Leó skrifar í maí 2015 - Smámolar

KJÖTBÚÐ SIGLUFJARÐAR AUGLÝSIR SIGLÓ-SÍLD.

Tvö fyrirtæki sem settu mikinn svip á bæinn á sínum tíma. Kjötbúðin var í húsnæðinu þar sem SIGLÓSPORT er núna, en húsið var byggt 1929 sérstaklega fyrir starsemi hennar ásamt KFS eða kaupfélagi Siglufjarðar sem var þar sem TORGIÐ er núna.

En þessi auglýsing hér til hliðar, birtist í febrúarblaði Einherja 1963, en rekstur Sigló-síldar gekk ekki alveg snurðulaust fyrir sig það ár frekar en svo mörg önnur. Framleiðslan mun hafa stöðvast um tíma m.a. vegna skort á umbúðum, þ.e. dósum. Markaðir voru einnig takmarkaðir og erfitt að komast inn á þá, en svo var það hráefnið sem stundum virtist vera of mikið af selt aftur, eða það var ekki nægilegt og þá stöðvaðist reksturinn vegna skorts á því. 

-------------------------------   

Breska bókaforlagið Orenda Books hefur fest kaup á þremur spennusögum Ragnars Jónassonar, Myrknætti, Rofi og Andköfum, en þar með hefur forlagið eignast útgáfurétt í Bretlandi á öllum fimm bókum í Siglufjarðarsyrpu Ragnars. Gengið var frá kaupunum á bókamessunni í Frankfurt í dag en sýningin hófst í gær.  

Ný bók er væntanleg frá Ragnari Jónassyni allra næstu daga. Sú mun heita Dimma, gerist að mestu á Vatnsleysuströnd á norðanverðu Reykjanesinu og auðvitað er það Ragnar Helgi Ólafsson frændi hans sem hannar kápuna 

-------------------- Myndir hér fyrir neðan

Skrifað í október 2015

Suðurgata 46 á Siglufirði, ég eignaðist það hús árið 2009. 

Þar hafði verið rekið þvottahús um, eða fyrir miðja síðustu öld þegar síldin veiddist á Grímseyjarsundinu og sjóararnir þurftu að láta skola úr plöggum sínum og helst í einum grænum fyrir næsta landleguball. 

Síðar eignaðist Síldarútvegsnefnd það og notaði sem bústað fyrir framkvæmdastjórann Jón Stefánsson, og þarna hóf Síldarminjasafnið starfsemi sína og opnaði sína fyrstu sýningu á afmælisdegi Siglufjarðar þ. 20. maí 1991. En til gamans má gjarnan geta þess að um sumarið það ár var fyrsta Síldarævintýrið haldið um verslunarmannahelgina. Óhætt er því að segja að húsið tengist sögu síldarbæjarins Siglufjarðar talsvert. Í dag er efri hæðin leigð út til ferðamanna, en Óli Brynjar og Helga Vestmann búa á neðri hæðinni.

Þegar farið var í endurbætur og endurskipulagningu húsnæðisins, þurfti þvottavélin því miður að víkja fyrir nýju eldhúsi í fyrrum þvottahúsi. Ég geymdi hana þó í u.þ.b. ár í von um að einhver tæki hana að sér til varðveislu og aðhlynningar, því mér þótti þetta of merkilegur gripur til að farga. Ég hafði samband við Iðnaðarsafnið á Akureyri, en enginn áhugi virtist þar á bæ fyrir græjunni. Þá sýndi einkasafnari gamalla muna málinu áhuga, en hætti síðan við. Hún endaði því að lokum og ég verð að segja því miður, í brotajárninu niður á gámasvæðinu á Siglufirði.  -------------------- Mynd hér fyrir neðan

Ragnar Helgi Ólafsson hlaut í gær Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2015 fyrir ljóðahandritið „Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum“. Hann hefur m.a. fengist við grafíska hönnun og síðustu ár hefur hann vakið athygli fyrir hönnun á bókarkápum og hlotið viðurkenningu fyrir.

Þessi iðnaðarþvottavél frá því skömmu fyrir miðja síðustu öld var rækilega boltuð niður í gólfið á neðri hæðinni að Suðurgötu 46 Siglufirði, en ég eignaðist það hús árið 2009.