1948-Siglufjarðarvegurinn Haraldur Hjálmarsson

Einherji 11. september 1948

Nú er öld skriffinnskunnar og því leyfi ég mér að taka penna í hönd.

Svo miklar andstæður, eða fjarstæður geta verið í einu þjófélagi, að jafnvel pennatöku viðvaningum eins og mér er hrint út á ritvöllinn.

Það er óþarfi að taka það fram, að góðar samgöngur séu með stærri þáttur í fjárhags- og menningarlífi einnar þjóðar. Þessa setningu eða svipaða sér maður næstum daglega í blöðunum. Aftur á móti er vegurinn til Siglufjarðar ekki á dagskrá, nú í seinni tíð.

Fyrir um það bil 20 árum vaknaði almennur áhugi Siglfirðinga og margra annarra landsmanna fyrir því að leggja góða akbraut frá þjóðveginum í Skagafirði til Siglufjarðar.

Vinnuflokkur við Skarðsveginn. Neðri röð frá vinstri : óþekktur, Guðlaugur Sigurðsson Guðlaugur Sigurðsson (Laugi póstur), Friðgeir Árnason verkstjóri, Hermann Einarsson bifreiðastjóri, aftari röð frá vinstri : Haukur Friðgeirsson síðar flugvirki, óþekktur, Þorgrímur Bjarnason, óþekktur, óþekktur – Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson

Haraldur Hjálmarsson, skáld m.fleiru. Ljósmynd; Kristfinnur

Haraldur Hjálmarsson, skáld m.fleiru. Ljósmynd; Kristfinnur

Allir stjórnmálaflokkar á Siglufirði létu málið skörulega til sín taka og þegnskapur Siglfirðinga og þeirra er búa í nærliggjandi sveitum var með þeim fádæmum (Þar sem um þjóðveg var að ræða), að þeir lögðu fram gjafadagsverk í þúsundatali. Þessi framlög eiga að mínu áliti sinn stóra þátt í því, að vegurinn yfir sjálft skarðið er nú uppkominn.

Þing og ríkisstjórn hlaut að vakna til meðvitundar um það, að Siglufjörður væri partur af Íslandi, og að Siglfirðingar væru Íslendingar.

Árið 1934 var hafist handa um sjálft verkið. Verkfræðingar og aðrir ráðamenn ákváðu að leggja veginn yfir sjálft skarðið, en ekki fyrir svokallaða “Stráka”, er sumir töldu þó heppilegra vegna framtíðarinnar.

Árin líða. Vegurinn mjakast áfram hægt og rólega. Skarðið þvælist fyrir. Það er snarbratt með klöppum og stórgrýti, en vinnutækin skófla og haki. Vinnudagurinn langur og stundum unnið allan veturinn, þegar náði til jarðar.

Fátækur ríkissjóður, þreyttir vegavinnumenn og fátækir gefendur gjöra það sem þeir geta. Eftir 10 ára baráttu var stóri björninn unninn.

Yfir skarðið mátti skrönglast á bíl. En þegar hér er komið, er ekki hægt að segja, að opnuð sé leiðin yfir á þjóðveginn. Enn líða ár. En á tveim síðustu árum má segja, að vegurinn yfir Siglufjarðarskarð sé aðalsamgönguleiðin að sumrinu, til og frá Siglufirði.

Fram til þess, að vegur þessi er lagður var Siglufjarðarskarð talinn einhver torfærnasta leið á Íslandi, og áreiðanlega skiptir það miklum krónufjölda, sem búið er að leggja í veginn, bæði af ríki, félögum og einstaklingum. Væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.

Það er jafnan talið til stórviðburða, er lokið hefir verið verki, svo sem að brúa stór vatnsföll og í tilefni af því eru mannvirki vígð með mikilli viðhöfn um leið og þær eru opnaðar almenningi til nota. Siglufjarðarskarð var, áður en vegurinn kom, hliðstætt miklu vatnsfalli, er skildi Siglufjörð frá meginlandinu.

Því hélt ég á sínum tíma, að haldin yrði vegleg vígsluathöfn áður en farið var að auglýsa fastar áætlunarferðir um það. En svo var ekki.

Þetta skiptir máske minnstu máli. Hitt er verra hversu vegurinn frá Hofsósi að Skarðinu er vanræktur og þar af leiðandi ófullkominn og vegna þessa vegaspotta rita ég þessar línur. Það er nærri að segja hlægilegt, og þó öllu heldur grátlegt að sjá þessar mjóu koppagötu með öllum sínum bugðum, óteljandi holum, stagsteinum, stórgrýti, sýkjum og forarpollum, - sjá þetta rétt við endann á vegi. sem kostaði milljónir króna, og sem tók 10-15 ára að byggja.

Hversvegna var verið að kasta milljónum í Siglufjarðarskarð, en hafa áður umræddan vegspöl nær ófæran, - veg, sem hlýtur að vera auðvelt að gjöra góðan með litlum tilkostnaði á skömmum tíma með hraðvirku tækjum, sem Íslendingar eiga nú, og maður sér, að verið er að nota til endurbóta á vegum úti á landi, vegum sem eru mikið fullkomnari en Siglufjarðarvegurinn. Er verið að spara gjaldeyri með þessari ráðsmennsku?

Hvernig fara bílar á svona vegum og hvað kosta þeir? Hvernig er að fá varahluti ef eitthvað bilar? Þarf ekki gjaldeyri til kaupa á þeim?

Að mínum dómi er þetta vegasamband óþarflega ófullkomið og ekki síst vegna þess, að hér á í hlut athafnasamur framleiðslubær með erfiða kaupsýslu og mikinn ferðamannastraum, svo og vegna skömmtunar og vöruskorts hljóta aðdrættir á svona vegum að vera erfiðir, þar sem vörubílar þurfa daglega til Reykjavíkur í slíkum erindum.

Það opinbera mætti gjarnan fara að taka á sig nýja rögg, hvað Siglufjarðarveginn snertir. Siglfirðingum er ekki ofgott að geta komist greiðlega ferða sinna út á landsbyggðina, þegar færi gefst vegna anna. Þeir hljóta að fá nóg af grútarlyktinni fyrir því - líkt sem aðrir landsmenn vilja reka af höndum sér, hvað sem það kostar.

Haraldur Hjálmarsson

Vinnuflokkur við Skarðsveginn. Neðri röð frá vinstri : óþekktur, Guðlaugur Sigurðsson Guðlaugur Sigurðsson (Laugi póstur), Friðgeir Árnason verkstjóri, Hermann Einarsson bifreiðastjóri, aftari röð frá vinstri : Haukur Friðgeirsson síðar flugvirki, óþekktur, Þorgrímur Bjarnason, óþekktur, óþekktur – Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson