Tengt Siglufirði
Sunnubrakkinn var auðvitað bara verbúð eins og allir hinir brakkarnir á síldarárunum, nema það fór það orð af honum að hann væri talsvert rýmilegri og nútímalegri (á þeim tíma og mælikvarða). Ég man að ég kom þarna í heimsókn með Sóley ömmu minni að heimsækja tvær systur hennar sem þarna dvöldu eitt sumarið um eða rétt upp úr 1960, þær Joju og Lilju.
Þó nokkrum árum síðar fór ég á mitt fyrsta „fyllerí“ þarna á planinu eina dimma ágústnótt (líklega 1970) með þeim Óskari Elefsen og Ása Péturs. Við höfðum þá skotið saman í eina vodkaflösku og ágætur drengur (reyndar var hann Birgisson) verslaði hana fyrir okkur hjá Gosa (fékk úr henni í eitt glas fyrir greiðann) og ég er ekkert viss um að ég sjái nokkurn skapaðan hlut eftir þessu uppátæki því það var alveg drullugaman (afsakið orðbragðið).
Einhverjum mánuðum síðar man ég að einhverjir unglingar af brekkunni áttu það til að kíkja þarna inn, lúrðu þá gjarnan í kojunum á dimmum síðkvöldum, hlustuðu á regn haust og vetrarlægðanna dynja á þaki og gluggum.
Voru samt í notalegu skjóli fyrir öllum vondum veðrum og vefjandi hjásvæfu örmum. Stundum umbreyttist hin ljúfa og líðandi stund í draum án þess að gestirnir gættu sín á því og vöknuðu ekki fyrr en nýr dagur var risinn.
Þá þurfti að útskýra ýmislegt þegar heim var komið. Eða að minnsta kosti þurfti að reyna að afsaka næturlanga fjarveru með öllum tiltækum ráðum.
Í dag er „Hótel Sunna“ horfin, en minningarnar lifa eftir í hugum þeirra sem enn eru hérna megin við fljótið mikla. Hið glæsilega Sigló Hótel stendur nú þar sem síldin var söltuð áður og það halda eflaust áfram að verða til ný ævintýri á sama stað.
Nútíminn er bara svolítið öðruvísi...
Leó