Leó Skrifar - FYRSTA HLJÓMSVEITIN

Ég var ennþá í barnaskóla þegar það kviknaði á hljómsveitarperunni. Ég hafði farið á skemmtun í bíó þar sem Gautarnir léku og voru býsna flottir að mér fannst. 

Þeir spiluðu hvert topplagið á fætur öðru og hápunktinum var náð þegar Baldi Júll söng “Á sjó” sem var þá vinsælasta lag á Íslandi og Guðmundur Gauti spilaði á melódiku í sama lagi en það hljóðfæri hafði ég þá aldrei séð áður. 

Ég var ennþá í barnaskóla þegar það kviknaði á hljómsveitarperunni. Ég hafði farið á skemmtun í bíó þar sem Gautarnir léku og voru býsna flottir að mér fannst. 

Þeir spiluðu hvert topplagið á fætur öðru og hápunktinum var náð þegar Baldi Júll söng “Á sjó” sem var þá vinsælasta lag á Íslandi og Guðmundur Gauti spilaði á melódiku í sama lagi en það hljóðfæri hafði ég þá aldrei séð áður. 

Þarna komu einnig fram nokkrar unglingahljómsveitir þess tíma og voru þær líka alveg ágætar. Ég hitti Ásmund Jónsson bekkjarbróðir minn á eftir og spurði hann hvort honum hefði ekki fundist þetta flott en hann svaraði því til að líklega hefði þetta verið ágætt. Rytmagítarinn var ágætur en sólógítarinn hefði verið sér til mikils ama. Ég hváði og skildi ekki alveg hvert hann var að fara. 

Jú, það glampaði á sólógítarinn og hann endurkastaði ljósinu frá ljóskösturunum beint í augun á Ásmundi og hann sagðist hafa verið orðinn hálfblindur að lokinni skemmtun. Ég spurði hann hvort sólógítarar væru hugsanlega kenndir við sólina og þeir væru gæddir þeim eiginleikum að endurvarpa ljósi og þar á meðal sólarljósi í augun á fólki. Ásmundur var ekki alveg viss um hvort þetta væri málið og varð þessi gáfulega umræða ekki lengri.  

Reyndar hafði ég farið á aðra skemmtun í Sjómannaheimilinu fáeinum árum áður þar sem Gautarnir voru líka kjölfestunúmerið og unglingahljómsveitir bæjarins komu fram. Þar er mér minnisstætt að Júlli Júll kynnti Los Banditos sem splunkunýja og efnilega pilta, en það voru þeir Rabbi Erlends, Daddi Júll, Gestur Guðna og Ómar Hauks. Ég man líka að Júlli kynnti bandið með svolítið sérstökum áherslum. "Los band i dos" heyrðist mér hann segja og var þá alveg viss um að þýðingin á nafninu hlyti að vera "Laust band í dós" og fannst það frábært nafn og stórsniðugt.  

Einhverju síðar sá ég svo melódiku til sölu í Aðalbúðinni. Henni var stillt þar úti í glugga og það var engu líkara en hún væri svolítið að ögra mér. Það þoldi ég að sjálfsögðu ekki svo að eftir nokkra daga var ég búinn að suða nægilega mikið til þess að hún var komin í mínar hendur og orðin mín eign. Ég beið nú ekki boðanna og hóaði saman nokkrum brekkuguttum og stofnaði fyrstu hljómsveitina. Ég held reyndar að sú hljómsveit hafi aldrei náð að spila heilt lag frá upphafi til enda svo að ekki rynni allt út í sandinn einhvers staðar á leiðinni en þetta var samt upphafið af öllu því sem á eftir fylgdi. 

 Leó R.Ó   - Ágúst 2015 

Á myndinni eru þeir Gústi Dan með melodikuna góðu, Pétur Bjarna að syngja í alvöru míkrafón sem var tengdur við gamalt útvarpstæki og Óli Kára situr við settið sem samanstendur af nokkrum kökudunkum sem voru negldir niður í gamalt sófaborð, en sá sem þetta ritar hefur greinilega staðið upp frá fótstigna orgelinu til að taka myndina.

Á myndinni eru þeir Gústi Dan með melodikuna góðu, Pétur Bjarna að syngja í alvöru míkrafón sem var tengdur við gamalt útvarpstæki og Óli Kára situr við settið sem samanstendur af nokkrum kökudunkum sem voru negldir niður í gamalt sófaborð, en sá sem þetta ritar hefur greinilega staðið upp frá fótstigna orgelinu til að taka myndina.