Leó skrifar - STÓRDANSLEIKUR Í DYNHEIMUM

Eina helgina um sumarið 72 var útlit fyrir að hljómsveitin Frum frá Siglufirði yrði alveg verkefnalaus, en þess má geta að þetta sumar vorum við flestar helgar á faraldsfæti.

Við hljómsveitargaurarnir Guðni Sveins, Viddi, Gummi Ingólfs og ég undum því ekkert sérlega vel og vildum gjarnan finna okkur einhvern stað til að spila á.

En hvergi virtist þó vera hægt að komast inn í hús þrátt fyrir að ég hringdi í hvern húsvörðinn á fætur öðrum, og hvergi voru svörin eins og ég hefði viljað heyra þau.

Á Ketilási voru Gautarnir að spila og þess vegna ekki góður grundvöllur fyrir balli í Ólafsfirði. Á Dalvík fékk ég þau svör að um helgina yrði haldið þar ættarmót af stærri gerðinni og væri gert ráð fyrir á annað hundrað manns í mat alla helgina auk þess sem salurinn yrði notaður að hluta sem svefnpokapláss.

Í Freyvangi var verið að sýna leikrit, öll leiktjöld og munir voru á sviðinu og það væri allt of mikið mál að pakka því niður fyrir eitt ball auk þess sem það væri sýning á laugardagskvöldið.

Í Hrafnagilshreppi inn af Akureyri er Laugaland og þegar ég talaði við húsvörðinn þar sagði hann mér að það ætti að lakka gólfið um helgina og því plani væri ekki hægt að breyta.

Í Allanum á Akureyri hjá henni Ragnheiði vinkonu okkar var einhver ráðstefna og hún hélt að einhver harmónikuhljómsveit ætti að spila gömlu dansana á eftir.

Það fór að verða fátt um fína drætti og ég gerði mér nú grein fyrir því að Ingimar Eydal yrði að venju í Sjallanum, en þar fyrir utan var hvergi nokkurs staðar dansleikur á Eyjafjarðarsvæðinu sem var mjög sérstakt. Þetta yrði skrýtin helgi og við yrðum að finna einhverja smugu og nýta okkur ástandið.

Grenivík! Ekki var það óskastaðurinn en ég hringdi nú samt þangað. Þar fékk ég að vita að húsvörðurinn væri staddur suður í Reykjavík og það var enginn sem gat svarað okkur neinu um málið og enn síður tekið ákvarðanir í fjarveru hans.

Ég var alveg í öngum mínum, þetta var allt einhvern vegin að fara úr böndunum og mér fannst ég vera í svipaðri aðstöðu og asninn sem eltir gulrótina alveg endalaust en mun aldrei ná henni. Ég sagði strákunum frá tilraunum mínum á þriðjudagskvöldi með hálfgerðum uppgjafartón. 

Dynheimar - Hljómsveitin Frum

En Dynheimar? Einhver varpaði fram þessari óvæntu hugmynd. Jú það er til staður sem heitir Dynheimar og er rekinn sem félagsmiðstöð en ég hef aldrei heyrt að það væru böll þar. Það mátti svo sem hringja í Dynheima og það var gert strax morguninn eftir.

Ég talaði við þann sem veitti húsinu forstöðu en hann taldi fráleitt að halda unglingaball þar, það hafði verið reynt nokkrum sinnum en mæting var sáralítil í hvert einasta skipti.

Ég sagði honum þá að það væri hvergi dansleikur á gjörvöllu Eyjafjarðarsvæðinu og krakkarnir hefðu ekki í nein hús að venda og nálægasti dansleikur við Sjallann væri á Ketilási í Fljótum.

Honum þótti þetta svolítið merkilegt en leist samt ekki vel á hugmyndina. Ég hélt þó áfram að nudda í honum þar til hann gaf sig, en með semingi þó.

Samningurinn gekk út á að við tækjum alla áhættuna, greiddum allan kostnað ef engin mæting yrði, en fengjum allan hagnað ella.

Líklega höfum við báðir talið okkur hafa gert ágætan samning og ég sendi honum auglýsingaplaköt síðar þennan sama dag með flóabátnum Drang.

Á laugardeginum vorum við mættir inn við Dynheima um áttaleitið. Við stilltum upp okkar hljóðfærum og spjölluðum heilmikið við húsvörðinn sem var hinn skemmtilegasti maður, en hann sagðist bara ekki hafa nokkra trú á að það mætti kjaftur á svæðið þrátt fyrir að hafa gefið sig með uppákomuna. Þetta hefði bara einfaldlega aldrei virkað almennilega og hann sæi ekkert í spilunum sem benti til þess að það myndi eitthvað frekar gera sig núna.

Unglingadansleikurinn hófst stundvíslega klukkan tíu og það var eitthvað af krökkum sem biðu við dyrnar og borguðu sig strax inn og svo komu fleiri í kjölfarið. Þegar aðeins var farið að líða á kvöldið sáum við að það var engu líkara en krakkarnir hreinlega flæddu inn um dyrnar og um miðnættið var nánast orðið ólíft í húsinu. Þar var eiginlega orðið eins troðfullt og það gat frekast orðið og jafnvel rúmlega það.

Að dansleik loknum þegar allir voru farnir og við búnir að pakka saman okkar dóti fór ég og hitti húsvörðinn. “Jæja, var þetta ekki bara í góðu lagi?”

Hann horfði á mig og hristi höfuðið og sagðist ekki skilja neitt í þessu. Ég spurði hvort við ættum ekki að demba okkur sem snöggvast í uppgjörið og byrja kannski á að kíkja á kostnaðarliðina, en hann leit á mig aftur og endurtók að hann skildi ekki neitt í þessu öllu saman. Svo rétti hann mér þykkasta búnt af hundraðköllum sem ég hef nokkru sinni séð og sagði að þetta hefði komið inn.

“Bærinn borgar alla reikninga hér svo það eru engir kostnaðarliðir, en þið hefðuð alveg mátt koma með einhvern til að selja miðana.”

Svo hristi hann höfuðið aftur og ítrekaði það sem hann hafði þá þegar nokkrum sinnum sagt. Við talningu á hinum þykka hundraðkallabunka sýndist okkur að þetta unglingaball í Dynheimum yrði líklega með gjöfulli giggum þetta sumarið.

En samsetningin á uppgjörinu var með undarlegra og minnistæðara móti. Engin ávísun, svo fáir þúsundkallað að þá mátti telja á fingrum annarar handar, þó nokkuð fleiri fimmhundruðakallar, en heill þér hundraðkallafjöld…! Nóg var af þeim.

Þetta minnti svolítið á fyrsta ballið okkar í Hringveri þegar stór hluti uppgjörsins var í tuttuguogfimmkrónuseðlum. Maður man stundum svolítið skrýtna hluti.

Þegar við yfirgáfum svo staðinn, stóð húsvörðurinn í dyrunum og veifaði en horfði í leiðinni á okkur eins og við værum einhverjar geimverur.

Svo hristi hann höfuðið einu sinni enn, gekk inn og lokaði á eftir sér.