppa afnot vegarins mikinn hluta ársins. -

Vegur utan í  Strákum yrði sennilega nothæfur mestan hluta ársins, en hann yrði afar dýr, því  þar þurfi að sprengja veginn inn í fjallið og steypa framan við. Auk þess þarf að  brúa Herkonugilið milli Engidals og Dalabæjar. En það mun dýrt - og óvíst að sú  brú stæðist snjóflóð þau sem þar falla iðulega.

Siglfirðingur mun fylgjast með þessu máli og ræða það betur síðar. Honum  er það ljóst að á miklu veltur bæði fyrir Siglufjörð og Skagafjörð að bót ráðist á  þeim samgönguvandræðum sem eru milli þessara héraða. Framtíð Siglufjarðar  veltur mjög á því, að hann fái greiðan aðgang að Landbúnaðarskilyrðum  Skagafjarðar, sérstaklega Fljótanna.

 Hér vantar skilyrði til  landbúnaðarframleiðslu Það orsaka meðal annars okurverð það á  Landbúnaðarvörum sem Siglufjörður hefir um langt skeið átt við að búa. Fyrir  Skagafjörð og þá sérstaklega fyrir Fljót sem næstu sveit með ágætum  landbúnaðarskilyrðum yrði þessi samgöngubót ómetanleg, því hér er alltaf vís  ágætur markaður fyrir framleiðslu þaðan þótt hún margfaldist

Bæði héruðin hafa að þessu "flotið sofandi að feigðarósi" í þessum efnum.  Fljótamenn flytja enn afurðir sínar í kláfum yfir Siglufjarðarskarð og um sveitina  má kallast ófært með hest ef nokkuð rignir. Vegleysurnar þar þurfa Fljótamenn  að bæta, jafnframt og þeir vinna að því með Siglfirðingum að bera akvegarmálið,  yfir fjallið fram til sigurs.