Leó Ólason skrifar um Hljómsveit Guðmundar

Eftir að hljómsveitin Frúm var öll, a.m.k. að nafninu til snemma árs 1973, hélt síðasta útgáfa hennar í rauninni áfram nokkurn tíma að öðru leiti en því að aldursforsetinn Gumi Ingólfs var stiginn niður af pallinum. 

Til að byrja með var spilað svona hér og þar og oft með talsverðum hléum, en aðallega samt á Eyjafjarðarsvæðinu. Ekki er hægt að segja að markaðssetning hafi verið okkar sterkasta hlið þrátt fyrir að Biggi Inga hafi í gegn um tíðina oft átt góða spretti á því sviði. 

Þegar kom að því að selja þá þjónustu sem við höfðum að bjóða, var engu líkara en að við værum staddir í einhverju deyfðartímabili. En að öðru leiti var þetta oftast nær bara gaman. 

Nafnið sem við notuðum á hið nýja band var “Hljómsveit Guðmundar,” eftir nýjum aldursforseta sem var Gumi Ragnars. Hann var reyndar sjálfur alfarið á móti hugmyndinni og fannst hún bæði fáránleg og fráleit, en fékk engu ráðið og varð á endanum að beygja sig undir vilja meirihlutans. 

Okkur hinum fannst þetta alveg óborganlega fyndið, en reyndar nokkuð langt frá því að vera mjög rokkleg nafngift. Miklu frekar hljómaði “Hljómsveit Guðmundar” pínulítið keimlíkt og “Hljómsveit Geirmundar” eða eins og þarna væru á ferðinni einhverjir karlhlunkar sem væru nokkuð örugglega komnir af allra léttasta skeiði. 

Þeir gætu jafnvel verið komnir vel yfir þrítugt eða eitthvað álíka skelfilegt, og hugsanlega hafa vaxið úr grasi með Óla Skans og harmónikutónum einhverra magabelgþenjara í eyrunum fyrir miðbik aldarinnar sem leið. Frá okkar sjónarhóli hafði nefnilega tónlistin fyrst orðið til með Bítlunum, Stones og slíkum töffurum, en fyrir þeirra tíma hafði að okkar mati nákvæmlega ekki neitt nema kannski eitthvað óskilgreint, óljóst og óaðlaðandi svarthol verið í rýminu sem tónlistin settist að með tilkomu poppsins. 

Við hlógum okkur máttlausa af tiltækinu með nafnómyndina en viti menn, við fengum sennilega bæði miklu fleira fólk svo og mun breiðari hóp á böllin fyrir vikið. Ég er samt ekki frá því að sumum ballgestum hafi eftir að hafa rýnt svolítið upp á hljómsveitarpallinn, fundist við “ekki líklegir til að standa undir nafni” eða þannig vegna ungs aldurs okkar. 

LP platan “There Goes Rhymin' Simon” með Paul Simon kom út í maí 1973 og hið ágæta lag Kodachrome var sennilega u.þ.b. tíunda hvert lag sem við spiluðum allt heila sumarið. 

Þar á meðal á 17. júní ballinu á Grenivík það sama ár sem var mjög skemmtilegt og Þórhallur var vanur að segja eftir síðasta tón allra hinna laganna: “Tökum Kodakchrome strákar!” 

En talandi um Grenivík þá má alveg geta þess að við fengum Ása Láka sem þar bjó til að vera dyravörð hjá okkur. En fyrir þá sem ekki vita þá ólst hann upp á Hávegi 10 á Siglufirði og er bróðir Ingimars Láka heitins bakara og Snorra Láka sem er faðir Snorra sem síðar varð Idol stjörna. 

Gummi Ragnars söng “Komdu niður kvað hún amma, komdu niður sögðu pabbi og mamma,” en það átti upphaflega bara að vera grín. En vopnin snérust eitthvað í höndunum á mönnum og það var alltaf verið að biðja um þennan afgamla slagara. Reyndar svo oft og svo lengi að grínið hafði fyrir löngu snúist upp í andhverfu sína. Ekki er ólíklegt að “Komdu niður” hafi verið næst mest spilaða lagið sumarið 1973.