1933-Vegurinn til Fljóta

Einherji fimmtudaginn 5. október 1933

Vegurinn til Fljóta.

Þeir Árni Pálsson verkfræðingur og Lúðvík Kemp vegagerðarstjóri Ríkissjóðs hafa síðastliðna viku verið að mæla og athuga vegarstæðið yfir Siglufjarðarskarð til Hrauna.

Áður hafa, eins og kunnugt er, ýmsar leiðir verið athugaðar og mældar yfir fjallgarðinn milli Siglufjarðar og Fljóta svo sem Botnaleið þar sem vegurinn lægi kringum Nautadal niður Skyrfingshóla yfir Brúnastaðaá ofan við Brúnastaðatún og niður þaðan sem leið liggur til Fljótabrúar.

Reyndist sú vegalengd rúmir 15 km. og halli vegarins víðast hvar 1 móti 9. Þá hefir og verið mæld leiðin yfir Skjöld sem er 490 m. yfir sjó. Reyndist sú leið vera 29 km. að Fljótabrú. Nú síðastliðið ár hafa hugir flestra er vit hafa á hneigst frá þessum leiðum en að hinni fornu alfaraleið yfir Siglufjarðarskarð. Nú í ár hefir leiðin yfir Siglufjarðarskarð verið athuguð vandlega og er athugun þeirra Árna og Lúðvíks að þessu sinni úrslitarannsókn á þessari leið.

Einherji hefir haft tal af þeim félögum og hafa þeir látið blaðinu í té eftirfarandi upplýsingar um vegarstæðið.

Vegalengdin frá Siglufjarðareyri til Hrauna reynist að vera 13 km. eða um 19 km. að Fljótabrú. Þar af eru þegar fullir 2 km. bílfærir eða vegurinn frá Eyrinni til Skarðdals. Eftir mælingu þeirra og nákvæmri athugun með tveim hæða barómetrum, er Siglujarðarskarð 585 metra hátt yfir sjó. Er það um 12 metrum lægra en sýnt er á korti herforingjaráðsins.

Hvað legu vegarins viðvíkur, ætlast þeir til að vegurinn sé lagður upp Skarðdalshryggina, að minnsta kosti í bráðina. En ákjósanlegast væri að hann lægi með jöfnum halla suður hlíðina ofanvið Steinaflatir. Verður það sennilega framtíðarleiðin. Er vegurinn hefir verið lagður fullan km. upp Skarðsdalshryggina liggur hann í tveim beygjum með halla 1 móti 10 og yfir þvergilið við efsta fossinn.

þaðan í beinni línu með sama halla suður og uppí Skarðsdalsbotn beygist þar norður á við með sama halla eftir hlíðinni ofan við Skíðakofann beint í Siglufjarðarskarð. Sjálft Skarðið verður lækkað talsvert. Vestan Skarðsins liggi vegurinn suðvestur hlíðina aftan við botn Göngudalsins og utan um fellið sunnan við hann beygist þá suður í hlíðina norðan í Breiðfjalli um svokallað Gönguskarð, þar sem gamli vegurinn liggur uppá nyrðri Eggjabrekkur úr Hraunadalnum og þaðan suður hlíðina yfir Sauðdalinn ofan við gamla veginn uns hann mætir Hraunabraut ca 500 metrum sunnan við Hraunabæinn. Alltaf er haldið sama halla 1 móti 10. Það mun vera almenn ósk báðum megin Skarðsins að byrjað verði á veginum í vor, svo bílfært verði um Skarðið síðari hluta næsta sumars.