Leó Skrifar í október 2015 - Hverfisgata 12

 Fyrir miðja síðustu öld bjuggu að Hverfisgötu 12, þau Hólmkell Jónasson verkamaður (1893-1955) og Jósefína Hólmfríður Björnsdóttir húsfrú (1894-1981). 

Á þeim tíma mun hafa verið til lítill söfnuður Aðventista á Siglufirði sem átti og rak Aðventistakirkjuna sem var númer 10 eða næsta hús og mínar heimildir herma að þau hafi haft einhvers konar umsjón með því síðustu árin sem einhver starfsemi var þar.

Ekki veit ég hverjir eigendur þess voru áður en þau Hólmkell og Jósefína bjuggu þar, en mig minnir að Björn Jónasson hinn eldri sem oft var kallaður “Keyrari” hafi annað hvort átt það í stuttan tíma á eftir þeim eða séð um sölu þess til Elíasar og Heiðu. Það er auðvitað ekki ósennilegt þar sem Björn og Hólmkell voru bræður. Húsið var síðan rifið annað hvort um svipað leyti og Aðventistakirkjan eða fáeinum árum síðar.

Í mínu ungdæmi bjuggu þau Elías Ísfjörð (1927-1988) og Aðalheiður Þorsteinsdóttir (1925-2000) ásamt börnum sínum Kristjáni, Þorsteini, Rafni, Gísla, Dagmar, Heiðari, Sólrúnu og Sigurbjörgu í húsinu og þar hefur eflaust verið þröngt á þingi í litlu húsi eins og svo víða á Siglufirði fyrir u.þ.b. mannsaldri síðan.

HORFT YFIR BREKKUNA

Fyrir nokkru síðan setti Hermína Lilliendahl hér inn stórskemmtilega mynd af Brekkunni (með stórum staf) tekna til norðurs. Ég mundi þá eftir annarri mynd af sama hverfi sem ég hef líklega tekið þegar ég hef verið 11 – 12 ára gamall, en sú er tekin sunnan frá. Ég var einmitt að rekast á hana, og þá er auðvitað ekki boðið upp á neitt annað en að bæta henni hérna inn í hið sigfirska mynda og sögusafn. Einhverjir gætu vel kannast við hana, en hún hefur áður birst á sksiglo.is. En sagt er að góð vísa sé aldrei of oft kveðin og við skulum því láta vaða.

Mér reiknast svo til að þessi mynd sé tekin snemma vors árið 1967, en það gæti þó vel verið árinu fyrr eða síðar. Ég fæ ekki betur séð en að sá sem er þarna lengra til vinstri sé Óli Kára og sá sem stendur fyrir framan hann sé Úlli Gull bróðir m.a. Erlu og Birnu Gull.

Eitt af því sem gæti vakið athygli þeirra sem ekki þekkja eða muna þennan tíma, er bræðslureykurinn sem liggur yfir bænum eins og hnausþykk þokuslæða. Hann var á sínum tíma talinn skýrt merki um að hjól atvinnulífsins snérust með eðlilegum hætti og að atvinnuástandið væri þar af leiðandi í góðu lagi, sem þýddi góða afkomu og velsæld bæjarbúa.

Annað sem í það minnsta gamlir Brekkubúar rækju eflaust augun í, eru húsin við Háveg og Hverfisgötu sem nú eru horfin fyrir margt löngu síðan og komin er tenging milli Hverfisgötu og Hávegs í formi ávalrar og mikið uppbyggðar risabeygju.