Tengt Siglufirði
Fram, 17. janúar 1920,
Það er einkennileg ráðstöfun hjá stjórn þessa bæjarfélags eða hreppsfélags, þegar þessir samningar, er hér um ræðir, gengu í gildi að fastleigja eina samkomuhúsið sem til er í bænum, svo hartnær ómögulegt er að fá hús þetta til neins, nema fyrst að knékrjúpa manni þeim, er hefir það á leigu. Ekki verður það þó sagt með sanni, að þetta sé nein nauðsynjastofnun er leigt hefir húsið, né fyrirtæki það sé á nokkurn hátt bænum til hagsmuna og - því síður sóma.
Eg hygg það sé eigi fjarri sanni, að óþarfari stofnun hinni yngri og yngstu kynslóð hafi hér aldrei upp risið. það fara margir aurar í bíóferðir barna og unglinga frá allra fátækustu heimilunum, sem engan eyri mega missa frá daglegu viðurværi. Og margar þúsundir króna hafa Siglfirðingar sótt ofan í budduna til þess að kasta þeim í hítina á Bíó, Börnin eru eigi gömul þegar þau fara að biðja um að lofa sér á Bíó, og þau ganga fast eftir því litlu angarnir, að þau fái aurana, því sú freisting liggur þeim þungt á hjarta.
En hvað hafa Bíóin svo að bjóða börnunum? Ja, - það getur bæði verið gott og illt siðferðis bætandi og siðferðisspillandi. Venjulegastar myndir, sem hér eru sýndar, eru af því tagi, sem kvikmyndafélögin taka til að sýna skríl í stórborgunum. Slíkar myndir hafa ekkert til síns ágætis annað en það að æsa skemmtana og nautnalöngunina. Það eru tilfengnir sérstakir menn. sem búa til :beinagrind . myndarinnar, eða uppistöðu -- prógrammið. Svo er myndin sniðin eftir þessu. Má nærri geta hve nauðalítið er í. slíkt varið til andlegrar nautnar. Slíkir menn sem þessir, er hugmyndina eiga til fjölda skrílmynda á Bíóunum, eru auðvitað fyrst og, fremst slungnir á þá vísu, að vita hvað fólkið er gljárífast í.
En guð hjálpi þeim sem halda að þarna séu skáld á ferðinni - eða að þarna sé verið að sýna fræg listaverk, þótt slíkt standi kannski stóru höfðaletri skrifað á götuauglýsingum. Nei, þeir menn hafa aldrei fundið ylinn af hinum himneska eldi, aldrei stigið fæti sínum í lundinn helga. Og þótt margir haldi því fram að bíómyndir séu menntandi og það geta þær verið að vísu þá mun hitt sönnu nær, að enginn menntun sé falskari né lygnari en sú er þangað er sótt.
Tökum dæmi: okkur er sýnd mynd sem á að gjörast austur í heimi t. d. Kína eða Japan -- og sem á að sýna okkur háttu og siðu, menningu og búning t. d. Japan. - það er ekki langt síðan við sáum ámóta mynd hérna á Bíó. Við höfum aldrei komið til Japan, en við höfum haft þaðan sannar fréttir um ýmsa þjóðháttu og um fram allt -. við höfum séð þaðan sannar myndir. En þegar við förum að horfa á kvikmyndina, hnykkir okkur við.
Eru þetta Japanar? Að vísu er búningurinn eigi ólíkur. En eftir að maður hefir horft á myndina stundarkorn, sér í gegnum svikin Þetta eru þá ekkert annað -- eftir allt skrumið, en lélegir kvikmyndaloddarar "sminkaðir" svo að haugarnir jafnvel sjást á myndinni - og svo illa grímaðir að menn hljóta að taka eftir því, ef menn annars taka eftir nokkru.
Og það eru lítil líkindi til að þessir loddarar hafi nokkurn tíma til Japan komið, og eru kannski eftir allt saman ekkert kunnugri þar en við, nema síður væri. Og pálmarnir og jurtalífið --- allt saman falskt - gelgjulegar garðjurtir, vestrænar stælingar norðan úr Evrópu, þegar best lætur, -- eða þá beinlínis framleiddar með brögðum ljósmyndalistarinnar.
Eða "Fjallaeyvindur" Er það ekki dásamleg sýnishorn Íslensks þjóðbúnings og Íslenskrar náttúru, sem sænskir kvikmyndamenn sýna þar? Náttúran Íslenskaka orðin að kollóttum snjóþöktum hæðadrögum norður á Finnmörk. Íslenski búningurinn hrærigrautur sænsks og norsks selbúninga, sem enginn maður botnar í og Íslensku bæirnir afmyndaðir Finnskir, "gammar." Nei það er alveg áreiðanlegt að falskari fróðleiks getur enginn maður aflað sér, en með því að sækja óvaldar kvikmyndasýningar. Nú er "Fjalla-Eyvindur" sýndur um allan heim, og - auðvitað - halda allir, þeir sem eigi vita betur, að þarna sé sönn mynd af Íslensku fólki, Íslenskri náttúru og Íslenskum bæjum og búningi !
Það er beinlínis hatramlegt að stjórn bæjarfélagsins skuli láta það viðgangast að eina húsið sem bærinn á og hefir á að skipa til samkoma og fundarhalda skuli vera fastleigt, og það eigi einungis til stutts tíma, heldur til margra ára! Sök sér væri það, ef bærinn hefði sjálfur átt fyrirtækið. En því fer nú betur að svo er ekki; og ég vona að stjórn þessa bæjarfélags verði aldrei svo langt leidd, að hún ráðist í slíkt fyrirtæki.
Ekki mælir það heldur með, að á flest öllum sýningum hér er mesta ómynd. "Filmurnar" gamlar, þvældar og úr sér gengnar, af handahófsvali, útbúnaður allur óvistlegur, þó útyfir taki kumbaldinn gluggalausi, hurðarlausi og gólflausri, sem byggður var úti fyrir dyrum hússins, og gerir aðsækjendum illkleyft að komast inn, ef mikil er aðsókn. Fyrir utan þá óprýði sem þessi "hundsrass"veldur, og sem sennilega tekur út á væntanlega gangstétt.
Og - mér er spurn - til hvers samþykkti bæjarstjórnin þessa "byggingu" hvernig stóð á því? Hverjum á hún að vera til góðs? Á hún að vera minnismerki um smekk núverandi byggingarnefndar? Og svo tekur útyfir alt, ef bæjarsjóður á að borga mikinn hluta kumbaldans.
Nei, þetta Bíó hérna er engum til góðs. Hjá því er ekkert fyrsta flokks - nema verðið á aðgöngumiðunum - það gengur "lúxus" næst!
Það er líka efamál, hvort það borgaði sig ekki betur fyrir bæinn að hafa húsið laust - ef á annað borð hefir verið tilgangurinn að "spekúlera" með það. En þó að bærinn tapaði algjörlega þessari bíóleigu, þá væri samt ekki áhorfsmál að festa eigi húsið. Eins og nú er, er bærinn algjörlega útilokaður frá öllum betri skemmtunum, fundarhöldum og samkomum, nema með því móti að eiga undir góðsemi leigjandans; og það væri synd að segja annað en að hann hafi verið töluvert greiðugur hvað það snertir framar öllum vonum.
Hann er auðvitað ekkert skyldugur til að lána það hverjum sem er, og efamál hvort hann yfir höfuð hefir leyfi til þess, þegar fundir í þarfir bæjarfélags eða bæjarstjórnar eru undanskildir.
Hús þetta á fyrst og fremst að vera leikfimishús, eða átti að vera það. En þá vanta öll áhöld til þess að æfa þar leikfimi þó vitanlega mætti koma miklu af þeim upp í skyndi, t. d. rimlavegg, köðlum, hringjum, trapizum, stökk búkkum (hestum) o. fl., o, fl. sem ástæðulaust er að sækja út úr landinu. Þá ætti að vera þar leiksvið, haganlega útbúið til að leika á smásjónleiki.
Efast ég ekki um að drjúgir peningar fengjust í bæjarsjóð á hverjum vetri í leigu, ef svo væri umbúið. Hér er töluverður og lofsverður áhugi hjá mörgum um það, að stofnað yrði hér dálítið leikfélag til þess að hafa ofan af fyrir bæjarbúum í vetrarfásinninu. Og ég segi fyrir mig, að ég vildi heldur horfa á einn vel leikinn gamanleik en tíu kvikmyndasýningar.
Ég vona að ef til vill fleiri bæjarbúar láti til sín heyra um þetta mál, því það er alls ekki svo lítils virði sem margur kannski hyggur. Og ég ber það traust til hinnar háttvirtu bæjarstjórnar að hún láti sér víti gömlu hreppsnefndarinnar að varnaði verða, og leigi ekki þetta eina hús bæjarins aftur er leigutíminn er útrunninn til slíkra hluta, sem það nú er leigt til.
Sig.Bj.
Athugasemd ritstjóra. Þótt vér ekki séum sammála heiðruðum höfundi þessarar greinar, í nokkrum, atriðum, sjáum vér ekki ástæðu til að koma fram með nokkrar athugasemdir að þessu sinni. Ritstjóri Fram.