Leó skrifar um Kæjaka og - Skrifað 9. október 2011

Ég var á röltinu um Aðalgötuna á Siglufirði fyrir fáeinum árum, þegar ég rakst á hann Árna sem ég hef ekki séð í áratug eða svo. Hann stóð fyrir framan Sparisjóðinn og spjallaði við nokkra sveitunga sem höfðu staldrað við til að heilsa upp á þennan ágæta dreng sem sést reyndar ekkert allt of oft á heimaslóðum.

“Er þetta virkilega hann Árni” hugsaði ég þegar ég nálgaðist, “jú, þetta er alveg örugglega hann Árni Þórðar.” Hann heilsaði mér með miklum virktum eins og við búast mátti af honum og ég bætti sjálfum mér í spjallhópinn. Þar sem við stóðum þarna, minntist ég þess að ég hafði tekið með mér diktafóninn norður og hugsaði þá með mér að nú bæri virkilega vel í veiði.

“Heyrðu Árni, við þurfum að spjalla svolítið saman við svolítið rólegri og einangraðri aðstæður” sagði ég en hann hváði svolítið skilningsvana.
(Viðtalið er hér: http://www.sk2102.com/436700304 )

“Jú, við þurfum að rifja upp kajakárin á Leirunum, næstu ár á eftir og svo vil ég fá að vita hvað þú ert að gera í dag.”

Þá kviknaði á perunni og hann áttaði sig á hvert ég var að fara. Það var auðsótt mál.

Daginn eftir leit hann inn í kaffi og við tókum tal saman.

Viðtalið birtist svo í heild sinni á siglo.is í mars 2011 en síðar sá hluti þess sem fjallað er um útgerð og veiðar undan Afríkuströndum í tímaritinu fiskifréttum. Birgir Ingimarsson safnaði saman og gerði tilbúnar til birtingar allt það myndefni sem fylgdi. Mér datt í hug að einhverjir áhangendur þessarar síðu gætu hugsanlega haft gaman af svolítilli upprifjun og hér að neðan er sá hluti hennar sem fjallar um bernskuárin og nálægðina við Leirurnar, Öskuhaugana, Sanddæludýpið og Steinprammana. Sjávarborg og kajakútgerðina og ýmislegt fleira.

Gefum þá Árna orðið:

Mig minnir að upphafið hafi verið með þeim hætti að við vorum nokkrir strákar á samkomu í Herkastalanum og þar voru sýndar myndir af kofum sem voru byggðir á staurum úti í sjó. Þetta þótti okkur alveg rosalega flott og við vildum endilega reyna þetta líka. Það voru því í framhaldinu nokkrir guttar af Laugarvegsendanum sem stóðu saman að þessu framtaki, þ.e. ég, Þórður bróðir, Kiddi og Árni Haralds, Baddi og Kjartan Óla, Maggi Ben, Brandur Jóns, Bjössi Ingiborgar og vonandi gleymi ég engum.

Við byrjuðum á því að ná okkur í tóma kapalrúllu á haugunum og rúlla henni suður Leirurnar. Þar var hún lögð á hliðina og varð undirstaða byggingarinnar. Við drógum að okkur allt það timbur sem við náðum í. Mikið af því kom úr snurpunótarbátunum á Langeyrinni, en auðvitað alveg heill hellingur af haugunum. Á þessum tíma var Jón Björnsson að byggja og hann gaf okkur hálffulla tunnu af bognum nöglum úr uppslættinum sem var mikil búbót og entist okkur lengi.

Við byrjuðum á að reisa kofa ofan á rúllunni en þegar við áttum eftir að þekja, kom stórstraumsflóð og það flaut svo hátt yfir gólfið að stígvélin dugðu ekki einu sinni til að halda okkur þurrum í fæturna. Við rifum þá allt niður, byrjuðum upp á nýtt og að þessu sinni var tekið tillit til sjávarfallanna. Fyrst var aðeins einn kofi ofan á rúllunni, en seinna var prjónað við og byggingin stækkuð. Þetta var mikið ævintýri, við gistum stundum þarna og höfðum þá með okkur nesti og tilheyrandi. Samgöngur við Sjávarborg voru með tvennum hætti. Á fjöru var hægt að ganga þangað út, en þegar flæddi notuðum við auðvitað kajakana sem voru gerðir úr bárujárnsplötum. 

Miðvikudaginn 24. júní 1964 birtist stórskemmtileg frásögn í máli og myndum í Mogganum þar sem aðstandendur Sjávarborgarinnar voru teknir tali. Höfundur greinarinnar var Steingrímur Kristinsson sem veitti fúslega leyfi til birtingar hennar þegar leitað var efir því.

“HÉR á Siglufirði tóku nokkrir vaskir drengir sig saman fyrir skömmu og byggðu þar félagsheimili á staurum úti á sjó. Það er næstum fullbúið nú og hefur verið tekið í notkun. Húsið er 4 herbergi og gangur niðri, auk tveggja herbergja í risi Til flutninga til og frá húsinu, sem drengirnir nefna Sjávarborg, hafa þeir litla kænu. Ég er 80 kg að þyngd, en þeim óx ekkert í augum að ferja mig út í Sjávarborg þegar ég heimsótti þá á dögunum. Strákarnir stofnuðu í byrjun með sér félagsskap í þeim tilgangi að reisa hús þetta, þar sem þeir gætu stytt sér stundir. Lög félagsins voru ekki mjög flókin, enda aðeins í gildi meðan Sjávarborg var í byggingu. Þau hljóða svo: Allir skulu vinna að byggingunni meðan á verkinu stendur, en mæti einhver félagsmanna ekki til vinnu, skal hann greiða kr. 2.00 í sjóð, sem nota skal til að kaupa fyrir nagla og aðrar byggingavörur.  

Árni, gjaldkeri, sagði mér á ferjunni á Leiðinni út í Sjávarborg, að nauðsynlegt hefði verið að meðlimirnir fengju sér frí við og við, til þess að eitthvað kæmi í sjóðinn. Annars kvað hann mest af byggingarefninu hafa fengist í fjörunni og af öskuhaugunum, sem eru þarna í grenndinni. Meðlimir félagsins hafa að sjálfsögðu með sér verkaskiptingu. Kristján er forstjóri, arkitekt, trésmíðameistari og uppfinningamaður, Árni gjaldkeri, Magnús kokkur, Árni kyndari, Björn aðstoðarmaður, Kjartan hjálparkokkur, Þórður aðstoðarmaður, Björn aðstoðarmaður og Guðbrandur vélsög. Guðbrandur notar þó ekki vélsög við starfa sinna, heldur hefur verið skírður nafni þessu þar sem vinnubrögð hans í höndum þykja líkjast vélsög.   --   S.K.”

En viðtalið heldur svo áfram...

Kajakaútgerðin var svo auðvitað heill kapítuli út af fyrir sig eins og þeir vita sem til þekkja. Aðalefnið var bárujárnsplata sem helst þurfti að vera upp á 11 bárur, en það bárust auðvitað kynstrin öll af slíku efni á haugana. Það var hamast á henni með sleggju eða slaghamri og hún flött út og endarnir síðan brotnir saman utan um spýtustubba sem mynduðu stefni og skut. Yfirleitt var eitthvað um naglagöt á plötunni, en það var brætt í þau með stálbiki svo og auðvitað samskeytin til endanna.

Þá þurfti að búa til ár sem var oftast gerð út sóp eða hrífuskafti og masonít eða krossviðspjöldum sem voru negldar á endana. Þar með var farkosturinn tilbúinn og ekkert því til fyrirstöðu að sigla út á pollinn. En það var ekkert sérlega vel séð að krakkar úr öðrum hverfum kæmu á Leirurnar eða væru að sniglast um svæðið okkar. Ef einhverjir aðkomuguttar skildu kajakana sína eftir í fjörunni hjá okkur eða á haugasvæðinu að kvöldi, máttu þeir ganga að því sem vísu að þeir sigldu ekki framar því að morgni var undantekningarlítið búið að brjóta þá nokkuð snyrtilega saman.

Yfirleitt lét löggan okkur í friði ef við héldum okkur innan við stálþilið, en það kom þó fyrir að einhverjir voru að þvælast óþarflega langt út fyrir þilið, út á höfnina eða jafnvel alla leið yfir í Evangerrústirnar. Þá varð yfirleitt allt vitlaust og sú umræða blossaði jafnvel upp að þetta gæti verið hættulegt eða eitthvað svoleiðis. Í kjölfarið mátti þá búast við að löggan léti sjá sig á svæðinu og gerði jafnvel einhver fley upptæk sem okkur þótt ekki gott. Það breytti þó sáralitlu máli því einn eða tveir guttar sem kunnu þokkalega til verka gátu auðveldlega smíðað nokkra kajaka á dag.

Slíkar aðgerðir heyrðu þó frekar til undantekninga, en ég vissi að það var mun betur fylgst með kajakaútgerðinni í Hvanneyrarkróknum sem var líka talsverð. Ég sagði það einhvern tíma við hana mömmu gömlu að ef foreldrar liðu krökkum það í dag sem við komumst upp með á sínum tíma, væri viðbúið að barnaverndaryfirvöld gripu inn í og það jafnvel með einhverjum afgerandi aðgerðum. En frjálsræðið var næstum því algjört, við vorum farin út um leið og við vöknuðum, komum kannski heim ef við vorum svöng og svo aftur rétt til að sofa yfir blánóttina.

Við vorum alltaf eitthvað að busla í sjónum og við fjöruborðið, en á þessum tíma runnu fimm eða sex litlir opnir lækir út í fjöruna milli öskuhauganna og Langeyrar. Þetta voru síður en svo einhverjar tærar lindir, því að í þá voru tengd frárennsli syðsta hluta suðurbæjarins. Við gengum stundum milli þeirra, töldum smokkana sem lágu þar milli fjörusteinana og reyndum að heimfæra þá upp á íbúana í húsunum fyrir ofan. Þetta hefur líklega verið okkar fyrsta lexía í líkindareikningi. Einu sinni fluttu ung hjón í hús sem stóð mjög sunnarlega í bænum og þá fjölgaði smokkunum verulega í einum læknum sem okkur fannst alveg rosalega fyndið. En fjaran var líka baðströndin okkar, þarna busluðum við heilmikið á sumrin og engum varð meint af.

Við vorum líka mikið úti í steinprömmunum sem Óskar Halldórsson flutti inn á sínum tíma. Þar gerðum við alls konar tilraunir m.a. með fiskeldi. Inni í þeim var alla jafna flóð og fjara, en við stífluðum götin sem höfðu verið gerð undir sjólínu og slepptum síðan seiðum í þá. Við reyndum að rækta silung, kola og e.t.v. eitthvað fleira en það skilaði nú litlum árangri. Haugarnir voru líka sá hluti af leiksvæðinu sem skipti ekki minnstu máli, því þar mátti finna ótrúlegustu hluti. Ef bíll sást koma þangað og losa eitthvað drasl, var eins víst að eftir stutta stund væru nokkrir guttar komnir hlaupandi og farnir að gramsa í því leitandi að einhverju nýtilegu eða bara af einskærri forvitni. Stundum söfnuðum við þar heilmiklu af gosflöskum sem við seldum síðan niður í bæ og náðum í einhverjar krónur sem við nýttum til efniskaupa eða bara í gotterí.

Á veturna vorum við mikið á skautum í mýrinni eða lænunni austan við nýja flugvöllinn og á pollinum sunnan við Langeyrina. Þarna var lítil selta og því mynduðust alveg frábær skautasvell á þessum stöðum. Það var ekki mikið um að fullorðna fólkið væri að skauta með okkur krökkunum en það kom þó fyrir. Ég man best eftir Kela Ben, en hann var algjör snillingur. Það var alveg ótrúlegt að sjá til hans, en hann gerði hluti sem maður hélt að væri alls ekki hægt að gera.

En okkur var hálfilla við sanddæludýpin hvort sem við vorum siglandi, gangandi eða skautandi, en þau voru tvö. Annað var meðfram öllum nýja flugvellinum, en hitt út af Langeyrinni. Þegar það var stórstraumsfjara var hægt að ganga nánast þurrum fótum yfir fjörðinn, en sandbotninn var mjög bleytukenndur við dýpin. Mig minnir að hafi verið Árni Haralds sem einhverju sinni hætti sér aðeins of nálægt barminum og festist ofan í sandinum. Við gátum þó náð honum upp þar sem hann var komin í frekar vond mál, orðinn blýfastur og sökk alltaf dýpra og dýpra. En engu að síður var innfjörðurinn og næsta nágrenni hans algjör Paradís fyrir krakka, ég fer ekki ofan af því…

Ljósmyndir hér fyrir neðan: Steingrímur Kristinsson -- Allar ljósmyndir eru frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar