Tengt Siglufirði
D A G S K R Á:
I. Kl. 1 e. h. Útifundur við Alþýðuhúsið . Ræða: Gunnar Jóhannsson.
II. Kröfuganga undir fánum verkalýðsfélaganna og íslenzka fánanum.
Gengið verður suður Túngötu, suður Lindargötu og niður á Suðurgötu, niður Aðalgötu, út Vetrarbraut og staðnæmst á Skólabalanum.
III. Ræður: Jón Jóhannsson og Þóroddur Guðmundsson.
IV. Kröfugöngunni haldið áfram út að Alþýðuhúsinu og slitið með ræðu.
V. Kl. 6 e. h. Barnasýning í BÍÓ. »Eitthvað fyrir alla«. Aðgangur 25 aura.
VI. Kl. 8.30 e h. Kvöldskemmtun í Alþýðuhúsinu:
1. Skemmtunin sett. Angantýr Guðmundsson.
2. Kórsöngur. Karlakór Siglufj. undir stjórn Jónatans Ólafssonar.
3. Ræða. Ríkey Eiríksdóttir.
4. Upplestur. Gísli Indriðason.
5. Ræða.
6. Kórsöngur. Karlakór Siglufj. undir stjórn Jónatans Ólafssonar.
7. Ræða. Aðalbjörn Pétursson.
8. Dans.
Aðgangur kostar kr. 1.50. Börn fá ekki aðgang.
Allan daginn og á kvöldskemmtuninni verða seld merki og kosta 25 aura, 75 aura og 1 kr.
Skipið ykkur um hátíðahöld verkalýðsins.
Kaupið 1. maí merki. Sækið kvöldskemmtunina.
Allt alþýðufólk i kröfugönguna.
1. maí-nefndin.
Það er oft gaman að grúska í gömlu dóti og rata þá oft hinir ótrúlegustu hlutir upp á yfirborðið. Ég rakst á þessa auglýsingu sem birtist í "1. maí blaðinu" sem kom út einu sinni á ári, eða þann 1. maí eins og nafn þess ber með sér. Á þessum tíma hefur þátttaka í kröfugöngunni líklega verið verulega mikið meiri og almennari en nú gerist, enda yfirleitt líka talsvert heitara í kolunum og oft ófriðsamt á vinnumarkaði.
Nöfn þeirra sem þarna koma við sögu koma flest kunnuglega fyrir sjónir, a.m.k. hjá þeim sem eru annað hvort komnir eitthvað "til vits og ára" eða hafa gluggað svolítið í söguna. Flestir áttu það líka sameiginlegt að vera yfirlýstir bolsar, en einnig hinir mætustu menn.
Þarna eru þrír menn nefndir til sögunnar sem dæmdir voru fyrir að skera niður nasistafánann hjá þýska konsúlnum árið 1933 þ.e. Þóroddur Guðmundsson formaður verkalýðssambands norðurlands, síðar bæjarfulltrúi og varaþingmaður, Gunnar Jóhannsson síðar formaður verkalýðsfélagsins Þróttar, bæjarfulltrúi og alþingismaður og Aðalbjörn Pétursson gullsmiður.
Ríkey var skráður félagi í Siglufjarðardeild ASV, en sú skammstöfun stóð fyrir “Alþjóðasamhjálp verkalýðsins” sem hafði nokkra starfsemi á kreppuárunum.
Angantýr var einn af stofnendum Mjölnis og sá sem mest skrifaði í hann ásamt Gunnari og Þóroddi. Hann var líka einn af stofnendum Kommúnistaflokks Íslands en sagði sig úr honum 1934 í hreinsunum sem þá fóru fram. Í þeim var Gísli Indriðason rekinn, en hann mun hafa verið mjög hagmæltur og góður penni.
Þessi lausavísa hans á eflaust rætur í pólitíkinni á Siglufirði.
Og þessi varð til þegar hann kom á gatslitnum skóm til skósmiðs.
Ég er þó ekki viss um hvort Jón Jóhannsson er sá sami og starfaði mikið að verkalýðsmálum en var kratamegin við hina pólitísku vinstri línu, eða þá nafni hans.
Athygli vekur að Karlakór Siglufjarðar syngur þarna á kvöldskemmtuninni en ekki Karlakórinn Vísir. Ég vissi reyndar ekki að til hafi verið Karlakór Siglufjarðar fyrr en um aldamótin 2000. En stjórnandinn Jónatan Ólafsson er ekki ókunnur með öllu. Hann kom til Siglufjarðar sumarið 1933 á tónleikaferð með bróður sínum, en ílentist og giftist Þorbjörgu dóttir Guðmundar Fr. í Ytra-húsi. Jónatan var mikill tónlistamaður og hefur samið mörg þekkt lög sem þjóðin hefur sungið árum og áratugum saman.
Meðal þekktustu laga Jónatans eru t.d. Laus og liðugur þar sem sungið er um Sigurð sem er sjómaður og sannur Vesturbæingur. Einnig Síldarvalsinn þar sem sjómönnum þótti á Siglufjörð farandi og upplifðu indælar andvökunæturnar upp í Hvanneyrarskál, hvar Adamssynirnir og Evudæturnar áttu sín leyndarmál. Jónatan var bróðir Sigurðar Ólafssonar hins landskunna söngvara og hestamanns, en dóttir hans er svo söngkonan Þuríður Sigurðardóttir. Jónatan Garðarsson poppfræðingur og útvarpsmaður með meiru er afabarn Jónatans eldri.
SK; viðbót/ athugasemd á fésinu!
Það er hvergi minnst á gamla þjóðsönginn frá kommaríkinu Rússlandi, sem þessir vinstri menn dýrkuðu og gera enn !
Internationalinn. Á yngri árum mínum sem félagi í Verkamannafélagi þróttar, sat ég einu sinni sem fastast er sálmurinn var fluttur í tilefni 1. maí og allir aðrir stóðu sperrtir upp.
Ég fékk yfir mig fúkyrði (hvíslað) er ég sat sem fastast í sæti mínu í sal Siglufjarðarbíós (Alþýðuhúsinu) þar sem hátíðarhöld voru haldin vegna slæms veðurs.
Það lá við að tveir ónefndir kommar legðu á mig hendur til að láta mig standa upp, en ég ungur galsafullur og hraustur, sagði þeim bara að reyna það, slíkt mundi örugglega trufla sálminn þeirra meira en það að ég í sæti mínu. Þeir létu þar við sitja með hatursvip í andliti.