Tengt Siglufirði
MAÐURINN SEM “FANN UPP” PENINGALYKTINA
Hans Söbstad var skipstjóri sem kom til Siglufjarðar í upphafi ævintýrisins mikla árið 1904. Hann var frá Kristiansand í fylkinu Mæri sem er nyrst í vesturhluta Noregs, norðan við Sogn en sunnan Þrændalaga. Hann tók strax á leigu stóra sjávarlóð á eyrinni norðaustanverðri þar sem SR. byggði síðar upp verksmiðjur sínar og hófst þegar handa við að reisa síldarplan auk íveruhúsa, geymsluhúsnæðis og fl. Hann virðist hafa strax í upphafi átt eða þá mjög fljótlega eftir komu sína hingað þrjá litla gufubáta sem báru nöfn sona hans, Haakon, Harald og Erling. Síðar Eignaðist hann vélbátinn Brödrene. Hann gerðist “formlegur” Siglfirðingur árið 1910 og hafði eftir það fasta búsetu á Siglufirði eitthvað fram á þriðja áratug síðustu aldar.
Benidikt Sigurðsson segir í bókinni “Siglufjörður 1818-1918-1988” um Hans Söbstad að hann hafi verið mikill atorkumaður og dugnaðarmaður, drengskaparmaður mikill, hugrakkur, en þó gætinn, glettinn og gamansamur í hópi vina og kunningja ef því var að skipta, hár maður vexti og myndarlegur.
MAÐURINN SEM “FANN UPP” PENINGALYKTINA
Einhverju sinni hafði einn kunningja hans orð á því að grútarlyktin úr bræðslunni hans væri ekki sem best. Söbstad hugsaði sig um stundarkorn en sagði síðan: “Ja, men pengene lugter ikke stygt”. Síðan hefur lyktin frá bræðslunum gjarnan verið nefnd “peningalykt” þrátt fyrir að hún hafi farið misvel svo ekki sé fastara að orði kveðið, í nasir bæjarbúa og annarra þeirra sem hafa fengið að njóta.
STÆKKAÐI HÆGT EN ÖRUGGLEGA
Söbstad jók við starfsemina smátt og smátt, ár frá ári og bætti við bryggjur sínar og hús eftir því sem reksturinn stóð undir í lok hverrar vertíðar. Eftir að hann hóf að salta síld strax í upphafi, hóf hann einnig að bræða þennan silfraða fisk. Til að byrja með hafði hann hvorki yfir að ráða dúkapressu né þurrkofni. Lét hann þá aðeins fleyta lýsið ofan af suðukötlunum, en henti maukinu sem eftir stóð út í tjörnina sem þá var vestan við bræðsluna. En fljótlega kom hann sér upp bæði pressu og ofni og gat þá einnig farið að framleiða mjöl sem stórbætti afkomuna. Hann hóf einnig hákarlaútgerð og eftir góð síldarár 1915 og 1916 kom hann á fót hinni fyrstu tunnuverksmiðju hérlendis. Hún tók til starfa árið 1917 og afkastagetan var talin u.þ.b. 250 tunnur á dag.
SJÓNIN DAPRAST
Eftir að Söbstad var kominn yfir miðjan aldur tók sjón hans að versna mjög hratt, en áræði hans og þor virtist vaxa í öfugu hlutfalli við þá dapurlegu þróun. Um vorið 1919 lét hann endurbyggja vélbátinn Brödrene inni á Akureyri og setja í hann nýja vél, en einnig þetta sama ár byggði hann stóra viðbyggingu við bræðsluna. Þá mun hann hafa verið orðinn nær blindur, því sagt er að hann hafi fetað sig upp í rjáfur hins nýja húss, þuklað þar á sperrum og þannig viljað fullvissa sig um að tryggilega væri frá öllu gengið.
ÓGÆFAN DYNUR YFIR
Þann 6. júlí 1919 varð eldur verður laus í bræðslunni og brunnu öll hús hans nema ein steinsteypt geymsla og var ævistarf hins blinda manns þarna nær að engu orðið. Hann sá ekki eldinn sem eyddi húsum hans , en fann aðeins hitann frá eldinum og skynjaði að öll hans atorkusemi og sparnaður var þarna orðinn að dufti og ösku. Þá er sagt að hann hafi verið leiddur á brott grátandi eins og lítið barn.
Kjarkur hans var þó óbugaður því varla voru rústirnar orðnar kaldar þegar hann fór að huga að endurbyggingu húsanna. Hann gerði út og saltaði síld í nokkur ár eftir brunann, en efnahagurinn virðist aldrei hafa náð sér á fyrra strik eftir þetta mikla áfall. Árið 1921 eignaðist Hafnarsjóður eignir hans, en ekki liggur fyrir hvort þar eð lauk starfi þessa mæta borgara á Þormóðseyri eða hann saltaði eitthvað eftir það.
Síldarvinnslustöð H. Söbstad brann þann 7. Júlí 1919 Ljósmyndari: Sveinbjörn Jónsson byggingameistari Akureyri - Ólafur Magnússon ljósmyndameistari í Reykjavík (Mbl.) stækkaði og litaði myndina árið 1924 –
ENDALOKIN
Synir hans störfuðu með föður sínum á Siglufirði meðan hann stóð að rekstinum þar. Harald lést árið 1915 og er jarðsettur á Siglufirði, Haakon Pétur gerðist verksmiðjustjóri á Hesteyri og lést hérlendis, en Erling sem starfaði mest með föður sínum, virðist hafa farið úr landi um svipað leyti og hann. Kona Söbstad og Hanna dóttir hans voru á leið til landsins frá Noregi þegar bruninn varð og komu þær að föllnum húsum og áður blómlegri starfsemi sem virtist vera að engu orðin. Hans Söbstad hvarf af landi brott snemma á þriðja áratug síðustu aldar og settist þá að í Bremnesi við Kristiansand, en þaðan var hann ættaður.
Að sögn mun hann hafa látist þar árið 1926.
Heimildir eru að mestu leyti fengnar úr bókinni “Siglufjörður 1848-1918-1988” en svarthvíta myndin af brunanum er úr safni Gunnars Bíldal.
Meira tengt Söbstad http://www.mbl.is/greinasafn/grein/740545/?hc_location=ufi
Aðsend athugasemd: Kristiansand er syðst í Noregi, en á Mæri er Kristiansund.