Þorgeir Þorgeirsson rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður

Morgunblaðið - 07.12.1983

Hugum nú að Opið bréf til Jóns Helgasonar dómsmálaráðherra, eftir Þorgeir Þorgeirsson

Heiðraði dómsmálaráðherra!

Um þessar mundir fellur skært ljós fjölmiðlanna á vandamál sem mér hefur verið hugleikið, ef svo vægilega má til orða taka, nokkur undanfarin ár.
Blaðamaður við málgagn ykkar framsóknarmanna — Tímann — hefur lent í mannraunum og orðið sár í frumskógi hins reykvíska næturlífs. Það er með ógnir þessa frumskógar eins og hrellingar annara myrkviða að þá helst gera menn sér grein fyrir háska þeirra ef trúboðar lenda þar í hrakningum.

Má þar nefna þá Stanley og Livingstone til áréttingar. Þeir boðuðu að vísu ekki samvinnustefnuna heldur Guðsríki. Nú hefur semsé einn af trúboðum framsóknarstefnunnar, Skafti blaðamaður, lent í hrakningum í næturlífinu, fengið nokkra áverka sem vel má greina á fjórdálka andlitsmyndum blaðanna. Og vitaskuld sitjum við hneyksluð og horfum á þessar myndir.

Þorgeir Þorgeirsson, Henning Bjarnason, Steingrímur Kristinsson og Indriði Helgi Einarsson -Ljósmynd Valborg Steingrímsdóttir Mynd frá árinu 1944 - Smellið á myndina

Þorgeir Þorgeirsson, Henning Bjarnason, Steingrímur Kristinsson og Indriði Helgi Einarsson -Ljósmynd Valborg Steingrímsdóttir Mynd frá árinu 1944 - Smellið á myndina

Okkur líkar ekki að sjá hvernig löggæslumenn hafa leikið þennan bráðmyndarlega pilt að ósekju, því hann segist bara hafa verið að leita að frakkanum sínum í fatahengi þegar einkennisklædd villidýr fyrrnefnd myrkviðar réðust að honum. í mínum huga er mál Skafta bara smámál, en það hefur af fyrrgreindum ástæðum fengið verulega umfjöllun og athygli svo mér þykir rétt að nota það til að benda þér nú á það að vandamálið er miklu stærra og ógnvænlegra.

Mál Skafta er svo sem eins og toppurinn á ísjakanum sem við höfum komið auga á þegar kastljósi dagblaðanna er beint að þessu. Niðri í koldimmum þagnarsjónum bíður hins vegar nífalt stærri hluti af vandamálinu. Um þann hlutann langar mig til að ræða við þig, úr því þú ert nú dómsmálaráðherra og þar með æðsti yfirmaður þeirra einkennisklæddu villidýra sem læðast, ekki mjög þófamjúk, um frumskóga næturlífsins hér um slóðir.

Nú vil ég engan veginn fara að gera lítið úr raunum þessa pilts né þeim sársauka sem hann þoldi að ófyrirsynju. Hinu er þó ekki að leyna að Skafti mun ná sér, marblettirnir á honum verða smámsaman fjólubláir síðan brúnir og hverfa loks. Hann snýr til vinnu sinnar á Tímanum og smámsaman fennir þetta atvik á kaf í orrahríð dagsins.

Nema við notum það til að skoða vandamálið í heild sinni. Fyrir nokkrum árum þurfti ég að dvelja fáeinar vikur á handlækningadeild Borgarspítalans. Þá lá þar á sama gangi maður á þrítugsaldri, hið gjörfilegasta ungmenni í alla staði. Viðkunnanlegur piltur. Ástandi hans var á hinn bóginn svo varið að hann gat varla hreyft nokkurn líkamspart nema augun. Lesið gat hann bók með sérstökum útbúnaði ef einhver var til að fletta blaðsíðunum fyrir hann.

Mér skildist að batavon hans væri harla lítil. Stofufélagar þessa unga manns sögðu mér að bæklun hans væri af völdum útkastara og lögreglu. Þessu vildi ég þá ekki trúa svona fyrirvaralaust og spurði bæði lækna og sjúkralið að þessu. Jú, rétt var það: þarna var komið eitt af fórnardýrum löggæslunnar í næturlífi Reykjavíkur.

Myndin af þessum lemstraða pilti fylgdi mér svo einhvernveginn útaf spítalanum og ég var þaðanífrá sítalandi um þetta fyrirbæri. Þá brá svo við að hvarvetna hitti ég fólk sem kunni sögur af mönnum sem lent höfðu jafn illa eða ver í þessum einkennisbúnu óargadýrum. Sumir höfðu jafnvel verið sendir afturá vitsmunastig frumbernsku sinnar með kyrkingatökum sem lögreglumenn og útkastarar kunna en fara ekki með af skynsamlegu viti heldur fautaskap og hugsunarleysi. Sögur þessar eru svo gjörsamlega samhljóða og margar að það verður æ örðugra að vísa þeim frá sér eins og hverjum öðrum uppspuna.

Annað er það sem fylgir þessum sögum eins og harðneskjan heimskunni, og það er sú fullyrðing að tilgangslaust sé með öllu að hefja mál útaf þvílíkum tilvikum. Þau fari bara í rannsókn hjá annarri lögregludeild þar sem sitji einvalalið og líti á það sem konunglega skyldu sína að hvítþvo kollegana. Þess vegna liggja fórnardýr lögregluhrottanna útí vonleysinu og þurft getur að bíða árum saman eftir tækifæri til að ræða málefni þeirra af nokkru viti. Nú er kannski eitt af þessum sjaldgæfu tækifærum. Þess vegna er ég að skrifa þér bréfið atarna.

Mér sýnist harla augljóst að hér sé verulega pottur brotinn í sjálfu því kerfi sem yfirmenn þess virðast hafa brenglaða réttlætisvitund og misnota aðstöðu sína til þess að lofa hrottum og illmennum að þægja sínu brenglaða tilfinningalífi — það virðist einu gilda hver fyrir verður. Mér sýnist lögreglustjórinn í Reykjavík meiraðsegja þónokkuð borubrattur þegar hann neitar að víkja barsmíðamönnum sínum úr starfi meðan á rannsókn Skaftamálsins stendur.

Virðist harla öruggur með sig þó skjólstæðingur framsóknar eigi í hlut. Við sjáum hvað setur. Jafnvel þó Skafti fengi sitt fram væri það undantekning sem engu breytir um það að fórnardýr þessa hrottaskapar mundu halda áfram að hrannast upp. Og þögnin mundi umlykja þau framvegis sem hingað til.

Mér sýnist þetta alvarlega mein liggja í sjálfu því kerfi að lögreglumenn skuli rannsaka það hvort aðrir lögreglumenn hafi orðið offari í starfi sínu. Og þetta er líka álit margra annara mér hæfari manna á þessu máli — enda þótt enginn þeirra áræði að kveða uppúr með skoðun sína af hræðslu við barsmíð og hefndir. Svona er þetta mál alvarlegt. Tveim forvera þinna í stöðu dómsmálaráðherra skrifaði ég um þessi mál. Hvorugur þeirra hafði kurteisi til að svara bréfum mínum, hvað þá annað.

Undanfarna daga hef ég verið að skoða myndir af þér í blöðunum og mér sýnist á þér svo heiðríkur og drengilegur svipur með þvílíkri festu að ég hef um það vísa von að slíkum svip gæti hæglega slegið inní sálina, jafnvel þó hann væri upphaflega bara hugsaður fyrir Ijósmyndarann. Þess vegna reyni ég nú að skrifa þér líka. Tillaga mín til þín er sú sama og ég hef áður borið fram: Taktu þessi barsmíðamál lögreglunnar út úr þeirri sjálfvirku kattarþvottavél sem þau nú eru í.

Meðan lögreglumenn fá að þvo hver öðrum í þessum málum verður aldrei hugað að því sem máli skiptir; að greindarprófa menn og karakterprófa áður en farið er að kenna þeim lífshættuleg fantabrögð, að láta þá svara til saka fyrir stundaræði sitt ef þá henda mistök, að gera lögregluna að hæfu liði sem óhætt væri að fela það vald sem þessir menn lögum samkvæmt hafa. En hvaða leið er þá út úr kerfinu? Skipa verður óháða nefnd valmenna til að kanna í botn hver fótur er fyrir því almenningsáliti, sem óneitanlega er staðreynd, að hrottaskapur Reykjavíkurlögreglunnar færist óðum í vöxt og sé með óeðlilegum hætti verndaður.

Þessi nefnd gæti auglýst eftir fórnardýrum lögreglunnar og safnað frásögnum þeirra og sannprófað í mörgum tilvikum, komist þá væntanlega að niðurstöðu um það hvort hér er ekki um að ræða tiltölulega fáa einstaklinga sem ráðleggja mætti að fá sér annan starfa. Ég hef það á tilfinningunni að Lögregluvandamálið sé nokkuð svipað því margumrædda Unglingavandamáli að því leytinu til, að það eru tiltölulega fáir einstaklingar sem koma óorði þessu á lögregluna alla. Og þá ekki þeir greindustu né bestu. Margt gott hefi ég séð til lögreglunnar hér í bæ og margan fyrirmyndarmanninn hef ég þar fyrir hitt.

Án þeirra getum við ekki verið. En mér finnst ég skulda piltinum unga þarna á Borgarspítalanum forðum það að herða mig upp í þessa uppástungu: Að reynt verði að hreinsa til svo það ævintýrafólk sem leggur út í frumskóga næturlífsins í Reykjavík sé minnsta kosti óhult fyrir lögreglunni. Nóg er samt um önnur villidýr.

Fyrir dómi er stundum sett fram varakrafa til að fylgja eftir náist meginkrafan ekki fram. Sinnir þú, Jón Helgason, ekki þeirri kröfu að láta rannsaka fyrrgreind mál skora ég á einhvern dugandi blaðamann (t.d. Skafta) að setjast við þessa rannsókn og birta hana í bók sem vafalaust myndi renna út eins og heitar lummur. Sjálfur væri ég alveg reiðubúinn að taka þátt í slíku starfi hvenær sem er.

Með vinsemd og virðingu, Þorgeir Þorgeirsson.
Þorgeir Þorgeirsson er rithöfundur   
----------------------------------------------------

Morgunblaðið - 20. desember 1983

Neyttu á meðan á nefinu stendur • • • •

Greinargerð Þorgeirs Þorgeirssonar vegna hegðunar Einars Bjarnasonar lögreglumanns í sjónvarpssal þriðjudagskvöldið 13. þessa mánaðar.

Prag er höfuðborg Tékkóslóvakíu. Þar er náttúrlega lögregla eins og í Reykjavík. Og þar einsog hér er nokkuð grunnt á því góða með lögreglu og almenningi — þó báðum sé raunar jafnilla við menntamenn. Gamansemi Pragbúa birtist stundum í spurningaleikjum sem ganga þá manna á milli. Einn sá vinsælasti er löngu orðinn klassískur. Hann er svona:

Hvers vegna eru löggur alltaf þrjár saman? Ha ?
„Það er einn sem kann að lesa, annar sem kann að skrifa og sá þriðji til eftirlits með þessum hættulegu mentajöfrum.“

Þriðjudaginn seinasta, þann 13. desember, var þáttur í sjónvarpinu um lögregluvandamálið. Þar voru tveir spekingar úr Reykjavíkurlögreglunni og þótti mörgum eins og þeir félagarnir léku þarna nokkuð lausum hala. Áhorfandi sem ég þekki var raunar að bera í bætifláka fyrir þá Bjarka og Einar með því einmitt að sorglega hefði vantað þriðja mann úr þeirra búðum. Eftirlitið semsé.

Vel má það rétt vera. Alveg í lok þáttarins brast Einar, sem er formaður Lögreglufélagsins, á með nokkuð skondna uppákomu eftir þónokkuð pískur við Bjarka og skrjáf í pappírsgögnum, dró upp skjal og hóf ófagran lestur um undirritaðan lygara og ómerking (samkvæmt vottorði þessu sem lögreglan hafði með einhverjum ráðum fengið óviðkomandi mann til að rita nafn sitt undir).

Mætavel hefði Einar getað komið þessum boðskap sínum á framfæri án þess að brjóta útvarpslögin okkar og hætta þannig bæði starfi sínu og heiðrinum í einu, og hafa margir furðað sig á hegðun mannsins. Sem vonlegt er. Þessi fífldirfska Einars verður naumast skýrð með einusaman eftirlitsleysinu og því er ég nú enn að skrifa um þetta málefni sem ég hélt raunar að afskiptum mínum hefði lokið af fyrir viku rúmri - (þetta er skrifað fimmtudaginn 15. desember, afhent til birtingar föstudaginn þann 16.).

Greinir nú frá reynslu minni undangengna viku. Miðvikudaginn 7. desember sl. birtist frá mér bréf í Morgunblaðinu til æðsta yfirvalds dómsmála á Íslandi. Erindi mitt var að biðja um hlutlausa rannsókn á lögregluvandamálinu í stað þess að vandamál þetta hefði eftirlit með sér einvörðungu sjálft. Texti þessa bréfs hefur að vonum ekki notið vinsælda á lögreglustöðvum, enda svo sem ekkert við því að segja.

Misskilningurinn verður líka að hafa sinn gang. Hefur enda blómstrað í þessu máli þar sem ég lít svo til að rithöfundur hafi skyldum að gegna með það að segja afdráttarlaust frá því sem honum þykir miður fara umhverfis sig, en lögreglan virðist á öðru máli eins og gengur. Orðlengjum það nú ekki framar. Þennan morgun sem bréfið til Jóns Helgasonar dómsmálaráðherra birtist í blaðinu hringdu furðumargir til mín.

Meðal þeirra var Guðmundur Hermannsson sem kynti sig yfirlögregluþjón í Reykjavík. Hann vildi fá að vita hvaða tilfelli þetta væri sem ég hefði verið að skrifa um. Sagði ég honum sem var að greinin fjallaði ekki um neitt tilfelli heldur um ástand. Tilefnin skiptu á hinn bóginn hundruðum minnsta kosti. Þá spurði Guðmundur hvað hann héti, pilturinn lamaði sem legið hefði samtímis mér á spítalanum forðum. Ég sagði þá sem var að líklega hefði ég aldrei heyrt nafn hans.

Spurði svo hvort lögreglan væri eitthvað að rannsaka þetta. Játti Guðmundur því. Lét ég hann þá vita að það fyndist mér nokkuð djarft eins og á stæði; að lögreglan færi nú enn að rannsaka mál sem hún væri aðili að.
Lokaði mér jafnframt gagnvart yfirlögregluþjóninum með alla vitneskju, nema hvað ég lét honum í té dagsetningar varðandi spítalavist mína forðum. Kvöddumst við svo. Vegna þess sem á eftir kemur verð ég að geta þess hér sérstaklega að Guðmundur var bæði ljúfur og kurteis svo eiginlega fannst mér eins og ég hefði verið að tala við siðameistara einhverrar konungshirðar. En það fór nú af síðar.

Líður nú fimmtudagur og framan af föstudegi með endalausum símtölum og handaböndum þangað til ég kaus að láta mig hverfa til að fá vinnufrið.
Undir kvöld kom ég aftur í ljós og þá lágu fyrir mér skilaboð frá Guðmundi yfirlögregluþjóni um það að ég skyldi lesa blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu þá samdægurs og biðjast svo afsökunar á skrifi mínu.

Á blaðsíðu 13 reyndist vera frétt um það að manni einum hefði verið dæmd fjárhæð nokkur í skaðabætur fyrir kjaftshögg í maí árið 1978. Í þeim dómi var hvergi minnst á lögreglubarsmíðar og þess ekki getið hvern starfa barsmíðamaðurinn hefði.
Var hann þá lögregluþjónn? Kannski. Greinilega hlaut það að vera skoðun Guðmundar að þetta væri sama málið og ég minntist á í bréfinu. En fjandakornið sem það gæti verið — ekki mundi ég betur en sá piltur dæi skömmu síðar, úr lungnabólgu að því er mig minnti. Þetta staðfesti konan þegar hún kom heim skömmu síðar. —

Ég man svo vel að þú sagðir hérna við borðið einhverntíma nýkominn úr skoðun ofan af spítala, að nú væri hann dáinn þessi piltur, sagði konan. Hún er fjarska heiðvirð og minnið óvenjulega gott eins og hjá fleirum af þeirri ætt. Einhver misskilningur hlaut því að vera þarna á ferðinni.

Ég hringdi nú í Guðmund til að fá botn í þessa véfrétt. Hann var þá engan veginn jafn blíður á manninn og fyrir tveim dögum. — Þér er eins gott að biðjast opinberlega afsökunar, sagði hann. Þarna er komið dæmið, tilfellið sem þú ert að tala um. Ég setti nú í mig kjark og andmælti honum á þeim forsendum sem fyrr eru greindar. Spurði síðan hvaðan honum kæmi þessi vísdómur. —

Frá Rannsóknarlögreglu Ríkisins, segir Guðmundur þá. Þá var það, trú ég, sem undirritaður sagði: — Bittinú! svona rétt á meðan hann var að átta sig. Guðmundur notaði pásuna til að segja að þeir væru búnir að rannsaka þetta. — Og þú hefur undireins fengið inni með þetta í Morgunblaðinu, segi ég þá til að segja nú eitthvað. — Maður þarf að verja sig, sagði Guðmundur án þess að svara beinlínis spurningunni.

Þá fór að seytla kaldur lækur niður eftir bakinu á mér, ef satt skal segja. Þarna var það sem Prag kom fyrst inní þessa mynd. Lái mér hver sem vill. Kollegar mínir og vinir þar í borg hafa mátt sæta því alla götu síðan 1968 að lögreglan hringi í rannsóknarlögreglu til þess að spyrja hana hvað einhver rithöfundur útí bæ sé að hugsa.

Upp frá því gildir túlkun rannsóknarlögreglunnar á hugsunum viðkomandi höfundar. Það er lögreglan sem veit það ein hvað þessi höfundur er með í huga, eins og lögreglan hér og nú þykist vita það ein hvaða pilt ég er með í huga í þessu máli. Líkingin er fullkomin. Og lögreglan í Prag hefur afar fullkomin sambönd á þeim blöðum sem út eru gefin, bæði Rude Pravo og minni sneplum, eins er það með radíó og sjónvarp.

Þetta gerir það að verkum að margir vinir mínir og kollegar sitja nú í fangelsi austur þar fyrir hugsanir sem lögreglan ein hefur látið sér til hugar koma, sumir jafnvel komnir útí kirkjugarð. Enn aðrir hafa sloppið úr landi til að segja frá þessum ósköpum. Og Vesturlandabúum þykir gott að heyra þær sögur meðan þeir orna sér við þá ímyndun að svonalagað hendi aldrei heima hjá þeim. Sannleikurinn er hins vegar sá að vald spillir jafnvel greindara fólki en almennt velst til lögreglustarfa. Eðlið er hvarvetna það sama og því enginn eðlismunur á störfum og hugsunum lögreglu þar eða hér.

Sá stigsmunur sem á þessu er byggist einvörðungu á formum og venjum, sjálfstæði fjölmiðla andspænis lögregluvaldinu er þungt á metunum. Og síst af öllu skyldu menn taka það sem eilíflega gefna staðreynd. Nær væri að segja hitt: að tilhneiging valdamanna eins og t.d. lögreglu til að leggja hönd á fréttaflutning og bægja sannleikanum útúr fjölmiðlum er það sem eilíft er og varanlegt. Framleiddur „lögreglusannleikur" er því vara sem ætíð verður nóg framboð af.

Enda billegur tíðast. Útfrá þessum hugsunum mun ég hafa sagt nokkur höstug orð við Guðmund og vona ég að hann hafi ekki tekið þau 611 til sín persónulega — enda var nú kominn þarna skyndilega séntílmaðurinn frá því fyrir tveim dögum og lögreglutónninn með öllu horfinn. Það fannst mér góðs viti. Minnir að við kveddumst með þónokkrum menningarbrag. Leið nú fram til sunnudags. Upphófst í blöðum lögreglugrátkór með táraflóði.

Og sunnudagsblað Moggans birti þar ámeðal grein eftir Jóhannes Jónsson logreglumann sem m.a. vitnaði í blaðsíðu þrettán í föstudagsblaði og hlaut því að hafa skilað grein sinni á laugardegi. Þetta fannst mér grunsamlega fljót afgreiðsla. Mín reynsla var sú að tæprar viku bið er eftir birtingu greina í því blaði, ef hinn almenni borgari á hlut að máli.

Og lögreglumaðurinn hafði líka fram að færa þann „lögreglusannleik" að málefnið sem Þorgeir „mun þó hafa ætlað sér að fjalla um" sé niðurkomið í frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu föstudaginn 9. desember. Nú fór þessi kaldi lækur aftur að seytla niður eftir bakinu á mér. Hvað var hér á seyði? Aðfaranótt mánudagsins svaf ég fremur órólega og var því ekki rétt vel fyrir kallaður undir kvöldmat þegar Hallur Hallsson blaðamaður á Morgunblaðinu hringdi til mín þeirra erinda að fá það staðfest hjá mér að „lögreglusannleikurinn" væri réttur.

Hann vildi ekki gegna því (harður blaðamaður) þegar ég neitaði að draga umræðuna niðrá þetta plan: að þjarka um aukaatriði en gleyma meginefninu. Í stappi okkar um þetta fannst mér hann vera ógn haldinn lögregluhugsunarhætti og þegar honum varð það á að nota orðrétt sömu setningarnar og Guðmundur yfirlögregla hafði viðhaft þá brast nú heldur á með skömmum af minni hálfu.

Ég ásakaði hann beinlínis um það að vera í snatti á vegum lögreglunnar. Blaðamaðurinn sýndi æsing mínum þolinmæði, sem betur fór, sagðist löngu hafa verið búinn að skrifa fréttina á blaðsíðu 13, gat þess einnig að blaðamenn hérlendis létu aldrei lögregluna segja sér fyrir verkum, síst þó af öllum þeir Morgunblaðsmenn.

Hvað sem hann á nú við með því. Vona ég sannarlega að hann fari með rétt mál um þetta. Enda dró ég ásökun mína til baka en hann sættist fyrir sitt leyti á það sjónarmið mitt að það væri ónauðsynlegt að láta draga umræðuna niðrá vafasamara plan.
Og slitum við því tali mjög í góðu. Spurði hann mig fyrst hvort ég vildi gefa yfirlýsingu í málinu. Ég taldi það ónauðsynlegt nema haldið yrði áfram að dröslast með rangsnúnar lögreglufullyrðingar mér til hnjóðs. Kvaddi svo.

Og nú hefur það gerst sem gerir það að verkum að ég verð að herma loforðið uppá Hall og biðja hann að birta þessa yfirlýsingu mína. Þó ég telji klámhögg Einars lögregluforingja í sjónvarpssal á þriðjudagskvöldið með bærilegri höggum sem lögreglan hefur ekki komið á mig, ef svo má segja, og telji mig jafnréttan að minnstakosti eftir, þá er hinu ekki að leyna að þetta upphlaup mannsins er fjarskalega lærdómsríkt. Því um hvað fjallar Lögregluvandamálið? Jú — margir vilja nú telja að lögreglan hafi komið of mörgum höggum á hinn almenna borgara, sekan eða saklausan.

Vandamálið er því fólgið í því að höggin eru fleiri en góðu hófi .gegnir. Af viðbrögðum lögreglumanna í þessum málum má vel ráða að þeim sé kennt að lesa skáldsögur Jóns Thoroddsen. Gróa á leiti kemur viða fyrir í skrifum þeirra. En hafa þeir líka verið að lesa Grettlu?

Úrræði þeirra sýnast einkum vera í samræmi við það sem þar stendur: Svo skal böl bæta að bíða annað meira. Þetta er full dramatíst prinsíp fyrir lögreglu heils bæjarfélags að vinna eftir ef hún vill að farsæld aukist með þegnunum og lögreglunni þar með. Síðan á þriðjudag hafa margir símað til mín það álit sitt að þáttur lögreglunnar í sjónvarpinu hafi verið eins og herfileg þjóðháttalýsing handa eftirkomendum okkar að skoða. —

Verst að þeir skyldu ekki mæta einkennisbúnir í þáttinn, sagði einhver við mig. Aðfarirnar lýstu svo mætavel þeirri mynd sem almenningur hlýtur óðum að vera að gera sér af lögreglu í sjálfsvörn: bolabrögð, falsanir, lögbrot, hindurvitni, flaustur og ráðleysi. Svo mörg voru þau orð. Helst vildi ég ekki þurfa að fjasa lengi um hátterni svona manna. Þó get ég ekki stillt mig um að láta þess getið að glíma þeirra við fluguna úr höfði rannsóknarlögreglunnar rifjar upp fyrir mér gamla þjóðsögu, flestir kannast, trúég, við söguna.

Ég hef tekið nafn hennar traustataki og gert það að fyrirsögn þessarar greinargerðar. Hafi dómsmálaráðherra ekki haft tíma til að sjá þessa uppákomu vildi ég mega benda honum á það að þátturinn er til á segulbandi uppí sjónvarpi — ef hann vill sjá næsta fullkomna lýsingu á því sem fólk er nú farið að kalla Lögregluvandamálið. Ekkert sýnir í rauninni betur hversu bráða nauðsyn ber til að stofna óháða rannsókn í málum lögreglunnar svo þeir meiði sig ekki lengur á því að „rannsaka" þau mál sem snerta sjálfsvitund þeirra og barnalegt stolt.

Tilgangur þessarar umræðu ætti að vera minni barsmíð en ekki það að koma höggi á þá sem þorað hafa að tala. Hættum nú áflogunum og hugum að eins og tillaga mín var í bréfinu til ráðherra. Kannski væri best að fara jafnvel að tillögu gamansams náunga sem hringdi í mig og sagði: — Þorgeir, væri ekki bara reynandi að setja klókan barnasálfræðing í þessi áflogamál lögreglunnar. Gott væri ef lausnin væri svo einföld og snjöll. Með þökk fyrir birtinguna. Þorgeir Þorgeirsson

Ps. Auðvitað fer ég ekki að kæra Einar Bjarnason fyrir brot á Útvarpslögum. Því miður er það víst svo að lögreglumenn þurfa að hafa hreina sakaskrá. Ég trúi því á hinn bóginn að menn verði betri lögregluþjónar af því að lenda sjálfir í smávægilegum lögbrotum, ef þau gerast ekki bakvið tjöldin. Afbrotum í sjónvarpssal tilaðmynda. Og batnandi er manni best að lifa.

Þorgeir Þorgeirsson er rithöfundur

------------------------------------------------------

Alþýðublaðið - 14. febrúar 1989

FRÉTTIN BAK VIÐ FRÉTTINA HÆSTIRÉTTUR VÍNS EÐA MANNRÉTTINDA

Framdi Hæstiréttur lögbrot þegar Magnús Thoroddsen hæstaréttardómari neitaði Þorgeiri Þorgeirssyni rithöfundi að flytja mál sitt fyrir Hæstarétti?

Það vakti mikla athygli er Magnús Thoroddsen þáverandi forseti Hæstaréttar varð uppvís að hafa fyllt bílskúrinn hjá sér af ódýru brennivíni á nýliðnu ári. Fjölmiðlafólk og annað fólk fylltist heilagri reiði yfir því að maðurinn skyldi voga sér að nota réttindi sín sem einn af handhöfum forsetavalds með þessum hætti.

Ekki er ólíklegt að þessi reiði hafi í sumum tilfellum verið sprottin af öfund, enda fáir sem slá hendinni á móti ódýru brennivíni ef út í það er farið. Vínkaup hæstaréttardómarans fóru ekki bara hátt hérlendis heldur birtu erlendir fjölmiðlar fréttir af málinu. Nú er það svo, að þessi viðskipti varða vart við lög og meiddu engan á nokkurn hátt nema þá þann er varð það á að notfæra sér heimildir í svolítið meira mæli en aðrir.

Þarna var ekki um það að ræða að réttindi væru brotin á neinum, heldur hitt, að einn maður notfærði sér réttindi sín út í ystu æsar og kannski gott betur. En svo einkennilega vill til, að þegar sami maður kom fram í embætti hæstaréttardómara og braut jafnvel lög og réttindi á ákærðum manni þótti það lítil frétt og olli engum geðshræringum hjá þjóðinni.

Þorgeir og kerfið

Á dögunum var ég að gramsa í bókum í Borgarbókasafninu og rakst þar á bók eftir Þorgeir Þorgeirsson sem ber titilinn „Að gefnu tilefni — deilurit". Þar eru rakin samskipti Þorgeirs við réttvísina frá því hann árið 1983 skrifaði tvær greinar í Moggann um lögregluofbeldi og allt þar til hæstiréttur felldi dóm í málinu sem ákæruvaldið höfðaði á hendur Þorgeiri fyrir Moggagreinarnar, en dómur Hæstaréttar féll í október árið 1987.

Þar var dómur Sakadóms staðfestur og Þorgeir dæmdur í 10 þúsund króna sekt fyrir meiðandi ummæli um opinbera starfsmenn. Nú er ekki ætlunin að ræða sakarefnið sjálft, það er að segja óviðurkvæmileg ummæli um lögregluna í Reykjavík sem Þorgeir raunar bendir á að hafi verið slitin úr samhengi. En í bók Þorgeirs var einkum tvennt sem vakti athygli mína þótt bókin í heild sé athygliverð.

Í fyrsta lagi er verið að yfirheyra Þorgeir í Sakadómi án þess að ákæruvaldið hafi nennu í sér til að mæta og sakadómari tekur þá að sér að vera ákærandi í leiðinni. Mér er það með öllu óskiljanlegt að sakadómarar láti setja sig í slíka aðstöðu því með því eru þeir að gefa höggstað á sér sem ástæðulaust er að ætla að þeir kæri sig um. Hitt þykir mér þó engu betra og heldur verra að Þorgeiri var meinað að halda uppi vörnum í eigin persónu þá málið kom fyrir Hæstarétt.

Heggur sá er hlífa skyldi

Er Þorgeirsmáli var áfrýjað til Hæstaréttar tók hann þá ákvörðun að flytja vörn sína sjálfur fyrir hinum háa rétti. Telur Þorgeir sig hafa fullan rétt til þess samkvæmt lögum um starfsemi Hæstaréttar aukin heldur ákvæða í Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland hefur skrifað undir.

Þáverandi forseti Hæstaréttar, Magnús Thoroddsen, neitar að samþykkja þessa ákvörðun Þorgeirs og skipar honum verjanda.

Þessu vildi Þorgeir ekki una og frábað sér forsjá Hæstaréttar en án árangurs. Löglærðan verjanda skyldi hann hafa og gekk svo eftir.
Ég hef alltaf álitið að starfsemi Hæstaréttar fælist meðal annars í því að sjá til þess að hinir seku fengju dóm og fría þá sem ranglega eru ákærðir. Dómurinn stæði vörð um þau mannréttindi sem við hefðum ákveðið að hér giltu.

Því blöskraði mér að lesa frásögn Þorgeirs af því er honum var bannað að verja mál sitt sjálfur. Vissi ekki betur en mannréttindabrot ættu að enda þar sem Hæstiréttur tæki við. Þarna þótti mér sá höggva er hlífa skyldi. En þar sem ég er ekki lögmenntaður sló ég á þráðinn til nokkurra valinkunnra sómamanna í stétt hæstaréttarlögmanna og spurði hvort ég hefði rétt til þess að mæta hjá Hæstarétti og flytja sjálfur mitt mál ef til þess kæmi, eða hvort þeirra stétt hefði einkaleyfi á slíkum verkum.

Þessir lögspekingar fullvissuðu mig allir um að ég hefði fullan rétt á að tala mínu máli fyrir jafnt Sakadómi sem Hæstarétti og mér bæri engin skylda til að láta lögmenntaðan mann koma á vettvang. Orðum sínum til áréttingar slógu þeir upp í lagabókum og höfðu yfir mér ýmsar lagagreinar og sumir flettu meira að segja upp í Mannréttindasáttmála Evrópu og lásu uppúr honum jafnt á ensku sem í íslenskri þýðingu.

Allt bar þetta að sama brunni: Þeir sem vildu verja mál sitt sjálfir fyrir dómstólum höfðu til þess fulla heimild. Mér varð á að spyrja hvort þessi lög giltu fyrir alla, eða hvort lágvaxinn, skeggjaður rithöfundur sem byggi í miðbænum væri undantekning. Lögmenn fullvissuðu mig um að allir ættu að vera jafnir fyrir lögum og þar væri ekki farið í manngreinarálit.

Ég spurði þá á móti hvort þeir könnuðust við mál Þorgeirs Þorgeirssonar. Þeir játtu því allir sem einn og sögðu að þetta væri bara rugl úr Hæstarétti. Ef Þorgeir hefði viljað verja sig sjálfur hefði hann til þess fulla heimild. í bókum sínum fundu þeir ekkert ákvæði þess efnis að allir Íslendingar nema Þorgeir mættu sjálfir um sín mál fjalla fyrir dómstólum. Hins vegar væri það skylda að hafa verjenda í málum sem þessum, en því aðeins að viðkomandi neitaði að benda á verjanda ætti Hæstiréttur að skipa honum slíkan. En vildi sakborningur verja sig sjálfur þá væri það hans mál.

Skamma stund verður hönd höggi fegin

Eftir þessar upplýsingar sat ég uppi með þá vitneskju að Hæstiréttur hefði framið lögbrot, eða alla vega fyrrverandi forseti réttarins. Mér er nákvæmlega sama þótt sá maður hefði leigt sér bílskúra út um allan bæ til að koma þar fyrir brennivíni sem hann hefði keypt á forsetaverði. En ég get ómögulega kyngt því að hann hafi gengist fyrir því í sínu fyrra starfi að lög væru brotin á manni. Virðing mín gagnvart Hæstarétti hvorki óx né minnkaði við vínmálið.

En með Þorgeirsmáli hvarf mér öll virðing fyrir þessum rétti. Þorgeir hefur kært mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem hefur aðsetur í Strassburg. Sá dómur á eftir að kveða upp sinn úrskurð. En mikið skelfing er það einkennilegt, að lögleg en siðlaus brennivínskaup forseta Hæstaréttar skuli fá svona mikla umfjöllun í fjölmiðlum meðan ætluð lögbrot hans í starfi eru þöguð í hel.

Eru réttindi einstaklingsins ekki einu sinni nokkurra vodkakassa virði?

SÆMUNDUR GUÐVINSSON
--------------------------------------------------------------- 

Morgunblaðið - 23. mars 1990

Mál Þorgeirs Þorgeirssonar tekið fyrir hjá Mannréttindanefnd Evrópu

MUNNLEGUR málflutningur í máli Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar gegn íslenska ríkinu fór fram hjá Mannréttindanefnd Evrópu í Strassborg 14. mars sl. Þorgeir kærði íslenska ríkið til Mannréttindadómstólsins vegna dóms yfir honum fyrir að hafa ritað tvær greinar í Morgunblaðið um lögregluofbeldi.

Að sögn Þorsteins Geirssonar ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu varðar málið 6. og 10. grein. mannréttindasáttmálans, þ.e. um rétt á sanngjarnri málsmeðferð og rétt til frjálsrar tjáningar. Nefndin fjallaði um hvort kæran væri hæf til umfjöllunar hjá dómstólnum og hefur ákveðið að taka hana til nánari umfjöllunar.

Þorsteinn Geirsson sagði að ekki væri hægt að segja fyrir um hvort málið verði lagt fyrir Mannréttindadómstólinn fyrr en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir. Þorgeir Þorgeirsson flutti mál sitt sjálfur fyrir Mannréttindanefndinni ásamt lögmanni sínum Tómasi Gunnarssyni, en af hálfu íslenska ríkisins fluttu Þorsteinn Geirsson og Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður málið.

--------------------------------------------

Þjóðviljinn - 29. mars 1990

Mál Þorgeirs fyrir Mannréttindanefnd
Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 19.00 þann 14. mars s.l. birtist svohljóðandi frétt:

Mál Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar var flutt fyrir mannréttindanefnd Evrópu í Strassborg í morgun. Mannréttindanefndin telur ástæðu til að fjalla nánar um tvö af þeim fjórum atriðum sem Þorgeir vill að fari fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Annað þeirra varðar tjáningarfrelsi í samræmi við tíundu grein mannréttindasáttmála Evrópu, en hitt snýst um fjarveru saksóknara við sum réttarhöld í opinberum málum eða sakamálum. Það sem ekki var talin ástæða til að fjalla nánar um er, að dómarinn sem dæmdi málið í Sakadómi Reykjavíkur hafi verið starfsmaður ríkissaksóknara þegar málið var til meðferðar þar, og kvörtun Þorgeirs um að hafa ekki fengið að verja sig sjálfur fyrir Hæstarétti.

Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu og Gunnlaugur Classen ríkislögmaður voru viðstaddir málflutninginn í Strassborg, auk Þorgeirs Þorgeirssonar sjálfs og Tómasar Gunnarssonar lögmanns hans.

Mál þetta spratt út af harðri gagnrýni sem Þorgeir beindi að lögreglunni fyrir fáeinum árum, meðal annars í tilefni af handtöku Skafta Jónssonar blaðamanns, og var dæmdur í sektir fyrir á báðum dómstigum á grundvelli 108. greinar hegningarlaganna þar sem segir að ekki megi hafa í frammi skammaryrði eða aðrar móðganir í garð opinberra starfsmanna, þó sannar séu.

Það var ríkið sem saksótti Þorgeir, fyrir hönd lögreglunnar. Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri sagði í samtali við fréttastofuna fyrir stundu, að búast mætti við, að nokkrir mánuðir liðu áður en Ijóst yrði hvort málið færi fyrir sjálfan mannréttindadómstól Evrópu.

Rétt er með það farið í þessari frétt að munnlegur flutningur málsins fyrir Mannréttindanefnd Evrópu fór fram morguninn 14. Mars s.l.

Hitt er nokkuð brenglað. Það voru til að mynda ekki fjögur atriði heldur tíu atriði sem ég hafði talið athugaverð í gangi þessa sakamáls gegn mér. Og ég kærði þessi atriði undir þrjár greinar Mannréttindasáttmálans: Undir 6. grein sem tryggir sökuðum manni óhlutdræga dómsmeðferð, undir 8. grein sem tryggir öllum þegnum helgi einkalífs og undir 10. grein sem tryggir öllum frelsi orða sinna.

Af atriðunum tíu sem ég hafði beðið nefndina að skoða voru tvö meginatriði sem ég frá upphafi málsins hafði verið að mótmæla. í fyrsta lagi tel ég að 108. grein hegningarlaganna íslensku, þar sem sektum er látið varða að segja sannleikann um opinbera starfsmenn sé óhafandi í löggjöf lands sem hefur undirritað Mannréttindasáttmála Evrópu. Í öðru lagi tel ég að réttarfari í Sakadómi Reykjavíkur sé áfátt því dómarar fara þar með saksóknarvald til viðbótar við dómsvald og rannsóknarvald.

Hin átta atriðin tengjast öll þessum tveim meginatriðum. Í niðurstöðu Mannréttindanefndarinnar sem aðilum málsins var kynt símleiðis þá samdægurs um nónbil eru þessi tvö meginatriði talin gild ástæða fyrir nefndina til að taka málið upp og flytja það fyrir Mannréttindadómstólnum.

Það er því nú þegar ljóst að málið verður flutt fyrir dómstólnum vegna þess að nefndin telur að fyrir liggi sannanir um brot á 6. og 10. greinum sáttmálans. Þetta er vitaskuld aðalatriði málsins og lítill vegur að skrökva sig frá því. Drátturinn sem orðið hefur á þessari leiðréttingu minni stafar af því að nú fyrst er ég með þessa niðurstöðu Mannréttindanefndarinnar skriflega í höndunum.

Þótti ráðlegra að treysta ekki minni mínu um símtalið, enda blasti við mér hvernig ráðuneytisstjóranum hafði mistekist að muna þetta rétt og hafði hann þó til hjálp ríkislögmanns og prófessors við Háskóla Íslands sem með honum voru þarna í Strassborg. Þó hins síðarnefnda sé að vísu ekki getið í útvarpsfréttinni.

Þorgeir Þorgeirson
----------------------------------------------------

Morgunblaðið - 30. mars 1990

Athugasemd

MORGUNBLAÐINU hefur borizt eftirfarandi athugasemd frá Þorgeiri Þorgeirssyni rithöfundi: „í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 19.00 þann 14. mars síðastliðinn birtist svohljóðandi frétt:

Fréttamaður: Þorgrímur Gestsson. Fréttatími: 19.
Heimild: Þorsteinn Geirsson.
Titill: Mál Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar var flutt fyrir Mannréttindanefnd Evrópu í Strassborg í morgun.

Þorgrímur Gestsson:
Mannréttindanefndin telur ástæðu til að fjalla nánar um tvö' af þeim fjórum atriðum sem Þorgeir vill að fari fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Annað þeirra varðar tjáningarfrelsi í samræmi við tíundu grein mannréttindasáttmála Evrópu, en hitt snýst um fjarveru saksóknara við sum réttarhöld í opinberum málum eða sakamálum.

Það sem ekki var talin ástæða til að fjalla nánar um er, að dómarinn sem dæmdi málið í Sakadómi Reykjavíkur hafi verið starfsmaður ríkissaksóknara þegar málið var til meðferðar þar, og kvörtun Þorgeirs um að hafa ekki fengið að verja sig sjálfur fyrir Hæstarétti.

Þorsteinn Geirson ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu og Gunnlaugur Classen ríkislögmaður voru viðstaddir málflutninginn í Strassborg, auk Þorgeirs Þorgeirssonar sjálfs og Tómasar Gunnarssonar lögmanns hans.

Mál þetta spratt út af harðri gagnrýni sem Þorgeir beindi að lögreglunni fyrir fáeinum árum, meðal annars í tilefni af handtöku Skafta Jónssonar blaðamanns, og var dæmdur í sektir fyrir á báðum dómstigum á grundvelli 108. greinar hegningarlaganna þar sem segir að ekki megi hafa í frammi skammaryrði eða aðrar móðganir í garð opinberra starfsmanna, þó sannar séu.

Það var ríkið sem saksótti Þorgeir, fyrir hönd lögreglunnar. Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri sagði í samtali við fréttastofuna fyrir stundu, að búast mætti við, að nokkrir mánuðir liðu áður en ljóst yrði hvort málið færi fyrir sjálfan mannréttindadómstól Evrópu.

Rétt er með það farið í þessari frétt að munnlegur flutningur málsins fyrir Mannréttindanefnd Evrópu fór fram morguninn 14. mars.

Hitt er nokkuð brenglað. Það voru tilaðmynda ekki fjögur atriði heldur tíu atriði sem ég hafði talið athugaverð í gangi þessa sakamáls gegn mér. Og ég kærði þessi atriði undir þrjár greinar Mannréttindasáttmálans: undir 6. grein sem tryggir sökuðum manni óhlutdræga dómsmeðferð, undir 8. grein sem tryggir öllum þegnum helgi einkalífsins og undir 10. grein sem tryggir öllum frelsi orða sinna.

Af atriðunum tíu sem ég hafði beðið nefndina að skoða voru tvö meginatriði sem ég frá upphafi málsins hafði verið að mótmæla. í fyrsta lagi tel ég að 108. grein hegningarlaganna íslensku, þar sem sektum er látið varða að segja sannleikann um opinbera starfsmenn sé óhafandi í löggjöf lands sem hefur undirritað Mannréttindasáttmála Evrópu. í öðru lagi tel ég að réttarfari í Sakadómi Reykjavíkur sé áfátt því dómarar fara þar með saksóknarvald til viðbótar við dómsvald og rannsóknarvald.

Hin átta atriðin tengjast öll þessum tveim meginatriðum. í niðurstöðu Mannréttindanefndarinnar sem aðilum málsins var kynt símleiðis þá samdægurs um nónbil eru þessi tvö meginatriði talin gild ástæða fyrir nefndina til að taka málið upp og flytja það fyrir Mannréttindadómstólnum. Það er því nú þegar ljóst að málið verður flutt fyrir dómstólnum vegna þess að nefndin telur að fyrir liggi sannanir um brot á 6. og 10. greinum sáttmálans. Þetta er vitaskuld aðalatriði málsins og lítill vegur að skrökva sig frá því.

Drátturinn sem orðið hefur á þessari leiðréttingu minni stafar af því að nú fyrst er ég með þessa niðurstöðu Mannréttindanefndarinnar skriflega í höndunum. Þótti ráðlegra að treysta ekki minni mínu um símtalið, enda blasti við mér hvernig ráðuneytisstjóranum hafði mistekist að muna þetta rétt og hafði hann þó til hjálp ríkislögmanns og prófessors við Háskóla Íslands sem með honum voru þarna í Strasborg. Þó hins síðarnefnda sé að vísu ekki getið í útvarpsfréttinni.
Með fyrirfram þökk fyrir birtinguna."
---------------------------------------------------------- 

Mbl.is 19. janúar 1991

Lítil athugasemd - í framhaldi af Helgispjalli 13.01.1991

Heilagi M. Í 108 grein Helgispjalls sunnudaginn 13.01. sl. fjallar þú um „utanstefnur" og þar segir m.a. svo: „... og þá þykir það ekki síst í samræmi við sjálfstæði okkar og fullveldisvitund að skjóta málum til erlendra dómstóla. Gvendi biskupi góða og Jóni Arasyni var legið á hálsi fyrir þetta sama ..."

Mer fellur þungt að heyra svona hugsun krauma innan höfuðskelja þinna, þó þú að vísu hafir þá afsökun að löglærðir grautarhausar hafa uppá síðkastið látið samskonar dellu frá sér fara á prenti. Því enga aðra afsökun hefur þú fyrir þessari rangfærslu þinni á staðreyndum. Þér á að vera það jafnkunnugt og öðrum sæmilega upplýstum mönnum, að íslenskum dómsmálum verður ekki áfrýjað til erlendra dómstóla, því Hæstiréttur Íslands er samkvæmt stjórnarskrá æðsti dómstóll og dómum hans verður því ekki skotið til annara dómstóla, hvorki innlendra né erlendra.

Eða veistu um dæmi slíks? Hitt er svo annað mál að til eru alþjóðlegir dómstólar. En þeir hafa ekki lögsögu yfir dómsmálum nokkurrar þjóðar. Lögsaga þeirra nær einvörðungu til eftirlits með alþjóðlegum samningum sem ríkisstjórnir hafa með sér gert og þjóðþingin staðfest. Þannig er tilaðmynda um Mannréttindadómstólinn í Strasborg. Hans lögsaga er eftirlit með því að aðildarþjóðir

Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins virði þau mannréttindi sem þær hafa skuldbundið sig til að virða. Strasborgardómurinn fæst ekki við að breyta dómum Hæstaréttar, sem standa óhaggaðir hver sem niðurstaða Mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls verður. Enda fjalla sérfræðingarnir í Strasborg einvörðungu um það hvort form réttarhalda hafi staðist kröfu Mannréttindasáttmálans eða ekki. Mannréttindadómstóllinn dæmir ríkisstjórnir sem ekki hafa staðið við eigin skuldbindingar til skaðabóta og getur líka vikið einstökum ríkjum úr Evrópuráðinu, sé um endurtekin brot þeirra á almennum mannréttindum að ræða.

Man ég það ekki rétt að þannig slyppi gríska herforingjastjórnin við frekara rex út af mannréttindum þegna sinna skömmu áður en hún féll?

Það er dapurlegt til þess að vita ef þú heldur að fullveldi okkar sé í einhverri hættu þó ríkið sé krafið um fullar efndir á skuldbindingum sínum. Því reynist íslenska ríkið ófært um það að standa við orð sín á þessu sviði þá verður það sjálfsagt leyst undan þeim skyldum með brottrekstri.

Og verður þaðanífrá fullvalda samsafn réttlausra einstaklinga. Sannleikurinn er sá að Mannréttindasáttmálinn var einmitt gerður af fullvalda, sjálfstæðum Evrópuþjóðum í timburmönnunum eftir fasistafylleríið mikla 1933-1945. Til að forða leiðtogum þjóða frá illum freistingum á þessu sviði.

Engu fullveldi er fórnað í því sambandi. Ekki frekar en sjálfstæði einstaklings sem gengur tilaðmynda í bindindisstúku. Reynist slíkur stúkufélagi -óforbetranlegur fylliraftur er hann bara rekinn — og hefur þá ótakmarkað frelsi til að drekka sig í hel. Og vitaskuld líka til að rausa um fullveldi sitt á meðan.

Og þú verður að fyrirgefa mér, kæri M, en þetta tal ykkar um „nútíma utanstefnur" og „skertan sjálfsákvörðunarrétt" minnir mig einna helst á tuldrið í svoleiðis fyllirafti. Með kærum kveðjum,
Þorgeir Þorgeirsson.
--------------------------------------------------- 

Mbl.is 30. apríl 1991

Orðstír og fjölmæli

Fáein orð í tilefni af ummælum Olafs Ragnars Grímssonar fjármálaráðherra og viðbrögðum læknafélaganna eftir Þorgeir Þorgeirson.

„Niðurstaða væntanlegra málferla verður því áfall fyrir báða aðila, sem hvorugur má þó við öllu meiru. En hvernig má þá vekja trúnaðartraustið til lífsins aftur?"

Fullt málfrelsi er talið með grundvallarréttindum einstaklingsins í heilbrigðu lýðræðissamfélagi. Því mætti líkja við andardrátt þjóðfélagsins því sannleikurinn er vissulega súrefnið í blóði þess. Heftu máifrelsi má því vel líkja við lungnakrabba. Enda hætt við meinvörpum um allan þjóðfélagskroppinn frá þvílíkri sýkingu.

Og enginn hluti þjóðlífsins undanskilinn þeim háska. En þetta samhengi verður ekki ljóst nema að því sé hugað. Skoðum fyrst heilbrigt ástand. Málfrelsi er skilgreint svo: það er rétturinn til að segja sannleikann af góðum hvötum og í réttmætum tilgangi. Víðast hvar i vestanverðri Evrópu er þetta góða prinsipp í heiðri haft og þar á ekki að vera hægt að dæma neinn fyrir að segja sannleikann í réttmætum tilgangi. Þar er fyrrgreint málfrelsi haft bæði í stjórnarskrá og í lögum. Og súrefni sannleikans fær óhindrað að flæða um æðar þjóðfélagsins.

Heft málfrelsi

Málfrelsisákvæði er hérlendis að finna í 72. grein stjórnarskrárinnar og sumstaðar í lögum. Einnig má þó, illu heilli, finna hið gagnstæða, þ.e.a.s. heftingu málfrelsis, í íslenskum lögum. Og þá á ég við heftingu, ekki takmörkun. Enda takmörkun ærin í sjálfri skilgreiningu hugtaksins sem feitletruð er hér að ofan. í 108. grein almennra hegningarlaga stendur til að mynda þetta: „Hver sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann . . . skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. Aðdróttun, þótt sönnuð sé, varðar sektum, ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt." (Leturbr. höf.)

Gleggsta dæmið um spillingaráhrif þessa ákvæðis laganna er vitaskuld það að dómarar, sem eru sjálfir opinberir starfsmenn, hafa undantekningarlítið túlkað lagaákvæðið í 108. greininni sem æðra boð en gagnstætt ákvæði stjórnarskrárinnar um sama efni.
Þannig birtist meinvarpið í dómskerfinu.

Undanfarin ár hefi ég verið að benda áhrifamönnum hérlendis á þetta misræmi: hin forneskjulega vernd 108. greinar hegningarlaganna á opinberum starfsmönnum stangast á við sjálfa grundvallarskilgreiningu hugtaksins málfrelsi, (hvorutveggja feitletrað hér að ofan), og þarf ekki æðri gráður í rökfræði til að sjá það.

Á meðan 108. grein almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er óbreytt í gildi virðist tómt mál að . tala um tjáningar- eða ritfrelsi á Íslandi.

Þetta er að vísu bara grundvallaratriði. Sagt er að spillt stjórnarfar megi þekkja á því að valdsmenn eru tregir til að ræða grundvallaratriði, enda hefur ráðafólk hér orðið þögult eins og kalkaðar grafir þegar til þess er leitað um slík mál. Engu líkara en því finnist grund grundvallaráhrifin bara einkamál þeirra sem lent hafa í því að missa þau.

Manni líður eins og klámhundi í kirkju hvenær sem maður ber slík erindi upp. Enda hver réttleysingi bara með eitt atkvæði en opinberir starfsmenn hafa 30 þúsund atkvæði og því ekki til þess ætlast að „lýðræðislega sinnaður" stjórnmálamaður haggi mikið miðað við sérréttindum als þess hóps. Þannig birtist meinvarpið á Alþingi.

Yfirvofandi sakamál

Læknar þykjast nú hafa ærna ástæðu að hóta fjármálaráðherra málsókn. Og trúlega standa þeir við þá hótun. Þeir eru opinberir starfsmenn og njóta því verndar 108. greinar almennra hegningarlaga. Hvort sem litið verður á ummæli Ólafs sem embættisverk, og hann þá dreginn fyrir Landsdóm, eða þau verða skilgreind sem persónuleg ummæli hans, og hann þá dreginn fyrir Sakadóm, hlýtur hann fyrr eða síðar að mæta 108. greininni.

Og þar lýkur málfrelsi hans, trúið mér. Gildir þá einu hvernig hann réttlætir þann sannleik sem hann vafalaust telur sig hafa sagt af góðum hvötum. Þessi orð voru sögð um opinbera starfsmenn og það er glæpur, hvað sem Biblían og Stjórnarskráin segja. Og hvaða skjöl sem Ólafur fær Landsdómi eða Sakadómi til sönnunar á máli sínu. Hér er bannað að segja nokkuð ótilhlýðilegt, satt eða logið, um þessi rúmlega 12% þjóðarinnar sem opinberir starfsmenn eru.

Andspænis þeim sérréttindum mun Ólafur Ragnar einnig standa sem réttlaus sakamaður. Gagnvart lagaákvæði sem bannar frjálsa tjáningu verða öll neikvæð ummæli ómerk og mælandinn er fyrirfram sekur. Það er þó ekki það versta heldur hitt: að almenningur, sem mest á undir málinu, hann lætur sér fátt um finnast merkingu eða ómerkingu þvílíkra dóma, veit það innra með sér að þetta lagaákvæði er haft til verndar spillingu.

Kæra læknanna er bara dánarvottorð trúnaðartraustsins. Þannig birtist meinvarp 108. greinarinnar í almenningsálitinu. Niðurstaða væntanlegra málferla verður því áfall fyrir báða aðila, sem hvorugur má þó við öllu meiru. En hvernig má þá vekja trúnaðartraustið til lífsins aftur? Kraftaverkið gæti að vísu verið fólgið í því að afnema 108. greinina eða gjörbreyta henni áður en málaferlin hefjast. Með bráðabirgðalögum, ef ekki vill betur til. Þannig mætti lögleiða glasnost hérlendis með einu pennastriki. Þjóðinni, læknum og ráðherra í hag. Eða skyldi málfrelsið kannski vera sá lúxus að það rúmist ekki innan Þjóðarsáttarinnar bráðnauðsynlegu?

Höfundur er rithöfundur  
--------------------------------------------------------------

Morgunblaðið 24 janúar 1992

MALFLUTNINGUR var hjá mannréttindadómstóli Evrópu í máli Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar gegn íslenska ríkinu s.l. miðvikudag. Málið snýst um hvort dómur yfir Þorgeiri fyrir ummæli hans í blaðagreinum um lögreglu stangist á við 10. grein mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi.

Forsaga málsins er sú að Þorgeir Þorgeirsson var dæmdur í 10.000 kr. sekt vegna ummæla sem hann viðhafði í tveimur blaðagreinum í Morgunblaðinu í desember 1983. í greinunum var fjallað um svokallað „Skaftamál" og í því sambandi meðal annars margvíslegt ofbeldi og meiðingar sem höfundur taldi að lögreglumenn beittu fólk í löggæslustörfum.

Var hann dæmdur í sakadómi Reykjavíkur 16. júní 1986 á grundvelli 108. gr. almennra hegningarlaga sem hljóðar svo: „Hver, sem hefur f frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum.

Aðdróttun, þótt sönnuð sé, varðar sektum, ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt." I dómi sakadóms segir m.a. að í greinunum séu skammaryrði, móðganir og aðdróttanir í garð ónafngreindra og ótiltekinna starfsmanna í lögregluliði Reykjavíkur. Ákærði hafi ekki réttlætt þessi ummæli. Hæstiréttur staðfesti dóminn 20. október 1987. í kjölfarið lagði Þorgeir fram kæru hjá mannréttindanefnd Evrópu.

Nefndin ákvað að taka fyrir tvo liði kærunnar er varða brot á 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til sanngjarnra réttarhalda og 10. grein sama sáttmála um tjáningarfrelsi. Eftir árangurslausa sáttaumleitan úrskurðaði mannréttindanefndin með þrettán atkvæðum gegn einu að um brot á 10. gr. mannréttindasáttmálans væri að ræða. Það álitaefni kemur því til kasta mannréttindadómstólsins.

Hins vegar komst mannréttindanefndin einróma að þeirri niðurstöðu að í máli Þorgeirs hefði ekki verið brotið gegn 6. grein. Málflutningur var á miðvikudag og er dóms að vænta eftir u.þ.b. hálft ár að sögn starfsmanna dómsins. •

Þorgeir Þorgeirsson flutti mál á sitt sjálfur fyrir dóminum en hann a nýtur aðstoðar Tómasar Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns. Málið fluttu fyrir hönd íslenska ríkisins Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður og Markús Sigurbjörnsson prófessor. Meðal dómara sem dæma í málinu er Garðar Gíslason nýskipaður hæstaréttardómari.
-------------------------------------------------------

Dagblaðið Vísir - DV - 08. ágúst 2014

Sektaður fyrir skrif um lögregluofbeldi „Stofufélagar þessa unga manns sögðu mér að bæklun hans væri af völdum útkastara og lögreglu. Þessu vildi ég þá ekki trúa svona fyrirvaralaust og spurði bæði lækna og sjúkralið að þessu. Jú, rétt var það: þarna var komið eitt af fórnardýrum löggæslunnar í næturlífi Reykjavíkur.“

Árið 1986 var Þorgeir Þorgeirsson dæmdur fyrir greinar sem hann skrifaði um lögregluofbeldi í Morgunblaðið þremur árum áður. Var hann dæmdur fyrir skammaryrði, eða móðganir, við opinberan starfsmann. En í lögunum kom fram að jafnvel þótt aðdróttunin væri sönnuð gæti hún varðað sektum ef hún væri borin fram á ótilhlýðilegan hátt. Var Þorgeiri gert að greiða 10 þúsund krónur í sekt auk sakarkostnaðar. Þorgeir kærði dóminn til Mannréttindadómstóls

Evrópu. Dómstóllinn komst einróma að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Þorgeiri á 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. 
----------------------------------------------------------------------

Dagblaðið Vísir - DV - 90. tölublað (14.08.2013)

Þorgeir Þorgeirsson Var dæmdur fyrir ærumeiðandi ummæli, en vann málið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

Þorgeir Þorgeirsson gegn Íslandi

Skoðana- og tjáningarfrelsið og rétturinn til frjálsrar sannfæringar er verndaður af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stjórnskipuleg vernd tjáningarfrelsisins var víkkuð út með stjórnarskrárbreytingunum árið 1995, og var það meðal annars látið ná til allra tjáningarhátta. Þá treysti lögfesting Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1994 þennan rétt enn frekar.

Á seinni hluta níunda áratugarins og í upphafi þess tíunda gengu nokkrir stefnumarkandi dómar um áhrif tjáningarfrelsisákvæðis Mannréttindasáttmála Evrópu í meiðyrðamálum sem tengdust gagnrýni á stjórnvöld, stofnanir samfélagsins og alla þá aðila sem hafa ríkisvald með hendi. Meðal helstu fordæma Mannréttindadómstóls Evrópu á þessu sviði er dómur í máli Þorgeirs Þorgeirssonar gegn Íslandi.

Þorgeir var sakfelldur af Hæstarétti Íslands fyrir brot á þágildandi hegningarlagaákvæði um æruvernd opinberra starfsmanna. Þorgeir hafði skrifað blaðagrein þar fram kom beitt ádeila á starfshætti lögreglunnar í Reykjavík, en þar komu fram ásakanir um lögregluofbeldi og skoraði Þorgeir á dómsmálaráðherra að taka á vandamálinu.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að í ummælum Þorgeirs fælust ærumeiðandi aðdróttanir sem beindust að starfsmönnum í lögregluliði Reykjavík og brytu þær gegn nefndu hegningarlagaákvæði. Þorgeir kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem dæmdi Þorgeiri í vil. Dómstóllinn tók undir sjónarmið Þorgeirs um að tilgangur með blaðaskrifum hans hefði verið að hvetja dómsmálaráðherra til að rannsaka kvartanir um ofbeldi af hálfu lögreglu.

Í dóminum kom fram að þótt Þorgeir hefði kveðið mjög fast að orði, og beint beittum spjótum að lögreglunni og lögreglumönnum þá hafi sú takmörkun á tjáningarfrelsi sem lögð var á Þorgeir með dómi Hæstaréttar ekki verið nauðsynleg í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Mannréttindadómstóllinn dæmdi Þorgeiri 530 þúsund krónur úr ríkissjóði vegna kostnaðar hans við rekstur málsins.
--------------------------------------- 

Þorgeir Þorgeirsson var enginn venjulegur maður, fullorðinn var hann  áræðinn og sagði óhikað það sem hann meinti, talaði ekki né skrifaði „undir rós“ heldur tungumál sem allir skildu.

Hann hefur örugglega notið gott uppeldi hjá Friðrik Hjartar skólastjóra, þar sem hann bjó fram yfir fermingu (amk) Þorgeir gekk í Barnaskóla Siglufjarðar og bjó hjá skólastjóranum Friðrik Hjartar og konu hans, við Hanneyrarbraut 29

Ég, einn af leikbræðrum hans og skólabróðir, var snemma mikill grúskari, sem pabbi var ánægður með, nema þegar ég tók í sundur sveinstykkið hans sem var útvarpstæki, þá 8 eða 9 ára, þá var hann ekki ánægður í fyrstu, en fylgdist svo með mér er ég setti það saman aftur.

Ég fékk þetta blað sem er hér fyrir neðan, sent frá Þorgrími fyrir mörgum árum. Úrdráttur frá  endurminningum Þorgeirs Þorgeirssonar, en Þorgeir gekk í Barnaskóla Siglufjarðar og bjó hjá skólastjóranum Friðrik Hjartar og konu hans, við Hanneyrarbraut 29

Húsið sem hann segir "Norðan við okkur" er greinilega mismynni hjá Þorgeir, þar sem húsið var nánast beint neðan við heimili hans, húsið sem áður var við Mjóstræti 1 neðan við Hvanneyrarbrautina ( tveggja hæða steinhús, nú horfið fyrir löngu)

Steingrímur Kristinsson.

Bréf til sk frá Þorgeir

Bréf til sk frá Þorgeir