1944 - Vegagerð og tækni

Siglfirðingur 9. desember 1944

 Vegurinn um Siglufjarðarskarð

Vegurinn um Siglufjarðarskarð er ágætt dæmi um tækni vegamálanna á íslandi síðustu tíu árin. Þar stendur flest í stað ennþá. Ég veit ekki hve mörgum hundruðum þúsunda er búið að verja í þennan 15 km. langa vegarspotta. En þessi hundruð þúsunda eru orðin ævintýralega mörg. Enda má nærri geta, að annar eins fjallvegur og Siglufjarðarskarð verður ekki gerður bílfær á örskömmum tíma með hjólböruakstri og hestakerru aðflutningum.

Ég held, að fátt beri kotabúskapar—verkmenningunni, betra vitni en vegamálavinnubrögð síðustu áratugi hér á Íslandi. Fyrir utan það, að ekki sé nú talað um alla Z-krókana (Zoega) sem algjörlega að þarflausu eru settir á vegina. Það hefir vegfróður maður sagt, að sumstaðar séu akbrautir hér á landi svo krókóttar og hlykkjóttar að þarflausu, að einn kílómeter sé þar gerður að tíu.

Gott dæmi um slíka dæmafáa Bakkabræðra-vegalagningu er akbrautin um Grímsnesið. Skal eigi meira um þessa tækni íslenzkra vegamála rætt að sinni, en Siglfirðingum mun lengi minnisstætt vegargerðin yfir Siglufjarðarskarð Það mun líklega einsdæmi í heimi hér á þessu tíma, að þjóðvegarlagning um 15 km. spöl taki á annan áratug, enda þótt um torveldan fjallveg sé. Það var verið í tíu ár að byggja alla St. Gottharðsbrautina fyrir 70 árum síðan, og eru þar meðtalin 15 km. löng göng gegnum Gottharðstindinn 8 metra breið og 6,2 m há og múruð hvelfing alla leið.

Nú er búið að vera 10—12 ár að bögglast við að leggja veginn yfir Siglufjarðarskarð jafnlangan veg og göngin eru gegnum granítvegginn mikla suður í Alpafjöllum. Og það var gert fyrir 70 árum. En nú er verið að leggja veginn okkar og má nærri geta hver munur er á tækninni þá og nú. Um tvö ár tók það Bandaríkjamenn að leggja akveg um torleiði Klettafjalla alla leið sunnan frá Kaliforníu norður til Alaska og skiptið sú leið þúsundum kíló-metra.

Hvað ætli vegamálastjórnin íslenzka hefði verið lengi með þann vegarspotta eða Gottharðsbrautina um Alpana? Og hve margir þúsundatugir króna hafa hér farið forgörðum fyrir slík Molbúavinnubrögð og hér hafa átt sér stað í vegagerð síðustu áratugina? En nú er þó svo komið, að jafnvel hinum „verkfróðu!" Alþingis löggjöfum blöskrar vinnubrögðin, og er nú svo að heyra eftir þingfréttum, að vegamálastjórnin ætli að taka rögg á sig og ljúka Skarðsveginum á næstu tveimur árum, og mun þó um helmingi vegarspottans ólokið enn með öllu og öllu.

Nú er á fjárlögum ætlaðar 350 þús. til vegarins yfir skarðið, og er nú svo til ætlazt, að fyrir tvöfalda þá fjár hæð skuli vegurinn fullgerður, og mun þó margur mæla, sá er vit hefir á, að eigi kosti minna það sem eftir er, en það er af er, með samskonar vinnubrögðum og tíðkazt hafa. Er því auðséð, að nú á eitthvað að breyta til um vinnubrögðin. Er það vel, að séð verði fyrir endann á þessum dæmalausu vegarframkvæmdum, og hefðu Siglfirðingar þegið, að fyrr hefði verið að unnið með traustari forsjá og nútíma verksviti.