Tengt Siglufirði
Siglfirðingur 20 ágúst 1941
Ekki verður þess enn vart, að blaðamönnum Íslands né uppeldisfrömuðum Íslendinga hvarfli neitt slíkt í hug, því hvergi örlar á gagnrýni í þessa átt, nema hvað valdalitlar "barnaverndarnefndir" eru af veikum mætti að og engri eða lítilli aðstoð lögreglunnar, að sporna við því að börnum innan fermingar sé leyfður aðgangur að versta mynda óhroðanum.
Á þetta mál hefir lítillega verið drepið hér í blaðinu áður.
Blaðið "Eining", sem út er gefin af Samvinnunefnd Stórstúku Íslands, Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélaga Íslands og Sambands bindindisfélaga í skólum, birtir afar athyglisverða grein um áhrif kvikmyndanna á æskulýð Bandaríkjanna.
Er, grein þessi þýdd úr einu úrvalsriti Bandaríkjanna, af Pétri Sigurðssyni ritstjóra blaðsins, sem ritar jafnframt um þetta mál frá uppeldislegu sjónarmiði.
Með því, að "Eining," sem þá er ágætis rit, er í örfárra manna höndum hér í Siglufirði, leyfir Siglfirðingur sér að kynna grein þessa fyrir lesendum sínum og birta úr henni sýnishorn af þýddu köflunum.
Uppistaða hinnar amerísku greinar er álit rannsóknarnefndar í Bandaríkjunum, er hefir það með höndum að safna fróðleik og ábyggilegum skýrslum um amerískar kvikmyndir og áhrif þeirra á æskuna.
Nefnd þessi, sem heitir "The Motion Picture Research Council" er skipuð viðurkenndum vísindamönnum og uppeldisfræðingum frá ýmsum helstu háskólum U.S.A. og hefir nú rannsókn þessi staðið í full 4 ár. Hér fara á eftir kaflar úr grein þessari:
"77 milljónir manna sækja kvikmyndahúsin vikulega. Af þessu er stór hópur, sem viðkvæmur er bæði fyrir illum og góðum áhrifum, því að 37 af hverju hundraði eru börn og unglingar. 11 milljónir barna innan 11 ára sækja þessar kvikmyndir vikulega.
Hvað er svo að sjá á þessum sýningum? Af 1500 filmum, sem nefndi rannsakaði, voru 75-80% myndir sem sýndu glæpalíf, kynferðisóra og ástarbrask. Sundurliðun á öðrum 115 filmum var á þessa leið:
66% sýndu drykkjuslark, 43% ölvun og óreglu og 78% sýndu einhverskonar drykkjuslark og þessum myndum komu fyrir 71 morð, 59 ofbeldisverk, 71 rán og 21 mannþjófnaður (kiddnappings). Alls voru 449 glæpir í þessum 115 filmum.
Nú kemur orðréttur kafli úr sjálfri greininni: "Oftast er flagarinn og glæpamaðurinn látinn vera einhver hetja og dugnaðarmaður, sem áhangendur hans tigna og tilbiðja. Oft hafa sýningargestir samúð með hinum duglegu glæpamönnum og dást að þeim.
Í sumum myndunum er ósiðseminni smeygt inn á lævíslegan hátt og af ásettu ráði. Lítið er gert úr og jafnvel dregið dár að skírlífi og helgi hjónabandsins. Í þessum filmum, sem löðrandi eru í losta, áfengisflaumi og kynferðisórum, er hóran, kvennaflagarinn og ræninginn uppáhald fjöldans".
Kvikmyndir eru framleiddar í gróðaskyni og framleiðendurnir leyfa sér að ganga langt í framboði alls þess, sem æsir og örfar aðsókn sýninganna. Gagnrýnendur hafa jafnvel leyft sér að staðhæfa, að kvikmyndaframleiðendur hefðu að gróðavegi sýningu á ósiðsemi kvenna."
Þá eru foreldrar hvattir til að gera sér ljóst, að samkvæmt skýrslu hinnar áðurnefndu rannsóknarnefndar, megi alltaf búast við, að börnin og unglingarnir hafi fyrir augum myndasýningar, sem kryddaðar séu glæpum og kynferðislosta.
Þar sem alltaf sé að minnsta kosti um eitt eða tvö morð að ræða. Baktjald allra sýningarinnar lúxuslíf, þátttakendur gjálífur og léttúðugur lýður, hóflaus og djarfur í klæðaburði, veill í skapgerð og siðgæði, lauslátur, vandræðalíf. Í nautnasjúkur og taumlaus, hneigður til glæpalífs og óstjórnar í kynferðismálum, en með litla hugsun og hirðusemi um það, hvernig best megi bjargast áfram í heimi vorum.
Það er staðreynd, segir þar ennfremur, að börn verða óánægð með heimili sín, agalaus og foreldrum óhlýðin, jafnvel uppreisnarsöm.
Ungar stúlkur og piltar einnig, hafa margsinnis borið fyrir dómstólum, að viðbrigðin hafi orðið svo mikil á hversdagsleika heimilanna eftir glæsileik sýninganna, að þeim hafi tekið að leiðast heimilin og hafi því lagt kapp á að komast út í hið æsandi, margbreytilega og fjöruga ævintýralíf eða glæpaferli.
Tveir prófessorar hafa lagt fram skýrslu, er staðfestir, að 55% af vandræðadrengjum, sem yfirheyrðir voru höfðu orðið fyrir hinum spillandi áhrifum við það, að horfa á ræningjalýð á sýningunum. Þá langaði til, eins og þeir sögðu: "Að ná sér í aura með léttu móti."
Helmingurinn af 110 unglingum á einni stofnun fyrir dómfellda unglinga, kenndi kvikmyndunum um það uppátæki þeirra að bera á sér skotvopn.
28% gáfu upp sömu orsök til ofbeldisverka þeirra og rána, og 21% sögðust hafa lært í kvikmyndahúsum, hvernig hægt væri að gabba lögregluna... . "Ég tók eftir því," segir einn sakborningurinn, "að hetjur kvikmyndanna voru menn, sem þurftu aldrei að vinna en höfðu samt næga peninga og ótakmarkaða kvenhylli. Allar stúlkur sóttust eftir þeim . . . . . . Það hlaut að vera dásamlegt að lifa slíku lífi, hugsaði ég. Að hafa nóga peninga, leika
sér í lúxusbílum, klæðast ríkmannlegum fötum og geta hrifsað til sín kvenmann hvenær sem helst eftir geðþótta. "Ég er enn á þeirri skoðun að þetta sé dásamlegt líf."
"Þessi glæpakvörn", segir greinarhöfundur, hefir átt sinn drjúga þátt í að skapa hina almennu tilbeiðslu gullkálfsins og græðgi í lúxuslíf, auðlegð og makindalegt líf."
Þetta er aðalatriði greinarinnar í "Einingu" og eru það sannarlega orð í tíma töluð. Það væri vissulega komið mál til þess að stjórnvöldin hér og fræðslumálastjórn færu að skerast í leikinn og athuga hvernig umhorfs er hér á landi í þessum málum.
Hér sést aldrei nokkurskonar gagnrýni á efni kvikmynda. Ef blöðin minnast á myndir, er sýndar eru almenningi, er það eintómur lofsöngur um ágætan leik og hrós um efni "stórfenglegar myndar".
Það er eitthvað bogið við þetta. Því engin hætta er á því að hingað veljist neitt úrval úr kvikmyndagerðinni. Heldur mun hitt sönnur nær, að þar sé upp og ofan rusl úr “glæpakvörninni” amerísku, sem malar gull í sjóði kvikmyndajarlanna en siðferðilegra örbrigð handa æskulýðnum.
Hér í blaðinu hefur áður verið stungið upp á því að kennslumálaráðuneytið og fræðslumálastjóri skipuðu nefnd til að annast útvegun kvikmynda og útbýta þeim til kvikmyndahúsanna.
Með því móti ætti að fást trygging fyrir því, að auðhringar amerískra gróðamanna væru ekki einráðir um “bíóuppeldi æskulýðsins”. Hitt gæti líka vel verið að þeir sem alist hafa upp við myndir úr amerísku “glæpakvörninni” hættu að sækja bíóin ef í boði væru þar aðeins úrvalsmyndir, er gerðu hvorutveggja í senn að mennta fólkið og göfga það.
Það yrði ef til vill ofurlítið auratjón fyrir eigendur bíóhúsanna, en tvímælalaust gróði fyrir þjóðina.
Óundirskrifuð grein. (Skal engan undra) - Sennilega þó viðkomandi ritstjóri Siglfirðings