Siglufjarðarskarð var vígt fyrir 200 árum. (1936)

Lesbók Morgunblaðsins 25 október 1936

Grjót-altari stendur þar enn.

Siglufjarðarskarð er á milli Siglufjarðar og Austur-Fljóta. Er þar fjallgarður mikill, aðlíðandi brattur að vestan, en snarbrött brekka að austan og lá gatan þar í ótal krókum. Efst á fjallinu eru tindar og klettar og er brúnin efsta svo þunn sem saumhögg. Skilur sú egg Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslur. Gegn um háeggina eru sem dyr, „augsýnilega höggnar af fornaldarmönnum, og standberg á báðar hliðar. Gegn um dyrnar eru hjer um bil fjórar hestlengdir, en breiddin svo að vel er klyfjafrítt".

Yfir skarði þessu hafði legið síðan í heiðni andi nokkur illkynjaður og hin mesta meinvættur. Birtist hún ferðamönnum sem kolsvartur skýstrokkur í lofti, sumir segja eins og skopparakringla. Steyptist þetta yfir ferðamenn og varð ávalt einhverjum að bana, manni, hundi eða hesti, en þó aldrei nema einum í senn, þótt fleiri væri saman, og kom þá stundum niður á þann, sem var í miðjum hópnum.

Þrátt fyrir þetta tókust ekki ferðir af yfir skarðið, því að margir komust þar klaklaust yfir og án þess að verða neins varir. Fyrir eitthvað 300 árum tók ófögnuður þessi að magnast, og drap nú ferðamenn jafnt á nóttu sem degi. Og hver sá, er varð fyrir sortanum, hneig örendur niður samstundis. Um 1730 færðist óvættur þessi enn í aukana og kvað nú svo ramt að því, að allir töldu, að þetta væri hinn illi sjálfur.

Gekk á þessu um fimm ára skeið og lá við, að samgöngur tækist af yfir fjallið. Þóttust menn þá ekki geta búið við þennan ófögnuð lengur og kærðu vandræði sín fyrir Steini biskupi á Hólum. En biskup gerði Þorleifi prófasti Skaftasyni í Múla orð og bað hann að vígja skarðið og reyna að fá þessum ósköpum af ljett. Þorleifi prófasti er lýst svo, að hann hafi þótt mjög fyrir öðrum prestum á sinni tíð á Norðurlandi, flestra hluta vegna.

Hann var maður mikill vexti og tröllaukinn að manndómi, raddmaður mikill og mælskumaður, sterkorður og andríkur. Hann þótti og kunna nokkuð fyrir sjer. því að sagt var að hann skildi hrafnamál, og þótti það rætast á dánardægri hans, er hann heyrði hrafn boða sjer feigð og hóta að kroppa úr sjer augun. Hann hafði og verið dómkirkjuprestur á Hólum, þegar Galdra-Loftur var þar í skóla. Vandaði hann oft um við Loft, en Loftur þektist síðan stundum til við prófast, „en gat ekki gert honum neitt mein, því að hann var svo mikill guðsmaður og kunnáttumaður um leið, að ekkert ert óhreint gat grandað honum".

Af öllu þessu valdi Steinn biskup hann til þess að vígja Siglufjarðarskarð. Þorleifur prófastur ferðaðist nú til skarðsins sumarið 1735 og nokkrir prestar og vildismenn, en fjöldi fólks dreif þar að til að vera við athöfnina. Byrjaði Þorleifur með því, að hann ljet hlaða altari úr grjóti annars vegar í skarðinu.

Hjelt hann þar síðan messugerð með vígslu og stefndi þaðan vondum öndum og í skarð það, eða hraungjá, sem er nokkru sunnar í fjallsegginni og kallast Afglapaskarð. Var hann þá bæði kröftugur í orðum og bænheitur. 

Að lokinni vígslu mælti hann svo fyrir, að hver, sem yfir skarðið færi, skyldi gera bæn sína við altarið, og mundi þá vel duga. Mælt er, að síðan, eða um 200 ára skeið, hafi Siglufjarðarskarð ekki orðið mönnum að meini. En Afglapaskarð þykir æ síðan ískyggilegt; hafa nokkrir menn vilst í það og biðið þar bana. Altari Þorleifs sjest enn í Siglufjarðarskarði.