Tengt Siglufirði
Hin nýja og breyta bæjarmynd bætti vissulega vel í alla möguleika hvað varðar þjónustu við þá sem sækja bæinn heim.
Árið 2010 var Síldarævintýrið mjög vel sótt rétt eins og aðrir atburðir á sumrinu og gátu velflestir sennilega gengið nokkuð sáttir frá borði. En m.a. með fjölgun veitingahúsa þýddi líklega fátt annað en að það þyrfti að halda dampi og setja markið hærra á næsta ári.
Ég, Biggi Inga og Maggi Guðbrands vorum munstraðir á Rauðkupallinn á föstudagskvöldið fyrir ævintýrið mikla. „Það væri fínt ef þið mynduð spila í hálftíma til klukkutíma, því það vantar aðeins upp á dagskrána“
sagði Finnur Yngvi og við töldum að það myndi alveg bjargast. En spilamennskan sú vatt upp á sig og það reyndist svo erfitt að hætta á áætluðum tíma að við héldum áfram fram á rauða nótt.
Líklega hefur uppátækið verið að gera sig því við vorum endurræstir á laugardagskvöldið. Sagan endurtók sig þá og talsvert bættist í gestafjöldann, því sundið milli Hannes Boy og Kaffi Rauðku var alveg kjaftfullt, það var mikið tjúttað á bryggjunni fyrir framan pallinn og stelpurnar á dælunum höfðu meira en nóg að gera.
Við gerðum hlé á spilamennskunni meðan brennan og flugeldasýningin var. Fyrir þá sem voru þarna á Bátabryggjunni var eins og sitja á besta stað í stúkusæti og a á allan ljósaganginn, því sjónarhornið verður varla mikið betra.
Svo var haldið áfram................ Leó