Leó skrifar um Sigga Konn

Sigurður Konráðsson - tvítugt (?)

Siggi Konn sjóari, skíðamaður, bræðslukarl, veiðimaður, húsa og bátasmiður, listmálari og núna síðast húsvörður í Tollhúsinu Í Reykjavík, flutti suður árið 1996 eftir að hafa slasast á hendi.

Þau Dæja (Dagbjört Jónsdóttir)seldu allt sem þau áttu fyrir norðan og komu sér fyrir í fallegu húsi vestur á Seltjarnarnesi skammt fyrir ofan fjöruborðið.

Við Biggi Inga heimsóttum hann fyrir fáeinum árum og áttum við hann alveg frábært spjall. Þar sagði hann okkur frá listmáluninni sem hófst fyrir alvöru eftir að suður var komið og meiri tími gafst til að sinna áhugamálunum. Líklega er myndin af Elliða sú mynd hans sem flestir þekkja en hann sagði okkur frá því hvernig hún varð til.

„Það má segja að myndin af Elliða sé nokkurs konar símamynd, en ég er mjög ánægður með útkomuna. Ég málaði hana að miklu leyti eftir lýsingu frá Kidda bróðir í gegn um síma, en hann var þarna um borð. Skipverjarnir töluðu yfirleitt ekkert um slysið árum eða áratugum saman, en hann sagði mér þó á endanum hvernig þetta hafði gerst þarna út af Snæfellsnesinu.

Elliði var alveg lagstur á hliðina og þeir búnir að missa flesta bátana frá sér, en Muggi og Lalli voru komnir á björgunarfleka. Þá tók út með honum en skolaði aftur inn eftir þó nokkuð langan tíma í þessu líka snarvitlausa veðri. Kannski hálftíma eða eitthvað svoleiðis og það er alveg ómögulegt að skilja hvernig svona lagað gat gerst. Félagar þeirra þeir Egill og Hólmar voru því miður ekki jafn heppnir.

Sigurður Konráðsson - tvítugt (?)

Sigurður Konráðsson - tvítugt (?)

Ég var svo með þessa mynd á sýningu fyrir nokkru og þá kom til mín nágranni minn sem sagði mér að hann hefði verið háseti á Júpíter sem kom einmitt að slysinu og bjargaði skipverjum af Elliða þegar hann sökk. Það var svo dimmt og vitlaust veður að það sást ekki neitt, þannig að Júpíter fór fyrst framhjá slysstaðnum en snéri síðan við og fann þá“.