Leó skrifar um Skúrinn hans afa

Áður birt á Facebook í september 2016

Snemma á sjöunda áratugnum voru gömul gildi á hröðu undanhaldi en ný voru ekki alveg búin að festa sig í sessi. Síldarævintýrið var senn á enda og hinnar formlegu tilkynningar um endalokin var skammt að bíða. Samt hafði ekkert boðað komu þess nýja í stað hins gamla með afgerandi hætti.

Það ríkti þess vegna einskonar millibilsástand því hið liðna var liðið en hið nýja samt einhvern vegin ekki alveg tekið við.

Ennþá áttu sveitungar mínir og fleiri landsmenn eftir að fara í stórum hópum til Svíþjóðar og jafnvel víðar um lönd og álfur í atvinnuleit og kynnast bjórnum, hassinu, sýrunni og öllu því sem í framtíðinni byggi, bæði spennandi og óspennandi, bæði siðum og ósiðum. Sumir komu fljótt aftur heim en aðrir aldrei. Hvorki heim né neitt annað. Það voru enn nokkur ár í að skuttogaravæðingin hæfist og lífskjörin í landinu áttu enn eftir að batna mikið. Hin íslenska þjóð átti það líka eftir að ganga fram veginn uppréttari og beinni í baki en nokkru sinni áður.

Sömuleiðis átti rokkið eftir að þyngjast til muna.

Bítlarnir voru orðnir heimsfrægir og sömuleiðis Stones, Troggs, Animals, Bee gees, Herman Hermits, Kinks og Swinging blue jeans, eða hinar sveiflandi bláu gallabuxur svo og margir, margir fleiri. - Gautarnir spiluðu allar helgar á Höfninni.

En Kinksararnir, bláu gallabuxurnar og Herman urðu svo “Íslandsvinir” þegar þeirra tími kom. (Gautarnir voru það frá upphafi). Margir veltu fyrir sér hvort Bítlarnir héldu sínu, eða yrðu að láta undan síga fyrir þeim fjölmörgu sem sóttu það fast að festa ljós sitt á stjörnuhiminn hinnar engilsaxnesku poppverksmiðju sem nánast stjórnaði gjörvöllum tónlistarheiminum eftir að Elvis var búinn að koma frá sér bróðurhlutanum af sínu framlagi.

Ég horfði á tímana tvenna nudda saman nefjum sínum á þessum tímamótum sem voru mun meiri í sjálfum sér og miklu stórfenglegri en ég gerði mér grein fyrir á þessum tíma og hélt síðan af stað minn eigin veg, á mínum forsendum og með mínar eigin hugmyndir um framtíðina.

Úti í garðshorninu fyrir neðan húsið okkar var skúrinn sem geymdi marga undarlega hluti.

Þarna var að sjálfsögðu hrífan okkar ásamt orfinu og ljánum. Blakkir voru þarna líka, bæði tvöfaldar og þrefaldar sem gátu notast við að lyfta ógnarþungum hlutum. Þarna var líka reipi eitt mikið sem afi sagði mér að væri nú sennilega það eina sem eftir væri úr honum Snarfara sem ásamt Villa sem lönduðu nær alltaf í Gránu. Mér fannst þetta svolítið undarleg áhöld sem voru meðal annars notuð til að kalfatta skip ásamt ýmsum verkfærum ættuðum úr Slippnum. Þau voru flest ætluð til bátasmíða og voru mörg hver öðruvísi en verkfæri til annarra nota. Afi hafði tekið pungapróf á sínum yngri árum og var að ég held titlaður stýrimaður á nefndum fleytum.

Á þessum árum fann ég minn bisnessmanninn í sjálfum mér og opnaði mína fyrstu verslun. Hún hét “London” og uppi á götu kom ég gjarnan fyrir skilti með ör sem vísaði niður fyrir húsið og sagði að nú væri búðin opin. Hurðin á skúrnum var þá opin í hálfa gátt og kolasleðinn var lagður á hliðina þannig að annar kjálkinn snéri upp og var notaður fyrir búðarborð.

Krakkarnir í hverfinu stálu appelsín, malt og kók glerjum frá mæðrum sínum og seldu í búðinni. Þá var skilaverð á kókglerinu þrjár krónur gamlar en ég tók það aðeins á tvær því allir skildu það nema þá mömmurnar í hverfinu að ég varð að fá eitthvað fyrir að labba með allt þetta gler niður í bæ og selja það í alvöru búðum eða sjoppum. Þar keypti ég líka í staðin alls konar nammi sem síðan var selt með hæfilegri álagningu í búðinni hjá mér aftur til sömu krakkanna sem stálu þá enn fleiri glerjum frá mæðrum sínum. Svona gekk þetta fyrir sig en þó datt ég í stóra lukkupottinn eitt sinn þegar ég var staddur suður á öskuhaugunum og sá bíl frá bakaríinu losa eitthvað rusl. Um leið og bíllinn var farinn fór ég að róta í því sem hent var og fann þá þann fjársjóð sem gerði mig auðugan, allavega þann daginn. Það var verið að henda kókoskúlum sem voru að vísu svolítið harðar og höfðu áreiðanlega ekki verið búnar til alveg allra síðustu dagana. Þá var ekki búið að finna upp orðtakið “síðasti söludagur” en þrátt fyrir allt mátti nú alveg tína þær saman þarna á öskuhaugum bæjarins og selja á svolítið niðursettu verði í skúrnum við Hverfisgötuna. Þarna voru mörg hundruð kókoskúlur og innkaupsverðið var ekkert svo hagnaðurinn var verulegur.

Svo kom poppáhuginn. Í skúrnum var einnig geymt gamla sófaborðið sem var hvorki mikið eða stórt að sjá. Eftir að hafa dregið það út úr öðru drasli var næsta mál að laumast inn í eldhús og nema á brott nokkra ævagamla kökudunka ömmu minnar sem ég taldi að hún væri hætt að nota svona að mestu eða þannig. Alla vega fram að næstu jólum. Aðrir voru komnir í þeirra stað og þeir voru munstraðir á hliðunum með fallega lituð lok og að öllu leiti þó nokkuð skrautlegri en þeir gömlu einlitu. Ég kallaði til sérstaklega valda vini og nágranna sem voru flestir aðeins yngri en ég og þess vegna líklegri til að láta betur að stjórn. Ég sagði þeim að nú ætluðum við að stofna hljómsveit sem þeir samþykktu strax. Ég hafði numið á brott nokkra sex tommu nagla úr slippnum þar sem afi vann og ég notaði til að negla kökudunkana niður í gamla sófaborðið og þarna var komið trommusettið. Reyndar voru lokin af kökudunkunum líka negld ofan í kústsköft sem sagað hafði verið af því sérhver trommuleikari þurfti sína diska til að slá á þegar við átti.

Við reyndum líka að búa til gítara úr sex tommu spýtustúf, skáskorinn að framan með masonýtt vængjum og nælonstrengjum en þeir virkuðu reyndar alls ekki eins og við ætluðumst til. Það var svo sem allt í lagi, því það var bara því fastar lamið á kökudunkana og í þykjustunni spilað á hina þöglu gítara og gaulað eitthvað með. Við kunnum enga enska texta og bjuggum þá þess vegna til jafnóðum og við sungum þá. Ef við náðum í hefti af “Nýjum dægurlagatextum” var annað uppi á teningnum. Sum heftin voru svo sem ekki alveg ný þegar þau bárust okkur í hendur svo við mundum ekki alltaf eftir lögunum. Þá sungum við textann alveg réttan en bjuggum stundum til lagið meðan sungið var.

Eftir þetta kom svo samkeppnin. Áhuginn fyrir hinni nýju tónlistarstefnu var alls staðar og um gjörvalla veröldina spruttu upp bítlahljómsveitir. Þetta gerðist einnig á Íslandi en þó einkum suður í Keflavík eins og þjóðin veit. Það var ekki bara að við tónlistaróvitarnir í litlu sjáfarþorpi norður við Grímseyjarsund tækjum fullan þátt í látunum.

Fljótlega eftir að við vorum byrjaðir að bulla ensk og íslensk Bítlalög saman og leika undir á gervihljóðfæri, fóru fleiri að dæmi okkar og brátt urðu til einar þrjár svona hálfgert bítlaplathljómsveitir á brekkunni en ein alvöru. Það voru stærri og eldri strákar sem notuðu alvöru trommusett og alvöru gítara en að vísu mjög lélega magnara. Einn gítarleikarinn notaðist meira að segja við gamalt Telefunken útvarpstæki.

Þetta var upphafið af því sem síðar varð á tónlistarsviðinu, en það var óendanlega margt brallað í skúrnum hans afa.