Leó Ólason skrifar í september 2015, um snjó á heimaslóð

Hérna um árið var ég farinn að sakna heimabæjarins ansi mikið og ekki síst hinu undursamlega vetrarríki sem ég minntist með mikilli gleði og söknuði frá æskuárunum þegar hægt var að vera allan daginn úti í snjónum að leika sér. 

En ég skal fúslega viðurkenna að það eru ár og dagar síðan og dreg ég þá heldur úr ef eitthvað er. 

Einhverra hluta vegna var alltaf meiri snjór í minningunni en síðar varð. Hann kom líka fyrr á haustin og fór ekki aftur fyrr búið var að halda Skarðsmótið um Hvítasunnuna. Það var svo oft ekki fyrr en í júnímánuði sem var farið að huga að því að opna landleiðina um Siglufjarðarskarð, en um það var síðan ekki alltaf fært nema u.þ.b. 4-5 mánuði á ári, - stundum minna. En þess utan var póstbáturinn Drangur aðal samgöngutækið og þjónaði byggðarlaginu. 

Spáin var eins og áður sagði, slæm en hagstæð og eftir væntingum. Vonandi verður lægðin eitthvað á eftir áætlun að þessu sinni og ég næ "fyrir hornið" á veðrinu hugsaði ég. 

Eitthvað á þessa leið var þankagangur minn þegar ég kom upp úr Hvalfjarðargöngunum og horfði yfir Skipaskagann í áttina að Snæfellsnesinu. Jú, það voru vissulega farnir að myndast einhverjir skýjabólstrar þarna, en skyldu þeir vera farnir að ná eitthvað inn á Vesturlandið? 

Svo var ekið norður yfir heiðar...