Leó skrifar um Andakofann og

Ég hef sennilega ekki verið meira en sjö eða átta ára þegar afi spurði mig eitt sinn hvort ég vildi ekki koma með sér í vinnuna daginn eftir.

Ég þyrfti þá að vakna snemma og við myndum taka með okkur nesti.

Þetta var alveg nýtt fyrir mér því yfirleitt var það ég sem laumaðist að heiman og niður í slipp, svo dvaldist ég þar í lengri eða skemmri tíma allt eftir því hvað mér var þóknanlegt hverju sinni.

Ég skrapp líka oft í heimsókn yfir götuna á Rauðkuverkstæðið til hans Halla Þór, en hann var mikill vinur minn. Ég held nú samt svona eftir á að hyggja að þeim sem þar störfuðu hafi nú stundum fundist að ég vera full þaulsætinn en þetta voru allt saman fínir karlar sem voru alveg ótrúlega þolinmóðir þó að ég væri eitthvað að flækjast fyrir og þreytti þá eflaust stundum með endalausu masi og spurningum um allt og ekkert.

Ég var nú aldeilis alveg viss um að ég vildi koma með þennan dag í vinnuna með afa og fór því snemma að sofa þrátt fyrir að ég væri svolítið spenntur.

Ég var síðan vakinn rétt upp úr klukkan sex morguninn eftir og skömmu síðar vorum við lagðir af stað ágætlega nestaðir.

Í einum kaffibrúsa var svarta kaffið hans afa en mjólk í öðrum sem var ætluð mér og svo vorum við með alveg ósköpin öll af smurðu brauði. Þegar við komum niður í slipp var óvenju mannmargt á kaffistofunni en Halli Þór hafði sig óvenju mikið í frammi og það lá einhvern vegin í loftinu að sú atburðarás sem var að fara í gang þennan dag snérist að mestu um hann en ég vissi bara ekki alveg hvernig.

Fljótlega fóru menn að búa sig til ferðar og gengu út en ég elti. Þeir sem fyrstir fóru settust inn í bifreiiðinni F-211, en undir stýri sat Halli Alberts. Hinir klifruðu upp á pallinn og þangað var mér líka skutlað, en síðan var ekið af stað. Það var haldið inn í fjörð, framhjá Steinaflötum og fjárréttunum, en þangað hafði ég nú stundum komið áður.

Síðan kvíslaðist vegurinn hjá litla dæluhúsinu og í stað þess að beygja upp í skarð eins og ég bjóst frekar við, var beygt til vinstri og ekið inn í Hólsdalinn en það svæði var alveg ókannað land fyrir mér. Þar sem Skarðdalsáin rann saman við Hólsána var svo numið staðar, en þar var svo sem ekkert að sjá annað en einhverja spýtnahrúgu í grasinu og nokkrar fífur sem stóðu upp úr mýrlendinu.

Þarna fóru samt karlarnir að velta fyrir sér einhverjum hlutum sem ég skildi svo sem ekki hverjir voru en sá að það var búið að reka niður einhverja hæla ofan í jörðina, strengja band á milli þeirra og jú, þarna stóðu líka nokkrir staurastubbar upp úr jörðinni. Ég fór að skoða mig um í nágrenninu og sá að lengra upp með ánni var fullt af litlum "jólatrjám". Undarlegt að einhver skuli hafa komið þeim fyrir svona fjarri mannabyggðum.

Það voru mörg tré í görðunum heima á Hverfisgötunni og reyndar víðar um bæinn en hver skyldi nú vilja hafa garðinn sinn þarna? Ég gekk áleiðis að þessum gróðurreit en staðnæmdist

við girðinguna sem var greinilega vel við haldið og svo var einhver þarna að bogra yfir hríslunum.

Nokkrum árum síðar þegar ég var sjálfur farinn að gróðursetja tré þarna í unglingavinnunni áttaði ég mig á að þarna mundi nágranni minn og hugsjónamaðurinn Jóhann Þorvaldsson hafa verið. Ég gekk því til baka og fór niður að Hólsánni þar sem ég undi mér þar til kallað var á mig í kaffi. Eftir það datt mér í hug að gá hvort ég fyndi einhver ber en þau sem ég fann voru öll græn og ekkert lík þeim sem ég hafði fengið út í skyrið haustið áður.

Um hádegisbilið var farin að koma svolítil mynd á verkið þarna inni í firðinum og afi sagði mér að ofan á þessa bita sem væru nú komnir ofan á staurana, kæmi gólfið í húsinu sem þarna var byrjað að byggja. Það var ekið í bæinn og við afi stukkum af bílnum á Lindargötunni rétt sunnan við Bakkabúðina sem var í kjallaranum á húsinu þar sem Kiddi G. býr núna. Ég spurði afa hvort ekki væri hægt að fara þarna inneftir um jólin til að ná í eins og eitt jólatré en hann taldi það ekki myndi verða vel séð.

Nokkru síðar fékk ég að fara aftur á þennan sama stað en þá var margt breytt. Þarna var risið hús og íbúarnir fluttir inn. Þeir voru vel fiðraðir og ýmist kvökuðu, gögguðu eða göluðu. Mér fannst þessir fuglar vera ógnarstórir og það var ekki laust við að ég væri svolítið smeykur við þá en kannski var það bara ég sem var svona lítill.