Tengt Siglufirði
Ingvar Guðjónsson síldarsaltandi og athafnamaður á Siglufirði um og eftir 1920.
Það var sagt um hann að hann hefði ekki átt bót fyrir rassinn á sér þegar hann byrjaði, fengið lánaðan tíuþúsunkall sem var gríðar mikið fé á þeim tíma og tapað honum strax.
Hann hafi síðan risið úr öskunni eins og alvöru síldarspegúlöntum var svo tamt og orðið einn mesti útflytjandi saltsíldar á Siglufirði og náð að salta í um 50.000 tunnur eitt sumarið.
Aflaleysissumarið 1935 þegar allir spegúlantar voru á hausnum og áttu ekki tuttuguogfimmeyring til að kaupa sér í nefið, tókst Ingvari að komast yfir reknet fyrir nokkra útgerðarmenn sem voru kannski síst betur staddir en hann. Þeir reyndu fyrir sér í Faxaflóa og þessi tilraun varð upphafið af svokallaðri Faxasíld.
Ingvar var glaðlyndur að eðlisfari og annálaður gleði og samkvæmismaður. Um hann var kveðið í kvæðabálki sem er nefndur Síldarsölukantata Íslands og er eftir Sigurð Björgúlfsson, Þorgeir Jakobsson og Stefán Stefánsson sem allir voru í síldinni á Siglufirði.
Báturinn Ingvar Guðjónsson EA 18 stærsti eikarbáturinn sem smíðaður var fyrir íslendinga um miðja síðustu öld í Svíþjóð.
Hann var smíðaður árið 1948 í Karslborg og var mældur 183 tonn. Ingvar Guðjónsson var í upphafi búinn 540 hestafla Pólar díesel aðalvél sem skipt var út árið 1963 og þá sett niður ný 500 hesta Wicmann aðalvél.
Umfjöllun hér neðar um Skipskomuna og afmælið. er klippa frá blaðinu Siglfirðingur 17. júlí 1948
Jónas Jónsson alþingismaður frá Hriflu skrifaði um Siglufjarðarkirkju og altaristöfluna í Nýja dagblaðið sumarið 1936. Þar kom fram að Ingvar Guðjónsson útgerðarmaður hefði átt frumkvæði að því að nokkrir menn stæðu saman að því að fá Gunnlaug til að gera altaristöflu.
„Nú standa 12 Siglfirðingar að því að kaupa handa bæ sínum mestu og dýrustu altarismynd sem enn hefur verið unnið að fyrir nokkra íslenska kirkju,“ sagði Jónas. „Það er sjávarmynd, hraustlegir sjómenn á úfnum sæ. En Kristur lægir ölduganginn. Efnið er fallegt og vel valið fyrir fólkið í þessum bæ, sem fram að þessu hefur aðeins haft útgöngudyr að hafinu og auði þess.“
Heimild: http://www.sild.is/ahugavert/greinar/listraenn-innblastur---tengsl-gunnlaugs-blondal-vid-siglufjord/
---------------------------------------------------- Samtíningur: Léó Ólason, og sk
"Viðbót frá SK"
Merkir Íslendingar - Ingvar Guðjónsson
Ingvar Jónadab Guðjónsson fæddist 17. júlí 1888 að Neðra-Vatnshorni á Vatnsnesi, V-Hún.
Foreldrar hans voru hjónin Guðjón Helgason, f. 1864, d. 1940, bóndi, síðar verkstjóri hjá Ásgeiri Péturssyni kaupmanni og fiskimatsmaður, ættaður úr Vopnafirði, og Kristín Árnadóttir, f. 1868, d. 1923, frá Hörgshóli.
Ingvar var elstur átta systkina og fór á barnsaldri til vandalausra og ólst upp á ýmsum stöðum í Húnavatnsþingi. Hann fór fyrst til sjóróðra suður í Hafnir í Gullbringusýslu, er hann var 17 ára og fór gangandi að norðan. Ingvar hóf formennsku árið 1909 og 1915 tók hann farmannapróf við Stýrimannaskólann. Árin 1916-1920 rak hann útgerð í félagi við fyrrnefndan Ásgeir og var skipstjóri á skipum sem þeir áttu saman.
Ingvar hóf síldarsöltun árið 1920 og lok 3. áratugarins var hann orðinn stærsti síldarsaltandi á Norðurlandi. Ein skýringin er talin vera sú að hann bjó skip sín betur að veiðarfærum og öðrum búnaði en flestir aðrir. Hann fékk því hæfa skipstjórnarmenn til liðs við sig og skip hans voru ætíð meðal þeirra sem mest öfluðu. Mestur var útflutningur hans árið 1932, næstum 50.000 tunnur.
Ingvar var þó ekki einungis í síld því hann sótti einnig þorskveiðar með góðum árangri. Skip sín bjó Ingvar frá Akureyri og var þar búsettur að mestu en nær allan síldarfeng sinn lagði hann upp á Siglufirði. Hann stundaði einnig mikla ræktun á jörðinni sinni, Kaupangi í Eyjafirði. Ingvar var hjálpsamur og gaf stórfé til menningarmála, svo sem barnaheimila og kirkna.
Ingvar kvæntist 1918 Ólafíu Hafliðadóttur en þau skildu. Dóttir þeirra var Kristín, f. 1918. Önnur börn Ingvars: Björn, f. 1917, Helga, f. 1924, Hulda, f. 1926, Gunnar, f. 1930, Hjördís, f. 1932, Inga, f. 1933, og Sigurður, f. 1935, allt hálfsystkin. Öll eru þau látin nema Inga.
Fæðingardagur: | 17-07-1888 | ||
Kirkjugarður: | Dánardagur: | 08-12-1943 | |
Reitur: | P8-92 | Jarðsetningardagur: | 20-09-1950 |
Annað: | Aldur: | 55 ára |