Tengt Siglufirði
Leó Ólason skrifaði hjá Siglfirðingar fyrr og nú - Sögur og myndir.
Um tíma voru bakaríin á Siglufirði þrjú talsins, og eitt af þeim var Hertervigsbakaríið sem var númer 6 við Vetrarbraut. Óli Hertervig flyst frá Akureyri 1927 og kaupir bakaríið af Axel Schiöth bakarameistara, en hann var faðir Aage Schiöth lyfsala. Húsið var þá aðeins á einni hæð og með lágt ris, en nokkrum árum síðar byggir hann við það, reksturinn vex og starfsfólki fjölgar.
Anna Lára Hertervig minntist áranna á Vetrarbrautinni þegar ég ræddi eitt sinn við hana.
“Pabbi flutti inn smjör, smjörlíki, egg og aðrar bökunarvörur, aðallega frá Englandi og Danmörku. Tunnurnar sem eggin komu í, voru síðan notaðar til að brugga í þeim.
Ég fékk meira en nóg af ölgerð og það var bruggað bæði maltöl og venjulegt öl. Oftast “misstu” strákarnir aðeins meira af sykri út í lögunina en uppskriftin sagði til um, en það var ekkert verið að fárast yfir slíkum smámunum nema síður væri. En mér fannst alltaf svo vont lyktin af ölinu og þá sérstaklega meðan það var að gerjast, að ég hef aldrei getað hugsað mér að drekka bjór. Fyrir utan brauðsöluna, var líka seld mjólk þarna og svo var ölstofa inn af búðinni.
Við bjuggum í einu herbergi inn af búðinni fyrst eftir að við komum frá Akureyri, mamma, pabbi og við þrír krakkarnir. Þá var húsið bara ein hæð og ris, en þar uppi sváfu tvær stúlkur sem unnu í búðinni.
Palli í Skarðdal vann líka í bakaríinu og þurfti að ganga um langan veg að heiman og heim. Hann fékk því oft að gista uppi sjá stúlkunum og gekk það vandræðalaust fyrir sig þó að herbergið á loftinu væri bara eitt.”
Að morgni 20. maí 1932 brann Haugasund til kaldra kola, en það var tveggja hæða timburhús sem stóð sunnan Aðalgötunnar, nokkurn vegin beint á móti þar sem nú er Torgið.
Eldurinn kviknaði frá olíuvél, en verið var að bika gólf uppi í vesturendanum þar sem var ljósmyndastofa. Magnaðist eldurinn svo fljótt að húsið varð alelda á svipstundu, en fólk bjargaðist án þess slys yrði af.
Húsið var í eigu þeirra Hinriks Thorarensen læknis og Gunnars Bíldal frænda míns. Í húsinu voru tvær sölubúðir og brunnu allar vörubirgðir. Húsið ætti að hafa verið númer 33 við Aðalgötu samkvæmt núverandi skipulagi, en meðan það stóð hefur eflaust ennþá verið talið ofan frá.
Miðað við gamla skipulagið ætti t.d. Sparisjóðurinn og Apótekið að vera Aðalgata 1 sem Tóraturnarnir voru áður. Heimildum ber heldur ekki alveg saman, því þegar Mbl. birtir litla frétt um brunann er húsið sagt vera við Suðurgötu. og verið er að byggja "Kjötbúðina" Konurnar til vinstri standa á Túngötunni, þar sem "Tórahornið" fræga var. Sparisjóðurinn og Apótekið er nú til húsa árið 2015.