Leó: viðtal við Árna Þórðarson- Skrifað 2. nóvember 2011

Ég var eitt sinn á röltinu um Aðalgötuna á Siglufirði um sumarið 2011 þegar ég rakst á hann Árna sem ég hef ekki séð í áratug eða svo. Hann stóð fyrir framan Sparisjóðinn og spjallaði við nokkra sveitunga sem höfðu staldrað við til að heilsa upp á þennan ágæta dreng sem sést reyndar ekkert allt of oft á heimaslóðum. 

“Heyrðu Árni, við þurfum að spjalla svolítið saman við svolítið rólegri og einangraðri aðstæður” sagði ég en hann hváði svolítið skilningsvana.

“Jú, við þurfum að rifja upp kajakárin á Leirunum, næstu ár á eftir og svo vil ég fá að vita hvað þú ert að gera í dag.”

 Þá kviknaði á perunni og hann áttaði sig á hvert ég var að fara. Það var auðsótt mál og daginn eftir leit hann inn í kaffi og við tókum tal saman.

 Og Árni Þórðar sagði mér m.a. frá veiðunum við Afríkustrendur.

Árni Þórðar - Smelltu á myndina, hún færist neðar, stærri

Árni Þórðar - Smelltu á myndina, hún færist neðar, stærri

 Við Íslendingar tölum stundum um að við eigum heimsins bestu fiskimið, séum með besta fiskveiðikerfið og jafnvel duglegustu sjómennina, en það hefur lengst af verið minna í umræðunni að Íslendingar hafi verið að fóta sig erlendis. Færeyskir skipstjórnarmenn hafa hins vegar farið um allt og þvælst um öll heimsins höf hjá hinum og þessum þjóðum. Ég var búinn að vera að fylgjast með því hvað Sjólaskipin voru að gera niðri í Afríku og það kitlaði mig svolítið. 

Ég byrjaði að vinna hjá Samherja. Þetta var ungt fyrirtæki og í bullandi uppsveiflu. Það var margt prófað og gerðar alls konar tilraunir, þetta var skemmtilegur tími og ég var að vinna þarna með mjög skemmtilegu fólki. Ég fór túr og túr á erlendu skipunum, var stundum niðri í Þýskalandi í Kiel og hér og þar. Það var farið í Barentshafið, á Flæmska hattinn og víðar. Ég var skipstjóri á Baldri Þorsteinssyni þegar það fékk nótina í skrúfuna og lenti upp í fjöru á Skeiðarársandinum hérna um árið.

Það var ansi mikil lífsreynsla en til allrar hamingju slasaðist enginn og skipið náðist út. Einhverjum árum eftir það átti svo að færa mig alfarið yfir á erlendu skipin þeirra, en þá hætti ég. Ég hafði staldrað við lengur en á nokkrum öðrum stað eða í heil 15 ár og var búinn að fá nóg í bili. Þetta var líka hætt að vera gaman, fyrirtækið og stefna þess var breytt og eignarhaldið líka.

 Sjólabræður í Hafnarfirði byrjuðu með eitt skip niður við norðvesturströnd Afríku sem fjölgaði í þrjú og síðan í sex. Ég byrjaði hjá þeim árið 2005 og var þar í svolítinn tíma. Það er veitt undan ströndum Marokkó, Vestur-Sahara, Máritaníu og suður undir Senegal 25-30 þúsund tonn á ári. Aflinn er aðallega sardína, sardinella, makríll og svokallaður hestamakríll sem er sprettharður og skemmtilegur fiskur og ekki ósvipaður bleikju á bragðið. Sardinella er stundum kölluð Afríkusíld, lítur út eins og frekar stór síld en litskrúðugari og beinastærri.

 Við hjónin fluttum niður á Grand-Kanarí og höfum búið þar síðan. Útgerðin er eiginlega rekin þaðan og í Las Palmas er stór slippur þar sem skipin koma til viðhalds og viðgerða u.þ.b. annað hvert ár. Ég byrjaði á spænsksmíðuðu skipi sem er 108 metra langt og 20 metra breitt. Upphaflega hafði það verið smíðað fyrir Rússa og er sams konar og Engey, en þessi skip taka 2500-3000 tonn af frystum afurðum í lestar.

Skipið er raunar eins og fljótandi verksmiðja, allur fiskur sem kom um borð var stærðar og tegundaflokkaður, síðan frystur og þarna er líka mjölvinnsla. Afurðirnar fara síðan á markað í norður og vestur Afríku, eða allt frá Nígeríu til Egyptalands og telst vera tiltölulega ódýr. Árið 2006 er svo Samherji aftur kominn inn í myndina þegar það fyrirtæki kaupir Sjólaskip. Ég kláraði þá samninginn minn og hætti, það voru komnir nýir húsbændur og okkur samdist m.a. ekki um laun.

 Mér bauðst að taka við skipi sem íslenskir aðilar voru nýbúnir að kaupa. Það er 126 metra langt, 19 metra breitt og með 104 karla í áhöfn. Hún samanstendur af 80 Rússum, 20 Máritaníumönnum og svo erum við 4 Íslendingarnir. Þetta er um 8000 tonna skip og tekur 2300 tonn í lestar af frystum fiski. Það var eitt af allmörgum skipum sem Þjóðverjar smíðuðu um 1990 fyrir Rússa sem hluta af stríðsskaðabótunum sem þeir voru þá enn að greiða. Ég er búinn að vera þarna um borð síðan, eða um tvö ár og þessi Afríkuár hafa verið minn skemmtilegasti tími á sjó. Þarna eru veðurfarið gjörólíkt því sem við þekkjum af Íslandsmiðum og svo er maður líka laus við þetta bölvaða kvótakerfi eins og það er hérna heima.

 Til marks um veðurfarið gerðist það fyrir stuttu síðan að tveir karlar voru að fara á slöngubát á milli skipa, en þá vildi ekki betur til en svo að honum hvolfdi. Það var enginn stressaður yfir því, þeir voru í björgunarvestum og sjórinn var 22-24 gráður. Við vorum að hífa og kláruðum það en fylgdust auðvitað vel með þeim. Þá rak svolítinn spöl frá okkur, en að lokinni hífingu náðum við í þá. Þeir voru hinir sprækustu eftir hálftíma í sjónum og fannst þetta ekkert stórmál.

En það er líka ýmislegt sem kom manni spánskt fyrir sjónir, t.d. samskipti við heimamenn og þá ekki síst yfirvöld, herinn eða strandgæsluna. Þá koma oft upp ýmsir spaugilegir fletir, en yfirleitt eru öll vandamál leyst á sama veg. Töfraorðið er undantekningarlítið “present” og þá er allt komið í lag og allir orðnir vinir manns. Maður þarf að hafa eitthvað tiltækt til að gefa þeim sem sjá um eftirlit og það þarf ekki alltaf að vera merkilegt.

 Herinn sem sér um gæsluna sendir nokkuð reglulega menn um borð og þeir byrja alltaf á að tala um “present” og eiga það jafnvel til að prútta um væntanlega gjöf. Ef ekki er brugðist nógu fljótt við að þeirra mati, byrja þeir að leita að einhverju sem hægt væri að setja út á. Einum fiski sem er eitthvað aðeins styttri en reglugerðir segja til um, pappírum sem eru ekki rétt fylltir út eða bara einhverju.

En öll svona mál leysast á endanum með “present.” Þegar maður sér ástandið hjá þessu fólki er kannski ekkert erfitt að skilja þessa hlið kúltúrsins því þarna er varla nokkuð til af neinu. Vörubretti eru t.d. ágætur gjaldmiðill og fyrir nokkur slík er búin að tryggja mjög góðan friðargrundvöll. Þau eru rifin sundur þegar í land er komið og timbrið notað til að byggja kofa í fátækrahverfunum, en í útjaðri Nouadhibou eru stærðarinnar hverfi byggð úr eurobrettum.

 Yfirleitt eru þessir kofar eins og eitt hverbergi að stærð og fólk deilir því með geitunum sínum. Sorpinu er svo fleygt við vegkantana og þá koma geiturnar aftur við sögu, því þær éta það úr því sem ætilegt er en hitt hverfur smátt og smátt í sandinn. Það er ekki laust við að það sé svolítið broslegt að sjá þessi grey stundum japlandi á plastpokum og svoleiðis dóti.  Ég held að herinn sé að minnsta kosti tvisvar sinnum búinn að taka völdin síðan ég kom þarna, en hann er það sem við sjáum einna mest af landsmönnum. Þegar þeir koma til að fylgjast með umskipun og fá sínar eða sitt “present,” virðist þeim stundum vera svolítið stýrt úr landi. Ef það er eitthvað strögl í gangi um hve miklu telst hæfilegt að gauka að þeim þurfa þeir gjarnan að hringja upp á land.

En þeir eiga það líka til að gefa okkur gjafir og ég á orðið arabaklæðnað sem dugar mér fyrir lífstíð og jafnvel þó ég myndi nota hann mikið. Annars eru þetta fínir og spjallgóðir náungar upp til hópa, en þeir trúa því hins vegar alls ekki þegar við segjum þeim að við eigum bara eina konu og hún ráði öllu. Það gengur ekki upp í þeirra huga að við Íslendingarnir stjórnum skipunum og veiðunum, Rússunum og hreinlega öllu um borð, en eigum svo bara eina konu sem ráði öllu. Það geti ekki verið því við séum greinilega ekki svona vitlausir.

 Annars á venjulegur Arabi yfirleitt bara eina konu, en þeir mega eiga fjórar. Svo skrýtið sem það er þá eru það yfirleitt þeir verr stæðu sem eiga fleiri konur og mér er næst að halda að ástæðan sé einhver metingur eða minnimáttarkennd. Ég hef stundum verið að segja við þá að fjórar konur þýði ekkert annað en fjórfalt vandamál, en þeir vilja nú hafa sína skoðun á því. Þeir fyllast samt greinilega talsverðri lotningu þegar ég segi þeim að ég eigi 13 börn með þremur konum og finnst það öllu trúlegra en hitt. Ég er auðvitrað ekkert að segja þeim að þá séu meðtalin barnabörn og barnabarnabörn.

 Máritaníumennirnir taka sína bænatíma eins og trúin segir til um og auðvitað Ramadan, sem er heldur meira mál úti á sjó. Þá má ekki neyta matar frá sólarupprás til sólarlags, en í landi eru þeir margir hverjir búnir að finna praktíska patentlausn á málinu því þeir sofa bara á daginn en vaka á nóttunni. Karlarnir eru líka svolítið misjafnlega trúræknir og stundum virðist ríkja talsverð hentistefna hjá þeim. Ef einhverjir eftirlitsmenn koma um borð sem virðast vera heittrúaðir verða þeir það líka um leið, en ef þeir eru frjálslyndir verða þeir alveg sultuslakir og mun minni tími fer í bænagjörð.

 Það kom manni svolítið spánskt fyrir sjónir að Máritaníumennirnir virðast ekki treysta hver öðrum nema upp að vissu marki og eiginlega alls ekki þegar um peninga var að ræða. Þeir vilja t.d. alltaf fá það uppáskrifað frá okkur um borð hvað þeir eigi að fá mikil laun á skrifstofunni þegar þeir koma í land í frí og svoleiðis. Það er eins og þeir reikni með að það verði reynt að prútta við þá eða eitthvað í þá áttina. Ég held að þetta sé tilkomið vegna þess hve alls konar mútur og sporslur eru samgrónar þjóðarsálinni. Allir sem koma nálægt nánast hverju sem er, reyna að klípa svolítið af kökunni fyrir sig. Einu sinni þegar ég var að fara á sjóinn frá Kanarí, kom að máli við mig umboðsmaður einhvers fyrirtækis eða útgerðar og spurði hvort ég gæti tekið fyrir sig svolítinn pakka til Afríku. Jú, jú, ég taldi það vera lítið mál, en þegar til kom reyndist pakkinn vera hálffullur bakpoki af dollaraseðlum.

Mér leist hreint ekki á innihaldið, en þar sem ég var búinn að gefa manninum vilyrði mitt vildi ég klára málið þrátt fyrir allt. Ég var ekkert sérlega rólegur þegar ég lagði upp í ferðina og gekk inn í flughöfnina á Kanarí, en um leið og ég var kominn inn úr dyrunum var ég kallaður upp og beðinn að hafa samband við tollafgreiðsluna. Það fór um mig og ég velti fyrir mér í hvern skrambann ég væri eiginlega búinn að flækja mér. Ég nálgaðist afgreiðsluna með hálfum huga og sá að þar var maður með einhverja bankapappíra.

Mér datt í hug að nú yrði ég tekinn og krossfestur fyrir að reyna að smygla dollurum úr landi eða eitthvað þvíumlíkt, en þetta gekk allt saman fljótt og vel fyrir sig. Aðeins þurfti að skrá að peningasending væri á leið úr landi og ég kvittaði fyrir. Ég varpaði öndinni léttar og hugsaði mér að magaverkurinn sem ég hafði fengið hefði verið með öllu óþarfur.

 Ég gekk út í vél og það var flogið yfir hafið til Máritaníu. Ég rölti frá borði og gekk inn í flugstöðina, en veit þá ekki fyrr en mér er kippt inn í herbergi og öllum útgönguleiðum lokað með það sama. Tollarinn dregur upp einhvern ógurlegan doðrant og mér dettur strax í hug að nú vilji einhver embættismaðurinn fá sinn bita af kökunni, eða ég sitji annars eftir í verulega vondum málum. Þarna talar varla nokkur maður ensku, franska er hins vegar annað tungumál í landinu sem ég skil ekki baun í.

Ég sá því fram á að líklega yrði ég kominn á bak við lás og slá áður en dagurinn yrði allur. En þegar til kom reyndist maðurinn hinn almennilegasti og vildi bara fá staðfestingu á að féð sem fór frá Kanarí væri komið til Máritaníu. Síðan mátti ég bara fara og það þurfti ekki að borga neinum neitt sem mér fannst alveg með ólíkindum í þessu landi. Þegar upp var staðið reyndist þetta aðeins vera önnur útfærsla af sögunni um úlfaldann sem varð til úr mýflugu.

 Svo er maður alltaf að heyra af því að þarna sé enn þrælahald. Það hefur jafnvel hvarflað að manni að einhverjir sem eru um borð gætu jafnvel verið að vinna fyrir húsbónda eða eiganda sinn. Þegar arabarnir koma fyrst um borð eru þeir undantekningarlítið mjög holdlitlir, en nokkuð fljótir að taka við sér og verða mun pattaralegri. Þetta fjölþjóðlega samfélag um borð vinnur mjög vel saman og vandamál vegna mismunandi þjóðernis eru fátíð. Ég segi öllum það strax og þeir koma að rasismi sé ekki liðinn og áfengi stranglega bannað.

Ef einhverjar ryskingar verða á milli Rússa og Araba, þá er það ófrávíkjanleg regla að báðir aðilar fara strax í land. Rússarnir eru líka þvílíkir Vodkaþambarar að upplagi að það þýðir ekkert annað en að taka á málinu af festu og þeir vita að ef þeir hella í sig eru þeir þar með farnir af skipinu.

 Einhvern tíma varð ég að láta einn Rússann fara, félagar hans voru þá ákveðnir í að setja mér stólinn fyrir dyrnar og sögðu að ef ég léti hann fara þá færu þeir allir. Þá var birgðaflutningaskip á síðunni á okkur, ég gaf ekkert eftir og bað þá að gera lista yfir þá sem vildu fara. Þeir gætu síðan fengið far í land með skipinu þegar það legði frá, en ég fékk aldrei listann og það fór enginn í land nema þessi eini. Einstaka sinnum koma svartir menn um borð og þá fær maður stundum þá ónotalegu tilfinningu að kannski séu þeir í raun þrælar og eign einhverra araba sem þeir séu að vinna fyrir.

Forsenda veiðileyfis er m.a. sú að viss hluti áhafnar verður að vera frá Máritaníu. Það hefur stundum komið í ljós og þá gjarnan eftir á, að sá sem var í raun skráður um borð, mætti aldrei þangað í eigin persónu heldur sendir einhvern annan fyrir sig. Og hvernig sem á því stendur, þá er sá sem kemur undantekningarlítið svartur.

 Það er nánast aldrei farið í land vegna þess að það er varla hægt að komast neins staðar að bryggju á svona stórum skipum, en á þessu svæði eru að jafnaði 40-50 svona stórir dallar að veiðum. Spánverjar og Evrópusambandsskipin veiða þarna líka, en mikið af þeim eru venjulegir skuttogarar og fiska botnfisk, rækju, kolkrabba og smokkfisk. Nouadhibou er hafnarborg nyrst á strandlengjunni og þangað er um klukkutíma flug frá Kanarí, en það er aðeins lengra til Nouakchott sem er nokkru sunnar. Þessar borgir eru svo gott sem eina byggðin við ströndina, en annars endar Sahara eyðimörkin bara þar sem hafið tekur við.

 Fiskifræðingar halda því fram að sandurinn sem fýkur út í sjó geti vel verið lykillinn að fiskigengdinni undan ströndinni, því hann innihaldi einhver snefil og næringarefni sem nýtist lífríkinu. Það fjúka milljónir tonna af sandi á haf út og stundum er eins og skafrenningurinn hérna heima hafi flutt sig um set. Ég hef séð menn koma úr landi þegar hann hefur blásið svolítið stíft og það er engu líkt. Þrátt fyrir að þeir séu með gleraugu og vafðir inn í klúta, eru öll vit full af sandi og þeir þurfa hreinlega að moka út úr eyrunum á sér þegar út í skip er komið. Veiðisvæðið nær allt suður undir Grænhöfðaeyjar og í áttina norður til Kanarí þegar samningar eru í gildi við Marokkó, sem er svona stundum og stundum ekki.

Veiðisvæðið getur því náð allt að 600 mílur meðfram landi. Undan ströndinni eru víða miklir álar, gríðarlegir straumar og því greinilega mikil neðansjávarátök. Svo eru líka nokkur alveg steindauð svæði þar sem allt rusl sem fer í hafið virðist safnast saman á hvernig sem á því stendur.

 Stundum höfum við séð flóttamannabátana sigla fram hjá okkur á leið til Kanarí. Yfir eina helgi fyrir nokkrum árum komu rétt upp undir 1000 flóttamenn þar á land þessa leiðina. það er að vísu talsvert yfir meðaltali, en þetta vandamál er samt alveg risastórt. Þarna er á ferðinni fólk sem reynir að komast inn í Evrópu í gegn um Kanarí í leit að betra lífi. Þetta eru síður en svo einhverjar glæsifleytur sem eru gerðar út á þessa fólksflutninga, heldur eru þetta bátar á stærð við áttæringa eða eitthvað svoleiðis og undantekningarlaust miklu meira en yfirfullir af fólki.

Til allrar hamingju hefur ekkert af þessum fleytum sokkið neins staðar nálægt okkur og við höfum því aldrei þurft að taka flóttafólk um borð, en það yrði alveg örugg ávísun á verulega mikil vandræði.

 Einhverju sinni lagðist fraktari að hjá okkur til að taka fisk og skipstjórinn sem var Rússi bauð mér tvo svarta þræla sem höfðu laumast um borð í Kamerún. Hann vissi vel að mikið vesen beið hans þegar hann kæmi næst til hafnar og var alveg á tauginni yfir þessu. Ég afþakkaði boðið og hélt auðvitað að hann væri að grínast, en komst að því að svo var alls ekki. Áður en hann lagði aftur frá kom hann til mín, ítrekaði boðið og spurði hvort ég hefði ekki hugsað málið.

Skipið færi nánast aldrei í land, heldur aðeins áhöfnin og það væri því upplagt að nota þá til vinnu. Þeir vildu alls ekki fara til baka, þeim væri auðvitað ekki boðið upp á nein laun og það eina sem þyrfti að gera væri að fóðra þá. Hann bauðst jafnvel til láta mig hafa nokkrar flöskur af Vodka í meðgjöf. 

Önnur skrif þar sem Árni kemur við sögu: http://www.sk2102.com/436700657

 

Skipið hans Árna

Skipið hans Árna