Leó Ólason skrifar um Snorra Jónsson og fleira

Leita á Heimildasíðunni    Formáli sk  -- Allir sem Leó Ólason þekkja, vita hversu góður penni hann er. Hann hefur verið mjög ötull við ýmis athygliverð skrif tengd Siglufirði og Siglfirðingum, og hann hefur leyft mér að birta efni sitt á vef mínum. (sk)

Snorri Jónsson á sínum yngri árum, heima á Sigló 

SIGLFIRÐINGURINN OG SKÁLDIÐ SNORRI JÓNSSON LÉT DRAUMINN RÆTAST OG GAF ÚR DISKINN „NORNANÓTT“ Í TILEFNI AF SJÖTUGSAFMÆLi SÍNU.

Okkar maður Snorri Jónsson hefur komið víða við á lífsleiðinni. Hann er borinn og barnfæddur Sigfirðingur þó svo að Vestmannaeyingar hafi löngum reynt að eigna sér hann eins og fleiri ágæta sigfirska villimenn og/eða Bakkagutta. Hann lærði rafvirkjun nyrðra, en flutti ungur til Eyja þar sem hann vann í Gúanóinu. Hann var frumkvöðull í gámaútflutningi á fiski og ekki alveg með öllu gagnrýnislaust, því slíkir menn voru sakaðir um að flytja atvinnuna úr landi.

Það var ekki fyrr en löngu síðar að það var viðurkennt að þorskurinn var verðmætari ferskur en frosinn, en það er nú annað mál.

Þetta er sagan um drauminn sem varð að veruleika, um ljóðin sem urðu að söngvum og lögum sem ýmist löguðu sig að bragarháttum skáldsins eða skáldið að hrynjandi lagsins.

Snorri flutti til Eyja 1969 með konu sinni Þyrí Ólafsdóttir sem er fædd og uppalin í Eyjum, en leiðir þeirra lágu saman fyrir norðan. Einnig frumburðinum Óla sem er elsti strákurinn þeirra og innfæddur Siglfirðingur.

Snorri byrjaði að yrkja í barnaskóla og fyrsta textann gerði hann fyrir Gautana. Síðan gerði Snorri margar tækifærisvísurnar og tilefnin hafa verið mörg og margvísleg. Einnig gerði hann nokkuð af danslagatextum og ætti margur Siglfirðingurinn að kannast við „Minning um síldarævintýri“ sem kom út á disknum „Svona var á Sigló“ árið 1999 og var þá sungið af Þuríði Sigurðardóttur. Einnig er hann orðaður við nokkrar „blautlegar“ vísur, en þær er hvergi að finna á prenti svo vitað sé.

Þau komu að gerð disksins:

 • Söngur: Sunna Guðlaugsdóttir og Sæþór Vídó.
 • Trommur: Birgir Nielsen.
 • Bassi: Kristinn Jónsson.
 • Gítarar: Gísli Stefánsson.
 • Orgel/Hammond: Þórir Ólafsson.
 • Trompet: Einar Hallgrímur Jakobsson.
 • Básúna: Heimir Ingi Guðmundsson.
 • Saxafónar: Matthías Harðarson.
 • Bakraddir: Gísli Stefánsson, Jarl Sigurgeirsson, Sæþór Vídó og Þórir Ólafsson.
 • Útsetning: Gísli Stefánsson og Sæþór Vídó.
 • Hljóðupptaka og -blöndun: Gísli Stefánsson.
 • Mastering: Finnur Hákonarson.

Platan var tekin upp í Studió Stefson, Skátastykki, Landakirkju og Klettshelli í Vestmannaeyjum.

Lagahöfundar eru Sæþór Vídó Þorbjörnsson, Geir Reynisson, Sigurður Óskarsson, Sigurjón Ingólfsson, Leó R. Ólason og fl.

Ljóðabók með öllum ljóðunum fylgja diskinum með frásögnum höfundar um þau.

Umfjöllun Eyjafrétta um diskinn og viðtal við Snorra má sjá hér.

Áhugasamir um að eignast plötuna geta sett sig í samband við Snorra ( s. 892-2741 ) eða hans afkomendur. Einnig er hún til sölu í verslun Geisla í Vestmannaeyjum.

Eyjafréttir: Fimmtudaginn 15. okt 2015

Siglfirðingurinn og skáldið Snorri Jónsson lét drauminn rætast:

 Gefur út diskinn Nornanótt með eigin ljóðum

:: Málið komst á skrið í spjalli við Sæþór Vídó í 70 ára afmælinu :: Mjög ánægður með útkomuna

 Snorri Jónsson hefur komið víða við á lífsleiðinni. Er Sigfirðingur, lærði rafvirkjun, flutti ungur til Eyja þar sem hann vann í Gúanóinu, var frumkvöðull í gámaútflutningi og var um tíma húsvörður í Grunnskólanum. En í öllu atinu var strengur sem aldrei slitnaði, fitl hans við skáldskargyðjuna sem byrjaði snemma á ævinni.

Og hann átti sér draum um ljóðabók en var ekki að fullu sáttur við tilraunina sem hann gerði. Hann átti sér líka annan draum sem hann sér nú rætast í diski sem hann kallar Nornanótt og er kominn út með lögum við kvæði hans.

 „Já, það er rétt að nú er draumurinn að rætast, diskurinn kominn út en það versta við svona er að þá er ekkert eftir til að láta sig dreyma um,“ segir Snorri sposkur á svipinn þegar rætt er við hann um diskinn. Þar hafa Sæþór Vídó og Gísli Stefánsson stýrt tökkum, leikið undir og samið lög við kvæði Snorra.

„Ég er 71 árs gamall Siglfirðingur, flutti til Eyja 1969 með konu og barn,“ segir Snorri en konan, Þyrí Ólafsdóttir er fædd og uppalin í Eyjum en leiðir þeirra lágu saman fyrir norðan. „Óli, elsti strákurinn okkar er Siglfirðingur.“

 Og snemma beygist krókur. „Frá því ég var í barnaskóla hef ég verið að yrkja. Ég var að kveðast á við ömmu sem byggist upp á því að koma með vísu sem byrjar á sama staf og vísa hins endar. Þá þurfti ég stundum að redda mér með eigin kveðskap og ég á vísu sem byrjar á Ð.“

Snorri segir að þetta hafi þróast hjá sér í gegnum árin. „Fyrsti textinn minn við lag var fyrir Gautana á Siglufirði 1965. Gautarnir voru vinsælir um allt land og fluttu flest sín lög á íslensku.“

 Snorri hefur ort tækifærisvísur og tilefnin hafa verið mörg og safnið meira en hann hélt. „Eftir að ég hætti að vinna hef ég verið að fara yfir þetta og taka draslið mitt saman. Og það kemur margt skemmtilegt í ljós og oft var fyrirvarinn ekki langur. Ég hef verið að finna vísur sem ég hef hripað niður á nótur og skýrslu- og skoðunarblöð frá Vinnslustöðinni og Gúanóinu. Þetta var bara þannig, að ég greip næsta blað og skrifaði aftan á það til að muna það sem kom upp í kollinn.“

Ekki neitar Snorri þegar hann er spurður hvort blautlegar vísur hafi ekki flotið með. Og hann hlær. „En þær er hvergi að finna á blaði.“

 Er langt síðan þú ákvaðst að gefa út disk með lögum við ljóðin þín? „Nei en ég ætlaði lengi að gefa út ljóðabók. Lét verða af því en sá strax eftir því af því að hún var ekki nógu vönduð. Það var svo í 70 ára afmælinu mínu að við Sæþór Vídó fórum að ræða saman. Það er ár síðan og þá komst þetta á skrið og diskurinn kominn út.“

 Ertu ánægður með diskinn? „Já. Ég er mjög ánægður og allir sem hafa heyrt hann tala um hvað við eigum flott listafólk. Er í raun alveg hissa á því en enginn er spámaður í sínu föðurlandi.“

 Framundan er svo að koma disknum á framfæri og útgáfutónleikar. „Ég ætla að dreifa honum í verslanir í Vestmannaeyjum og kannski víðar. Það þýðir ekkert að setja hann inn á netið, þá fær maður ekkert út úr þessu. Þetta er þó ekki spurning um að græða eitthvað heldur að hafa sem mest upp í kostnað,“ sagði Snorri að endingu.

Þau komu að gerð disksins:

 • Söngur: Sunna Guðlaugsdóttir og Sæþór Vídó.
 • Trommur: Birgir Nielsen.
 • Bassi: Kristinn Jónsson.
 • Gítarar: Gísli Stefánsson.
 • Orgel/Hammond: Þórir Ólafsson.
 • Trompet: Einar Hallgrímur Jakobsson.
 • Básúna: Heimir Ingi Guðmundsson.
 • Saxafónar: Matthías Harðarson.
 • Bakraddir: Gísli Stefánsson, Jarl Sigurgeirsson, Sæþór Vídó og Þórir Ólafsson.
 • Útsetning: Gísli Stefánsson og Sæþór Vídó.
 • Hljóðupptaka og -blöndun: Gísli Stefánsson.
 • Mastering: Finnur Hákonarson.

 Platan var tekin upp í Studió Stefson, Skátastykki, Landakirkju og Klettshelli í Vestmannaeyjum.

 Áhugasamir um að eignast plötuna geta sett sig í samband við Snorra ( s. 892-2741 ) eða hans afkomendur. Einnig er hún til sölu í verslun Geisla í Vestmannaeyjum.

Meira um Siglfirðinginn Snorra

Eyjafréttir þann: Mánudag 27. feb 2012

Snorri Jónsson vann Ástarljóðasamkeppni Sölku og Eymundsson

 Eyjamaðurinn Snorri Jónsson sigraði í Ástarljóðasamkeppi Sölku og Eymundsson en keppnin var haldin í samstarfi við Bylgjuna.  Á þriðja hundrað ljóða bárust í keppnina en sigurljóðið var kynnt og flutt í þættinum Í Bítinu á Bylgjunni.  Ljóð Snorra heitir Ástarkveðja og má lesa hér að neðan.

Ástarkveðja

 • Nú leggur angan vorsins að vitum mínum.
 • Ó, vinur ég man, er ung ég í örmum þínum
 • undi og lét mig ástfangin framtíð dreyma.
 • Aldrei, nei aldrei, ég mun þessum dögum gleyma.
 • .
 • Við vorum svo ung og vegurinn var svo breiður
 • vatnið svo slétt og himinninn alveg heiður.
 • Lífið það brosti og byrðirnar voru svo léttar
 • að brjósti þínu ég vafði mig örlítið þéttar.
 • Síðan við höfum saman, fetað lífsveginn langa.
 • Ljúft mér það er að segja, að létt hefur verið sú ganga.
 • Þó ei fari allt að vonum, eða eins og við kjósum
 • auðvitað er ekki lífið eintómur dans á rósum.
 • .
 • En nú vil ég vinur kæri í þessum léttvægu línum
 • láta þig vita hvað efst er í huga mínum.
 • Þakklæti bæði og virðing og vinátta, allt í senn.
 • Ég vil bara að þú skiljir, að ég elska þig enn.  

Snorri Jónsson