Leó Ólason skrifar í október 2015 - Gálgafoss

Þessi vel geymda náttúruperla heitir Gálgafoss og er í Fjarðará (Hólsá), en upp frá stíflunni inni í Hólsdal er aðeins spölkorn upp að honum. Ekki veit ég hver er sagan á bak við nafngiftina og líklega eru heimildir um hana því miður löngu gleymdar. Ég hef lengi verið á leiðinni þarna inn eftir til að kíkja á hann og lét verða af því sumarið 2011. 

Neðsti hluti hans sem er í hvarfi, sést ekki fyrr en komið er alveg upp að honum og virðist hann því vera mun minni og lægri tilsýndar en hann er í raun og veru. Áætla að hann sé á hæð við Leyningsfossinn í Skógræktinni og hinn myndarlegasti í alla staði. Ekki spillti það fyrir að áin var óvenju vatnsmikil þegar ég átti leið þarna um, en stutt er í leysingarnar í vor nái hámarki ef einhver skyldi vilja freista þess að ná skemmtilegum myndum þarna upp frá. 

Ein meðfylgjandi mynda er tekin af austurbakkanum og önnur af þeim vestari, en svo ólík eru sjónarhornin að ég hélt fyrst að ég hefði ruglast eitthvað í ríminu og þetta væri alls ekki sami fossinn. Sú þriðja sýnir okkur staðsetninguna.