Leó skrifar í ágúst 2015 HANN ÞÓRÐUR GAMLI ÞRAUKAR ENN

Eftir fullnaðarprófið upp úr tólf ára bekk var farið í skólaferðalag. Benni kennari og Hlöðver skólastjóri voru gæslumenn okkar og stóðu sig afburða vel í því hlutverki. Ég man að einhvers staðar var farið heim að sveitabæ og keypt mjólk handa okkur krökkunum á 25 lítra brúsa, sömu gerðar og stóðu gjarnan á brúsapöllunum fljótlega eftir mjaltir hér á árum áður. 

Niður við þjóðveginn var þess síðan beðið að menn eins og “Bjössi á mjólkurbílnum” og önnur sambærileg kvennagull kæmu akandi og pikkuðu þá upp og blikkuðu í leiðinni misjafnlega vellyktandi heimasæturnar sem komu þangað stundum beinustu leið úr fjósinu með blik í auga. 

Og ég sem hélt að mjólkin fengist bara í mjólkurbúðunum.

Þetta var um vorið 1968 og hópurinn okkar fór alla leið suður til Reykjavíkur í rútunni frá Sleitustöðum og það var komið víða við á leiðinni. Þetta var líka með flottari rútum á þeim tíma, því það var hægt að tala í míkrafón fram í hjá bílstjóranum og innanrútuhátalararnir skiluðu síðan erindinu aftur í til farþeganna. Hlöðver var fljótur að tileinka sér þennan sérhannaða túrhestaútbúnað og notaði hann óspart á okkur krakkana. Þegar við ókum um sveitir landsins fræddi hann okkur um hvað tengdi staðina og jafnvel heilu sveitirnar við söguna sem við áttum að hafa lært. Við sem vorum um það bil að verða fyrrverandi nemendur þessa ágæta fræðara hlustuðum og sáum nú hlutina í nýju og myndrænna ljósi en því sem við lásum áður út úr svarthvítri bókinni. 

Það var á leiðinni til baka að Hlöðver vildi reyna að upphefja samkenndina í formi fjöldasöngs og gerðist sjálfskipaður forsöngvari. Hann kenndi okkur viðlagið sem er ekki mjög flókið og svo byrjaði hann: “Hann Þórður gamli þraukar enn” og við sungum; “Loff malakoff.” Ég hafði fengið segulband í jólagjöf um jólin 1967, kassettuvæðingin var hafin og þetta var þess konar græja keypt hjá Kristni Guðmundssyni útvarpsvirkja. Hún var að sjálfsögðu tekin með í ferðina og ég náði að taka upp allan sönginn um hann Þórð. Þegar honum var lokið spólaði ég til baka og ýtti á play. 

Skólastjórinn sem nú var hættur að syngja heyrði sjálfan sig halda áfram í góðu stuði aftar í rútunni. Þetta fannst honum skrýtið og kom aftur í til að kanna hvaða galdrar væru þarna í gangi. Þegar hann áttaði sig á hvað hafði gerst, krafðist hann þess að upptökunni væri eytt þegar í stað og varð ég við kröfu hans. Oft síðan hef ég velt því fyrir mér hvernig ég gat verið svo vitlaus að eyða slíkum menningarverðmætum sem söngur Hlöðvers eldri teldist vera í dag. – Eitt af því sem maður sér eftir alla tíð.

Leó R.Ó. í ágúst 2015