Eigum við að bíða í 20 ár eftir Skarðsveginum?

Siglfirðingur 15. júní 1937

Skarðsvegurinn.  -- GREITT FRAMLAG TIL SKARÐSVEGARINS
(taflan neðst á síðunni)

Árni Pálsson, verkfræðingur, hefir áætlað kostnað við lagningu Skarðsvegarins kr. 345,000. - þar sem þegar er búið að leggja 80,954,88 kr. í veginn, verður hann ekki fullgerður fyrr en eftir 20 ár, ef ekki fæst hærra framlag úr ríkissjóði og ekkert kemur annars staðar frá.   

Fyrir 3-4 árum síðan vaknaði hér i bænum almennur áhugi fyrir því, að koma Siglufirði í  vegasamband við hinar frjósömu sveitir Skagafjarðar og þá um leið í samband við þjóðvegakerfi  landsins.

Allir bæjarbúar voru sammála og einhuga um að leggja fram drjúgan skerf til þess að ná  þessu takmarki. Sannaðist það best með því, að á árunum 1934-35 lögðu einstaklingar og  bæjarsjóður fram nærri 55 þúsund krónur í þessu skyni. Bjuggust allir við að Alþingi mundi bregðast vel  við um fjárveitingu til þessa nauðsynjamáls, ekki síst vegna þess, hve einstaklingar lögðu mjög á  sig. 

Var því meiri ástæða til þess að vænta ríflegs framlags úr ríkissjóði, þar sem hér átti hlut að  máli, það bæjarfélag, er útvegar ríkissjóði langhæstu tekjurnar í innflutnings- og útflutningsgjöldum  allra bæja á landinu utan Reykjavíkur auk þess sem ríkið rekur hér miljónafyrirtæki, sem ekki greiðir eyrisútsvar til bæjarins. 

Það er nú alkunnugt hvernig Alþingi og þar með, hinir gömlu og reyndu þingmenn Eyfirðinga  snérust við þessu. 

Á haustþinginu 1934 bar Garðar Þorsteinsson fram tillög um 50 þúsund króna, en til vara  25 þúsund króna framlag til Skarðsvegarins, en þingmenn Eyjafjarðarsýsla stóðu tryggir við hlið  flokksbræðra sinna og sócíalista og felldu báðar tillögarnar með nafnakalli. 

Framkvæmd Skarðsvegarins er stórmál, bæði fyrir þá, sem þennan bæ byggja og ekki siður  fyrir hina afskekktu og einöngruðu Fljótasveit.

Reynslan hefir fyrir löngu sýnt, að sjávarútvegur  og sá iðnaður, sem skapast í sambandi við hann, er engu bæjarfélagi traustur grundvöllur undir  fjárhagslega heilbrigt atvinnulíf, ef ekki er hægt að koma á viðskiptum við nærliggjandi sveitir. 

Náist ekki bílasamband við nærliggjandi sveitir Siglufjarðar, er allt útlit fyrir, að þessi bær verði  að láta sér nægja í framtíðinni, að vera verstöð síldveiðanna hér á Norðurlandi. Takist aftur á  móti að leggja Skarðsveginn á næstu árum mun það verða ómetanleg lyftistöng fyrir þetta bæjarfélag.

Bæjarbúum gefst þá kostur á, að afla sér nægra landbúnaðarafurða í skiptum fyrir sjávarafurðir  og iðnaðarvörur. Flutningar allir munu aukast til hagsbóta fyrir bílaeigendur. Verslun öll mun  færast í aukana.

Allir sem fást við skepnuhald munu eiga hægara með að afla sér heyfanga til  vetrarins. Gistihúsin hér mundu njóta góðs af ferðamannastraumnum, því marga mun fýsa að sjá  þessa að alstöð síldveiðanna, á þeim tíma, sem verksmiðjurnar starfa og söltunin fer fram. -  Þannig mætti lengi telja. 

Núverandi þingmönnum Eyjafjarðarsýslu hefir ekki tekist að sjá þessu máli borgið. Hinsvegar er  það fullsannað, að 8. landskjörinn þingmaður, Garðar Þorsteinsson, hefir barist og mun berjast fyrir þessu  máli með sinni festu og alkunna dugnaði. Á fundinum um daginn komst hann meðal annars svo að  orði: 

"Að það væri alls ekki vansalaust, að einn af stærstu kaupstöðum landsins væri ekki ennþá  kominn í samband við þjóðvegakerfi landsins. Það er og fullvíst, að fulltrúi Bændaflokksins,  Stefán Stefánsson, mun ljá máli þessu fylgi. Hann veit manna best, hvar skórinn kreppir að  bændum þeim, sem búa í afskektum sveitum. Hann veit það vel, að það er lífsskilyrði fyrir þá, að  koma afurðum sínum á.tryggan markað." 

Þess vegna munu þeir, sem ekki hafa þolinmæði til að biða í 20 ár, eftir því að Skarðsvegurinn komist á, ljá þeim  Garðari Þorsteinssyni og Stefáni Stefánssyni fylgi sitt þann 20. júní. 

Framlög einstaklinga + sjálfboðavinna, og svo hið opinbera

Framlög einstaklinga + sjálfboðavinna, og svo hið opinbera