Nokkrar umfjallanir og gefin dagsverk, og fleira

Nýja Dagblaðið 13 október 1934

Byrjað er á fyrirhuguðum bílvegi yfir Siglufjarðarskarð. Vinna þar nú um 25 menn daglega. Gengizt hefir verið fyrir söfnun gjafadagsverka . og hafa þegar fengist loforð um 2100 dagsverk.

-----------------------------------------------------------------------------------------

Morgunblaðið 14 október 1934

Siglufjarðarskarð. Frjettaritari Morgunblaðsins í Siglufirði símar í gær, að menn hafi lofað á þriðja þúsund dagsverka í sjálfboðavinnu við bílveginn yfir Siglufjarðarskarð. Margir hafa lofað 50 dagsverkum og þar yfir, alt að 200 dagsverkum.

------------------------------------------------------------------------------------------

Vísir 15 október 1934

Siglufirði 14. okt. FÚ. Vegurinn um Siglufjarðarskarð. Enn er framhald af söfnun gjafadagsverka til vegarins yfir Siglufjarðarskarð, og hafa nú safnast loforð um yfir 3000 dagsverk.

------------------------------------------------------------------------------------------ 

Vesturland 1. desember 1934

Frá Siglufirði. Þegar er byrjað að leggja bílfæran veg yfir Siglufjarðarskarð og er vegurinn kominn fram fyrir Skarðdal. Áætlað er að vegurinn til Hrauna í Fljótum kosti 330 þús. kr. Siglfirðingar hafa þegar lofað 3500 gjafadagsverkum í veginn og sýnir það einsdæma áhuga. Ef við Ísfirðingar sýndum svipaðan áhuga um vegagerðina yfir Breiðadalsheiði. yrði þeim þröskuldi rutt fljóttlega úr vegi.

Fórnfýsi og dugnaður Siglfirðinga um fjársöfnun til björgunar skútu fyrir Norðurland er einstætt. Hefir kvennadeild Slysavarnarfélagsins á Siglufirði safnað frekl. 8 þús. kr. til björgunarskútu á tæpum tveimur árum. Konur á Siglufirði hafa bundist samtökum um að styrkja sjúkrahús bæjarins með sem fullkomnustum lækningaáhöldum og öðrum útbúnaði.

Gáfu þær sjúkrahúsinu röntgen-áhöld til ljóslækninga og ýmis áhöld önnur, alls um 18þús. kr. Sömu konur gáfu og öll ljósstæði í nýju kirkjuna á Siglufirði. Flóðið mikla á Siglufirði 27. okt. s. 1. olli hinum mestu skemdum, eins og áður hefir verið skýrt frá í blöðunum. Alls er tjónið áætlað yfir 1 milj. kr. Er sýnt að flóðgarðurinn utanvert við eyrina er alveg ófullnægjandi, eins og hann er nú, og verður tafarlaust að ráða bót á þeirri flóðhættu, sem sífelt vofir yfir, meðan ekki er örugglegar um búið en nú er.

Kommúnistana á Siglufirði skortir ekki skotsilfur til flokksþarfa. Eru þeir nýbúnir að reisa stærsta samkomuhús bæjarins á grunni gömlu kirkjunnar, er þeir keyptu í þessu skyni, og er sagt að þeir hafi lítil lán þurft til húsbyggingarinnar.

Aflabrögð á Siglufirði hafa verið mjög treg og miklar ógæftir. Milli 30—40 hús eru nú í smíðum á Siglufirði. Eru það flest íbúðarhús og mörg allstór og myndarleg. Einnig eru nokkur verzlunarhús. 

Nýja síldarverksmiðjan — þriðja ríkið — eins og hún er kölluð á Siglufirði, er nýkomin undir þak. Ráðgert er að verksmiðjan verði fullgerð í júnímánuði næsta ár, og kostar sennil. um 1 milj. kr. Hefir þá ríkið lagt alls yfir 2 milj. kr. í síldarverksmiðjur á Siglufirði, og eru þar nú verksmiðjur er unnið geta úr 8 þús. hektol. síldar á hverjum sólarhring. 

Kvenfélagið Von á Siglufirði hefir haldið uppi dagheimili fyrir börn yfir sumannán. júlí—sept. í ár og í fyrra. Voru 50 börn á dagheimilinu í sumar á aldrinum 3ja til 8 ára, því ekki var hægt að taka á móti fleirum. Er þetta gert til þess að greiða fyrir vinnu mæðranna um síldveiðitímann og voru börnin á dagheimilinu frá kl. 9 árd. til kl. 8 síðd. daglega. Gjaldið frá heimili, hversu mörg börn sem þaðan voru, var 5 kr. yfir mánuðinn. Dagheimilið var styrkt með 2 þús. kr. úr bæjarsjóði, en kvenfélagið bar mestan hluta kostnaðarins. Hefir þessi tilhögun náð miklum vinsældum á Siglufirði.

Eins og mörgum er kunnugt hafa Siglfirðingar í huga að virkja Skeiðsfoss í Fljótum, og flytur Garðar Þorsteinsson frv. um virkjun þessa í þinginu. Rafmagnsþörf Siglufjarðar, sökum verksmiðjanna er mjög mikil, og er hugsað til framkvæmda sem fyrst, sennilega á næsta ári, ef lán verður fáanlegt. 

-------------------------------------------------------------------------------------------- 

Neisti 7. maí 1935

Úr fundargerð Kaupfélags Siglfirðinga: .................. Fundurinn samþykkti að gefa 200 dagsverk til fyrirhugaðs vegar um Siglufjarðarskarð. Sjóðir félagsins eru nú um 50 þús. krónur.------------------------------------------------------------------------------------------- 

Skutull 10 ágúst 1935

Síldarlaust hefir verið nú um skeið hjá síldarbræðslunum á Siglufirði. — Leiddist verkamönnum þá aðgerðaleysið, og varð það að ráði, að þeir ynnu að vegagerð yfir Siglufjarðarskarð án endurgjalds, en héldu kaupi sínu hjá verksmiðjunum. Unnu um 40 manns þannig frá verksmiðjum ríkisins að veginum yfir Siglufjarðarskarð seinustu dagana í vikunni sem leið.-----------------------------------------------------------------------------------------

Vísir 24 ágúst 1935

Siglufirði 23. ágúst. FÚ. 

Brautin um Siglufjarðarskarð. 

Tveggja kílómetra leið af Siglufjarskarðsbraut, eða einn sjötti hluti, er nú fullhlaðinn, og er verið að aka slitlagi á þann kafla vegarins. Sá ofaníburður er tekinn niður við Fjarðará. — Þessi kafli og næstu 500 metrar eru einna seinunnastir og dýrastir, að undanskildu sjálfu skarðinu sem er örmjótt. Til þessa hafa verið unnin 856 gjafadagsverk, auk 136 dagsverka sem gefin voru af Ríkisverksmiðjumönnum og 80 dagsverka er verksmiðjumenn Snorra og Hjaltalíns gáfu. — Vegurinn er 4.50 mtr. breiður, fullsíginn.

---------------------------------------------------------------------------------------- 

Morgunblaðið 5. September 1935  (yfirlit um vegaframkvæmdir á árinu)

................Í Eyjafjarðarsýslu var byrjað á vegagerð frá Siglufirði yfir Siglufjarðarskarð áleiðis til Fljóta í Skagafirði og er sú vinna að allmiklu leyti framkvæmd fyrir fje, sem Siglufjarðarkaupstaður hefir lagt fram, sumpart sem gjafavinnu, en sumpart af atvinnubótafje. — Mun vegagerð þessi verða æðikostnaðarsöm, líklega á fimta hundrað þúsund krónur til Haganesvíkur í Fljótum. Gamla timburbrúin á Fljóta á verður endurbygð og þar sett brú úr járnbentri steypu, og er nú verið að byrja á þeirri brúargerð. 

Mydirnar hér fyrir neðan tók Kristfinnur Guðjónsson

Nöfn við mannamynd: Vinna við Siglufjarðarskarð í upphafi. Neðri röð frá vinstri : óþekktur, Guðlaugur Sigurðsson, síðar póstur, Friðgeir Árnason, Hermann Einarsson, aftari röð frá vinstri : Haukur Friðgeirsson, óþekktur, Þorgrímur Bjarnason, óþekktur, óþekktur