Leó skrifar -Aðalgata 28 lítil saga

Það var í júlí 1996 sem Birgir Schiöth myndlistarkennari hélt sýningu á verkum sínum í Ráðhúsinu á Siglufirði. 

Lítil Frásögn.......... 

Það var í júlí 1996 sem Birgir Schiöth myndlistarkennari hélt sýningu á verkum sínum í Ráðhúsinu á Siglufirði. Ég leit auðvitað við hjá þessum fyrrverandi kennara mínum úr Gaggó og það fór ágætlega á með okkur þrátt fyrir að samband okkar í skólastofunum forðum hefði verið svolítið stormasamt á köflum. Litlu myndina á trönunum keypti ég einmitt þá af honum þá, en get ekki munað hvaðan síldarstúlkan kemur. 

Ég bauð honum í kvöldkaffi að kíkja á æskustöðvarnar og þáði hann það. Við gengum um húsið og hann benti mér á hvaða herbergi hann hafði fæðst, hverju hefði verið breytt og einnig hvar hefðu áður verið tveir stigar sem ætlaðir voru þjónustufólkinu sem bjó á loftinu. Ég spurði hann um manninn sem sumir hafa stundum heyrt til á röltinu, jafnvel upp og niður stiga sem ekki voru lengur til staðar, en hann hló við og kinkaði ákaft kolli. 

Hann sagði hann hafa verið þarna frá upphafi, en enginn vissi nein deili á honum. Aldrei hafði neinn látist innan veggja þess allt frá því að það var byggt árið 1930, en hann bætti því ekkert væri að óttast því þessi fastagestur sem enginn virtist þekkja hið minnsta til, væri í raun hinn besti karl. En reyndar hefði annað hús staðið á sama grunninum á en Apótekið var byggt. Það var þá fært inn á baklóðina, húsin tengd saman með skúrbyggingu og þar hefði Valashið verið framleitt.