Leó skrifar í september 2005 - Á ÚTLEIÐ

Um, fyrir og eitthvað eftir miðja síðustu öld starfaði Leikfélag Siglufjarðar löngum af miklum krafti og setti upp verk nánast á hverju ári. Mikill áhugi var fyrir starfseminni meðal bæjarbúa og mun verulegur fjöldi þeirra hafa komið þar við sögu með margvíslegum hætti. Auðvitað ekki aðeins sem leikarar,

því svo ótalmörgum öðrum hlutum þurfti að sinna til að allt félli saman að lokum rétt eins og púsluspil sem ekkert stykki vantar í. Reddingarnar voru eflaust endalausar að vanda. Búningarnir, leikmyndin, auglýsingarnar, leikskráin, útvegun húsnæðis, þrifin, miðasalan, ljósin, dyravarslan og það mætti jafnvel nefna kaffiuppáhellingar og bakkelsi í tengslum við uppsetninguna og fleira og fleira. 

En því miður eru færri og minni heimildi til um allt ósýnilega fólkið sem vann af alúð og natni bak við tjöldin en leikarana sem stóðu á sviðinu, nutu þar athygli áhorfendanna baðaðir í ljósi kastaranna. Aðstæður fólks voru auðvitað talsvert aðrar á þeim tíma en þær eru í dag sem hefur auðvitað skipt sköpum hvað aðsóknina varðar því segja með góðum og gildum rökum að fákeppni hafi ríkt á afþreyingarmarkaði hér denn, því þetta var fyrir daga samfélagsmiðla, tölvuleikja, farsíma, myndbanda og diska, tölva, sjónvarps, og meira að segja sjálfvirks síma nema á stærri stöðum. 

Fyrir hálfri öld eða í marsmánuði 1965 segir Mjölnir frá sýningu Leikfélags Siglufjarðar á "Á útleið" eftir enska höfundinn Sutton Vane. Skrifin sem sjá má hér að neðan, verður að líta á sem leiklistargagnrýni þrátt fyrir að enginn riti undir þau, en nafnleysi blaðaskrifara var ekkert óalgengt á þessum tíma. 

"Leikfélag Siglufjarðar hefur að undanförnu sýnt sjónleikinn "Á útleið" sem er þekktasta verk þessa höfundar, enda er hér tekið til meðferðar sígilt efni á sérstæðan og skemmtilegan hátt. Meðferðin á þessu leikriti er Leikfélagi Siglufjarðar til mesta sóma, í heild séð er verkið vel af hendi leyst og hvergi hleypur snurða á þráðinn; leikendur eru samtaka hópur. Lengst á sviðinu er Sigurður Geirsson í hlutverki Priors. Þetta er ekki auðvelt hlutverk, en Sigurður kemst vel frá því. Bezt gengur honum að túlka mestu geðshræringuna hjá manninum, helzt væri hægt að finna að honum í fyrsta þætti, meðan hann ekki er í alltof mikilli geðshræringu. 

Næst kemur á sviðið frú Banks, nei, afsakið, frú Cliveden-Banks, ensk yfirstéttarkelling, sem ekki á sinn líka á Íslandi. Þess vegna er heldur ekkert auðvelt að túlka hana, hennar orðfæri og hegðun stafar ekki af venjulegu monti, frekju og hroka, heldur koma þarna fram eiginleikar, sem okkur eru mjög framandi og engin furða þótt Ása Þórarinsdóttir eigi fullt í fangi með túlkunina. Friðrik Stefánsson leikur séra Duke af prestlegri hlýju. Greinilegt var, að handarmein háði Friðriki í leiknum, en samt er leikur hans mjög þokkalegur. 

Þórarinn Hjálmarsson sýnir það, að hann er einn af okkar traustustu leikurum og skilar sínu hlutverki prýðilega. Beztur er hann samt í fyrsta þætti, og skemmtilega skilar hann lokaorðum þess þáttar. "Villingana", leika Magðalena Jóhannesdóttir og Ingimar Þorláksson. Magðalena leikur sitt hlutverk vel og skörulega að venju, Ingimar sýnir líka góðan leik, en málfar háir honum nokkuð. Kristín Baldvinsdóttir lék frú Midget milt og móðurlega. Í leik hennar var hvergi veikur punktur, henni tekst að gera eðlilegan stíganda í leikinn og þannig verður síðasta senan jafnframt sú bezta. 

Eiríkur J. B. Eiríksson leikur Lingley, fjármálamann, frá Lingley & Co. með takmarkaðri ábyrgð. Lingley er harður maður og þarf hressilega túlkun, sem hann og fær hjá Eiríki. En það þarf góðan leikara til að láta svona mann bugast jafntrúlega og Eiríki tekst. Ekki má gleyma rannsóknardómaranum, sem Guðmundi Bjarnasyni tekst vel að túlka. Á bak við alla leikendur sjá um við hinn reynda leikstjóra, Ragnhildi Steingrímsdóttur, 

þótt hvergi komi hún fram á sviðinu. Að baki svona sýningu liggur mikil vinna og fórnfús, ekki aðeins leikaranna, sem þó leggja líklega mest af mörkum, heldur og líka fjölmargra aðstoðarmanna. Leikfélag Siglufjarðar á því miklar þakkir skildar fyrir að hressa upp á hversdagsleikann hjá okkur með svona sýningu. En okkur finnst það vera of mikið tómlæti, að ekki skuli hver ferðafær maður fara og njóta þessarar skemmtunar, og sýna þar með að það sé metið sem vel er gert". 

- Svo mörg voru þau orð.