Leó skrifar - Nokkrar perlur 17.04.2005 23:39:09 - 063

      Af sjálfum mér:  Get ég fengið óskalag?

Að markaðssetja íslenska tónlist er ekkert smá mál ef þú ert ekkert númer, ekkert andlit, ekkert fræg(ur) eða yfirleitt ekki nokkurn skapaður hlutur sem þjóðin eða lykilmenn hennar þekkja. Þetta fékk undirritaður að reyna þegar á “þrautagöngu” þeirri stóð sem fylgdi því að koma “Svona var á Sigló” (fyrri disknum) á markað. 

 Ég sem hélt að Siglfirðingar á Íslandi væru rétt eins og Gyðingar í Ameríku, alls staðar í lykilstöðum og tilbúnir að leggja réttum og að sjálfsögðu góðum málstað mikið og gott lið, kippa í spotta og smella fingrum með rosalegum stæl. Það verður að segja eins og stundum er sagt að heima er best, því að salan heima á Sigló sprengdi skalann fór margsinnis margfalt fram úr björtustu vonum. Reyndar er mér næst að halda að þetta sé söluhæsti titillinn á Sigló fyrr og síðar því í heildina munu svolítið á fjórða hundrað eintök hafa selst í mínum ágæta heimabæ. 

En sú varð ekki raunin á með aðra landshluta og þar með talið í Reykjavík og nágrenni. Þess vegna varð að fara af stað með einhverja markaðssetningu eins og það heitir á máli alvöru bissnesmanna. Það var lagst undir feld í tvo daga en risið upp á þriðja degi eins og fleiri hafa gert með allt útpælt og klárt. Nú skyldi í það fyrsta gera leikna útvarpsauglýsingu og hún birtast í þáttunum hjá Bjarna Degi, Gesti Einari, Magnúsi Einarssyni og fleirum lykilmönnum og athygli þeirra vakin, og bæði þeir og landsmenn allir dregnir inn í málið hvort sem þeim líkaði betur eða verr. Árangurinn var allavega sá að Bjarni Dagur var greinilega vel vaknaður á laugardagsmorgni og gerði málinu ágæt skil, enda ættaður frá Sigló og því af góðu fólki kominn. 

Frá Gesti  Einari heyrðist ekkert fyrst í stað en hann stjórnaði um þær mundir vinsælasta útvarpsþætti landsins og þess vegna eflaust undir mikilli pressu. 

Ég hringdi nú samt, en hann sagði að auglýsingin væri góð hvernig svo sem diskurinn væri. Hann lækkaði svo róminn sagði mér rétt eins og í trúnaði að hann fengi sent svo mikið af rusli að hann kæmist hreinlega ekki yfir það. Ekkert gerðist og ég hringdi aftur síðar í vikunni og spurði hann með kvörtunartón í röddinni hvort ekki væri komin röðin að mér. Hann sagðist myndu skoða málið og það hlýtur hann að hafa gert því hann spilaði “Gústa guðsmann” einu sinni og síðan ekki söguna meir. 

Viku síðar lagði hann heilan þátt af “Hvítum mávum” undir tónlist frá Akureyri og þá hringdi ég í þriðja sinn og spurði hvort hann væri að reyna að stuðla að einhverjum “hrepparíg” á milli hinna norðlensku bæja. Það væru fleiri byggðarlög fyrir norðan þar sem menn hefðu verið að spila og syngja með ágætum árangri og þetta væri mismunun og ekkert annað. Þá hrökk hann í gang og ég fékk að heyra eitt til þrjú lög á viku þar til hann fór því miður í langt frí. 

Leiðin lá nú til tónlistarstjóra rásar 2  Magnúsar Einarssonar (sem sá á þeim tíma um þáttinn “á línunni” á laugardögum eftir hádegi og hélt nokkuð greindarlega utan um hann.) Ég spurði hvort nýtt íslenskt efni væri ekki velkomið á rásina hans. Hann glotti aulalega út í annað og sagðist ekki vilja lofa  neinu enda er hann Seyðfirðingur í staðin fyrir hitt þú veist. Ég reyndi að tjá honum með mínum orðum, þær annarra manna skoðanir að þarna væri hvorki vont eða illa unnið efni á ferðinni. Hann glotti þá út í bæði og endurtók  það sem hann áður hafði sagt og hafði síðan engu við að bæta nema þá því að þetta Siglóstöff væri nú sennilega meira fyrir “gamla liðið” sem hlustaði á Rás eitt. 

Ég spurði hann þá hvers vegna hann teldi svo vera og hvort hann væri þá búinn að hlusta á eitthvað af þessu efni. Hann sagðist ekki hafa heyrt neitt af “þessu” en hann vissi þetta bara. Við það svar duttu mér allar lifandi og dauðar lýs úr höfði og vona ég að þær hafi sem flestar fundið sér nýja bústaði í Efstaleitinu. 

Þar sem ég hef verið í gegn um árin nokkuð heittrúaður RÚV maður ruglaðist ég þarna agnarlítið í minni blindu trú en eins og sagt er þá læknar tíminn öll sár, ég tók rásina aftur í sátt og þetta gekk svo sem ágætlega upp því diskurinn er reyndar uppseldur í dag.


17.04.2005 00:12:25 [leo2]

        Af árgangi 1955  - 062. Í tíma hjá Benna.

Eitt sinn sat bekkurinn hljóður í stofunni og hlustaði á Benna kennara tala til okkar frá kennaraborðinu um lífið og tilveruna. Hann talaði þarna föðurlega til okkar og það var einhver innilegur og vinalegur tónn í röddinni og það var alveg greinilegt að þessi maður vildi búa okkur sem best undir lífið og það sem framtíðin gæti borið í skauti sér. 

Skyndilega heyrðist þytur í lofti sem endaði í svolitlum smelli. Síðan rúllaði fimmeyringur ofan af kennaraborðinu og niður á gólf þar sem hann féll á hliðina og stöðvaðist. 

Svo fór að blæða mikið úr háu og gáfulegu enni kennarans og hann spurði ítrekað hver hefði gert þetta. 

Við litum öll í kring um okkur og síðan hvert á annað undrandi á svipinn. Ég varð allt í einu mjög lítill í mér og fann hvernig grátstafurinn kitlaði mig í kverkarnar því ég hafði hrokkið illa upp af hinu jákvæða tali kennarans og fann til með honum. 

Það kannaðist enginn við neitt og enn síður að nokkur hafi séð ódæðismanninn fremja glæpinn. 

Benni var alveg ótrúlega æðrulaus og rólegur yfir þessu öllu saman og fór niður á kennarastofu eftir plástri en kom fljótt aftur og kennslan hélt áfram. 

Löngu síðar kom upp umræða um málið meðal nokkurra nemenda og beindist sterkur grunur að einum strákanna sem var sá eini sem ekki vildi neita því staðfastlega að vera valdur að verknaðinum en það sannaði svo sem ekkert.


16.04.2005 00:12:39 [leo2]

Sögur úr hljómsveitarbransanum.           

 61. Stauraskórnir.

Við vildum leggjast í vesturvíking... Það var ákveðið að taka eina helgi á Vesturlandi og það fyrsta sem okkur datt í hug var Röstin á Hellissandi. Þar voru alltaf stór böll og pottþétt mæting. Ég hringdi þangað og fékk bókaðan einn laugardag í ágúst. Þá var næsta mál að bjarga föstudagskvöldinu á leiðinni því okkur þótti ekki hagkvæmt að leggja út í svo langt ferðalag fyrir aðeins eitt kvöld. 

Vogaland við Króksfjarðarnes klingdi í eyrunum á mér og ég hringdi í húsvörðinn. Hann sagði að við værum að sjálfsögðu velkomnir á staðinn og jú, ef við kæmum með svefnpoka með okkur gætum við bara gist í félagsheimilinu. Ég veit annars ekkert um það hvort nokkur nennir á ball hérna í sveitinni. Búnaðarráðunauturinn er nýbúinn að halda fund hérna með bændunum og það eru allir eitthvað svo niðurdregnir því útlitið er ekki gott, sérstaklega ekki í sauðfjárræktinni. Við fórum nú samt með okkar svefnpoka á staðinn þegar liðið var að umræddri helgi og gerðum það gott. Kofinn var alveg pakkaður og allir í myljandi stuði. 

Og menn voru svo sem ekkert að flýta sér heim eftir skrallið og það fannst okkur allt í góðu lagi og röltum fram í sal eftir síðasta lag og blönduðum geði við bændur og búalið. Smám saman tæmdist salurinn en tvær síflissandi ljóskur buðu í partý í næsta húsi. Þetta næsta hús reyndist vera símstöð staðarins og þær voru barnapíurnar á staðnum því ábúendurnir voru í einhverju öðru partýi einhvers staðar úti í sveit. Þar var þá þegar kominn fjöldi manns, því fleirum hafði verið boðið en okkur. 

Nóg var til að drekka og var þarna kneyfað svo ótæpilega að við kaupstaðarbörnin höfðum aldrei séð neitt þessu líkt. Það var engu líkara en brennsinn hefði ekki kostað neitt, svo vel var veitt. Það var ekki fyrr en daginn eftir að ég áttaði mig á að sennilega hafði enginn úr þessari sveit verslað neitt að ráði í ÁTVR mánuðum saman. Ég var orðinn eitthvað skrýtinn og fannst maginn í mér vera að reyna að snúa sér við svo ég gekk út fyrir og andaði að mér svölu og tæru sveitaloftinu þessa stjörnubjörtu ágústnótt. Þá sá ég skóna liggja þarna á grasinu við fætur mér og það var eins og þeir kölluðu á mig. “Komdu bara ef þú þorir aulinn þinn.” 

Ég horfði í kring um mig og sá að ég var aleinn þarna úti, allir aðrir voru uppteknir við að hvolfa í sig inni á símstöðinni. Þetta voru reyndar engir venjulegir skór, þetta voru stauraskór og staurinn var líka þarna. Hann kom upp úr jörðinni við húshliðina og einhvers staðar fyrir ofan þakið hvarf hann upp í nóttina. 

Þetta var allt of mikil freisting fyrir mig. Ég smeygði mér í skóna og klifraði að stað áleiðis til stjarnanna. Ég hefði sennilega átt að festa þá vel og vandlega því þegar ég var kominn aðeins upp fyrir þakið datt skórinn af öðrum fætinum og lenti á þakinu með tilheyrandi látum. 

Útihurðin opnaðist og önnur ljóskan hrópaði inn í húsið, “það er enginn að banka” og svo lokaðist hurðin aftur. Ég sá nú betur en áður ljósin í sveitinni og hugsaði með mér að bæirnir hérna væru sennilega fleiri en ég hafði haldið um daginn þegar við komum akandi. Hvernig á ég nú að komast aftur niður hugsaði ég. Eftir að hafa reynt að hoppa á öðrum fæti komst ég nokkra sentimetra niður en þá datt hinn skórinn líka og ég hreinlega vafði mig utan um staurinn í dauðans ofboði. Hann lenti líka á þakinu en nú kom enginn út til að gá hvort einhver væri þar á ferð. 

Ég reyndi að láta mig síga niður staurinn en það var eiginlega ekki hægt. Það lá einhvern vegin þannig í timbrinu og það flísaðist því svo mikið úr staurnum að það gat ekki talist vænlegur kostur fyrir mig að reyna að komast þá leiðina til jarðar. Samt tókst mér að slaka mér langleiðina niður að þakinu og stökkva síðan af staurnum og út á bárujárnið. 

Nú var ég laus við staurinn og staurinn var laus við mig og ég fór að plokka úr mér flísarnar sem ég hafði fengið á leiðinni niður. 

Þarna stóð ég á flötu þaki símstöðvarinnar og fór ég að hugsa um hver næsti leikur minn gæti verið í stöðunni. Mér datt fyrst í hug að stappa niður fótunum þangað einhver heyrði til mín og kæmi út og bjargaði mér niður með einhverjum hætti. 

Þá var ég náttúrulega búinn að gera mig að athlægi um alla framtíð og leggja félögum mínum til vopn sem myndu duga þeim vel til að gera mér lífið leitt og hafa í frammi einhver afbrigði af eineltistilburðum. Mér fannst þetta ekki góður kostur svo ég gekk um þakið og leitaði einhverrar undankomuleiðar. Ég reyndi að rýna til jarðar og sjá hversu hátt væri þangað niður og hvort ekki væri hægt að stökkva einhvers staðar fram af brúninni og lenda óbrotinn. 

En myrkrið var svo svart að ég sá alls ekki neitt og nú var meira að segja búið að slökkva útiljósið. Það var orðið alveg skítkalt og ég settist niður í skjóli við skorsteininn sem rauk svolítið úr og með því að þrýsta bakinu upp að honum fann ég væga hitabylgju fara um mig og leið örlítið skár. Ég lokaði augunum stundarkorn að mér fannst en þegar ég opnaði þau aftur var austurhimininn farinn að verða örlítið ljósrauður fyrir ofan fjallstoppana en ég skalf eins og hrísla. 

Útlínur landslagsins í kring voru komnar að mestu leiti í ljós en dökkar hlíðar fjallanna og svartur sjórinn runnu saman í eitt. Ég stóð upp og reyndi að berja mér til hita að sjómannasið bæði vel og lengi en gekk síðan fram á þakbrúnina og gægðist niður. Stóreflis olíutankur var þarna alveg við vegginn en það hefur verið í mesta lagi metri niður á hann af brúninni og síðan annar metri af honum og niður á jörð. Ég flýtti mér niður og gekk hröðum skrefum að félagsheimilinu. Þar stóð útihurðin opin í hálfa gátt og inni hraut öll hljómsveitin hástöfum nema ég. Ég smeygði mér hljóðlega ofan í svefnpokann minn sem beið mín og var sofnaður á mettíma.

 

15.04.2005 00:15:24 [leo2]

Vefmolar - 60. Ég er farinn heim.

Já ég er farinn heim því ég þoli þetta ekki lengur. Hef ekki komið norður síðan í byrjun nóvember og það er einfaldlega of langur tími. 

Því er ég búinn að sitja við og skrifa blogg nokkra daga fram í tímann sem ætti að detta inn á meðan ég er fjarri tölvunni. 

Eitt á dag að jafnaði, þannig hefur það verið undanfarið og þannig mun það vonandi verða allt þangað til höfuðið tæmist. En nú þarf ég auk annarra hluta líka að muna eftir að taka hjartatöflurnar með. (Fokk og sjitt.)

Þetta Reykjavíkurpakk.

http://www.svfr.is  er leiðin inn á vef Stangveiðifélags Reykjavíkur. Þar er líka umræðusvæði þar sem Héðinsfjarðargöng hafa nýverið orðið tilefni skoðanaskipta hinna reykvísku veiðimanna.

http://www.svfr.is/forum/forum_posts.asp?TID=133&PN=0&TPN=3 er slóðin beinustu leið á þetta vafasama umbrotasvæði og vil ég hvetja sem flesta til að kynna sér umræðuna.

 Sýnishorn:

Ætlar núverandi samgönguráðherra að hoppa um á fram- og afturfótum sínum og  afhenda banana þegar ,,sturluðu" göngin verða opnuð?  (Eiríkur St. Eiríksson.)

Þarna er verið að henda peningum, mjög miklum peningum, í svæði sem á enga framtíð fyrir sér. (Steinn.)

Ég skil Siglfirðinga mæta vel. Þeir hafa staðið sig vel í að koma atkvæðalausu og atorkulausu fólki á þing og vill að það misnoti aðstöðu sína á landsvísu. (Eiríkur St. Eiríksson.)

Einhver myndi segja að þarna væru vondir menn og vitstola að kasta skít. Ekki laust við að maður komist í vont skap við að lesa þetta en til að bjarga a.m.k. hluta dagsins þá látum við eftirfarandi fylgja sem ég fann á veraldarvefnum. (Leó R.)

Árið 2010 í ríki gagnagrunnanna

SÍMASTÚLKA: Pizza plúúúús!

VIÐSKIPTAVINUR: Halló, ég ætla að panta pizzu hjá ykkur...

SÍMASTÚLKA: Sjálfsagt, ég þarf að fá kennitöluna þína.

VIÐSKIPTAVINUR: Kennitöluna, já hún er 180869-4859.

SÍMASTÚLKA: Já, Jón Jónsson, heimilisfang Fálkagata 17, símanúmer 580-9957.

Þú vinnur í herbergi nr. 23 hjá Landsvirkjun og GSM númerið þitt er 879-4138. Úr hvaða síma hringirðu?

VIÐSKIPTAVINUR: Ha, ég? Heimasímanum. Hvar náðirðu í allar þessar upplýsingar?

SÍMASTÚLKA: Við erum tengd við netið.

VIÐSKIPTAVINUR: (andvarpar) Já, ég ætla að fá tvær lúxuspizzur með kjötáleggi...

SÍMASTÚLKA: Ég held þú ættir að sleppa því, Jón.

VIÐSKIPTAVINUR: Hvað meinarðu?

SÍMASTÚLKA: Jón, í sjúkraskýrslunni þinni stendur að þú hafir mjög háan blóðþrýsting og allof hátt kólesteról. Líftryggingafélagið þitt leyfir þér ekki að borða svona óhollan mat.

VIÐSKIPTAVINUR: Hverju mælirðu þá með?

SÍMASTÚLKA: Þú ættir að prófa fituskertu sojabaunapizzuna okkar með jógúrtsósunni. Ég er viss um að þér þykir hún góð.

VIÐSKIPTAVINUR: Hvernig dettur þér í hug að ég mundi vilja eitthvað svoleiðis?

SÍMASTÚLKA: Nú, þú tókst "Gæðauppskriftir með sojabaunum" á bókasafninu í síðustu viku. Þess vegna stakk ég upp á þessu.

VIÐSKIPTAVINUR: Ókei, ókei. Sendu mér tvær í fjölskyldustærð. Hvað kostar þetta svo?

SÍMASTÚLKA: Það ætti að nægja þér, konunni og börnunum fjórum. Kostnaðurinn er 4.589 krónur.

VIÐSKIPTAVINUR: Ég ætlað að borga með kreditkortinu. Númerið er...

SÍMASTÚLKA: (grípur fram í) Því miður, en þú verður að borga út í hönd. Þú ert kominn yfir á kortinu.

VIÐSKIPTAVINUR: Ég hleyp þá bara í næsta hraðbanka með debetkortið og tek út pening áður en bílstjórinn ykkur kemur.

SÍMASTÚLKA: Það gengur ekki heldur. Þú er búinn með yfirdráttinn á tékkareikningnum.

VIÐSKIPTAVINUR: Jæja, jæja, sendu bara pizzurnar og ég hef peningana tilbúna. Hvað tekur það langan tíma?

SÍMASTÚLKA: Við erum aðeins í seinni kantinum, gæti verið um 45 mínútur. Ef þér liggur á gætirðu sótt þær um leið og þú nærð í peningana, en það er auðvitað frekar erfitt að flytja pizzur á mótorhjóli...

VIÐSKIPTAVINUR: Hvernig veistu að ég er á mótorhjóli?

SÍMASTÚLKA: Það stendur hérna að bíllinn hafi verið gerður upptækur vegna vangreiðslna á bílaláninu. En Hondan er fullgreidd svo ég gerði ráð fyrir að þú mundir koma á henni.

VIÐSKIPTAVINUR: @#%/$@&?#!

SÍMASTÚLKA: Gættu þín á orðalaginu, Jón. Þú er þegar búinn að fá á þig einn dóm fyrir að blóta í návist lögreglumanns, í júlí 2006.

VIÐSKIPTAVINUR: (orðlaus)

SÍMASTÚLKA: Var það eitthvað fleira?

VIÐSKIPTAVINUR: Nei, ekkert. Jú annars, hvað með þessa tvo lítra af kók sem

fylgja frítt með pizzunum frá ykkur?

SÍMASTÚLKA: Því miður, Jón, en í smáa letrinu í auglýsingunni frá okkur stendur skýrum stöfum að við sendum ekki ókeypis gosdrykki til sykursjúkra.

14.04.2005 12:20:53 [leo2]

Fundið á veraldarvefnum.      

059. Á eyðieyju einni fjarri allri mannabyggð (auðvitað) strandaði skip en á

skipinu var fólk samankomið af ólíkum þjóðernum. En það var ekki fyrr en

mánuði síðar að fólkið fannst og hafði þá ýmislegt á daga þess drifið.

Strandaglóparnir voru:

2 ítalskir menn og ein ítölsk kona.

2 franskir menn og ein frönsk kona.

2 þýskir menn og ein þýsk kona.

2 grískir menn og ein grísk kona.

2 breskir menn og ein bresk kona.

2 búlgarskir menn og ein búlgörsk kona.

2 japanskir menn og ein japönsk kona.

2 kínverskir menn og ein kínversk kona.

2 bandarískir menn og ein bandarísk kona.

2 írskir menn og ein írsk kona.

2 íslenskir karlmenn og 1 íslensk kona.

Eftirfarandi atburðir gerðust á tímabilinu:

Annar Ítalinn drap hinn vegna ítölsku konunnar.

Frönsku mennirnir og franska konan lifa í sátt og samlyndi.

Þjóðverjarnir hafa komið sér upp mjög stífu vikulegu fyrirkomulagi um að heimsækja þýsku konuna.

Grikkirnir sofa hvor hjá öðrum á meðan gríska konan þrífur og eldar handa þeim.

Bretarnir bíða enn eftir að einhver kynni þá fyrir ensku konunni.

Búlgararnir horfðu lengi á sjóndeildarhringinn og svo á búlgörsku konuna og stungu sér síðan til sunds.

Japanirnir reyndu að senda símbréf til Tokyo og bíða enn leiðbeininga.

Kínverjarnir hafa komið upp apóteki, vínbúð, veitingastað og þvottahúsi.

Kínverska konan er líka barnshafandi af völdum "þeirra" því starfsmenn vantar.

Bandaríkjamennirnir eru á barmi taugaáfalls því bandaríska konan kvartar í sífellu yfir líkamsvexti sínum, yfir eðli konunnar, hvernig hún er fær um að gera hvaðeina sem þeir geta, nauðsyn þess að lifa fullnægjandi lífi, jafnri skiptingu á heimilisverkum, hvernig sandurinn og pálmatrén valda því að hún virðist feitari, hvernig síðasti kærastinn virti skoðanir hennar og kom betur fram við hana en þeir tveir, hve samband hennar við móður sína hefði getað orðið betra með degi hverjum og að lokum hve skattarnir eru lágir og að það skuli aldrei rigna.

Írarnir tveir hafa skipt eyjunni í norður og suður og sett upp landamæri. Þeir muna ekki hvort þeir hafa lifað einhverju kynlífi því það er allt í móðu eftir fyrstu lítrana af kókosviskíinu á hverjum degi, en þeir eru sáttir því Bretarnir eru ekki að njóta sín.

Íslendingarnir eru orðnir stórskuldugir við verslanir og veitingahús Kínverjanna og brugghús Íranna.

Íslenska konan er búin að sofa hjá ítölsku, frönsku og amerísku karlmönnunum á meðan íslensku karlmennirnir hafa verið önnum kafnir við að reikna út að þeir séu fallegastir, sterkastir, gáfaðastir og fjölmennastir miðað við höfðatölu.


13.04.2005 00:33:31 [leo2]

Af árgangi 1955. - 058. Uppistand hjá Guðnýju Páls.

 Ég man ekki hvort við vorum tíu eða ellefu ára þegar Guðný Páls kenndi okkur einn vetur. Þetta var að ég held frumraun hennar sem kennslukona og hún hefði svo sem getað verið örlítið heppnari ef hann Maggi Páls bróðir hennar hefði til dæmis ekki verið í bekknum. Hann gat ekki tekið stóru systur nema rétt hæfilega alvarlega en annars vorum við á heildina litið held ég alveg þokkalega stilltur hópur og Maggi var í eðli sínu og að upplagi fyrirmyndarpiltur í alla staði. Ég veit ekki hvort Guðný vildi sýna okkur fram á hver valdið hafði eða hvort við vorum í þetta skipti eitthvað óþekkari en venjulega þegar bekkurinn gekk inn í skólahúsið og upp stigann og inn að stofunni.

”Standið í röð.”

Við mynduðum röðina og bjuggumst til inngöngu en Guðný var ekki alveg tilbúin fyrir svo einfalda lausn því hún vildi greinilega kenna okkur svolitla lexíu. 

Röðin var ekki nógu bein, við höfðum ekki nógu hljótt eða vorum ekki nógu stillt. Allir aðrir voru farnir inn í stofur sínar og við heyrðum “kennsluhljóðin” þaðan. Við vorum einu krakkarnir á göngunum. Svolítið gagghljóð heyrðist í Magga litla bróðir Guðnýjar þar sem hann var greinilega að grínast eitthvað með ástandið. Guðni Sveins tók einhverjar bækur upp úr skólatöskunni og þóttist vera að læra fyrir næsta dag svona til að nýta tímann og einhverjar stelpur flissuðu. 

Guðný gekk valdsmannsleg meðfram röðinni og skipaði Guðna að taka saman sitt dót og standa beinn á sínum stað í röðinni. Þarna stóðum við svo þar til hringt var út úr tímanum og sagðist hún þá vona að við hefðum látið þetta okkur að kenningu verða og yrðum vonandi nægilega þæg í framtíðinni til að komast í tíma.

En auðvitað lærðum við ekkert af þessu, þetta var bara skemmtileg tilbreyting.

12.04.2005 15:03:54 [leo2]

Vefmolar     

057. “Aldrei fór ég suður” hátíðin var haldin öðru sinni á Ísafirði núna um páskana. Aðal hvatamenn hennar voru og eru enn feðgarnir Guðmundur Magnús Kristjánsson (Muggi) og Örn Elías Guðmundsson (Mugison,) en fyrir þá sem ekki vita þá er Júlíus Hraunberg bróðir Mugga.

Það er mikið haft samband við mig mail-leiðis og jafnvel símleiðis og spurt hver þessi “Larry” sé í raun og veru en það get ég því miður ekki sagt því ef ég geri það þá gæti ég allt eins átt von á málssókn sem ég gæti hugsanlega tapað og þá þarf ég ef til vill að greiða honum einhverjar bætur en það vil ég ekki. En sá sem með ótrúlegum uppátækjum sínum hefur orðið fyrirmyndin að “Larry” býr á svæði 104 og bíður eftir hentugu tækifæri til að gogga í veskið mitt sem er reyndar ekkert of feitt fyrir um þessar mundir.

Íslensk hjálpsemi.

(Fannst einhvers staðar í skúmaskotum veraldarvefsins)

Tveir íslendingar eru úti í sveit að aka og sjá bíl fastan úti í kanti.

Þeir ákveða að hjálpa og fara út úr bílnum. Þetta eru útlendingar og kunna Íslendingarnir lítið í ensku en tekst að spyrja: Dú jú vant help?

Útlendingarnir svara:No, no this is ok.

Íslendingarnir vilja endilega hjálpa og gefa sig ekki og segja: Jes ví help jú

Útlendingarnir: No, no this is ok.

Íslendingarnir: Jes jes nó vesen, ví help jú.

Þeir ná í reipi í bílinn sinn til að freista þess að draga bílinn, í versta falli að ýta honum upp á vegkantinn aftur.

Útlendingarnir: What are you gonna do?

Íslendingarnir: Först ví reip jú, ðen ví ít jú. 

Skilríki takk.

Þegar ég var þrettán ára fór ég með Guðna Sveins og Óttari Bjarna á unglingaball á Króknum. Þar spilaði hljómsveitin Afturgöngur og var aðgangur ekki ætlaður fimmtán ára og eldri. Þarna var dyravörður sem fannst ég frekar “fullorðinslegur” til að vera þarna inni og hann sveif á mig og sagði.

“Skilríki takk.”

Ég sýndi honum nýja nafnskírteinið mitt og mér sýndist hann verða fyrir svolitlum vonbrigðum. 

Um svipað leyti fór móðir mín á dansleik í Miðgarði og þar var annar dyravörður sem var í svolitlum vafa.

“Ert þú ekki full lítil til að vera hér?”

Hún hvæsti á þennan drengstaula þarna við innganginn sem hlaut að vera að stríða henni og hún kunni hreint ekki að meta svona lélega brandara.

“Skilríki takk.” Hann var þá ekkert að reyna að vera fyndinn en varð kannski svolítið kindarlegur þegar hann skoðaði þau, enda úr sveit.

Verum dugleg að lesa og skoða “Lífið  á Sigló,” því það er ein sú besta kjölfesta og eitt það besta jarðsamband sem við burtfluttir höfum við upprunann og ræturnar. 

Örlygur fékk orðuna síðast og ég mæli með því að Steingrímur fái hana næst. Hringjum  á Bessastaði eða í beina símann til Ólafs (???-????) hvort sem er að nóttu eða degi og vekjum athygli á starfi Steingríms...

Þrátt fyrir að allmargir kíki á bloggið mitt, þá finnst mér ástæða til að minna á gestabókina. Því fleiri nöfn sem þar eru, því skemmtilegra er að lesa hana fyrir þá sem það gera. 

Þar er ekkert aldurstakmark og ekki eru sett nein skilyrði um trúarbrögð, litaraft, kynhneigð, stjórnmálaskoðanir og upprunavottorðs er ekki krafist.

Afmæli.

(Fékk þetta sent í pósti og veit ekki eftir hvern þetta er.)

 • Til hamingju með daginn, dettum íða,
 • dönsum einsog fífl og sleikjum osta.
 • Eftir hafa slökkt með þrúgum þorsta,
 • þá má míga lygilega víða.
 • Þín sveltandi í bílífshofum bíða,
 • barmafylltar meyjar knúðar losta.
 • Finnist þér það fráleitt hvað þær kosta,
 • fáðu þér heldur pylsu en að ríða.
 • Um síðir skríður heim úr gjálífsgjótum,
 • glaseygt hrak sem út er búið að henda.
 • Ekki fleiri freistingar að hnjótum,
 • loks er syndum ælt á fjórum fótum.
 • Festur svefn þá vit í klóskál lenda,
 • já, svona eiga afmæli að enda!
 • » Enginn sagt sína skoðun

 11.04.2005 23:52:44 [leo2]

Sögur úr hljómsveitarbransanum.           

 056. Kátt fólk & Miðaldamenn ´78.

Miðaldamenn ’78 módelið var ein skemmtilegasta hljómsveit sem ég hef verið í. Hún var skipuð Magga Guðbrands á bassa, Guma Ragnars á gítar, Bigga Inga á trommur, ég spilaði á orgel og svo var sönggellan Selma Hauks algjör megafrontur hjá okkur. 

Varla hafa margar hljómsveitir verið mikið duglegri að æfa því fyrstu mánuðina voru ekki margir dagarnir sem hópurinn kom ekki saman og tók fyrir eitthvert lag og hamaðist á því þar til árangurinn varð ásættanlegur og útkoman verð ég að segja bara nokkuð góð. 

Það var allt stokkað upp og gamla prógramminu einfaldlega hent og við spiluðum nokkurn veginn bara það sem var nýtt og ferskt. Aldursmunur var nokkur í bandinu og fannst okkur það svolítið fyndið að elsti meðlimurinn var 100% eldri en sá yngsti sem var Selma. Hún var aðeins 15 ára og við fengum einhvers konar undanþágu fyrir hana hjá lögreglu og barnaverndarnefnd því við vildum vera alveg vissir um að hún yrði nú ekki sótt inn á dansleik af yfirvöldum og dregin út með skömm og háðung. 

Maggi var nýorðinn þrítugur og þótti okkur hinum það vera mjög hár aldur. Biggi var þegar þetta gerðist 22, ég 23 og Gummi 25 ára kappsfullir ungir menn sem hrærðust í poppinu og þótti gaman að vera til. Um þetta leyti var stofnaður frekar óformlegur og svolítið lausbeislaður félagsskapur ungra manna og kvenna sem flest voru makalaus eða þannig og hann hlaut nafnið “Kátt fólk,” skammstafað K.F. Bjarni Box sem var á þessum tíma dyravörður á hótelinu númer eitt, snéri að sjálfsögðu út úr þessu og hélt því fram að skammstöfunin stæði fyrir “Káfandi fólk,” enda væru þessir krakkar öll á graðasta skeiði. Tilgangur félagsins var að félagarnir kæmu saman á góðum stundum og skemmtu sér hvenær sem tækifæri gæfist og hefðu gaman af því að vera til.

Það var snemma á árinu að það fór saman að þessi nýja útgáfa Miðaldamanna hélt sinn fyrsta dansleik og hópurinn fór í fyrsta skipti saman út á lífið. Á slaginu klukkan ellefu þegar ballið byrjaði voru krakkarnir mættir og voru mjög samstíga í öllu sem þau gerðu. Reyndar var eins og við hefðum ráðið til okkar hóp af amerískum klappstýrum sem vildu allt til þess vinna að koma sér í mjúkinn hjá stjörnunum í keppnisliðinu. 

Hljómsveitin sem í þessu tilfelli var keppnisliðið vildi líka gera allt mögulegt og ómögulegt til þess að valda ekki aðdáendunum vonbrigðum. Fyrsta hálftímann sátu allir og hlustuðu og fögnuðu síðan ákaft eftir hvert lag en við sem vorum uppi á sviðinu vorum svolítið á tauginni en gátum ekki verið annað en ánægð með þessar frábæru viðtökur. 

Svo sagði einhver: “Krakkar erum við ekki líka komin til að dansa?” Þá tæmdust sætin og gólfið fylltist og þannig var það þar til ballinu lauk. 

Um og upp úr miðnætti fjölgaði gestum ört og þegar Selma söng hástöfum “It´s so easy” og ”Stumblin´in” tók salurinn hástöfum undir og hreinlega yfirgnæfði hljómsveitina. 

Þessi afburða góði mórall sem fylgdi KF-ingunum var greinilega líka bráðsmitandi því þegar horft er til baka þá held ég að þessi einstaki dansleikur standi upp úr í minningunni og verði að teljast sá allra besti og skemmtilegasti sem ég man eftir. Í lokalaginu sem var “Blue bayou” myndaðist svo einhver samkennd í salnum sem engin orð fá lýst. 

Dansgólfið var fullt af fólki sem söng með og lyfti höndunum til lofts og þær bylgjuðust til eftir hljómfallinu. 

Það kom að því að Viðar Ottesen sá ágæti hótelhaldari gat ekki beðið lengur með að kveikja hin skjannabjörtu loftljós í salnum og það var eins og orðið hefði mikið spennufall. 

Fólk gekk hægt til dyra og það voru jákvæðir straumar í loftinu. Þessi samsetning hljómsveitarinnar kom næst saman í Samkomuhúsi Seltjarnarness snemma árs 1986 á Síldarballi og núna síðast á haustfagnaði Siglfirðingafélagsins á Players.

 11.04.2005 01:02:21 [leo2]

 Sögur af Larry.   055. Larry eignast hjákonu.

Einn vinnufélagi minn heitir... Köllum hann bara Larry eftir týpunni í tölvuleiknum því þeir eru um margt líkir en sagan er annars alveg dagsönn. Eins og áður hefur komið fram er Larry giftur talnaglöggri tælenskri konu sem verðleggur hlutina í samræmi við áætlað verðmæti þeirra en nú var hún fjarri góðu gamni því hún hafði farið heim til Tælands í síðasta mánuði en þangað fer hún yfirleitt á hverju ári. 

Það vissu það allir aðrir en Larry að hún átti allt sem hugur einnar konu girntist þar ytra en hún kom nú alltaf á klakann aftur, sennilega til að sækja meira fé í vasa fórnarlambsins, þ.e. eiginmannsins..

Larry hafði átt stóra fríhelgi í þetta skipti. Hann var að vinna á fimmtudegi og átti svo að mæta aftur á sunnudegi klukkan þrjú. Ég átti líka að mæta á sunnudegi klukkan þrjú og taka vaktina með honum.

Drykkjufélagarnir Jón trallari, Freyr Fr. og King Kong voru allir búnir að hringja nokkrum sinnum á laugardeginum og voru að greinilega að leita að honum og trallarinn hringdi síðast nokkru eftir miðnætti á laugardegi og virtist hafa áhyggjur af því að það var eins og jörðin hefði gleypt Larry með húð og hári. Allavega þeim hárum sem eftir voru.

“Það er búið að vera slökkt á símanum hjá honum í allan dag” sagði hann og mér heyrðist örla á áhyggjutón í röddinni. Mér var eiginlega alveg sama þá en nú var kominn nýr dagur og Larry átti að vera mættur í vinnu.

Ég reyndi að hringja í hann en það var alltaf slökkt á símanum. Hann var bara með gemsa en gat sjaldan notað hann því hann átti aldrei neina inneign. Heimanúmerinu hafði verið lokað fyrir meira en ári síðan því að sú talnaglögga hafði talað svo mikið heim til Tælands vitandi það að hún þyrfti ekki að borga reikninginn. 

Ef hann vildi hafa aðgang að heimasíma þá væri það hans mál að halda honum opnum en ekki hennar því hún kom ekki alla leið til Íslands til þess að borga reikninga. 

En Larry fékk risavaxna símareikninga þrjá mánuði í röð og samanlagt reyndust þeir ofvaxnir fjárhagslegri getu hans. 

Hann kaus því að hringja allt sem hann þurfti í fyrirtækinu sem við rákum saman, þannig að í raun borgaði ég helminginn af símareikningnum hans.

Tíminn leið og ég reyndi að hringja aftur en það var ennþá slökkt á símanum. Ég afgreiddi þá sem inn komu og velti því fyrir mér hvort rétt væri að láta lögreglu vita af hvarfi hans. Trallarinn hringdi og var búinn að fara heim til hans en enginn hafði svarað þegar hann knúði dyra og bíllinn var ekki í stæðinu. Þetta var farið að líta illa út og ég hugsaði með mér að gefa  málinu ekki mikið meiri séns. Ef ég næði ekki sambandi fyrir kl. sjö þá væri bara næsta mál að fá lögguna í málið. Klukkan varð sjö og ég hringdi í síðasta sinn og viti menn.

Rám og veikluleg rödd sem ég var ekki viss um hvort væri ókunnug eða ekki svaraði.

Mér var í senn létt og líka bæði hissa og reiður.

“Larry?”

“Já.”

“Ert þetta þú?”

“Já.”

Röddin var ekki eins og hún átti að sér að vera.

“Hvar í skrambanum hefur þú verið? Það er sunnudagur og þú áttir að mæta í dag.”

“Er kominn sunnudagur? Hvað er klukkan?”

“Klukkan er sjö. Hvað er eiginlega í gangi?”

“Ég get ekki sagt það núna, ég kem bara.”

Það heyrðist lítill smellur og samtalinu var greinilega lokið af hans hálfu. Eftir tæpan klukkutíma hringdi ég aftur en það var slökkt á símanum en akkúrat á sama andartaki birtist hann í dyrunum og kjagaði inn á WC með greiðuna á lofti.

Það var opið í hálfa gátt og ég sá að hann vandaði sig sem aldrei fyrr við að raða þessum fáu en löngu hárum frá hægri vanganum og yfir höfuðið þar sem enginn hárvöxtur var.

Að loknu verki kom hann fram og virtist hinn ánægðasti með lífið og tilveruna.

Ég var hins vegar ekki eins ánægður og undirbjó hina réttmætu nöldur og skammarræðu sem mér fannst hann vera búinn að vinna sér inn.

“Hvar eiginlega hefur þú haldið þig?”

“Sko, þetta er nú eiginlega svolítil saga” Hann setti sig í stellingar sögumannsins og ég neita því ekki að það var eins og eyrun á mér stækkuðu svolítið. Það kom enginn inn næstu fimmtán mínúturnar svo Larry gat sagt frá ævintýri helgarinnar í einni lotu.

“Sko,” byrjaði hann aftur.

“Ég ætlaði að fá mér svona eitt eða tvö glös á föstudaginn en alls ekki meira því ég ætlaði að mála stofuna í gær.”

“Eitt eða tvö glös? Hefur það einhvern tíma gerst hjá þér?”

Mér fannst þetta lítill skammtur þegar Larry var annars vegar.

“Jæja þá, þetta varð aðeins meira og ég skrapp aðeins niður í bæ og fór heim með svolítið nesti.”

“Nesti?” Ég skildi ekki.

“Já, ég hitti hana í bænum.”

“Hana?” Ég varð eitt spurningarmerki.

“Já, hún var í bekk með mér þegar við vorum fjórtán og þá var ég alveg voðalega skotinn í henni. Hún var rosalega flott þá.” Hann tók sér hlé til að anda.

“Hvað svo?” Ég vildi fá að vita meira.

“Við hættum bæði í skóla eftir skylduna.”

“Nei, hvað gerðist svo á föstudagskvöldið?”

Hann var greinilega að láta hugann reika til skólaáranna.

“Já, já. Við spjölluðum svolítið saman og svo tókum við leigubíl heim og ég fékk það sem mig langaði í fyrir þrjátíu árum”

“Hún hefur fallið fyrir bláu jakkafötunum” sagði ég svolítið kvikindislega.

“Hún féll náttúrulega fyrir mér.” Hann athugaði hvort greiðslan væri ekki í góðu lagi.

“Var hún jafn fersk og forðum?” Ég sýndi honum örlítið meiri kvikindisskap.

“Nei sko, það var ekki það. Þetta er bara búin að vera frábær helgi.”

“Þetta var eftir föstudagskvöldið, nú er sunnudagur” sagði ég.

“Já við sofnuðum fyrst og vöknuðum aftur á laugardagsmorgunn og fórum í nokkurs konar hlutverkaleik og hringdum svo á leigubíl og fengum eina á uppsprengdu.”

“Hlutverkaleik?” Ég hefði ekki viljað sjá það.

“Þetta er hvort sem er okkar prívat mál, en við kláruðum flöskuna fyrir hádegi í gær og það hefur síðan gengið svona til skiptis á með leikfimi og brennsa.

Við slökktum á símanum en kveiktum bara til að panta pizzu annað slagið og þú hringdir akkúrat þegar ég ætlaði að fara að gera það.”

“Panta pizzu, meina ég.”

Hinn liðlega fertugi Larry horfði á mig og glotti flírulega með draumkennt blik í augunum.

“Ég hef ekki upplifað neitt þessu líkt síðan ég var úti í Tælandi en þetta var einhvern veginn heimilislegra.”

“Já, þetta gerðist náttúrulega inn á þínu heimili og uppi í þínu svo til ónotaða hjónarúmi.”

“Já það getur enginn rekið mig þaðan meðan frúin er úti.”

“Rekið þig þaðan?”

“Já, ég var búinn að segja þér að ég hef þurft að sofa á sófanum í ein tvö ár.”

Larry andvarpaði mæðulega.

Ég kannaðist við þá sögu en hélt alltaf að þetta ætti bara við þær nætur þegar hann hegðaði sér alveg einstaklega illa, en þetta var þá satt.

“Það er miklu skemmtilegra að eiga kerlingu sem vill drekka með manni.”

Larrý starði niður á gólfið eins og í leiðslu en í þann mund opnuðust dyrnar og nokkrir viðskiptavinir komu inn.

Á slaginu hálf tólf kom kona inn sem ég hafði aldrei séð áður.

“Ertu ekki búinn núna?” Hún beindi orðum sínum til Larrys og ég áttaði mig á að þarna væri ævintýraprinsessan komin.

Larry horfði á mig biðjandi augnaráði.

“Ég skal ganga frá” sagði ég.

Ég virti hana fyrir mér. Hún var nokkuð digur og hefur eflaust mátt muna sinn fífil fegri. Samt geislaði af henni þess konar lífsgleði sem sagði mér að líklega fyndist henni gaman að skemmta sér og helst ekki lítið í senn.

Hún notaði reyndar allt of mikinn andlitsfarða svo ekki sé talað um varalitinn sem var bæði allt of rauður og náði vel út fyrir varirnar.

“Komdu” sagði hún og greip í handlegginn á Larry og næstum því dró hann út.

Daginn eftir kom hann nokkurn veginn á réttum tíma og dagurinn gekk eðlilega fyrir sig.

Á slaginu klukkan hálf tólf kom hún aftur og sótti Larry sem var greinilega ekki eins áfjáður að fara með henni og áður.

Svona gekk það fyrir sig í nokkrar vikur eða allt þar til frúarinnar var von frá Tælandi.

“Hvernig ganga fangbrögðin við prinsessuna?”

Mér fannst þetta vera búinn að vera svolítið geggjaður tími hjá þeim gamla.

“Ég nota alveg nýtt trix” sagði hann. “Allavega svona annað slagið.”

“Ég helli okkur bara bæði blindfull strax og svo sofna ég. Þannig tekst mér að fresta aðgerðum til morguns, en þá er ég svo þunnur að það þýðir ekki neitt.”

Larry leit á mig sigri hrósandi og ég fékk á tilfinninguna að honum þætti sem hann hefði séð við henni á alveg snilldarlegan hátt.

Aumingja Larry greyið hugsaði ég.

09.04.2005 11:01:09 [leo2]

 Bernskubrek og baráttan í fjallinu. -  054. Svívirðilegt kosningasvindl á Siglufirði.

Hér á árum áður ríkti oft hálfgert styrjaldarástand í fjallinu fyrir ofan bæinn. Þetta voru átök á milli hverfa og oftast áttu í útistöðum þeir sem áttu heima sitt hvorum megin við kirkjugarðinn, og tilheyrðu því ýmist norður eða suðurhluta bæjarins. Þó kom það ósjaldan fyrir að norðurbæingar komu lengra að til að berja á okkur “brekkuguttunum.” 

“Villimennirnir” bjuggu í villimannahverfinu sem var umhverfis en þó aðallega fyrir norðan fótboltavöllinn. Þeir voru skeinuhættir og að okkar mati alveg stórhættulegir, og blönduðu sér oft í slaginn í fjallinu. Það var um þetta leiti að við Steini Þóroddar urðum miklir mátar og eitt sinn á löngu spjalli datt okkur í hug það snjallræði að sameina “brekkuguttana” og ”suðurfráguttana” sem bjuggu í syðsta hluta bæjarins. Þetta yrði líklega illvígur her vaskra drengja sem gæti hreinlega vaðið yfir allt og alla, en fyrst þurfti að finna gott nafn á hið sameinaða afl. 

Það var góður og jákvæður mórall fyrir þessari hugmynd og margir strákar í báðum hverfum vildu efna til mikils ófriðarbáls hið allra fyrsta. Við settumst yfir málið og skrifuðum niður tíu eða tuttugu hugmyndir á blað sem við rifum úr gamalli stílabók. Mér fannst “Húnar” best og Steini var sammála því. Við urðum því ásáttir um að reka harðan áróður fyrir því að það yrði fyrir valinu. Við báðum síðan alla strákanna sem urðu á vegi okkar næstu daga að setja kross við eitthvert nafnið á blaðinu en helst Húna því það væri langbest og flestir kysu það. Það voru líka einhverjir sem áttu ekki upp á pallborðið hjá okkur og þeim var að sjálfsögðu ekki boðið að kjósa. 

Svo fór einhver auli að reka áróður fyrir öðru nafni á blaðinu, “Skæruliðarnir” og það kom alveg heill hópur til okkar sem vildi breyta atkvæði sínu og sögðu að það væri miklu betra nafn. Við tókum þessu vel í byrjun og krotuðum eitthvað á blaðið. Þegar við töldum að allir þeir sem máli skiptu væru búnir að kjósa var farið að telja krossana á blaðinu. 

Kom þá í ljós að þegar breyttu atkvæðin voru talin með var ljóst að “Skæruliðarnir” höfðu unnið kosningaslaginn með glæsibrag. Steini var svolítið niðurdreginn en bjó sig undir að sætta sig við orðinn hlut.

Ég spurði hann þá hvort hann héldi að það mætti greiða atkvæði og koma svo aftur og kjósa upp á nýtt.

Steini sagðist geta spurt pabba sinn, því hann væri mjög vanur svona málum.

Daginn eftir varð málið allt flóknara. Steini fór að tala um atkvæðaseðla, kjörkassa og að þetta hefði meira verið svona skoðanakönnun sem við hefðum kannski ekki framkvæmt alveg rétt. Svo minntist hann eitthvað á áróður á kjörstað hvað sem það nú annars þýðir.

Þetta var bara komið út í eitthvað óskiljanlegt rugl sem enginn skildi og ég beið ekki eftir að Steini lyki máli sínu.

“Eigum við ekki bara að segja að Húnar hafi unnið?”

“Segjum bara að Húnar hafi unnið.” Steini var sammála.

Þetta var einföld og góð lausn og allflestir þeir sem nú eru komnir eru til vits og ára muna líklega eftir þessum ógurlega flokki.

En kannast einhver við umræðuna um þetta asnalega Skæruliðanafn?

Líklega ekki.  

05.04.2005 01:24:47 [leo2]

 Af árgangi 1955.- 050. Friggi Guggu og Bítlarnir.

Um svipað leiti og Ásmundur söng klassískt einsöngslag á sviði reyndi Friggi Guggu fyrir sér í rokkinu. Þannig var að Óttar, Viddi og Þórhallur höfðu stofnað hljómsveitina Hendrix og af því að það var til fótstigið orgel heima hjá mér hélt einhver að ég kynni eitthvað að spila. 

Þetta var reyndar algjör misskilningur en ég var nú samt skráður í bandið og bjargaði mér með því að fara í píanótímana hans Óttars hjá Gerhard Schmitd. Gerhard var mjög sáttur við þessa breytingu því Óttar hafði ekki sýnt píanónáminu mikla alúð og er þá vægt til orða tekið. Ég var fjórði meðlimurinn og Guðni Sveins varð sá fimmti. 

Hann var búinn að læra nokkur grip alveg strax og farinn að spila með á undan mér og ég fann því til svolítillar minnimáttarkenndar. Hann kunni E-dúr, A-dúr, D-dúr G-dúr og meira að segja fis-moll líka sem er þvergrip. 

Það var stundum rætt um hvort ekki ætti að bæta söngvara í hópinn því þó að Þórhallur væri reyndar alveg þokkalegur söngvari þá vildi hann einhverra hluta vegna syngja sem allra minnst. Við fréttum að Friggi Guggu kynni allan textann af “The ballad of John and Yoko” utanbókar og hlýtur það að teljast nokkuð afrek að læra alla þá romsu því ég sá hann einu sinni í textabókinni hans Stjána Elíasar og hann var næstum tvær þéttskrifaðar síður. Hann var líka alveg til í að koma á æfingu og sótti það reyndar fast frá því að fyrst var minnst á hugmyndina. 

Svo kom að því að Friggi mætti á æfingu og það var talið í. Hljóðfærin byrjuðu nokkurn veginn í takt og söngvarinn hóf upp raust sína, en eftir nokkrar ljóðlínur sá ég út undan mér að einhverjar merkjasendingar gengu á milli strákanna en ég einblíndi þögull á kramda fiskiflugu á gólfdúknum rétt undir glugganum. Þegar lagið var búið spurði Friggi hvort þetta hefði ekki verið allt í lagi. Jú, jú sögðu allir í kór en svarið var svolítið dauflegt og það vantaði einhvern veginn allan sannfæringarkraft í svarið. Einhver þurfti nú að drífa sig heim því klukkan gekk og æfingin sem var sú stysta hingað til leystist bara upp.

Leitin að söngvara hélt áfram en án árangurs. Ég reyndi að syngja “Gvend á eyrinni” en þegar fyrsta vísan var hálfnuð hættu allir að spila og skemmtu sér konunglega á minn kostnað. Fleiri voru prófaðir með misgóðum árangri, en það fjölgaði aldrei meira í skólahljómsveitinni Hendrix.

 03.04.2005 23:25:07 [leo2]

Vefmolar - 049. Fjölmiðlafólk er orðin valdastétt í landinu, það hefur þjóðin fengið að sjá og heyra á afar sannfærandi hátt undanfarið. Við getum talað um löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald upp á gamla mátann, en nú hefur fjölmiðlavald bæst við. Þegar fjölmiðlafrumvarpið var í umræðunni á síðasta ári var allt undirlagt hreinlega alls staðar og þjóðin var orðin svolítið þreytt í lokin og vildi fara að fá einhvað annað til að láta mata sig á. Nú endurtók sagan sig þegar nýr fréttastjóri var ráðinn hjá RÚV. Markús og þeir sem á bak við hann standa og kippa í spottana hafa nú klúðrað sínum málum á löglegan hátt en í leiðinni vanmetið hina fjórðu valdastétt sem hreinlega leggur undir sig fjölmiðlana og hættir ekki fyrr en hún hefur sigur. 

Ef til vill er réttlætið að sigra í þessu tiltekna máli en eru ekki til alveg óendanlega mörg réttlætismál sambærileg að stærð sem falla í skuggann á meðan, því fréttafólkið er að sjálfsögðu ekki að velta sér endalaust upp úr óréttlætinu sem viðgengst úti í hinum stóra heimi eða jafnvel alveg undir nefinu á okkur hérna heima á klakanum meðan það er að gæta eigin hagsmuna. Það sannast með þessu að hver er sjálfum sér næstur því það er mannskepnunni miklu eðlislægara að verja sjálfa sig með kjafti og klóm fremur en aðra. Nú er líka kominn nefskattur á þann hluta þjóðarinnar sem hefur átján ára gamalt nef og þaðan af eldra. Hefur annars einhvern tíma ríkt eitthvert réttlæti í kring um rekstur RÚV hvort sem er?

200 ár liðin frá fæðingu H. C. Andersen. 

Í síðasta þætti hjá Gísla Marteini kom litla stúlkan með eldspýturnar trítlandi inn á gólf hjá honum. Mér finnst það hreinn glannaskapur að hleypa henni þarna inn miðað við hversu andrúmsloftið er búið að vera eldfimt í útvarpshúsinu þessa dagana

Þrír lettar voru handteknir á Stokkseyri um hádegisbilið í gær en þeir voru þar að störfum án atvinnuleyfis. Við íslendingar getum gert eitthvað í slíkum málum í rúmlega eitt ár til viðbótar, en í maí á næsta ári hellist sennilega ógæfan yfir okkur því þá lýkur aðlögunartímanum gegn slíku. Við framseldum hluta af sjálfstæðinu þegar við gerðumst aðilar að evrópska efnahagssvæðinu sem hefur nú stækkað verulega til austurs og þaðan koma þeir sem eru sáttir við þrjátíuþúsund kall á mánuði “svart” og munu í framtíðinni keppa við okkur þessa innfæddu um brauðið. 

Þeir eru fjölmargir sem vilja ganga alla leið og gerast fullkomnir aðilar að bandalagi evrópskra þjóða til þess að danska skinkan, Kreutzfeldz-Jacobs nautakjötið, spænsku ryksugutogararnir og pólski skipaiðnaðurinn eigi enn greiðari leið inn á íslenskan markað. Skítt með það hvort íslenskur sjávarútvegur lifir árásina af en hann aflar nú u.þ.b. 60% gjaldeyristekna landsmanna.

Ég hef áhyggjur af því að ég fái ritstíflu og setjist niður fyrir framan skjáinn og geti ekkert annað gert en að stara á hann. Engin hugljómun og engin merki um að fortíðarþráin kreisti fram einhverjar minningar sem verða síðan að litlum táknum ætluð til aflestrar fyrir læsa íslendinga. Ég óttast jafnvel að einhvern tíma í framtíðinni eigi ég eftir að sitja góða stund og standa síðan upp aftur og horfa hissa í kring um mig og geti þá alls ekki munað hvers vegna ég settist við þessa tölvu. Það er því sennilega best að sitja sem lengst og sem oftast á meðan það sem er milli eyrnanna virkar svona nokkurn vegin.

Þessi fannst á netinu og fær að fljóta með og vonandi fer hún ekki fyrir brjóstið á neinum og rétt er að geta þess að ég veit ekki hver þessi Emil er sem ort er um.    

 •      Undarlegum upp á sið,
 •      Emil tekið getur.
 •      Hann blandar korki í kjötfarsið,
 •      svo kúkurinn fljóti betur.

Ég fór á siglo.is í dag eins og svo oft áður og viti menn. Það hafði eitthvað verið að gerast þann 30. mars sl. Reglur um tekjumörk elli og örorkulífeyrisþega vegna lækkunar fasteignagjalda árið 2005 (spennandi) en svo kom páskadagskráin skráð 22. mars (þetta er skrifað 3. apríl.) o.s.frv. en svo stóð,

“Umræðusvæðinu hefur verið lokað tímabundið.”

Nú spyr ég eins og hver annar auli...

Af hverju var umræðusvæðinu lokað?

Þeir sem það vita, segið okkur hinum hvers vegna.

Og þið sem haldið að þið vitið hvers vegna, endilega segið frá grunsemdum ykkar.

Og að lokum kafli úr vandamálahandbók bjórdrykkjumannsins sem víða er til.

Vandamál: Drykkjan veitir enga ánægju, bjórinn er óvenju bragðlaus, fölur og tær.

Orsök: Glasið er tómt.

Viðbrögð: Fáðu einhvern til að kaupa annan bjór handa þér.

Vandamál: Drykkjan veitir enga ánægju, bjórinn er óvenjulega bragðlaus, fremri hlutinn á þér er blautur.

Orsök: Munnurinn hefur ekki verið opinn meðan þú varst að drekka EÐA glasið hefur verið sett upp við rangan andlitshluta.

Viðbrögð: Kauptu annan bjór og æfðu þig fyrir framan spegil. Drekktu eins marga og þörf er á til að byggja upp fullkomna tækni.

Vandamál: Fætur blautir og kaldir

Orsök: Glasinu hefur verið haldið á hvolfi

Viðbrögð: Snúðu glasinu við þannig að "opni" endinn snúi upp.

Vandamál: Fætur blautir og heitir

Orsök: Slæm stjórn á þvagblöðrunni

Viðbrögð: Labbaðu upp að næsta hundi, og kvartaðu svo við eigandann að hundurinn sé illa upp alinn. Krefstu þess að fá bjór í skaðabætur

Vandamál: Gólfið er þokukennt

Orsök: Þú ert að horfa í gegnum botninn á tómu glasi

Viðbrögð: Fáðu einhvern til að kaupa annan bjór handa þér.

Vandamál: Gólfið sveiflast

Orsök: Of mikil ókyrrð í loftinu, sennilega vegna úrslita sem hafa orðið í einhverju spili á barnum

Viðbrögð: Settu kústskaft niður um hálsmálið á skyrtunni.

Vandamál: Gólfið hreyfist

Orsök: Það er verið að bera þig út

Viðbrögð: Reyndu að komast að því hvort að það sé verið að fara með þig á annan bar. Ef svo er ekki, öskraðu þá að það sé verið að ræna þér.

Vandamál: Veggurinn á móti þér er þakinn loftklæðningu og ljósaperum

Orsök: Þú hefur dottið aftur fyrir þig

Viðbrögð: Ef glasið þitt er fullt og enginn stendur á hendinni á þér, vertu þá bara ennþá á gólfinu og haltu áfram að drekka. Ef ekki, fáðu þá einhvern til að hjálpa þér að standa upp og haltu þér vel í barborðið.

Vandamál: Allt er orðið dimmt, munnurinn á þér er fullur af sígarettustubbum

Orsök: Þú hefur dottið fram fyrir þig.

Viðbrögð: Sjá fyrir ofan

Vandamál: Allt er orðið dimmt

Orsök: Það er búið að loka barnum

Viðbrögð: Hræðsla!!!!!

Vandamál: Þú vaknar og finnur að rúmið þitt er kalt, hart og blautt; þú sérð ekkert inni í svefnherberginu.

Orsök: Þú hefur sofnað í göturæsinu.

Viðbrögð: Kíktu á klukkuna til að gá hvort að það sé búið að opna barina. Ef ekki, reyndu þá að sofa aðeins lengur.

02.04.2005 21:53:57 [leo2]

Fundið á veraldarvefnum - 048. Gott er að vita að þessi algengi sjúkdómur hefur nafn.

Ég hef nýlega verið greindur með "A.R.Á.A.S. þ.e. Aldurstengd röskun á athyglis skorti og hér kemur stutt lýsing á sjúkdómseinkennum. Ég ætlaði að byrja daginn á að þvo bílinn og gekk í áttina að bílskúrnum en tók þá eftir póstinum sem lá þarna á borðinu. 

Ok ég ætla að þvo bílinn en fyrst ætla ég að fara í gegnum póstinn. Ég lagði bíllyklana á borðið, aðskildi ruslpóstinn frá og ætlaði að henda honum í ruslið en tók þá eftir að ruslakarfan var full. 

Ég lagði ógreiddu reikningana á borðið og fór út með ruslið en man þá eftir að ég fer rétt hjá póstkassanum svo ég ákveð að setja hina ógreiddu reikninga í póstkassann ásamt greiðslu áður en ég fer með ruslið en hvar er þá ávísanaheftið? 

Úps, bara ein ávísun eftir en aukaheftið er á skrifborðinu mínu, og þarna er kókið sem ég var að drekka. Ég ætla að leita að heftinu en fyrst ætla ég að forða kókinu frá tölvunni. Já eða kannski er best að setja kókið í ísskápinn til að halda því köldu. Ég held í áttina að eldhúsinu en tek þá eftir að blómin þarfnast vökvunar svo ég set kókið á borðið. 

Ó, þarna eru þá gleraugun mín, hef verið að leita að þeim í allan morgun, best að setja þau á vísan stað fyrst. Ég set vatn í stóra könnu og held í áttina að blómunum. Aaaaaaagh! Einhver hefur gleymt sjónvarps- fjarstýringunni í eldhúsinu. Ég veit að mér dytti aldrei í hug að leita að henni þar í kvöld þegar ég ætla að nota hana svo það er best að setja hana strax inn í stofu þar sem hún á að vera. 

Ég skvetti smá vatni í blómapottana og einnig á gólfið,  setti fjarstýringuna á púða í sófanum og geng til baka fram ganginn og reyni að átta mig á hvað það var sem ég ætlaði að fara að gera! Í lok dagsins: Bíllinn er óþveginn, reikningar ógreiddir, kókið er á eldhúsborðinu, blómin eru hálf vökvuð, ávísanaheftið er ennþá með einu blaði og mér er ómögulegt að átta mig á því hvar bíllyklarnir eru niður komnir! Þegar ég reyni að átta mig á hvernig stendur á því að ekkert hefur áorkast skil ég ekkert í því ég var á útopnuðu í allan dag. Ég geri mér grein fyrir að ástand mitt er alvarlegt og ég þarf á hjálp að halda EN FYRST ætla ég að gá hvort ég hafi fengið tölvupóst.........

01.04.2005 00:38:16 [leo2]

  Af árgangi 1955.-  047. Hann Þórður gamli þraukar enn.

 Eftir fullnaðarprófið upp úr tólf ára bekk var farið í ferðalag. Benni kennari og Hlöðver skólastjóri voru gæslumenn okkar og stóðu sig afburða vel í því hlutverki. Ég man að einhvers staðar var farið heim að sveitabæ og keypt mjólk handa okkur krökkunum á 25 lítra brúsa, sömu gerðar og stóðu gjarna á brúsapöllunum fljótlega eftir mjaltir hér áður fyrr. 

Niður við þjóðveginn biðu þeir þess að menn eins og “Bjössi á mjólkurbílnum” og önnur sambærileg kvennagull kæmu akandi og pikkuðu þá upp og blikkuðu í leiðinni misjafnlega vellyktandi heimasæturnar. Og ég sem hélt að mjólkin fengist aðeins keypt í mjólkurbúðum. Þetta var um vorið 1968 og hópurinn okkar fór alla leið suður til Reykjavíkur í nýju rútunni frá Sleitustöðum og það var komið víða við á leiðinni. Þetta var líka rosalega flott rúta því það var hægt að tala í míkrafón fram í hjá bílstjóranum og innanrútu- hátalararnir skiluðu síðan erindinu aftur í til farþeganna. 

Hlöðver lærði á þennan sérhannaða túrhestaútbúnað og nú vildi hann nota hann á okkur krakkana. Þegar við ókum um sveitir landsins fræddi hann okkur um hvað tengdi staðina og jafnvel heilu sveitirnar við söguna sem við áttum að hafa lært. Við sem vorum um það bil að verða fyrrverandi nemendur þessa ágæta fræðara hlustuðum og sáum nú hlutina í myndrænna ljósi en því sem við lásum áður upp úr svarthvítri bókinni. Það var á leiðinni til baka að Hlöðver vildi reyna að upphefja samkenndina í formi fjöldasöngs þar sem hann var í hlutverki forsöngvarans. 

Hann kenndi okkur viðlagið sem er ekki mjög flókið og svo byrjaði hann: “Hann Þórður gamli þraukar enn” og við sungum; “Loff malakoff.” Ég hafði fengið segulband í jólagjöf um jólin 1967, kassettuvæðingin var hafin og þetta var þess konar græja keypt hjá Kristni Guðmundssyni útvarpsvirkja. Hún var að sjálfsögðu tekin með í ferðina og ég náði að taka upp allan sönginn um hann Þórð. Þegar honum var lokið spólaði ég til baka og ýtti á play. Skólastjórinn sem nú var hættur að syngja heyrði sjálfan sig halda áfram í góðum fíling aftar í rútunni. Þetta fannst honum skrýtið og kom aftur í til að kanna hvaða galdrar væru þarna í gangi. Þegar hann áttaði sig á hvað hafði gerst, krafðist hann þess að upptökunni væri eytt þegar í stað og varð ég við kröfu hans. Oft síðan hef ég velt því fyrir mér hvernig ég gat verið svo vitlaus að eyða slíkum menningarverðmætum sem söngur Hlöðvers eldri teldist vera í dag. – Eitt af því sem maður sér eftir alla æfi.

31.03.2005 01:51:56 [leo2]

 Poppöld hefst á Siglufirði. -  046. Tímarnir breytast.

Gömul gildi voru á hröðu undanhaldi en ný áttu eftir að festa sig í sessi. Síldarævintýrið var á enda og aðeins átti eftir að gefa út hina formlegu tilkynningu um endalokin. Samt hafði ekkert boðað komu hins nýja í stað hins gamla og það ríkti þess vegna einskonar millibilsástand því hið liðna var liðið en hið nýja ekki alveg tekið við. 

Ennþá áttu sveitungar mínir og fleiri landsmenn eftir að fara í stórum hópum til Svíþjóðar og jafnvel víðar um lönd og álfur í atvinnuleit og kynnast hassinu og öðru sem var því miður komið til að vera. Það var eitt af því sem var undanfari þess sem síðan fylgdi á eftir af öðrum erlendum siðum og ósiðum. Það voru enn nokkur ár í að skuttogaravæðingin hæfist og lífskjörin í landinu áttu eftir að batna mikið. Hin íslenska þjóð átti líka eftir að ganga fram veginn uppréttari og beinni í baki en nokkru sinni áður.

Sömuleiðis átti rokkið eftir að þyngjast til muna.

Bítlarnir voru orðnir heimsfrægir og sömuleiðis Stones, Troggs, Animals, Bee gees, Herman Hermits, Kinks og Swinging blue jeans, eða hinar sveiflandi bláu gallabuxur svo og margir, margir fleiri.

Kinksararnir, bláu gallabuxurnar og Herman urðu svo “Íslandsvinir” þegar þeirra tími kom. Margir veltu fyrir sér hvort Bítlarnir héldu sínu, eða yrðu að láta undan síga fyrir þeim fjölmörgu sem sóttu það fast að festa ljós sitt á stjörnuhiminn hinnar engilsaxnesku poppverksmiðju sem nánast stjórnaði gjörvöllum tónlistarheiminum eftir að Elvis var búinn að koma frá sér bróðurhlutanum af sínu framlagi.

Ég horfði á tímana tvenna nudda saman nefjum sínum á þessum tímamótum sem voru mun meiri í sjálfum sér og miklu stórfenglegri en ég gerði mér grein fyrir á þessum tíma og hélt síðan af stað minn eigin veg, á mínum forsendum og með mínar eigin hugmyndir um framtíðina.

Úti í garðshorninu fyrir neðan húsið okkar var skúrinn sem geymdi marga undarlega hluti.

Þarna var að sjálfsögðu hrífan okkar ásamt orfinu og ljánum. Blakkir voru þarna líka, bæði tvöfaldar og þrefaldar sem gátu notast við að lyfta ógnarþungum hlutum. Þarna var líka reipi eitt mikið sem afi sagði mér að væri nú sennilega það eina sem eftir væri úr honum Snarfara sem ásamt Villa sem lönduðu nær alltaf í Gránu.  Þetta voru undarleg áhöld meðal annars til að kalfatta skip ásamt ýmsum verkfæri úr slippnum. Þau voru flest ætluð til bátasmíða og voru mörg hver öðruvísi en verkfæri til annarra nota. Afi hafði tekið pungapróf á sínum yngri árum og var að ég held titlaður stýrimaður á þessum fleytum.

Þarna fann ég minn bisnessmanninn í sjálfum mér og opnaði mína fyrstu verslun. Hún hét “London” og uppi á götu kom ég gjarnan fyrir skilti með ör sem vísaði niður fyrir húsið og sagði að nú væri búðin opin. Hurðin á skúrnum var þá opin í hálfa gátt og kolasleðinn var lagður á hliðina þannig að annar kjálkinn snéri upp og var notaður fyrir búðarborð.

Krakkarnir í hverfinu stálu appelsín, malt og kók glerjum frá mæðrum sínum og seldu í búðinni. Þá var skilaverð á kókglerinu þrjár krónur gamlar en ég tók það aðeins á tvær því allir skildu það nema þá mömmurnar í hverfinu að ég varð að fá eitthvað fyrir að labba með allt þetta gler niður í bæ og selja það í alvöru búð eða sjoppu. Þar keypti ég líka í staðin alls konar nammi sem síðan var selt með hæfilegri álagningu í búðinni hjá mér aftur til sömu krakkanna sem stálu þá enn fleiri glerjum frá mæðrum sínum. Svona gekk þetta fyrir sig en þó datt ég í stóra lukkupottinn eitt sinn þegar ég var staddur suður á öskuhaugunum og sá þegar bíll frá bakaríinu losaði eitthvað rusl. Um leið og bíllinn  var farinn fór ég að róta í því sem hent var og fann þá þann fjársjóð sem gerði mig auðugan allavega þann daginn. Það var verið að henda kókoskúlum sem voru að vísu svolítið harðar og höfðu áreiðanlega ekki verið búnar til alveg nýlega. Þá var ekki búið að finna upp orðtakið “síðasti söludagur” en þrátt fyrir allt mátti nú alveg tína þær saman þarna á öskuhaugum bæjarins og selja á svolítið niðursettu verði í skúrnum við Hverfisgötuna. Þarna voru mörg hundruð kókoskúlur og innkaupsverðið var ekkert svo hagnaðurinn var verulegur.

Svo kom poppáhuginn. Í skúrnum var einnig geymt gamla sófaborðið sem var hvorki mikið eða stórt að sjá. Eftir að hafa dregið það út úr öðru drasli var næsta mál að laumast inn í eldhús og nema á brott nokkra afgamla kökudúnka ömmu minnar sem ég taldi að hún væri hætt að nota svona að mestu eða þannig. Aðrir voru komnir í þeirra stað og þeir voru munstraðir á hliðunum með fallega lituð lok og að öllu leiti þó nokkuð skrautlegri en þeir gömlu einlitu. Ég kallaði til sérstaklega valda vini og nágranna sem voru flestir aðeins yngri en ég og þess vegna líklegri til að láta betur að stjórn. Ég sagði þeim að nú ætluðum við að stofna hljómsveit sem þeir samþykktu strax. Ég hafði numið á brott nokkra sex tommu nagla úr slippnum þar sem afi vann og ég notaði til að negla kökudunkana niður í gamla sófaborðið og þarna var komið trommusettið. Reyndar voru lokin af kökudunkunum líka negld ofan í kústsköft sem sagað hafði verið af því sérhver trommuleikari þurfti sína diska til að slá á þegar við átti.

Við reyndum líka að búa til gítara úr sex tommu spýtustúf, skáskorinn að framan með masonýtt vængjum og  nylonstrengjum en þeir virkuðu reyndar alls ekki eins og við ætluðumst til. Það var svo sem sama því það var lamið á kökudunkana og í þykjustunni spilað á hina þöglu gítara og gaulað eitthvað með. Við kunnum enga enska texta og bjuggum þá þess vegna til jafnóðum og við sungum þá. Ef við náðum í hefti af  “Nýjum dægurlagatextum” var annað uppi á teningnum. Sum heftin voru svo sem ekki alveg ný þegar þau bárust okkur í hendur svo við mundum ekki alltaf eftir lögunum. Þá sungum við textann alveg réttan en bjuggum til lagið meðan það var sungið.

Eftir þetta kom svo samkeppnin. Áhuginn fyrir hinni nýju tónlistarstefnu var alls staðar og um gjörvalla veröldina spruttu upp bítlahljómsveitir. Þetta gerðist einnig á Íslandi en þó einkum suður í Keflavík eins og þjóðin veit. Það var ekki bara að við tónlistaróvitarnir í litlu sjáfarþorpi norður við Grímseyjarsund tækjum fullan þátt í látunum. Fljótlega eftir að við vorum byrjaðir að bulla ensk og íslensk bítlalög saman og leika undir á gerfihljóðfæri, fóru fleiri að dæmi okkar og brátt urðu til einar þrjár svona hálfgert bítlaplathljómsveitir á brekkunni en ein alvöru. Það voru stærri og eldri strákar sem notuðu alvöru trommusett og alvöru gítara en að vísu mjög lélega magnara. Einn gítarleikarinn notaðist meira að segja við gamalt Telefunken útvarpstæki.

Þetta var upphafið af því sem síðar varð hjá svo mörgum.

Þarna sem ég stóð úti í garðinum á bak við æskuheimilið og rifjaði upp horfnar stundir fannst mér sem ég heyrði jafnvel daufa harmónikkutóna afa út um stofugluggann en hann spilaði oft á gömlu ítölsku takkaharmonikkuna sína sem hann hafði átt síðan rétt upp úr 1940. Sólin skein hátt á himilhvolfinu, það var miður júlí og mestur hiti mældist á Sauðanesi í dag. Álög Fortíðarinnar og hinna draumkenndu minninga slepptu á mér takinu og nútíðin varð aftur til allt í kring um mig.

 

30.03.2005 00:11:28 [leo2]

 Frá Gunnari Hrafni. - 045. Hluti úr ferðasögu ævintýramannsins Gunnars Hrafns.

Fyrir nokkru fékk ég þessa sendingu frá einum kunningja mínum sem er búinn að vera að skoða heiminn síðustu árin. Ég heyrði viðtal við hann á RÚV þar sem hann sagði frá því þegar hann ásamt fleirum lenti á milli Ísraela og Palestínumanna sem voru að skiptast á skotum. Ég hafði upp á netfanginu hans og spurði hann frétta. Þetta er svo pósturinn sem ég fékk til baka. Fróðleg lesning fyrir hinn íslenska meðaljón sem aldrei fer spönn frá rassi og finnst jafnvel London og Köben langt í burtu.

Gunnar skrifar: Sæll aftur!

Sorrí hvað ég var lengi að svara þér, hef bara lítið verið á netinu síðustu daga.

Ég flutti semsagt til Pekíng fyrir sirka tveimur og hálfu ári, þar sem konan hans pabba er að vinna í sendiráðinu hérna. Ég eignaðist síðan í fyrra litla systur, sem ég vil helst vera nálægt, svo ég  skráði mig í háskóla í Hong Kong og er að læra félagsvísindi þar í fjarnámi en bý samt í Pekíng. Ég fer bara tvisvar á ári til Hong Kong til að taka próf.

Það er ferkar sérstakt að vera í landi sem er svona langt frá öllu sem maður þekkir, en það venst ótrúlega fljótt. Trúlega er það líka vegna þess að maður getur sótt sér allt vestrænt (mat, tónlist, kvikmyndir og þannig) sem maður hefur áhuga á, það kostar bara meira. Raunar eru DVD myndir seldar hérna í topp gæðum á nokkuð góðu verði. Ég veit ekki hvernig lögin eru með að flytja svona inn til Íslands til leigu, en ég get sent ykkur myndir í einkasafnið ef það er eitthvað sem ykkur vantar. Úrvalið er samt líklega frekar svipað og á Íslandi.

Og, jú, það var ég sem þú heyrðir í í útvarpinu, ég gaf held ég fjögur viðtöl á meðan ég var þarna, var líklega eini Íslendingurinn á þessum slóðum á þessum tímapunkti. Í febrúar og mars í fyrra fór ég semsagt til Jerúsalem til að skoða mig um og sjá þetta mjög svo umtalaða svæði. Ég kynntist mikið að af mjög góðu fólki og átti margar sérstakar upplifanir. Ég fékk meira að segja að skoða mig um inni í þessu margumtalaða "compound" í Ramallah þar sem Arafat bjó og var lokaður inni af og til í gegn um árin. Þeir sýndu mér göt á veggjum eftir flugskeyti og byggingar sem höfðu verið sprengdar upp og höfðu margar sögur að segja af bardögum við þyrlur sem fljúga þarna alltaf yfir á næturlagi.

Ég fór nokkrum sinnum til Ramallah og í eitt skiptið þurfti ég að flýja því það var gerð sjálfsmorðsárás í Jerúsalem og Ísraelar sendu skriðdreka til að taka Ramallah. Öll umferð inn og út úr borginni var stöðvuð, svo við fórum ógurlegar krókaleiðir yfir rústir og hæðir til að komast aftur heim. Um tíma leit út fyrir að við þyrftum að gista í flóttamannabúðunum í Qalandia, en við leystum málið með því að keyra alla leið til Jeríkó og snúa þar inn á veg fyrir Ísraela og keyra þannig inn til Jerúsalem. Sem betur fer var bíllinn með Ísraelskar númeraplötur, því Palestínumenn mega ekki keyra þarna án sérstaks leyfis.

Í hvert sinn sem ég fór til Ramallah þurfti ég að taka þrjá leigubíla, því þeir keyra mann alltaf að einhverjum rústum eða hæðum, síðan þarf maður sjálfur að bjarga sér framhjá svona "checkpoint" og komast að næstu stoppustöð þar sem maður tekur annan taxa. Raunar voru þetta allt úrsérgengnir flutningabílar sem voru fylltir þannig að maður gat ekki hreyft sig og síðan keyrðir á fyrirfram ákveðna staði, meira eins og óformleg rúta eiginlega.

Ég heyrði nokkrum sinnum skothríð, en eina skiptið sem kúlunum var beint í mína átt var þegar ég var að fara niður dal til að komast á milli þessara "checkpoints" eða landamærastöðva Ísraelska hersins. Það voru ansi margir Palestínumenn að ganga þessa sömu leið með mér og allir hentu sér á bak við steina eða bíla eða eitthvað á meðan við vorum að átta okkur á hvaðan skothríðin kom. Það kom síðan í ljós að dalurinn er á milli tveggja hæða, og það voru hermenn á annarri hæðinni að skjóta á einhverja menn sem voru að klifra upp hina hæðina, en það var bara rétt yfir höfðinu á okkur. Sirka tíu sekúndum eftir að þetta byrjaði voru allir búnir að átta sig á að þessu var ekki beint að okkur, svo allir héldu bara áfram eins og ekkert hefði í skorist!

Þetta var auðvitað gríðarlega mikil upplifun, en að sama skapi sorglegt að sjá hvað þessar nágrannaþjóðir eru gríðarlega langt frá því að friðmælast hvor við aðra. Báðir aðilar standa algjörlega fastar á sinni skoðun og frekar erfitt að vera bjartsýnn um að þeir nái saman.

En allavega, ef það er eitthvað sérstakt sem þig langar að vita um Kína eða Miðausturlönd þá sendirðu mér bara línu 

 Með kveðju, - Gunnar Hrafn.

 29.03.2005 14:00:59 [leo2]

Sögur af Larry. -  044. Larry fer á klósettið.

Einn vinnufélagi minn heitir... Köllum hann bara Larry eftir týpunni í tölvuleiknum því þeir eru um margt líkir, en sagan er annars alveg dagsönn. Þó svo að það væri miðvikudagur þá mætti Larry alveg skelþunnur í vinnu en samt alveg óvenju snemma miðað við það ástand sem virtist vera á honum, eða ekki nema tuttugu mínútur yfir þrjú.

“Ég held ég sé að verða eitthvað lasinn” sagði hann og þurrkaði nokkrar vel þroskaðar svitaperlur af háu og gáfulegu enninu sem náði reyndar alla leið aftur á hnakka.

“Eru það ekki mest svona heimatilbúin veikindi?” Spurði ég.

Hann var nú ekki alveg á því að svo væri og slæmdi hendinni eftir rauðum risa-ópal úr hillunni sem hvarf alla vega hálfur til að byrja með ofan í uppglennt ginið á honum.

Ég var mjög sáttur við þessa síðustu aðgerð því áfengisskýið umhverfis hann virtist nú ekki eins þykkt og eldfimt og það var áður.

Eins og áður hefur komið fram er Larry giftur talnaglöggri tælenskri konu sem verðleggur hlutina í samræmi við áætlað verðmæti þeirra. Skoðanir hennar gilda bæði um stóra hluti og smáa og til dæmis þá stríddi ég honum stundum á því að hann kæmi með samanklemmdar rasskinnar í vinnuna því annað hvort tímdi hann ekki að skíta heima hjá sér eða honum væri beinlínis bannað það vegna þess hversu mikinn pappír hann notaði.

Í hvert sinn sem ég skaut þessu að honum sendi hann mér bara illt auga en neitaði reyndar aldrei neinu og ég var farinn að halda að ég hefði hitt naglann illa á höfuðið, án gríns.

Hann gekk nú inn á WC með Dagblaðið undir vinstri hendinni en klósettrúllu í þeirri hægri. Dyrnar lokuðust og næsta hálftímann afgreiddi ég nokkra viðskiptavini sem komu og fóru eins og gengur. Dyrnar opnuðust síðan og Larry kom út en var ennþá ógreiddur. Hann snaraðist inn í eldhúskrókinn og ég heyrði að hann var að sýsla við kaffikönnuna og eftir skamma stund heyrði ég bæði og fann að nýtt kaffi var á leiðinni. Larry fór hins vegar aftur inn á sama stað og stillti sér upp fyrir framan spegilinn. Hann raðaði fáum en löngum hárunum frá hægri vanganum og yfir höfuðið þar sem enginn hárvöxtur var og það var greinilegt að hann vandaði sig alveg óvenju mikið í dag. Að verki loknu stillti hann sér upp fyrir framan spegilinn og horfði svolitla stund hróðugur á sjálfan sig nýgreiddan í bláu jakkafötunum.

Hann gekk nú fram í eldhúsið, fékk sér alveg splunkunýtt kaffi, settist við eldhúsborðið og kveikti sér í sígarettu, opnaði síðan Dagblaðið og sökkti sér ofan í það. Ekki leið á löngu þar til hann stóð upp aftur og fór öðru sinni til að taka til í skottinu. Tíminn leið og ég hélt að hann hefði sofnað þarna inni þegar hurðinni var skyndilega hrundið upp og út kemur sveittur Larry. Hann sest aftur niður og bætir í kaffibollann, kveikir sér í annari sígarettu og lýkur við að lesa Dagblaðið. Þá stendur hann upp og kemur inn að afgreiðsluborði. “Jæja,” segir hann og grípur símann, hringir og gengur með hann aftur inn í eldhús. Hann fær sér aðeins meira kaffi meðan hann talar í símann og hálfa sígarettu en svo kemur hann.

“Jæja,” segir hann aftur, “eru ekki allir í góðum fíling?.”

“Eru þá allir mættir í vinnu?” Ég spurði og leit á úrið mitt á afar áberandi hátt. Klukkan var tíu mínútur gengin í sex. “Var ekki búið að tala um að þú mættir stundvíslega í dag og færir strax að afgreiða svo ég gæti klárað bókhaldið fyrir morgundaginn?”

Ég var fúll yfir slugsinu í honum.

“Á nú að banna mönnum að fara á klósettið? Ég skal segja þér að ég ætla ekki að biðja þig eða nokkurn annan um leyfi til slíkra hluta í mínu fyrirtæki.” Larry var líka fúll.

“Yes mr. Brown.”

Hann skildi þetta ekki og það var svo sem allt í lagi en um leið og hann fór að afgreiða gekk ég inn á skrifstofu og fór að raða reikningum, kassauppgjörum og þess háttar inn í möppu eftir dagsetningum. Um stund var allt eins og það átti að vera samkvæmt skipuritinu en svo breyttist það allt í einu. Ég sá að Larry gekk inn á klósett og svipaðist um, leit inn á hitt klósettið við hliðina og svipaðist líka um þar en kom síðan og stakk höfðinu inn til mín og spurði.

“Er ekki til meiri klósettpappír?”

“Þú fórst áðan með síðustu rúlluna inn með þér, ertu virkilega búinn að klára hana”

Ég leit á hann og mér fannst þetta eiginlega alveg ótrúlegt. Hann leit andartak á mig til baka og ég sá á blikinu í augum hans að síðasta rúllan var örugglega búin, og hann snerist á hæli og gekk hröðum skrefum í átt að WC en hrifsaði í leiðinni Dagblaðið af eldhúsborðinu. Ég andvarpaði mæðulega, stóð upp frá bókhaldinu og fór aftur að afgreiða.

Þess er rétt að geta þegar hér er komið sögu að það lá stuttur gangur inn frá eldhúskróknum og við enda hans voru tvö klósett. Fljótlega helgaði Larry sér annað þeirra, ef til vill var það vegna þess að þar var stærri spegill og það lá þess vegna beint við að hitt félli í minn hlut.

Það gekk maður inn gólfið og inn að afgreiðsluborðinu. Ég minntist þess ekki að hafa séð hann áður og spurði hvort ég gæti aðstoðað.

“Ert þú að vinna hjá honum Larry?” Ég sá að þeir áttu næstum alveg eins jakkaföt og hann var líka þunnhærður og með þykk gleraugu.

“Ég er meira svona að vinna fyrir hann Larry og reyndar okkur báða í senn” svaraði ég og hélt áfram.

“Eru þessi föt saumuð í Tælandi og eruð þið Larry eitthvað skyldir?”

“Þau eru það og ég fékk þau líka á fínu verði”  svaraði hann hróðugur, “en við Larry erum ekkert skyldir, við eigum bara sömu áhugamál.”

“Ertu meira fyrir tælenskar konur en íslenskar.” Ég lét spurninguna bara vaða og gat svo sem búist við hverju sem var.

“Eingöngu tælenskar takk, en er hann ekki við.”

“Jú, jú, hann er bara að hleypa brúnum”

 “Ha, hvað segirðu, hleypa brúnum? Hvað er það.”

“Bara grín” svaraði ég og hugsaði mér að þennan mann gæti ég alveg notað til að gera smá sprell.

“Hann Larry vinur þinn er inn á skrifstofunni sinni og þú finnur hann þar.”

Ég var orðinn svolítið stimamjúkur og talaði eins og úlfurinn sem var búinn að borða krítina í sögunni um grísina þrjá.

“Hvar er hún?” Augun á þeim nýja virtust ógurlega stór séð öfugt í gegn um gleraugun hans.

“Þú gengur í gegn um eldhúsið og þá er skrifstofan hans við hliðina á klósettinu, en þú verður að berja mjög fast því að hann situr örugglega við skrifborðið sitt hinum megin í húsinu og hann heyrir mjög illa”

Sá nýji þakkaði fyrir sig og gekk inn í eldhús. Jú þarna var hálfopin hurð og það leyndi sér ekki að þar inni var postulínsherbergið og lokuðu dyrnar við hliðina hlaut þá að vera leiðin til Larrys sem var jú nokkuð rétt.

Ég gægðist að sjálfsögðu fyrir eldhúshornið og þó að ég vissi hvað var í aðsigi hrökk ég samt illa við þegar sá nýi bankaði. Ég get ímyndað mér að Larry hafi fengið stutt hjartastopp því fyrst gerðist ekkert, en svo opnuðust dyrnar með hvelli og fyrir innan þær stóð miðaldra maður með úfið hár, ógyrtur og með hnefann á lofti. Heimsækjandanum varð greinilega hverft við líka þegar hann sá Larry sem að öllu jöfnu skrúfaði upp virðuleikann í sjálfum sér, birtast nú með þessum hætti. Ég dró mig í hlé og fannst þetta reyndar alveg óendanlega skemmtileg uppákoma. Það sauð niðri í mér hláturinn og mér fannst Larry þarna vera fullhegnt fyrir hvernig hann byrjaði daginn. Ég heyrði síðan einhver orðaskil á bak við vegginn en svo komu þeir fram, báðir eldrauðir í framan og sá nýi sendi mér ljótt augnaráð um leið og hann gekk hratt til dyra.

Larry gekk að mér og jós yfir mig skömmunum og ég sá að neðri vör hans titraði.

“Hann spurði bara hvar þú værir og ég sagði honum það” sagði ég og reyndi að vera eins rólegur og ég gat um leið og ég glotti meinfýsislega.

Larry hélt talsverða tölu yfir mér til viðbótar því sem hann áður hafði sagt, en það hefur varla verið merkilegt því annað hvort man ég ekkert hvað hann sagði eða það sem líklegra er, að ég hef ekkert verið að hlusta á hann.

Svo fór hann aftur inn.........sennilega til að þrífa sig.

28.03.2005 13:46:12 [leo2]

 Sögur úr hljómsveitarbransanum. -

Á ónefndum stað á norðurlandi ráku hjón nokkur krá af miklum myndarskap. Að vísu þótti framkoma þeirra gagnvart gestunum ekki alltaf vera til fyrirmyndar. Við sem stóðum uppi á pallinum og sungum og spiluðum sáum oft undarlega hluti gerast niðri á gólfinu eins og gengur. Yfirleitt var þá um að ræða gesti staðarins sem höfðu farið örlítið yfir strikið en á þessum stað voru það eigendurnir sem áttu það til að skandalísera. 

Hann var reyndar mikill og góður kokkur og í eldhúsinu stóðust honum fáir snúning. Hún hafði haft lítilsháttar afskipti af pólitík hin síðari ár en þótti ekki eiga framtíðina fyrir sér á þeim vettvangi sökum fljótfærni og skaphita. Hún átti það líka til að lenda í orðasennu við gestina og ef þeir höfðu ekki alveg réttar skoðanir á bæjarmálunum gat hitnað í kolunum. Einkum þó eftir miðnætti eða síðar, en þá voru þau hjónin yfirleitt búin að koma við á barnum oftar en einu sinni eða tvisvar. Það var nú í góðu lagi,  því þetta var jú þeirra eigin bar, eða þannig. 

Eitt sinn þegar frúin hafði lent í þrasi við yfirlýstan pólitískan andstæðing inni á staðnum, sem endaði með því að hann gekk snúðugt til dyra en hún hraðaði sér að barnum því kverkar hennar höfðu þornað allnokkuð við umræðuna. 

Hún var því ekki í allt of góðu skapi þar sem hún stóð þarna við barborðið næst manni sem bað um meira kaffi, en virtist ekki vera á þeim buxunum á fá sér söngvatn eða dansolíu af sterkari og dýrari gerðinni. “Situr þú bara hérna og þambar kaffi og ekkert sterkara en það?” Hún hvessti sig nokkuð en maðurinn horfði hissa á þessa konu og sagði það rétt vera. 

“Við gerum ekki út á fólk eins og þig, ég held að þú ættir að finna þér annan stað til að húka á.” 

Maðurinn varð ennþá meira hissa og mislíkaði greinilega framkoma konunnar sem hann áttaði sig nú á að hefði eitthvað með reksturinn á staðnum að gera. Hann stóð upp og gekk að næsta borði þar sem hann ræddi lítillega við þá sem þar sátu og síðan við einhverja fleiri á borðunum í kring. Það voru síðan ekki mikið færri en fjórir tugir karla og kvenna sem yfirgáfu staðinn og gengu í halarófu til dyra. Þetta var meira en helmingur gestanna svo það var vel rúmt um þá sem eftir sátu.

...Það borgar sig ekki að koma illa fram við rútubílstjóra.

 26.03.2005 22:46:59 [leo2]

 Íslensk mannanöfn. -  042. Og afkvæmið heitir í höfuðið á...

Foreldrar, vinir og vandamenn eru himinlifandi, það er að segja svona í flestum tilfellum því nú þarf að gefa þarf barninu nafn, en þá vandast nú málið. Móðirin vill láta barnið heita t.d. Guðmund, en faðirinn Jón. Ömmur og afar ætlast til að skírt verði eftir sér og foreldrarnir verða andvaka þegar líður að því að barnið skuli skírt. Sem betur fer er mjög hagkvæm lausn á þessum vanda, en þar sem tiltölulega fáir foreldrar hafa komið auga á hana vil ég nú gera þessu máli dálítið nánari skil. 

Lausnin er sú að gera eitt nafn úr tveim eða fleiri nöfnum afa eða ömmu, eða þeirra forfeðra og ættingja sem bráðnauðsynlegt er að láta heita eftir. 

Ef barnið er drengur er hagkvæmt að láta hann heita eftir báðum öfunum. Svo heppilega vill til að meiri hluti íslenskra nafna eru samsett úr tveimur hlutum, forskeyti og venjulegu nafni svo sem Ás-geir, þor-kell, Guð-finnur o.s.frv. 

Í ljós kemur að þetta er mjög hreyfanlegt og má fá margar útgáfur eins og t.d. Guð-geir, Ás-kell, Þor-finnur o.s.frv. 

Barnið gæti líka hæglega heitið tveimur samsettum nöfnum og verða þá að líkindum einhverjir fjórir yfir sig ánægðir en nú skal taka nokkur dæmi:

Afi 1 heitir Sturlaugur, Afi 2 heitir Starkaður og þá er barnið skírt Sturlaður.

Skammkell + Eilífur = Skammlífur.

Ísleifur + Sigurbjörn = Ísbjörn.

þjóðólfur + Konráð = þjóðráð.

Andrés + Eiríkur = Andríkur.

Albert + Ársæll = Alsæll.

Viðar + Jörundur = Viðundur.

Hringur + Guttormur = Hringormur.

Stórólfur + Friðþjófur = Stórþjófur.

Nú, svo eru ýmsir möguleikar að slá ömmu og afanöfnum saman: 

Amman heitir Kolfinna og afinn Dagbjartur, því er barnið skírt Kolbjartur.

Vilborg + Þórhallur =Vilhallur.

Málfríður + Sigfús = Málfús.

Afinn heitir Hámundur amman heitir Margrét og þá heitir barnið Hágrét.

Haraldur + Monika = Harmonika.

Kormákur + Albertína = Kortína.

Og svona mætti halda lengi áfram.

26.03.2005 08:38:08 [leo2]

 Af árgangi 1955. - 041. Einmenningsfyllerí á skólaferðalagi.

Eftir gagnfræðaskólaprófið var farið í ferðalag. Þetta var svipaður krakkahópur og hafði verið í bekknum veturinn áður nema þau sem stóðust landsprófið voru náttúrulega á bak og burt. Þó hafði einn alveg sérlega skemmtilegur náungi bæst við sem féll alveg ágætlega inn í léttflippaðan strákahópinn en það var “Fribbi” eða Friðbjörn Níelsson. 

Gunnar Rafn og Palli Helga voru með okkur í þessu frábæra ferðalagi og sýndu á sér nýjar og skemmtilegar hliðar sem við nemendurnir höfðum jafnvel ekki kynnst áður. Þegar við höfðum skoðað landið í einhverja daga fannst mér kominn tími til að brjóta þetta svona svolítið upp. Við vorum stödd í Stykkishólmi og ég fór inn í apótekið og spurði um strengjavatn. 

Enginn þarna kannaðist við að selt væri strengjavatn svo ég sagði þeim að það væri selt strengjavatn í apótekinu á Siglufirði og ég hélt að það væri bara þannig á línuna. 

Ég var þá spurður til hvers þetta strengjavatn væri notað og átti ég að sjálfsögðu svar við því. Það var notað til að þvo fitu og önnur óhreinindi af gítarstrengjum. 

Við krakkarnir værum á skólaferðalagi og eitt okkar spilaði alveg sérlega vel á gítar en það væri orðið erfitt því strengirnir hreinlega klíndust við böndin og sætu þar fastir. 

Gítarinn væri því orðinn rammfalskur og jafnvel úr takti vegna skorts á strengjavatni eða sambærilegum vökva.

“Hvað er sambærilegur vökvi?”

Ein afgreiðslukonan spurði og virtist alveg einstaklega velviljuð í minn garð og það var greinilegt að hún vildi alveg endilega bjarga okkur út úr vandræðunum.

“Venjulegt spritt, en það er bara svo vond lykt af því” sagði ég og bætti svo við, “mentolspritt fer ekki eins í pirrurnar á stelpunum.”

Hún skildi þetta vel og spurði hvað við þyrftum mikið.

“Svona þrjá litla brúsa” svaraði ég því gítararnir voru nú allt í einu orðnir þrír og einn af þeim var sérlega belgstór bassakassagítar með alveg sérstaklega óhreina strengi og þurfti óvenju mikið til sín. Konan í apótekinu horfði nú allt í einu rannsakandi á mig, en ég horfði á móti og reyndi að líta út eins og engill sem var reyndar alls ekki hægt lengur. Ætli ég hafi nú farið yfir strikið í bullinu hugsaði ég.

“Nokkuð fleira”  spurði hún meðan hún afgreiddi mig hikandi.

“Ég átti að kaupa magnyl fyrir kennarana, þeir eru orðnir svolítið þreyttir á okkur krakkavitleysingunum”  sagði ég og horfði beint í augu hennar. 

Ég fékk sprittið og magnylið, þakkaði fyrir mig og fór út. Næst lá leið mín í Kaupfélagið þar sem ég keypti þrjár malt í gleri og opnaði eina strax. Ég fékk mér stóran sopa og hellti mentolspritti í glerið. Ég hristi og fékk mér annan sopa og bætti meira spritti út í. 

Svona gekk þar til búið var úr sprittbrúsanum og nú var ekki lengur maltbragð af maltinu, en þetta var þó snöggtum skárra en ef ég hefði bara fengið brennsluspritt í apótekinu í Stykkishólmi. 

Við vorum nú á leiðinni út úr bænum en ég hélt áfram í sprittinu og maltinu þar til allt var búið, en þá var ég einmitt líka búinn sjálfur á því og leið út af þar sem ég sat. 

Þegar ég vaknaði aftur var búið að bera mig inn í einhvern skóla þar sem við áttum að gista. Magnylið mitt hafði nú fundist, en af því að ég hafði óvart hellt svolitlu spritti ofan á baukinn losnaði miðinn af og nú voru þetta bara einhverjar pillur í boxi og það leit ekkert sérstaklega vel út.

“Hvað er þetta?”

Það var Palli Helga sem spurði og það var áhyggjutónn í röddinni. Ég sagði honum að þetta væri bara venjulegt magnyl sem ég hefði keypt þá um daginn til að verjast væntanlegum timburmönnum og ég sá að honum létti við þessa einföldu og eðlilegu skýringu. 

Ég fékk mér nokkrar magnyl úr ómerkta bauknum og fór svo að sofa aftur eins og öll hin, því nú var komin nótt hjá þeim. Morguninn eftir þegar allir voru vaknaðir fann ég fyrir nokkrum hornaugum sem rákust í mig og svolitlu stelpuflissi á bak við mig. Það var Fribbi sem gaf út yfirlýsingu svo hátt og snjallt að hún fór varla fram hjá nokkrum manni.

“Ég er alveg hneykslaður á þér”  sagði hann en þetta fannst mér reyndar koma úr hörðustu átt. Hann var að mínu mati ekki rétti maðurinn til að hneykslast á mér ef um var að ræða neyslu áfengra drykkja en hann bætti við.  “Að láta mig ekki vita svo ég gæti dottið í það með þér.”

 

25.03.2005 00:07:56 [leo2]

Ég vil sjá holu inn í fjallið fyrst...040. Og þá fer ég að trúa.

Nú getum við Siglfirðingar búist við að aftur fari að verða vart við gamla uppvakta umræðudrauga sem svo mjög voru í gangi fyrir u.þ.b. tveimur árum, því þá eins og nú voru menn ýmist með eða á móti fyrirhuguðum Héðinsfjarðargöngum.

Reyndar er nú þegar búið að gefa einhver tóndæmi um það sem framundan er. Kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi beindi eindregnum tilmælum til Alþingis um að gerð Héðinsfjarðarganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar verði frestað, en þessi stefna er svo sem ekki ný, því fyrir tveimur árum ályktuðu framsóknarmenn einnig gegn göngunum. 

Núna var einnig ályktað um að gera þurfi jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar því samgöngumál væru mikilvæg forsenda öflugra byggða og leggja þyrfti mikla áherslu á bættar vegasamgöngur innan kjördæmisins til að gera þær greiðari og jafnframt öruggari. Þingið skoraði svo á stjórnvöld að leggja aukið fé til vegamála í kjördæminu. 

Ég verð að segja að mér finnst eitthvað vera sem ekki gengur alveg upp í þessum málflutningi. Daginn eftir að Sturla Böðvarsson kom til Siglufjarðar til að lofa gömlu loforðunum aftur, lýsti Pétur Blöndal því yfir að hann vildi frekar sjá fjármagnið fara í Sundabraut en Héðinsfjarðargöng en Pétur er svo sem ekki þekktur fyrir að vera vinur smælingjanna. 

Ég heyrði Stefán Jón Hafstein í útvarpsviðtali á sínum tíma viðra skoðanir sínar á gangagerðinni og verð að segja að mér féllu þær ekki sérlega vel í geð. Hann lagði verulega áherslu á að þær framkvæmdir ættu að hafa forgang sem þjónuðu fjöldanum, og flestir værum við Íslendingar staðsettir á suðvesturhorninu og þess vegna ætti að framkvæma þar. 

Ef stefna þessara skoðanabræðra Stefáns Jóns og Péturs Blöndals yrði ofan á er líklegt að átburðarrásin yrði með eftirfarandi hætti þar sem þeim virðist vera svo gjarnt að stilla upp einu máli gegn öðru og vilja síðan fara í annað en fresta hinu eða jafnvel slá það af. 

Tvöföldun Reykjanesbrautar / Héðinsfjarðargöng. Tvöföldunin er vissulega þarft mál, en þyrftu þá ekki önnur að færast neðar á listann. Það aka fleiri til Keflavíkur en Siglufjarðar og samkvæmt Stefáns/Péturs uppskriftinni færu því Héðinsfjarðargöngin á bið. 

Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar / Héðinsfjarðargöng. Þetta er jú sá staður sem flestir bílar á öllu landinu fara um. Framkvæmdir þar eru sennilega þjóðhagslega hagkvæmari en flestar ef ekki allar aðrar. 

Hugmyndin á eðlilega miklu fylgi að fagna enda málstaður væntanlegs þrýstihóps allgóður og samkvæmt Stefáns/Péturs uppskriftinni færu þess vegna Héðinsfjarðargöngin aftur á bið. 

Sundabraut / Héðinsfjarðargöng.  Svo yrði farið að tala um samgöngubætur á ný og Reykvíkingar myndu að sjálfsögðu ásamt grönnum sínum grenja eftir Sundabraut strax og standa með mótmælaspjöld fyrir utan Alþingishúsið til að leggja áherslu á hinar réttmætu kröfur sínar, því það væri sá kostur sem væri þjóðhagslega hagkvæmastur í samgöngumálum. Því ætti að setja hann í algeran forgang en Héðinsfjarðargöngin að sjálfsögðu aftur á bið. 

Svona mætti lengi telja. Mislæg gatnamót víðs vegar um borgina og nágrannasveitarfélög, tvöföldun yfir Hellisheiði og upp í Mosfellsbæ, eða jafnvel Hellisheiðargöng svo og ýmis konar aðrar samgöngubætur dýrar og ódýrar sem eiga það sameiginlegt að þjóna fjöldanum við Faxaflóann og ættu þess vegna að njóta forgangs umfram aðrar á fámennari stöðum eða hvað? Einhverjir myndu að vísu hefja upp raust sína annað slagið fyrir norðan og spyrja: Hvenær kemur svo röðin að okkur? 

Samkvæmt hugmyndafræði Stefáns/Péturs er hið heiðarlega svar: Aldrei... Íbúum suðvesturhornsins er alveg undarlega gjarnt að spyrja hvers vegna þeir eigi að sjá á eftir skattgreiðslum sínum fara í mannvirkjagerð á einhverjum útnára þar sem þeir eigi jafnvel aldrei eftir að koma. Þeir hinir sömu verða hins vegar svolítið klumsa og skilja jafnvel ekki spurninguna sem þeir fá þá á móti, þ.e. hvers vegna landsbyggðarfólk á eitthvað frekar að borga skattana sína svo hægt sé að byggja upp á Reykjavíkursvæðinu. 

Ef þetta væri hin ríkjandi stefna kæmi hún einfaldlega í veg fyrir allar framkvæmdir í vegamálum utan Faxaflóasvæðisins. 

Þessar 60 einbreiðu brýr á þjóðvegi eitt yrðu þá bara áfram jafn einbreiðar sem þær hafa verið til þessa, straumur fólks af landsbyggðinni enn stríðari en áður suður á bóginn, byggja þyrfti ný hverfi eða eins konar flóttamannabúðir út frá Reykjavíkursvæðinu í átt til Keflavíkur og Hvalfjarðar. 

Hvert verður þá hið skráða gengi þjóðhagslegs hagræðis hrist fram úr reiknistokkum spekúlantanna, og sá ábati sem suðvesturhornsstefnan mun skila þjóðinni í heild sinni til lengri tíma. Til allrar hamingju er Stefán/Pétur ekki í brúnni um þessar mundir og svo mun vonandi aldrei verða en við ætlum að gefa núverandi ráðamönnum sjens ekki satt?

 22.03.2005 02:11:50 [leo2]

 Af árgangi 1955. -  038. Lokaðu hurðinni drengur!

Í öðrum bekk í gagganum fórum við strákarnir í enn einn handavinnutímann til Bigga Schiöth. Birgir var listfengur í eðli sínu og hinn vænsti maður en nokkuð fljótur að skipta skapi og þurfti jafnvel ekki alltaf mikið til, en ég var nú ef til vill líka gæddur einhverjum af þeim sérstöku hæfileikum líka. “Lokaðu hurðinni drengur.” 

Ég gekk síðastur inn í tímann og Biggi horfði á mig og leit svo niður. Einhver hallaði hurðinni hljóðlega aftur. “Á ég að loka hurðinni?” 

Ég sá að henni hafði þegar verið lokað. “Lokaðu hurðinni drengur, heyrirðu ekki hvað ég segi.” Hann sagði þetta á afar hvassan og óvinsamlegan hátt að mér fannst og blóðið sauð skyndilega í æðum mér og ég fékk hellur fyrir eyrun. Ég sá útundan mér spurnina í andlitum bekkjarfélaga minna en Biggi grúfði sig niður í eitthvað sem ég sá ekki hvað var. 

Ég snérist á hæli og opnaði hurðina og lokaði henni síðan aftur þannig að enginn ætti að efast um að hún hefði nú alveg gersamlega fallið að stöfum. Biggi hrökk upp úr verkum sínum og gekk ógnandi til mín svartur í framan með hnefann á lofti. Út með þig, við viljum ekki hafa svona vitleysinga hérna inni. Svo snéri hann sér hálfhlægjandi í hina áttina og sagði, “strákar það er ekki alveg í lagi með suma.” Út, þrumaði hann svo aftur til mín og varð svartur í framan á ný. Ég lét svo sem ekki segja mér það tvisvar og gekk snúðugt út og lokaði hurðinni nú þannig að ég efast um að hurðarspjaldið hafi átt önnur eins samskipti við hurðarkarminn allar götur síðan þá. 

Ég gekk upp tröppurnar og síðan rakleiðis að skrifstofu skólastjóra og knúði þar dyra.

“Kom inn,” heyrðist að innan. Ég opnaði og gekk inn. Ég stóð nú á þarna á miðju gólfinu og Jóhann skólastjóri jórtraði og horfði á mig með spyrjandi augnaráði.

Þá fór ég að hugsa um hvernig ég ætti að byrja ræðuna.

“Hann Birgir rak mig úr tíma” sagði ég.

“Ha?” Það mátti lesa langan spurningalista út úr augunum og hann tuggði en ég hélt áfram.

“Og fyrir akkúrat ekki nokkurn skapaðan hlut” sagði ég.

“Ha?” Hann horfði á mig, var engu nær og tuggði svolítið hraðar.

“Bara fyrir að hurðinni var ekki lokað en henni var lokað samt, svo opnaði ég hana aftur og lokaði henni svo aftur.”

“Ha?” Hann horfði á mig og var hættur að tyggja þetta hvað það nú var.

Jóhann skólastjóri var meiri öndvegismaður en flestir nemendur skólans gerðu sér grein fyrir. Hann fékk mig til að setjast niður og segja sér alla söguna í rólegheitunum. Jafnvel suma hluta hennar eins og þeir hlutu að snúa að Bigga. Svo þakkaði hann mér fyrir komuna og við vonuðum báðir að málið fengi farsælan endi og við þyrftum ekki að ræða það frekar. 

Þegar ég var á leiðinni út um dyrnar bað hann mig að skila kveðju til móður minnar því hann hefði nefnilega kennt henni fyrir mörgum árum á kirkjuloftinu. Ég lofaði að skila því og hugsaði um leið að móðir mín hefði aldrei, aldrei nokkurn tíma getað átt erindi til skólastjóra af neitt svipuðum ástæðum og ég í þetta skipti. 

Ég mætti síðan í næsta handavinnutíma hjá Bigga og hann lét eins og ég væri ekki til. Samt skynjaði ég að hann og Jóhann skólastjóri höfðu eitthvað rætt saman. 

Það var svo rúmum þrjátíu árum síðar að Birgir hélt sýningu í Ráðhúsinu og ég hitti hann þar og spurði þá hvort hann þekkti ekki gamla nemandann úr gagganum. Hann horfði á mig og jánkaði því svolítið skrýtinn á svipinn. Þá hafði ég átt gamla Schiöth óðalið að Aðalgötu 28 í nokkur ár og bauð honum í kvöldkaffi og þáði hann það mér til mikillar ánægju. 

Við áttum síðan saman skemmtilega kvöldstund þar sem hann var greinilega í essinu sínu á sínum gömlu heimaslóðum. Hann sagði mér allt um húsið sem hann fæddist í, og meira að segja nokkrar gamlar prakkarasögur af sér og hafði greinilega gaman af. 

Einnig nokkrar dularfullar sögur af húsdraugnum sem enginn veit hvaðan kom eða af hverju hann var þarna, því hann tók sér bólfestu í húsinu strax þegar það var nýbyggt. Hann sagðist líka vera á förum til Spánar til vetrardvalar eins og hin síðustu ár en að vori kæmi hann aftur og vorum við ásáttir um að hafa samband. 

Líklega hefur Birgir Schiöth spókað sig í sandinum á spænskri strönd þarna um veturinn og komið svo heim með farfuglunum um vorið í síðasta skipti í þeim heimi sem við dauðlegir menn þekkjum. Þegar næsta ár hafði svo gengið í garð spurði ég lát hans. Blessuð sé hans minning.

21.03.2005 21:52:51 [leo2] - 

 Margt býr á netinu. - 037. Fáránlegustu yfirlýsingar sögunnar.

Ég rakst á þessar skemmtilegu yfirlýsingar einhvers staðar á víðáttum veraldarvefsins og fannst ég þurfa að koma þessari hreint alveg ótrúlegu“speki” á framfæri við sem flesta...

1. "Okkur líkar ekki við sándið þeirra; gítartónlist er á niðurleið." .....Plötufyrirtækið Decca hafnar Bítlunum, 1962

2. Það er kannski pláss fyrir fimm tölvur á heimsmarkaðnum."  .....Thomas Watson, stjórnarformaður IBM, 1943

3. "Hlutabréf hafa náð endanlegu hámarki."  .....Irving Fisher, prófessor í hagfræði, Yale háskóli, 1929

4. "Hver í andskotanum vill heyra leikara tala?" .....HM Warner, Warner-bræður, 1927

5. "Goddard skilur ekki sambandið milli átaks og gagntaks og nauðsyn þess hafa eitthvað betra en tómarúm til að bregðast við." .....Leiðari New York Times árið 1921 um frumkvöðulsstarf Roberts Goddard um knúning eldflauga

6. "Það er búið að finna upp allt sem hægt er að finna upp." .....Charles H. Duell, yfirmaður einkaleyfaskrifstofu Bandaríkjanna, 1899

7. "Flugvélar geta ekki flogið því að þær eru þyngri en loftið." .....Kelvin lávarður, forseti The Royal Society, 1895

8. Þessi "sími" býr yfir of mörgum göllum til að geta í alvöru talist samskiptatæki. Tækið hefur ekkert gildi fyrir okkur."  .....Minnisblað hjá Western Union, 1876

9. “Kenning Louis Pasteur um sýkla er fáránlegur skáldskapur." .....Pierre Pachet, prófessor í lífeðlisfræði í Toulouse, 1872

10. "Bora eftir olíu? Þú meinar að bora ofan í jörðina til að leita að olíu? Þú ert ruglaður."  .....Edwin L. Drake reyndi að fá stuðning við olíuboranir sínar, 1859