Tengt Siglufirði
Aðalhvatamaður að stofnun Vísis og fyrsti stjórnandi hét Halldór Hávarðarson ættaður frá Bolungarvík. Undir hans stjórn hófu 24 menn að æfa saman raddaðan söng og kom sönghópurinn fyrst fram á söngskemmtun í barnaskólanum milli jóla og nýárs árið 1923 og á gamlárskvöld söng hann af svölum húss Helga Hafliðasonar við mikinn fögnuð bæjarbúa sem hylltu söngmennina ákaft. Eftir áramótin var farið að ræða stofnun kórs af meiri alvöru og var í framhaldinu kosin nefnd til að setja hinu nýja söngfélagi lög. Telst stofndagur hans vera 22. jan. 1924.
Því miður andaðist Halldór Hávarðason um vorið 1924 en Tryggvi Kristinsson kirkjuorgelleikari tók þá við söngstjórninni og annaðist hana allt til ársins 1929 þegar Þormóður Eyjólfsson tók við af honum.
Þormóður stjórnaði kórnum í 23 ár af miklum dugnaði og óhætt er að segja að hann hafi eflt hann og bætt með öllum tiltækum ráðum. Hann leitaðu m.a. uppi góða söngmenn í öðrum héruðum eða jafnvel landshlutum og fékk þá til að flytjast til Siglufjarðar og syngja með kórnum. Góð dæmi um það eru m.a. Björn Frímanns og Daníel Þórhalls. Þá fékk hann bróður sinn Sigurð Birkis söngkennara til koma til Siglufjarðar um tíma til að þjálfa kórfélaga. Sigurður Birkis mun vera fyrsti einsöngvari sem söng með karlakórnum Vísi. Óhætt er að segja að undir stjórn og leiðsögn þeirra bræðra hafi kórinn átt glæstan feril um langt árabil og verður þeim seint fullþakkað fyrir framlag sitt til siglfirskrar tónlistariðkunar.
Þormóður lét af kórstjórn árið 1954 þá sjötugur að aldri en við tók Haukur Guðlaugsson sem síðar varð söngmálastjóri kirkjunnar. Hans naut þó stutt við því Haukur fór erlendis til framhaldsnáms 1955 og eftir það varð talsverð lægð í starfseminni því ekki tókst að fá fastan söngstjóra. Vísir kom þó nokkrum sinnum opinberlega fram m.a. undir stjórn Páls Erlendssonar, Sigursveins D. Kristinssonar og Róberts A. Ottóssonar, en óhætt er að segja að lítið hafi gerst þar til Gerhard Schmidt var ráðinn söngstjóri árið 1964, en hann hafði þá áður tekið við stjórn lúðrasveitarinnar og sinnt tónlistarkennslu í bænum. Hófst þá kórinn aftur til vegs og virðingar og átti eftir það sinn annan glæsta feril sem stóð yfir í u.þ.b. áratug.
Eftir að Gerhard fluttist aftur til Þýskalands árið 1975 starfaði kórinn ekki reglulega, en kom þó nokkrum sinnum fram undir stjórn Elíasar Þorvaldssonar. Það mun hafa verið árið 1980 sem síðasta stjórn kórsins var formlega kosin á aðalfundi, en hana skipuðu þá Björn Jónasson, Guðlaugur Karlsson og Bjarni Þorgeirsson. Mér er ekki kunnugt um að hann hafi í sjálfu sér verið leystur upp, en nú er starfandi Karlakór Fjallabyggðar, sem áður nefndist Karlakór Siglufjarðar og var stofnaður 1.janúar árið 2000.
Tildrögin voru þau að nokkrir félagar í slökkviliði Siglufjarðar voru beðnir að skemmta á árshátíð Starfsmannafélags Siglufjarðar nokkrum árum áður, en héldu eftir það áfram söngæfingum sínum og komu oft fram við ýmis tækifæri allt fram að aldamótunum síðustu.
Það væri full ástæða fyrir einhvern og/eða einhverja framtakssama aðila að taka saman þau gögn sem til eru og eiga viðtöl við fyrrum kórfélaga í því skyni að rita sögu kórsöngs nyrðra sem er bæði mikil og merk.
Heimildir: Siglufjörður 1818-1918-1988, Siglfirskur annáll, mbl.is, Siglfirðingur, Mjölnir, Einherji, Neisti, Ljósmyndasafn Siglufjarðar, siglo.is, Samband Íslenskra Karlakóra.
YOUTUBE.COM Karlakórinn Vísir Var að yfirfara og klippa til gömul VSH rakst ég á myndband af Karlakórinn Vísir á Siglufirði og hljómsveitin Gautar, veit ekki hvar þetta er tekið er…
Sótt á fésið.... sk