Leó Ólason skrifar - NOKKUR ORÐ UM FRÆNDA MINN GUNNAR BÍLDAL

OG EGIL MELSTED NÁGRANNA HANS

Húsið, eða kannski öllu heldur húsin númer 9 við Aðalgötu voru á horninu sunnan Aðalgötu og ofan við Vetrarbrautina. 

Þar áttu margir viðdvöl sem komu að verslun og viðskiptum og stoppuðu mislengi. 

Gunnar Bílddal rak þar síðast verslunina Hebu sem verslaði m.a. með reiðhjól. Hann rak þar líka reiðhjólaverkstæði, en húsið brann í apríl árið 1946. 

Skömmu fyrir brunann á verslun Gunnars hafði Egill Melsted opnað sína reiðhjólabúð aðeins fáum metrum ofar í götunni, og fóru tvennar sögur af kærleikum þeirra kaupmanna hvað sem satt var í því. Nokkra unga reiðhjólaeigendur sem höfðu alla jafna verslað við Gunnar, vantaði eitt sinn eitthvert smáræði og komu við hjá honum, en hann átti því miður ekki til í augnablikinu það sem þá vanhagaði um. 

Það varð því að fara yfir til Egils sem tók þeim fálega og sagði að hann ætti nóg til af öllu fyrir sína kúnna. Þeir skyldu bara fara á sama stað og þeir komu frá, og halda sig þar þangað til úr rættist. En eftir svolítið spjall og skjall munu þó samningar hafa náðst og Egill selt drengjunum það sem þá vanhagaði um.

Húsið sem Matti Haralds og Alla búa núna í er líka skráð númer 9. Upphaflega hefur það verið einni hæð lægra, en Þorsteinn Pétursson mun hafa byggt ofan á það.

Þorsteinn sem var faðir Péturs hafnarvarðar og bróðir Ásgeirs Péturssonar stórsíldarsaltanda, rak þarna verslun en var síðar

umsjónarmaður og útsölustjóri Hóls, Akureyrar og Sauðárkróksmjólkurinnar í einhvern tíma. Síðast ráku þær Sigga og Kolla þar gjafa og snyrtivörubúðina Hebu. 

MORGUNBLAÐIÐ 2 APRÍL 1946

UM sexleytið í morgun kom upp eldur í húsinu Aðalgata 9, hjer í bænum Austurendi hússins er gamalt timburhús og var þar verslun Gunnar Bíldals, og hafa eldsupptökin verið í skrifstofu í suðausturhorninu. Vesturhluti hússins er úr steinsteypu Er þar mjólkurbúð KEA niðri, en íbúð Þorsteins Péturssonar, húseiganda uppi. – Steinhúsið sakaði ekki.

Suður af austurendanum er vörugeymsla úr timbri og járni, og hafði verslunin hana á leigu. Slökkviliðið kom þegar á vettvang og tókst bráðlega að slökkva. Allar vörubirgðir verslunarinnar eyðilögðust af eldi og vatni, og timburhluti hússins, austurendinn einnig. Húseigandi hafði geymslu uppi í austurendanum og eyðilögðust þar matvæli og fatnaður.

Versluninni var lokað kl. 1 í gærdag og ekkert komið þar eftir dag. Eldsorsakir eru því ókunnar. Eigandi verslunarinnar var ekki í bænum. Húsið og verslunarvörurnar var vátryggt. –

Jón.

Ljósmyndir: Kristfinnur Guðjónsson

 --------------------------------------------------------------------------------------

Viðbót frá SK:   Svo segir blaðið Siglfirðingur frá 27.janúar 1948: 

ÚR BÆNUM  (umræðudálkur / fréttir, í blaðinu Siglfirðingur) 

Húsbruni.

Mánudaginn þann 19.  janúar sl. varð eldur laus í húsinu Aðalgötu 7, hér í bæ. Húsið er  eign frú Önnu Vilhjálmsdóttur,  sem bjó þar ásamt syni sínum og  tveimur dótturbörnum. - Húsið  brann algjörlega.

Engu var bjargað af innbúi. Á neðri hæð hússins var bókaverslun Hannesar  Jónassonar, og geymsla fyrir  verslunin Sveinn Hjartarson. Þar  brann ekki mjög mikið, en  skemmdist allt af vatni og reyk.  Tjónið var mjög tilfinnanlegt.

Í sambandi við bruna þennan  finnst oss rétt, að minna á hversu  bíræfin bæjarstjórnin okkar er, að  leyfa sér að hafa öll hin verðmætu  og óbætanlegu skjöl bæjarins með  öllu óvarin fyrir eldi í hinu gamla  timburhúsi, "Hvíta húsinu." Þarna  sást, hvað eldurinn er fljótur að  eyðileggja og engu var bjargað.

Hvernig færi, ef kviknaði í "Hvíta húsinu", ætli. yrði miklu bjargað  af hinum verðmætu skjölum, sem  myndi þýða mikið tjón fyrir Siglfirðinga í heild. Bæjarbúar munu,  ábyggilega fylgjast vel með því,  hvort bæjarstjórnin ætlar sér enn  lengur að gera ekki skyldu sína í  þessu máli, en það er að koma  skrifstofum bæjarins og skjölum  hans á óhultan stað.   <<<<

ES......  Þess má geta að i mars árið 1965 brann "Hvítahúsið" og mikið af skjölum glataðist.

Reynslan sýnir að yfirvöld taka oft ekki mikið tillit til ráðlegginga eða athugasemda frá almenningi !