Leó skrifar - Andrés Hafliðason

Andrés Hafliðason byggði hús númer 19 við Aðalgötuna sem stóð við hlið húss bróður hans Guðmundar sem var m.a. faðir Hafliða Guðmundssonar kennara. Upphaflega voru húsin eins, en síðar byggði Andrés hæð ofan á sitt hús. Hann gerðist sendill í verslun Vilhelms M. Jónssonar árið 1904, en ræðst árið eftir til Helga bróður síns sem rak verslun að Aðalgötu númer 8 og er þar til ársloka 1910. 1911 hóf hann störf hjá Gránufélagsversluninni og er þar til 1919, en það ár setti hann sína eigin verslun á fót undir nafninu Fjallkonan.

Árið 1923 tekur hann við umboði fyrir Landsverslun Íslands sem síðar verður Olíuverslun Íslands, af Jóni tengdaföður sínum. Hann gerist umboðsmaður Tóbaksverslunar Íslands, en á þessum tíma var Áfengisverzlun Ríkisins eitt og Tóbakseinkasala Ríkisins annað. 

 Þegar þessi ríkisbatteri sameinuðust síðar í Tóbaks og Áfengisverslun Ríkisins var nafnið skammstafað TÁR. Vakti þetta að vonum athygli manna og þótti mörgum skondið í meira lagi, en hver sem ástæðan hefur verið breyttist nafngiftin fljótlega í ÁTVR. Hann tekur einnig að sér umboð fyrir Viðtækjaverslun ríkisins, og firmans Lárus G. Lúðvíksson hf. sem flutti inn og seldi skófatnað. Einhvern tíma hættir hann þó að versla með skófatnað og margir af eldri íbúunum í bænum hafa talið sig vita skýringuna. Hún á að vera sú að gjafmildi Ingibjargar konu hans hafi rýrt svo lagerinn að verslunin hafi vart borið sig. 

Ef hún sá illa skóuð börn sem voru frá heimilum þar sem efnin voru ekki mikil, átti hún það til að kalla á þau inn til sín, og þegar þau fóru út frá henni aftur voru þau komin á splunkunýjan skófatnað. 

Andrés mun hafa látið þetta afskiptalítið lengi vel, en einfaldlega gefist upp á rekstrinum að lokum.

Kobbi mall bjó í litlu húsi fyrir neðan kirkjuna og þótti karlinn sjaldnast mjög þrifalegur eða allt of vel til fara. Eitt sinn var Andrés sem var einnig meðhjálpari, að gera klárt fyrir messu á aðfangadag. Hann hafði verið í kirkjunni frá því um miðjan dag og kom ekkert heim fyrr en að athöfninni lokinni.

Skömmu áður en messan hófst hafði Kobbi átt erindi niður í bæ, Ingibjörg rekist á hann og fundið út að hann átti engin jólaföt sem henni fannst auðvitað alveg ótækt. Þegar Andrés var svo kominn heim og allir sestir yfir jólamatinn verður honum að orði: “Hann Kobbi var vel til hafður í dag” og svo var ekki talað meira um það. Ingibjörg hafði nefnilega klætt Kobba upp í splunkuný grá jakkaföt með vesti og bindi sem Andrés hafði nýlega keypt og Kobbi mætt í þeim til kirkju.